2016
Örugg lending í ókyrrð
febrúar 2016


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, Febrúar 2016

Örugg lending í ókyrrð

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Fyrir ekki alllöngu vorum ég og eiginkona mín, Harriet, á flugvelli og virtum fyrir okkur glæsilegar flugvélar komu inn til lendingar. Það var hvasst úti og sterkur vindurinn skall á vélunum í aðfluginu, svo þær hristust og vögguðu til.

Þar sem við horfðum á náttúruöfl og flugvélar takast á, varð mér hugsað um flugþjálfun mína og reglurnar sem við lærðum þar – sem við svo kenndum öðrum flugmönnum síðar.

„Þvingið ekki stýrið í ókyrrð,“ var ég vanur að segja við þá. Haldið róseminni og látið ekki fátið ná tökum á ykkur. Einblínið á miðlínu brautarinnar. Ef þið víkið af réttri aðflugsstefnu, leiðréttið þá stefnuna fljótt og ákveðið. Reiðið ykkur á hæfni flugvélarinnar. Fljúgið klakklaust í gegnum ókyrrðina.

Reyndir flugmenn vita að þeir hafa ekki alltaf stjórn á utan að komandi áhrifum. Þeir geta ekki bara slökkt á ókyrrðinni. Þeir geta ekki látið regn eða snjó hverfa. Þeir geta ekki stöðvað vinda eða breytt stefnu þeirra.

Þeir vita líka að það gerir illt verra að óttast ókyrrð eða öfluga vinda – einkum að láta það draga úr sér allan þrótt. Þegar skilyrði eru óhagstæð er best að halda réttri stefnu, eins vel og mögulegt er, til öruggrar lendingar.

Þegar ég horfði á flugvélarnar nálgast, hverja á fætur annarri, og hugsaði um reglurnar sem ég lærði á fyrri árum mínum sem flugmaður, velti ég fyrir mér hvort ekki mætti draga einhverja lexíu af þessu fyrir okkar daglega líf.

Við fáum ekki alltaf ráðið þeim vindum sem á vegi okkar verða. Stundum eru vindar okkur einfaldlega óhagstæðir. Lífsins ókyrrð, vonbrigði, efi, ótti, sorg eða streita, geta þeytt okkur fram og til baka.

Þegar slíkt gerist er auðvelt að festast í því að hugsa um allt sem aflaga fer, svo ekkert annað kemst að. Við hneigjumst til að einblína á raunir okkar, í stað þess að horfa til frelsarans og vitnisburðar okkar um sannleikann.

Það er ekki besta leiðin til að takast á við áskoranir lífsins.

Líkt og hinn þaulreyndi flugmaður lætur ekki fipast af vindi og ókyrrð, heldur einblínir á miðja brautina og réttan lendingarstað, þá þurfum við að líka að einblína á miðpunkt trúar okkar – frelsara okkar, fagnaðarerindi hans og áætlun okkar himneska föður – og á lokatakmark okkar – að snúa örugg til okkar himnesku heimkynna. Við ættum að setja traust okkar á Guð og einblína á veg lærisveinsins í verkum okkar. Við ættum að einsetja okkur í huga og hjarta að lifa eftir bestu samvisku.

Að sýna trú okkar og traust á himneskan föður, með því að halda boðorðin af gleði, mun færa okkur hamingju og dýrð. Ef við höldum okkur á veginum, munum við komast í gegnum alla ókyrrð lífsins – hversu mikil sem hún virðist vera – og komast örugg til okkar himnesku heimkynna aftur.

Hvort sem himinninn er heiðskír eða skýjabólstrar hafa hrannast upp, þá leitum við fyrst ríkis og réttlætis Guðs, sem lærisveinar Jesú Krists, í þeirri vissu að við munum að lokum hljóta allt annað sem við þurfum, ef við gerum það (sjá Matt 6:33).

Hve mikilvæg lífsins lexía!

Hlutirnir verð erfiðari, því meira sem við hugsum um eigin erfiðleika, basl, efa og ótta. Því meira sem við einblínum á hinn endanlega himneska ákvörðunarstað okkar, og gleði þess að vera á vegi lærisveinsins – að elska Guð og þjóna náunga okkar – því líklegra er að við munum komast heil á höldnu frá erfiðleikum og ókyrrð.

Kæru vinir, sama hversu vindar verða sterkir í okkar jarðnesku tilveru, þá mun fagnaðarerindi Jesú Krists alltaf vísa bestu leiðina til öruggrar lendingar í ríki föður okkar á himnum.

Hvernig kenna á boðskapinn

Uchtdorf forseti hvetur okkur til „að setja traust okkar á Guð og einblína á veg lærisveinsins í verkum okkar.“ Íhugið að biðja þau sem þið kennið að segja frá því hvernig þau hafa einblínt „á hinn endanlega himneska ákvörðunarstað okkar, og gleði þess við að vera á vegi lærisveinsins“ er þau hafa tekist á við erfiðleika. Þið getið beðið þau að hugsa um hvernig þau gætu einblínt á vitnisburð sinn og Krist á erfiðum tímum og ákveðið í bænaranda hvernig þau gætu heimfært eina eða fleiri þeirra hugmynda yfir á líf sitt.