2023
Hvernig boðskapur aðalráðstefnu hefur blessað líf mitt
Október 2023


Boðskapur svæðisleiðtoga

Hvernig boðskapur aðalráðstefnu hefur blessað líf mitt

Þegar þessi útgáfa af Líahóna er gefin út, munum við sjá fram á aðra aðalráðstefnu. Kenning og sáttmálar gefa okkur fyrirmynd að samkomum okkar.

„Þegar þér komið saman skuluð þér fræða og uppbyggja hver annan, svo að þér megið vita hvað gjöra skal og hvernig stjórna skal kirkju minni … og þér skuluð skuldbinda yður til að breyta í öllu í heilagleika frammi fyrir mér.“1

Við eigum að i. fræðast, ii. uppbyggjast og iii. skuldbinda okkur til að breyta eftir því sem við höfum heyrt.

Fyrir nokkrum árum ræddi ég við vin sem hafði sótt kirkjusamkomu fyrr um daginn og spurði hvernig hún hefði verið. Viðbrögðin voru neikvæð; ræðurnar voru víst lélegar og samkoman alls ekki uppbyggjandi. Síðar um daginn talaði ég við annan vin sem hafði mætt á sömu samkomu og spurði sömu spurningar. „Hún var dásamleg,“ var svarið.

Ég hef oft velt fyrir mér reynslu þessara tveggja vina. Báðir mættu á sömu samkomu og hlustuðu á sömu ræðurnar, en annar hafði farið andlega hungraður en hinn fullnærður. Hugsanlegt er að ræðuefnið hafi einfaldlega átt meiri hljómgrunn hjá öðrum vina minna. Ég ímynda mér þó að þar hafi meira búið að baki. Annar vinur minn hafði farið andlega undir það búinn að hlusta með opnu hjarta og af þrá til að bregðast við því sem hann heyrði.

Vissulega ættu þeir sem falið er að tala eða kenna að leita leiðsagnar andans af kostgæfni varðandi efni og innihald og framsetningu máls síns. Mín reynsla er þó sú að þeir sem hlýði á beri hið minnsta jafnmikla ábyrgð á því að undirbúa sig andlega, svo þeir geti uppbyggst og verið fúsir til að bregðast við því sem þeir heyra.

Þegar ég les Mormónsbók finn ég fyrir miklum krafti orða Nefís, Benjamíns konungs, Alma, Mósía og annarra. Á aðalráðstefnu er þessi sami kraftur fyrir hendi frá spámanni okkar, Nelson forseta, og öðrum aðalembættismönnum kirkjunnar.

Skoðum aðeins nokkrar leiðbeiningar frá aðalráðstefnu undanfarinna ára:

„Kæru bræður og systur, það er þó svo margt dásamlegt framundan. Á komandi tíð, munum við sjá stærstu birtingarmyndir um kraft frelsarans, sem heimurinn hefur nokkru sinni séð. Frá þessum tíma, fram að endurkomu hans í ‚mætti og mikilli dýrð,‘ mun hann úthella yfir hina heilögu óteljandi forréttindum, blessunum og kraftaverkum.“2

„Mér hefur lærst að himneskur faðir hefur meiri áhuga á vexti mínum sem lærisveins Jesú Krists, heldur en hann hefur á vellíðan minni. Ég vil kannski ekki að það væri alltaf þannig – en það er það!

Að lifa í vellíðan gæðir okkur ekki krafti. Sá kraftur sem við þörfnumst í hita dagsins er kraftur Drottins og kraftur hans streymir frá sáttmálum okkar við hann.“3

„Ekkert er áhrifaríkara við að ljúka upp gáttum himins eins og samspilandi þættir aukins hreinleika, algjörrar hlýðni, einlægrar leitar, daglegrar endurnæringar á orðum Krists í Mormónsbók og reglubundins tíma sem helgaður er musteris- og ættarsögustarfi.“4

„Frelsaranum er kært að endurreisa það sem þið getið ekki endurreist, honum er kært að laga það sem er óbætanlega brotið, hann bætir upp allt ranglæti sem þið hafið orðið fyrir og honum er kært að laga jafnvel varanlega brostin hjörtu.“5

Hve dásamleg fræðsla, lærdómur og boð um að bregðast við í þessum ræðum og hundruð annarra innblásinna ræðna. Þegar við tökum þátt í aðalráðstefnu, hvort heldur í eigin persónu, gegnum beint streymi eða lesum eða horfum á ræður eftir að þær eru fluttar, þá hvet ég okkur öll til að búa okkur andlega undir að uppbyggjast og vera fús til að bregðast við því sem við heyrum. Á sama hátt og Benjamín konungur ráðlagði fólki síns tíma, svo og munu leiðtogar okkar tíma leiða okkur gegnum þessa ótryggu og ólgusömu tíma, efla trú okkar á Jesú Krist og bjóða okkur að taka ákvarðanir sem halda okkur öruggum á sáttmálsveginum.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 43:8–9.

  2. Russell M. Nelson forseti, „Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ október 2022.

  3. Sjá M. Russell Ballard, „Like a Flame Unquenchable,“ apríl 1999, sem vitnað er í hjá Michelle D. Craig, „Wholeharted,“ október 2022.

  4. Russell M. Nelson forseti, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ apríl 2018.

  5. Öldungur Dale G. Renlund: „Íhugið gæsku og mikilleika Guðs,“ apríl 2020.