2011
Endurreisn allra hluta
febrúar 2011


Boðskapur heimsóknarkennara, febrúar 2011

Endurreisn allra hluta

Lærið efnið og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.

Ljósmynd
Relief Society seal

Trú • Fjölskylda • Liðveisla

Spámaðurinn Joseph Smith skipulagði Líknarfélagið sem nauðsynlegan hluta kirkjunnar. Við vonumst til þess að geta sem forsætisráð hjálpað ykkur að skilja hvers vegna Líknarfélagið er mikilvægt í lífi ykkar.

Við vitum að konur í Nýja testamentinu sýndu trú á Jesú Krist og létu til sín taka í verki hans. Í Lúkas 10:39 er greint frá Maríu, sem „settist … við fætur Drottins og hlýddi á orð hans.“ Í Jóhannes 11:27 ber Marta vitni um Krist: „Hún [sagði] við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ Í Postulasögunni 9:36, 39 er greint frá „[lærisvein, konu] að nafni Tabíþa, … [sem] var mjög góðgerðasöm. … Og allar ekkjurnar komu … sýndu … kyrtla og yfirhafnir, sem [hún] hafði gjört.“ Í Rómverjabréfinu 16:1–2 er greint frá Föbe, sem var „þjónn safnaðarins“ og „bjargvættur margra.“

Þessi fyrirmynd trúar, vitnisburðar og þjónustu varðveitist í kirkju síðari daga og var formlega staðfest með skipulagi Líknarfélagsins. Julie B. Beck, aðalforseti Líknarfélagsins, kenndi: „Líkt og frelsarinn bauð Mörtu og Maríu í Nýja testamentinu að taka þátt í verki hans, þá er konum þessarar ráðstöfunar boðið að taka þátt í verki Drottins. … Stofnun Líknarfélagsins árið 1842 varð til að virkja sameiginlega krafta kvenna í þeim sérstöku verkefnum að byggja upp ríki Drottins.“1

Við komum verkinu til leiðar með því að beina kröftum okkar að tilgangi Líknarfélagsins: Auka trú og persónulegt réttlæti, styrkja fjölskyldur og heimili og finna og aðstoða nauðstadda.

Ég ber vitni um að Líknarfélagið var skipulagt að guðlegum hætti til að aðstoða við verk sáluhjálpar. Sérhver Líknarfélagssystir gegnir mikilvægu hlutverki í að koma þessu helga verki til leiðar.

Silvia H. Allred, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins.

Úr ritningunum

Jóel 3:1–2; Lúkas 10:38–42; Efesusbréfið 1:10

Úr sögu okkar

Systir Julie B. Beck kenndi: „Við vitum frá spámanninum Joseph Smith að Líknarfélagið var formlegur hluti endurreisnarinnar.“2 Endurreisnin hófst árið 1820, með Fyrstu sýninni, og hélt áfram „orð á orð ofan og setning á setning ofan“ (K&S 98:12). Þegar Líknarfélagið hafði verið formlega stofnað 17. mars 1842, fræddi spámaðurinn konurnar um mikilvægi þeirra í hinni endurreistu kirkju. Hann sagði: „Kirkjan hefur ekki verið fullkomlega skipulögð fyrr en slíkri skipan hefur verið komið á konur.“3

Heimildir

  1. Julie B. Beck, „Uppfylla tilgang Líknarfélagsins,“ Aðalráðstefna, okt. 2008.

  2. Julie B. Beck, „Uppfylla tilgang Líknarfélagsins,“ okt. 2008.

  3. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 448.

Hvað get ég gert?

  1. Hvað get ég gert í þessum mánuði sem verður systrum mínum til fordæmis um trú kvennlærisveins Jesú Krists?

  2. Hvaða kenningu hins endurreista fagnaðarerindis ætla ég að læra í mánuðinum til að efla vitnisburð minn?