2010–2019
Konur og lærdómur fagnaðarerindisins á heimilinu
Október 2018


Konur og lærdómur fagnaðarerindisins á heimilinu

Frelsarinn er hið fullkomna fordæmi ykkar um það hvernig þið munið skipa mikilvægtu hlutverki í áætlun hans um að leggja meiri áherslu á trúarfræðslu á heimilunum.

Kæru systur, það er yndislegt að eiga þennan fund með ykkur. Þetta eru spennandi tímar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Drottinn úthellir þekkingu yfir kirkju sína eins og hann lofaði að hann myndi gera.

Munið það sem hann sagði: „Hversu lengi geta straumvötn haldist óhrein? Hvaða vald fær stöðvað himnana? Eins vel gæti maðurinn rétt fram veikan arm sinn til að stöðva markað rennsli Missourifljótsins eða snúa straumi þess í gagnstæða átt, eins og að koma í veg fyrir að almættið úthelli þekkingu frá himni yfir höfuð síðari daga heilagra.“1

Hluti af ástæðu þess að Drottinn er að deila þekkingu sinni núna, hefur að gera með hröðun þess að úthella eilífum sannleik yfir höfuð og inn í hjörtu fólks hans. Hann hefur gert okkur það ljóst að dætur himnesks föður munu eiga stórt hlutverk í þeirri undraverðu hröðun. Ein sönnun þess kraftaverks er leiðsögn hans til spámanns síns um að leggja aukna áherslu á trúarfræðslu á heimilinu og innan fjölskyldunnar.

Þið gætuð spurt ykkur: „Hvernig gerir það trúfastar systur að megin aflinu í því að aðstoða Drottinn við að úthella þekkingu hans yfir hina heilögu?“ Drottinn veitir okkur svarið í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Þið minnist orðanna, en þið greinið kannski nýja merkingu þeirra og berið kennsl á að Drottinn sá þær spennandi breytingar fyrir sem nú eru að koma fram. Í yfirlýsingunni veitti hann systrunum það verkefni að vera megin trúarfræðslukennarar heimilisins með þessum orðum: „Meginábyrgð mæðra er að annast börnin.“2 Það felur í sér að næra þau einnig af sannleika fagnaðarerindisins og þekkingu.

Yfirlýsingin heldur áfram: „Við þessa helgu ábyrgð ber feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar.“3 Þau eru félagar á jöfnum grundvelli, jöfn í möguleikanum á andlegum vexti og í að öðlast þekkingu og eru þar af leiðandi sameinuð í að aðstoða hvort annað. Þau eru jafningjar í guðlegu hlutskipti sínu við að ná upphafningu saman. Í raun geta karlar og konur ekki náð upphafningu ein og sér.

Hvers vegna hlýtur dóttir Guðs, sem er í sameinuðu sambandi á jafningjagrundvelli, meginábyrgðina af því að miðla mikilvægasta næringarefninu sem allir verða að öðlast, þekkingu á sannleikanum sem kemur frá himnum? Að því er ég fæ best séð, þá hefur þetta verið leið Drottins frá því að fjölskyldur voru skapaðar í þessum heim.

Það var Eva sem tók á móti þeirri þekkingu að Adam þyrfti að neyta af ávexti skilningstrés góðs og ills, svo að þau gætu haldið öll boðorð Guðs og myndað fjölskyldu. Ég veit ekki hvers vegna það byrjaði með Evu, en Adam og Eva voru fullkomlega samstíga þegar þekkingunni var úthellt yfir Adam.

Annað dæmi þess að Drottinn notar hinar nærandi gjafir kvenna er hvernig hann styrkti syni Helamans. Ég fæ kökk í hálsinn þegar ég les frásögnina og minnist hljóðlátra fullvissandi orða móður minnar er ég yfirgaf heimilið og hélt til herþjónustu.

Helaman skráði:

„Já, mæður þeirra höfðu kennt þeim, að ef þeir efuðust ekki, mundi Guð varðveita þá.

