2010
Verið trúföst örlítið lengur
janúar 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, janúar 2010

Verið trúföst örlítið lengur

Ein af varanlegum lexíum Kirtland tímabilsins er sú að andar okkar þarfnast stöðugrar næringar. Við þurfum að vera nálægt Drottni á hverjum degi ef við eigum að lifa af það mótlæti sem við þurfum öll að standa frammi fyrir.

Síðasta sumar fór ég og eiginkona mín með tvíbura barnabörn okkar til Kirtland, Ohio. Þetta var einstakt og sérstakt tækifæri fyrir okkur að verja tíma með þeim áður en þeir fóru á trúboð sín.

Á meðan á dvöl okkar stóð kynntumst við betur aðstæðum sem spámaðurinn Joseph Smith og hinir heilögu bjuggu við í Kirtland. Þetta tímabil sögu kirkjunnar er þekkt sem tími mikilla prófrauna og einnig mikilla blessana.

Sumar af óvenjulegustu himnesku vitrunum og andlegum gjöfum sem þessi heimur hefur upplifað veitti Drottinn í Kirtland. Sextíuogfimm kaflar af Kenning og sáttmálum voru mótteknir í Kirtland og á nærliggjandi svæðum—opinberanir sem færðu nýtt ljós og þekkingu um atriði eins og síðari komuna, umönnun á hinum þurfandi, sáluhjálparáætlunina, prestdæmisvald, Vísdómsorðið, tíund, musterið og helgunarlögmálið.1

Óviðjafnanlegur andlegur vöxtur átti sér stað á þessu tímabili. Vissulega ljómaði Guðs andi og logaði sem eldur. Móse, Elía og margar aðrar himneskar verur birtust á þessum tíma, þar á meðal himneskur faðir og sonur hans, frelsari heimsins, Jesús Kristur.2

Ein af fjölmörgum opinberunum sem Joseph tók á móti í Kirtland var opinberun sem hann kallaði „Olíf-ulaufið … tínt af Paradísartrénu. Friðarboðskapur Drottins til okkar“ (kynning á K&S 88). Þessi markverða opinberun hefur að geyma göfugt boð: „Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig“ (K&S 88:63). Er hinir heilögu í Kirtland nálguðust Drottin þá nálgaðist hann svo sannarlega þá og úthellti blessunum himins yfir hina trúföstu.

Andleg veisla

Ef til vill var hápunkti þessara andlegu vitrana náð við vígslu Kirtland musterisins þann 27. mars 1836. Meðal viðstaddra var hinn 28 ára gamli William Draper sem lýsti þessum degi sem „Hvítasunnudegi.“ Hann skrifaði: „Úthelling ands Drottins á þessum tíma var slík að penni minn er ófullnægjandi til að skrifa alla frásögnina og tunga mín getur eigi lýst því. En ég mun segja að andanum var úthellt og varð hann eins og kraftmikill hvínandi vindur sem fyllti húsið, margir viðstaddir töluðu tungum, sáu sýnir og engla og spáðu og upplifðu þvílíka hátíðarstund sem ekki hafði áður verið hjá þessari kynslóð.“3

Andlegu vitranir þessar voru ekki einungis fyrir þá sem voru innan veggja musterisins því „nágrannafólk kom saman hlaupandi (eftir að hafa heyrt óvenjuleg hljóð og séð skært ljós, eins og eldstólpa sem hvíldi á musterinu) og voru furðu lostin yfir því sem átti sér stað.“4

Lorenzo Snow (1814–1901), sem síðar varð forseti kirkjunnar, bjó í Kirtland á þessu tímabili mikilla blessana. Hann sagði: „Hægt er að ímynda sér að eftir að hafa meðtekið þessar dásamlegu vitranir þá gæti engin freisting kollvarpað hinum heilögu.“5

En auðvitað gerir mikilfengleg andleg reynsla okkur ekki undanskilin frá mótstöðu og prófraunum. Einungis fáeinum mánuðum eftir að musterið var vígt lét víðtæk kreppa bera á sér í hagkerfinu í Bandaríkjunum og íbúar Kirtland fundu virkilega fyrir áhrifum hennar. Bankar hrundu og margir lentu í erfiðum fjárhagslegum ólgusjó. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá komu flestir hinna heilögu sem voru að flytjast búferlum til Kirtland með litlar eignir með sér, þau vissu ekki hvað þau myndu gera þegar á áfangastað var komið eða hvernig þau myndu hafa það af.

Áður en leið á löngu höfðu ofsóknir hafist og múgur sameinast á móti hinum heilögu. Kirkjuþegnar—jafnvel nokkrir af þeim sem næst stóðu spámanninum og margir hverjir höfðu verið viðstaddir við vígslu musterisins—féllu frá kirkjunni og sögðu Joseph vera fallinn spámann.

Er ég gekk nálægt Kirtland musterinu með eiginkonu minni og barnabörnum íhugaði ég hversu sorglegt það var að sumir gátu ekki verið trúfastir jafnvel eftir allar andlegu vitranirnar sem þeir höfðu orðið vitni að. Hversu sorglegt að þeir gátu ekki þolað athlægi og gagnrýni hinna trúlausu. Hversu dapurt að þeir gátu ekki teygt sig inn á við og fundið styrkinn til þess að standast trúföst þegar þeir stóðu andspænis fjárhagserfiðleikum og öðrum áskorunum. Hversu óheppilegt að þeir hafi einhvern veginn misst sjónar á andlegu uppskerunni við vígslu musterisins sem var kraftaverki líkust.

