2011
Spurningar og svör
Apríl 2011


Spurningar og svör

„Hvers vegna glímir fjölskylda mín við vandamál, þótt við förum í kirkju, höfum fjölskyldukvöld og reynum að lifa eftir fagnaðarerindinu? Hvað meira getum við gert?“

Það færir okkur blessanir að lifa eftir fagnaðarerindinu, en það þýðir ekki að við munum ekki takast á við áskoranir. Raunir geta orðið til að efla trú ykkar er þær knýja ykkur til að leita hjálpar himnesks föður. Að leysa vandamál með hans hjálp kennir ykkur að taka réttlátar ákvarðanir.

Hafið þið fjölskyldan rætt þessar aðstæður saman? Þið getið fengið gagnlegar hugmyndir með því að ráðgast saman. Hafið þið sem fjölskylda fastað og beðist fyrir til að finna lausn? Hafið þið leitað svara í ritningunum og í aðalráðstefnuræðum? Kannski þarf fjölskylda ykkar að gera breytingar til að bæta ástandið eða að sýna þolgæði og biðlund og treysta því að Drottinn muni efla ykkur í þessari raun (sjá Mósía 24:15).

Hafi aðrir valdið fjölskyldu ykkar sársauka, reynið þá að fyrirgefa þeim og láta af ásökunum. Þótt fyrirgefning leysi vandann hugsanlega ekki strax, færir hún frið og auðveldara verður að fást við vandamálið.

Óvinurinn sækir að fjölskyldum, því styrkur þeirra er afar mikilvægur kirkjunni og samfélaginu. Haldið því áfram að sýna þolgæði. Haldið áfram að fara í kirkju, hafa fjölskyldukvöld og lifa eftir fagnaðarerindinu. Hlýðni gerir ykkur kleift að skynja heilagan anda og leiðsögn hans er nauðsynleg til að finna svörin sem þið leitið að. Að eiga sterka fjölskyldu, jafnvel þótt hún kunni að þurfa að sigrast á vanda, er eitt mikilvægasta markmiðið sem þið ættuð að setja ykkur.

Notum leiðarvísana sem okkur hafa verið gefnir

Fjölskylda verður væntanlega ekki sterk fyrr en reynt hefur á hana. Til allrar hamingju þurfum við ekki að fást við vandann einsömul; himneskur faðir þráir að okkur vegni vel sem einstaklingum og fjölskyldum. Til að liðsinna okkur hefur hann séð okkur fyrir leiðarvísum, svo sem ritningunum, lifandi spámönnum, öðrum kirkjuleiðtogum og heilögum anda. Þeir geta hjálpað okkur að skilja og hagnýta okkur reglur fagnaðarerindisins, sem færa okkur og fjölskyldu okkar gleði. Gleymið auk þess aldrei að segja foreldrum ykkar frá því að þið séuð þakklát fyrir þá og elskið þá. Ég veit að Drottinn mun sjá fjölskyldu ykkar fyrir leið til að sameinast, eflast og uppbyggjast. Ég veit að fjölskyldan er vígð af Guði.

Jared L., 18 ára, Mindanao, Filippseyjum

Lærum af erfiðleikum okkar

Erfiðleikar verða alltaf þáttur af tilverunni, hvernig sem við reynum að sneiða hjá þeim. Þeir eru prófraunir og þroskahvetjandi. Það sem mestu skiptir er hvernig við bregðumst við þeim. Lykilatriðið er að læra af þeim. Lítið um öxl og sjáið hvað á sér í raun stað umhverfis ykkur. Biðjið vegna erfiðleika ykkar og trúið að Drottinn muni leiða ykkur í gegnum þá. Þeir geta gert ykkur sterkari og þið getið síðan veitt öðrum styrk.

Makenzie C., 18 ára, Chihuahua, Mexíkó

Lesum yfirlýsinguna um fjölskylduna

Vandamál koma upp hvort sem við biðjum eða ekki. Þeim er ekki ætlað að verða okkur til refsingar, heldur styrktar. Vandi lífsins gefur fjölskyldum kost á að starfa saman. Þegar fjölskylda mín tekst á við streitu, peningaskort eða reynir bara að finna tíma til að vera saman, sameinar það okkur og færir okkur nær himneskum föður. Eitt af því sem við gerum þegar erfiðleikar kveða dyra er að lesa „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Þannig verðum við meðvitaðri um helg bönd okkar og mikilvægi þess að halda sáttmála okkar.

Anna G., 15 ára, Georgíu, Bandaríkjunum

Sýnum trú á Drottin

Það sem hjálpar mér þegar ég spyr hvers vegna vandamál hrjái fjölskyldu mína, þótt við reynum hvað við getum, er frásögnin um Job og hve mikið hann mátti þola. Job 19:25–26 segir: „Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu. Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.“ Job tókst á við einhverja mestu erfiðleika lífsins og samt varðveitti hann vitnisburð sinn um að frelsarinn lifir! Ég veit að þegar okkur tekst að hugsa og lifa líkt og Job, munum við geta sigrast á erfiðleikum okkar og vitað að frelsarinn er okkur raunverulegur og leiðir okkur í gegnum þá.

Megan B., 17 ára, Utah, Bandaríkjunum

Tökumst vongóð á við erfiðleika

Erfiðleikar efla okkur þegar við tökumst réttilega á við þá. Við þurfum að vera vongóð og hugrökk í erfiðleikum okkar. Þið kunnið að gera ykkar besta með því að sækja kirkju og reyna að lifa eftir fagnaðarerindinu, en þið verðið að átta ykkur á þeirri staðreynd að erfiðleikar eru til að hreinsa og bæta ykkur. Reynið líka að átta ykkur á því sem þið gerið rangt og kappkostið að bæta úr því. Reynið oft að koma öðrum til hjálpar, en þegar þið gerið það, munu erfiðleikar ykkar verða léttvægari. Ráðgist þó framar öllu við Drottin. Biðjist fyrir vegna erfiðleikanna og biðjið himneskan föður að leiða ykkur.

Raymond A., 18 ára, Accra, Ghana

Lúta vilja himnesks föður

Ég trúi að erfiðleikar séu ein leiðin fyrir himneskan föður til að reyna okkur. Við megum ekki gleyma að hann er faðir okkar og sem slíkur elskar hann okkur heitt og innilega og vill okkur það besta. Ég veit að við getum aðeins sigrast á erfiðleikum með því að vera þolgóð og lúta vilja föðurins.

José C., 18 ára, Ancash, Perú

Stöndumst allt til enda

Fjölskyldan er miðpunkturinn í áætlun skaparans, svo eðlilegt er að óvinurinn geri allt til að koma í veg fyrir að við getum lifað hamingjusöm saman sem trúuð fjölskylda. Við vitum að við getum ekki vænst þess að lífið verði auðvelt, eða að við losnum við feistingar með því að fara í kirkju eða hafa fjölskyldukvöld. Þegar harðnar á dalnum, lesið þá ritningarnar, biðjist fyrir og ræðið saman sem fjölskylda.

Öldungur Dudley, 21 árs, Jakarta-trúboðinu, Indónesíu