Og þeir endurtóku fyrir mér orð mæðra sinna og sögðu: Við efum ekki, að mæður okkar vissu það.“4

Þó að ég þekki ekki allar ástæður Drottins fyrir því að veita trúföstum systrum meginábyrgð umönnunar í fjölskyldunni, þá trúi ég því að það hafi að gera með getu ykkar til að elska. Það þarf mikla ást til að skynja þarfir annarra betur en ykkar eigin. Það er hin hreina elska Krists gagnvart þeirri persónu sem þið annist. Kærleikurinn kemur frá þeirri persónu sem valin er til að vera umönnunaraðilinn, sem hefur öðlast réttindin til að upplifa áhrif friðþægingarfórnar Jesú Krists. Þema Líknarfélagsins „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ á vel við um mína eigin móður.

Sem dætur Guðs, þá hafið þið eðlislæga hæfni til að skynja þarfir annarra og til að elska. Þar af leiðandi eruð þið móttækilegri fyrir hinni lágu rödd andans. Andinn getur því leitt ykkur í hugsun, tali og hvernig á að annast fólk þannig að Drottinn megi úthella þekkingu, sannleika og hugrekki yfir það.

Þið systur, sem heyrið rödd mína, eruð á einstökum stað í ferð ykkar í gegnum lífið. Sumar ykkar eru ungar telpur, í fyrsta sinn á kvennafundi á aðalráðstefnu. Aðrar eru eldri stúlkur í undirbúningi fyrir að verða þeir umönnunaraðilar sem Guð vill að þið verðið. Enn aðrar eru ný giftar en hafa ekki enn eignast börn, aðrar eru ungar mæður með eitt eða fleiri. Sumar eru mæður unglinga og enn aðrar með börn á trúboðsakrinum. Einhverjar eiga börn sem hafa misst trúarstyrkinn og eru langt að heiman. Sumar búa einar með engan trúfastan félaga. Aðrar eru ömmur.

Sama hverjar ykkar persónulegu aðstæður eru, þá eruð þið hluti - lykilhluti - af fjölskyldu Guðs og ykkar eigin fjölskyldu, hvort heldur í framtíðinni, í þessum heim eða í andaheiminum. Hlutverk ykkar, gefið frá Guði, er að annast eins marga af fjölskyldumeðlimum hans og ykkar og þið getið með kærleika ykkar og trú ykkar á Jesú Krist.

Verkleg áskorun ykkar er sú að vita hvern þið eigið að næra og hvernig og hvenær. Þið þarfnist aðstoðar Drottins. Hann þekkir hjörtu annarra og hann veit hvenær þeir eru tilbúnir að meðtaka næringu ykkar. Trúarbæn ykkar verður lykillinn að farsæld ykkar. Þið getið treyst á að veita leiðsögn hans viðtöku.

Hann veitti þessa hvatningu: „Biðjið til föðurins í mínu nafni í trú, og í trú á að yður muni hlotnast, og þér skuluð hafa heilagan anda, sem opinberar allt það, sem mannanna börnum er æskilegt.“5

Til viðbótar við bænina mun einlægt ritninganám vera hluti af vaxandi krafti ykkar til að næra aðra. Hér er loforðið: „Ekki skuluð þér heldur fyrirfram hafa áhyggjur af því hvað þér eigið að segja, heldur varðveitið lífsins orð stöðugt í huga yðar, og einmitt á þeirri stundu munu yður gefin þau þeirra, sem mæld verða hverjum manni.“6

Því munið þið taka ykkur meiri tíma til að biðja, hugleiða og íhuga andleg málefni. Þekkingu sannleikans verður úthellt yfir ykkur og þið munið vaxa í krafti svo að þið getið annast aðra í fjölskyldu ykkar.

Það munu koma tímar þar sem ykkur finnst að lærdómsferli ykkar í að verða betri umönnunaraðilar sé mjög hægfara. Það mun taka trú til að standast. Frelsarinn sendi ykkur þessa hvatningu:

„Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra.

Sjá, Drottinn krefst hjartans og viljugs huga, og þeir viljugu og auðsveipu skulu neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum.“7

Nærvera ykkar hér í kvöld er vitni um að þið eruð fúsar að meðtaka boð Drottins um að annast aðra. Það á jafnvel við um þær yngstu hér í kvöld. Þið getið vitað hvern þið eigið að annast í fjölskyldu ykkar. Ef þið biðjið af einlægum ásetningi, þá mun nafn eða andlit koma í huga ykkar. Ef þið biðjið til að fá vitneskju um það hvað þið eigið að gera eða segja, þá munið þið skynja svar. Hvert sinn sem þið biðjið mun kraftur ykkar til að annast aðra vaxa. Þið munuð vera að undirbúa daginn þegar þið annist ykkar eigin börn.

