2011
Hve mikil verður gleði þín
febrúar 2011


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2011

Hve mikil verður gleði þín

Fá gleðiefni eru jafn ljúf og varanleg og vitneskjan um að við höfum hjálpað öðrum að taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists í hjarta sitt. Sú gleði stendur öllum meðlimum kirkjunnar til boða. Þegar við vorum skírð, lofuðum við að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem [við kunnum] að vera, já, allt til dauða, svo að Guð megi endurleysa [okkur] og [við megum] teljast með þeim, sem í fyrstu upprisunni verða, svo að [við megum] öðlast eilíft líf“ (Mósía 18:9).

Allir meðlimir þurfa að axla sinn hluta þeirrar ábyrgðar kirkjunnar að færa heiminum fagnaðarerindi Jesú Krists, hvar sem þeir búa og alla sína ævi. Drottinn sagði það skýrt og skorinort: „Sjá, ég sendi yður til að bera vitni og aðvara fólkið, og hverjum manni sem fengið hefur viðvörun ber að aðvara náunga sinn“ (K&S 88:81). Fastatrúboðum ber að hagnýta sér kraftinn til að kenna þeim sem enn eru ekki meðlimir kirkjunnar. Meðlimum kirkjunnar ber að hagnýta sér kraftinn til að finna þá sem Drottinn hefur búið undir kennslu trúboðanna.

Við þurfum að iðka trú á að Drottinn hafi búið fólk umhverfis okkur undir slíka kennslu. Hann þekkir það og veit hvenær það er reiðubúið, og megnar að leiða okkur til þess með krafti heilags anda og gefa okkur orð í munn til að bjóða því kennslu. Loforðið sem Drottinn gaf trúboða árið 1832 er einnig ætlað okkur í þeirri ábyrgð að finna fólk sem reiðubúið er að taka á móti kennslu trúboðanna: „Ég mun senda honum huggarann, sem kennir honum sannleikann og segir honum hvert halda skal – Og reynist hann trúr, mun ég enn krýna hann með kornbindum“ (K&S 79:2–3).

Og loforð dyggra trúboða um mikla gleði er einnig ætlað okkur sem dyggum meðlimum, er helga sig trúboðsstarfi:

„Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!

Sjá, þér hafið fagnaðarerindi mitt frammi fyrir yður og bjarg mitt og hjálpræði mitt.

Biðjið til föðurins í mínu nafni, í trú, og í trú á að yður muni hlotnast, og þér skuluð hafa heilagan anda, sem opinberar allt það, sem mannanna börnum er æskilegt“ (K&S 18:16–18).

Auk þess að njóta hjálpar heilags anda við að þekkja þá sem reiðubúnir eru og bjóða þeim kennslu, hefur Drottinn kallað og þjálfað leiðtoga til að leiða okkur. Í bréfi, dagsettu 28. febrúar 2002, veitti Æðsta forsætisráðið biskupum og deildum aukna ábyrgð í trúboðsstarfi.1 Með hjálp deildar- eða greinarráðs, ber framkvæmdaráði prestdæmisins að þróa áætlun fyrir eininguna. Í þeirri áætlun er lagt til hvernig meðlimir geta fundið þá sem reiðubúnir eru fyrir kennslu trúboðanna. Þar er einstaklingur kallaður sem trúboðsleiðtogi deildar eða greinar. Sá trúboðsleiðtogi er í nánu sambandi við fastatrúboðana og trúarnema þeirra.

Þið getið á marga vegu aukið skuldbindingu ykkar um að finna fólk til að taka á móti kennslu trúboðanna. Einfaldasta leiðin er sú besta.

Biðjið þess að njóta handleiðslu heilags anda. Ræðið við staðarleiðtoga og trúboða og biðjið þá um ábendingar og heitið þeim liðsinni. Hvetjið þá sem eiga hlutdeild að verkinu með ykkur. Og verið vitni öllum stundum í orði og verkum um að Jesús er Kristur og að Guð bænheyrir.

Ég ber vitni um að heilagur andi mun leiða ykkur til þeirra sem leita sannleikans er þið biðjið um slíka handleiðslu og vinnið að henni. Og ég veit af reynslu að gleði ykkar verður varanleg með þeim sem velja að taka á móti fagnaðarerindinu í hjarta sínu og standast allt til enda.

Heimildir

  1. Sjá „News of the Church: Ward and Branch Missionary Work Emphasized,“ Líahóna, ágúst 2002, 4.

Hvernig kenna á boðskapinn

  • Í Teaching, No Greater Call er okkur boðið að hvetja þá sem við kennum til að setja sér markmið um að hagnýta sér reglurnar sem þeir læra (sjá bls. 159). Íhugið að tilgeina blessanir trúboðsstarfs með fjölskyldunni, líkt og Eyring forseti benti á, og biðjið fjölskylduna að setja sér markmið um að miðla fagnaðarerindinu, ef andinn hvetur ykkur til þess.

  • Íhugið að hafa hugmyndaauðgi með fjölskyldunni um hvernig miðla má fagnaðarerindinu, og hafið í huga leiðsögn Eyrings forseta um að „einfaldasta leiðin er sú besta.“ Ef þið óskið að læra meira um hugmyndaauðgi, sjá þá Teaching, No Greater Call, bls. 160.