Lexíurnar

Hvað getum við lært af þessu óvenjulega tímabili í sögu kirkjunnar?

Ein af hinum miklu og varanlegu lexíum Kirtland tímabilsins er sú að andi okkar þarnast stöðugrar næringar. Eins og Harold B. Lee forseti (1899–1973) kenndi: „Vitnisburður okkar á þessari stundu þarf ekki að vera okkar alla ævi. Hann mun annaðhvort aukast og verða að fullvissu eða minnka og hverfa, allt eftir því hvað við ákveðum sjálf. Ég undirstrika að sá vitnisburður sem ræktaður er dag frá degi, mun bjarga okkur frá snörum andstæðingsins.“6 Við þurfum að halda okkur nálægt Drottni á hverjum degi ef við ætlum að lifa af mótlætið sem við þurfum öll að takast á við.

Á vissan hátt þá er heimurinn í dag svipaður og Kirtland var á fjórða áratug nítjándu aldar. Við lifum einnig á tímum fjárhagserfiðleika. Til er fólk sem ofsækir og bölsótast út í kirkjuna og þegna hennar. Prófraunir einstaklinga og hópa geta stundum virst yfirþyrmandi.

Á slíkum stundum, meira en nokkru sinni fyrr, þurfum við að nálgast Drottin. Er við gerum það munum við læra að þekkja hvað það þýðir þegar Drottinn nálgast okkur. Er við leitum hans af enn meiri kostgæfni þá munum við vissulega finna hann. Við munum sjá greinilega að Drottinn yfirgefur ekki kirkju sína né sína trúföstu heilögu. Augu okkar munu opnast og við munum sjá hann opna glugga himins og úthella yfir okkur meira af ljósi sínu. Við munum finna þann andlega styrk sem þarf til að lifa af, jafnvel hina dimmustu nótt.

Þrátt fyrir að sumir af hinum heilögu í Kirtland hafi misst sjónar af andlegri reynslu sinni þá er ekki hægt að segja sömu sögu um bróðurpartinn af fólkinu. Meirihlutinn, þar á meðal William Draper, hélt fast í þá andlegu þekkingu sem Guð hafði gefið þeim og hélt áfram að fylgja spámanninum. Í leiðinni upplifðu þau jafnvel enn bitrari prófraunir en einnig mjög ljúfan andlegan vöxt þar til að lokum, tekið var á móti þeim sem höfðu staðist til enda „ … í óendanlegri sælu“(Mósía 2:41).

Þið getið verið trúföst

Ef þið einhvern tímann freistist til þess að verða vonlaus eða missa trúna þá skuluð þið muna eftir hinum trúföstu heilögu sem stóðu staðföst í Kirtland. Verið trúföst örlítið lengur. Þið getið gert þetta! Þið eruð hluti af sérstakri kynslóð. Þið voruð undirbúin og varðveitt til þess að lifa á þessum mikilvæga tíma í sögu okkar fallegu jarðar. Þið eruð komin frá himneskum uppruna og þar af leiðandi hafið þið alla þá hæfileika er til þarf til að láta líf ykkar verða að eilífri velgengni sögu.

Drottinn hefur blessað ykkur með vitnisburði um sannleikann. Þið hafið fundið fyrir áhrifum hans og orðið vitni að krafti hans. Og ef þið haldið áfram að leita hans þá mun hann halda áfram að veita ykkur heilaga reynslu. Með þessum og öðrum andlegum gjöfum munið þið ekki einungis geta breytt ykkar eigin lífi til hins góða heldur einnig blessað heimili ykkar, deildir eða greinar, samfélög, borgir, fylki og þjóðir með góðsemi ykkar.

Vera má að stundum sé það erfitt að sjá fyrir um þetta en verið trúföst örlítið lengur því „það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann“ og bíðið eftir honum. (1 Kór 2:9; sjá einnig K&S 76:10; 133:45).

Ég ber vitni um sannleiksgildi hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists og sannleika þessarar kirkju, kirkju hans. Ég vitna með öllu mínu hjarta og sálu að Guð lifir, að Jesús Kristur er sonur hans og hann er höfuð þessarar stórkostlegu kirkju. Það er spámaður aftur á jörðinni í dag, jafnvel Thomas S. Monson forseti.

Megum við ætíð muna lexíuna frá Kirtland og vera trúföst örlítið lengur—jafnvel þegar útlitið er dökkt. Vitið og munið eftir þessu: Drottinn elskar ykkur. Hann man eftir ykkur. Og hann mun ætíð styðja þá sem „standa stöðugir í trú allt til enda“ (K&S 20:25).

Heimildir

  1. Sjá til dæmis kafla 45; 56; 76; 84; 89; 97 og 104.

  2. Sjá K&S 76:23; 110:2–4, 11–13.

  3. William Draper, “A Biographical Sketch of the Life and Travels and Birth and Parentage of William Draper” (1881), vélritað handrit, Church History Library, 2.

  4. History of the Church, 2:428.

  5. Lorenzo Snow, “Discourse,” Deseret Weekly News, 8. júní 1889, 26.

  6. Kenningar forseta kirkjunnar: Harold B. Lee (2001), 43.