Mæður táninga ættu að biðja til þess að fá svar um það hvernig þær eigi að annast son eða dóttur sem virðist ekki meðtaka umönnunina. Þið gætuð beðið til að vita hver gæti búið yfir þeim andlegu áhrifum sem barn ykkar kann að þarfnast og myndi meðtaka. Guð heyrir og svarar slíkum einlægum bænum áhyggjufullra mæðra og hann sendir aðstoð.

Ömmurnar sem eru hér í kvöld gætu einnig verið að upplifa hjartasorg vegna þess álags og erfiðleika sem börn þeirra eða barnabörn gætu verið að valda. Þið gætuð öðlast hugrekki og leiðsögn frá áskorunum fjölskyldna sem greint er frá í ritningunum.

Það er ein ákveðin lexía, allt frá tímum Evu og Adams, í gegnum föður Ísraels og áfram til allra fjölskyldna í Mormónsbók, varðandi sorgina sem fylgir fáskiptnum börnum: Aldrei hætta að elska.

Við höfum hið hvetjandi fordæmi frelsarans er hann annaðist hin mótþróafullu andabörn himnesks föður. Jafnvel þegar þeir og við völdum öðrum sársauka, þá mun útrétt hönd frelsarans ávallt vera útrétt.8 Í 3. Nefí talaði hann um andlegar systur sínar og bræður, sem hann hafði ítrekað reynt að næra: „Ó, þér íbúar … sem eruð af Ísraelsætt! Hversu oft hef ég safnað yður saman, eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sína, og nært yður.“9

Systur, á öllum stigum lífsins, í öllum fjölskylduaðstæðum og þvert á alla menningu, þá er frelsarinn hið fullkomna fordæmi ykkar um það hvernig þið munið skipa mikilvægtu hlutverki í verki hans að leggja aukna áherslu á trúarfræðslu á heimilinu.

Þið munið færa meðfæddar kærleikstilfinningar ykkar inn í breytingar á athöfnum og framkvæmdum í fjölskyldum ykkar. Það mun auka andlegan vöxt. Þegar þið biðjið með og fyrir fjölskyldumeðlimum, þá munið þið finna bæði kærleika ykkar og frelsarans, gangvart þeim. Er þið leitið þessa, þá mun það verða aukin andleg gjöf ykkar. Fjölskyldumeðlimir ykkar munu skynja það er þið biðjið með aukinni trú.

Þegar fjölskyldan safnast saman til að lesa ritningarnar upphátt, þá munið þið vera búnar að lesa þær og biðja varðandi þær, til að undirbúa ykkur. Þið munið hafa fundið tíma til að biðja fyrir nærveru andans. Þegar það verður svo komið að ykkur að lesa, þá munu fjölskyldumeðlimirnir skynja elsku ykkar til Guðs og orðs hans. Þeir munu nærast af honum og anda hans.

Sama úthelling getur komið á hvaða fjölskyldustund sem er, ef þið biðjið og undirbúið fyrir það. Það kann að taka vinnu og tíma, en mun framkalla kraftaverk. Ég man eftir lexíu sem móðir mín kenndi þegar ég var lítill. Ég sé enn fyrir mér litríka kortið sem hún hafði búið til og sýndi ferðalög Páls postula. Ég velti því fyrir mér hvernig hún hafi fundið bæði tíma og orku til að búa það til. Allt fram á daginn í dag er ég blessaður af kærleika hennar til þessa trúfasta postula.

Þið munið allar finna leiðir til að leggja til í úthellingu sannleikans yfir fjölskyldur ykkar í endurreistri kirkju Drottins. Hver og ein ykkar mun biðja og hugleiða hvernig þið getið vitað hvert ykkar sérstæða framlag mun verða. Þetta veit ég: Hver ykkar í jafnræðis sambandi með sonum Guðs, verður mikilvægur þáttur í kraftaverki trúarkennslu og trúarlífs, sem mun hraða söfnun Ísraels og mun undirbúa fjölskyldu Guðs undir dýrlega endurkomu Drottins Jesú Krists. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.