2017
Verða sannir lærisveinar
October 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, október 2017

Verða sannir lærisveinar

Á hverri sakramentissamkomu njótum við þeirra forréttinda að lofa himneskum föður því að við munum ætíð hafa hafa frelsarann í huga og halda boðorð hans, svo andi hans verði með okkur (sjá Moró 4:3; 5:2; K&S 20:77, 79). Það verður okkur ávallt eðlislægt að hafa hann í huga, er við tökum á okkur nafn hans. Það gerum við á margvíslegan hátt, en einkum þó þegar við þjónum öðrum í hans nafni, lesum hans helga orð og biðjumst fyrir til að vita hvað hann vill að við gerum.

Ég upplifði það þegar ég skírði eitt sinn ungan mann. Ég vissi að ég hafði verið kallaður af vígðum þjónum frelsarans sem trúboði, til að kenna fagnaðarerindi hans og vitna um hann og hans sönnu kirkju. Ég og trúboðsfélagi minn höfðum lofað þessum unga manni að hann myndi hreinsast fyrir kraft friðþægingar Jesú Krists, ef hann iðraðist í trú á frelsarann og væri skírður af einum af hans réttmætu þjónum.

Þegar ég lyfti þessum unga manni upp úr vatni skírnarfontsins, þá hvíslaði hann í eyra mér: „Ég er hreinn, ég er hreinn.“ Á þeirri stundu minntist ég skírnar frelsarans af hendi Jóhannesar skírara í ánni Jórdan. Ég minntist þess líka að ég væri að framkvæma verk hins upprisna og lifandi frelsara – með vitjun heilags anda, líkt og í tilviki Jóhannesar.

Hvað mig og okkur öll varðar, þá getur falist meira í því að hafa frelsarann í huga, en að reiða sig einungis á minninguna um að þekkja og upplifa hann. Við getum dag hvern hagað vali okkar þannig að við færumst nær honum á líðandi stundu.

Okkar einfaldasti valkostur gætir verið að lesa ritningarnar. Ef við gerum það, getum við fundið fyrir nálægð hans. Hvað mig varðar, þá finn ég oftast slíka nálægð þegar ég les í Mormónsbók. Á fyrstu mínútunum sem ég les kapítula 2. Nefís, þá heyri ég raddir Nefís og Lehís lýsa frelsaranum líkt og þeir hafi þekkt hann persónulega. Tilfinning nándar kemur yfir mig.

Hvað ykkur varðar, þá gæti annað efni í ritningunum vakið ykkur nálægð hans. Hvar eða hvenær sem þið lesið orð Guðs, af auðmýkt og einlægum ásetningi til að minnast frelsarans, þá mun þrá ykkar aukast til að taka á ykkur nafn hans í daglegu lífi.

Sú þrá mun hafa áhrif á hvernig þið þjónið í kirkju Drottins. Þið munið þá biðja til himnesks föður um hjálp til að efla jafnvel þá köllun ykkar sem virðist léttvæg. Sú hjálp sem þið æskið af hendi hans er sá eiginleiki að geta gleymt ykkur sjálfum og einbeitt ykkur meira að því sem frelsarinn hefur í huga fyrir þá sem þið eruð kölluð til að þjóna.

Ég hef skynjað hönd hans og nálægð í þjónustu minni við börn mín, er ég hef beðist fyrir til að vita hvernig ég get hjálpað þeim að finna þann frið sem aðeins fagnaðarerindið getur fært okkur. Á slíkum stundum hef ég síður hugsað um að litið sé á sjálfan mig sem gott foreldri og meira um farsæld og velferð barnanna minna.

Sú þrá að gefa þeim sem við þjónum það sama og frelsarinn hefði gefið þeim, leiðir til þrunginna bæna til himnesks föður, sannlega í nafni Jesú Krists. Þegar við biðjum á þann hátt – í nafni frelsarans, í trú á hann – þá mun faðirinn svara okkur. Hann mun senda heilagan anda til að leiða, hugga og hvetja okkur. Þar sem andinn ber ætíð vitni um frelsarann (sjá 3 Ne 11:32, 36; 28:11; Eter 12:41), þá mun geta okkar stöðugt aukast til að elska Drottin af öllu hjarta, huga og styrk (sjá Mark 12:30; Lúk 10:27; K&S 59:5).

Blessanir þess að minnast hans daglega og á líðandi stundu, munu veitast jafnt og þétt, er við þjónum honum, nærumst á orði hans og biðjum í trú á nafn hans. Að minnast hans, mun gera okkur að sönnum lærisveinum Drottins Jesú Krists í ríki hans á jörðu – og síðar með föður hans í hinum dýrðlega komandi heimi.