2005
Lonah Fisher og Asenaca Lesuma frá Taveuni, Fiji
Apríl 2005


VINÁTTA

Lonah Fisher og Asenaca Lesuma frá Taveuni, Fiji

Lonah Fisher, 9 ára, og Asenaca Lesuma, 10 ára, eiga heima á eyju í miðju Kyrrahafi. Þótt Taveuni sé þriðja stærsta eyja hinna 300 eyja sem tilheyra Fiji, er hún ekki stærri en það að hægt er að aka þvert yfir hana á minna en hálfum degi. Á eyjunni vaxa mangótré, melónutré, ákvextir, ananasplöntur og kókoshnetutré og börnin í Barnafélaginu syngja „Blóm og tré og grös öll, þau gleðjast nú“ – sem er eftirlætis söngur Lonah.

Tagimocia-blómið vex efst á hæsta fjalli Taveuni, nærri vatni, fossum og regnskógi. Þetta sjaldgæfa og fallega blóm er sagt vaxa hvergi annarsstaðar hér í heimi. En ólíkt Tagimocia-blóminu, þá eru Lonah og Asenaca ekki einsamlar er þær vaxa að þroska í fagnaðarerindinu. Þær njóta báðar ástríkis í fjölskyldum sínum og sækja Somosomo-greinina á Taveuni. Þær búa nærri hvor annarri – en í sitt hvoru þorpinu – og sækja ekki sama skóla.

Lonah er í Central Indian-skólanum á Taveuni, en þar fer kennsla fram að jöfnu á ensku og hindímáli. Hún talar bæði tungumálin reiprennandi og getur einnig tjáð sig nokkuð á fijimáli. Í skóla Asenaca læra nemendur og tala ensku á morgnana. Síðdegis læra nemendur að tala fijimál og um sögu og menningu Fijibúa.

Eftir skóla hjálpar Lonah mömmu sinni að vaska upp og líta til með bræðrum sínum, Alfred, 7 ára, og Joshua, 3 ára. “Það er ekki auðvelt!“ sagði hún. Bræður hennar eru afar virkir. Alfred finnst gaman að fótbolta og því er hann oft leikinn. Lonah finnst gaman í körfubolta og í dúkkuleik með frænkum sínum. Henni þykir undurvænt um hundinn sinn, Buzo. „Hann fylgir okkur hvert skref og kemur jafnvel með í kirkju,“ sagði hún.

Þegar Asenaca kemur heim úr skóla, þvær hún af sér skólabúninginn og hengir hann til þerris. Ekki hafði rignt um tíma og því var aðeins hægt að fá vatn úr krananum á ákveðnum tímum dagsins. Safna þarf vatni til geymslu í tunnum og allir í fjölskyldunni þurfa að fara eftir skömmtunaráætlun til að vatnið dugi örugglega til þarfa þeirra.

Asenaca hjálpar mömmu sinni við húsverkin, líkt og Lonah, og lítur líka til með bræðrum sínum, Meli, 9 ára, og Joseva, 3 ára, og systur sinni, Meresiana, 6 ára. Þrjár frænkur hennar búa líka hjá henni: Irene, 17 ára, Katarina, 13 ára, og Sera, 8 ára. Asenaca nýtur þess að leika sér við þær að húsverkum loknum. Þær fara í kapphlaup og eltingaleik, körfubolta og leik sem þær kalla „hann,“ og er líkur síðastaleik.

Lonah og Asenaca finnst báðum gaman að dansa. Í greininni þeirra eru dansar æfðir fyrir sýningaratriði og búningar saumaðir af því tilefni. Búningana er svo hægt að nota sem kirkjuföt.

Lonah ann fagnaðarerindinu og veit að það er hvarvetna eins um heim allan. Afi hennar hefur verið veikur og dvelur í Ástralíu meðan hann fær læknismeðferð. Þegar Lonah heimsækir hann fer hún í Barnafélagið þar. Hún sagði Barnafélagið vera öðruvísi, því börnunum sé þar skipt í bekki eftir aldri. Í Somosomo-greininni eru allir aldurshópar saman. Og allir fá sömu lexíu.

Asenaca ann fagnaðarerindinu líka og hyggst þjóna í trúboði. Hún býr sig undir trúboð með því að biðjast fyrir, sækja kirkju og lesa ritningarnar. Hún hlakkar til að fara í musterið þegar hún verður eldri, jafnvel þótt það taki 20 klukkustundir að komast þangað á ferju. Hún vonast svo til þess að giftast einhvern daginn í musterinu og sjá framtíðarfjölskyldu sína þroskast, verða sterka í fagnaðarerindinu, á sama hátt og hún og Lonah þroskast.

Margaret Snider er í Hagan Park-deild, Cordova-stiku í Sacramento, Kaliforníu.