Ritningar
2 Nefí 2


2. Kapítuli

Endurlausn fæst með heilögum Messíasi — Valfrelsi er frumskilyrði tilveru okkar og framþróunar — Adam féll, svo að menn mættu lifa — Manninum er frjálst að velja frelsi og eilíft líf. Um 589–570 f.Kr.

1 Og nú tala ég til þín Jakob: Þú ert sá sem fyrstur fæddist á dögum andstreymis míns í óbyggðunum. Og sjá, þú máttir þola þrengingar í bernsku og miklar raunir vegna harðýðgi bræðra þinna.

2 Engu að síður, Jakob, sem fyrstur fæddist í óbyggðunum, þekkir þú mikilleika Guðs, og hann mun helga þrengingar þínar þér til góðs.

3 Þess vegna mun sál þín blessuð, og þú munt dveljast í öryggi með bróður þínum, Nefí, og verja ævidögum þínum í þjónustu við Guð þinn. Af þeim sökum veit ég, að þú ert endurleystur fyrir réttlæti lausnara þíns, því að þú hefur séð, að í fyllingu tímans mun hann koma og verða mannkyni til sáluhjálpar.

4 Og þú hefur séð dýrð hans, þótt ungur sért að árum. Þess vegna ert þú blessaður á sama hátt og þeir, sem hann mun þjóna í holdinu, því að andinn er hinn sami í gær og í dag og að eilífu. Og allt frá falli mannsins hefur leiðin verið fyrirbúin og sáluhjálp er öllum frjáls.

5 Menn eru nægjanlega uppfræddir til að þekkja gott frá illu, og lögmálið er mönnum gefið. Samkvæmt lögmálinu réttlætist ekkert hold, eða samkvæmt lögmálinu útilokast menn. Já, samkvæmt stundlegu lögmáli útilokuðust menn og samkvæmt andlegu lögmáli farast þeir frá hinu góða og verða vansælir að eilífu.

6 Vegna þessa felst endurlausnin í heilögum Messíasi og kemur með honum, því að hann er fullur náðar og sannleika.

7 Sjá, hann færði sjálfan sig fram sem fórn fyrir syndina til að uppfylla tilgang lögmálsins fyrir alla þá, sem hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Og uppfylling lögmálsins kemur engum öðrum að gagni.

8 Hversu mikilvægt er það því ekki að kynna íbúum jarðar þetta, svo að þeim sé ljóst, að ekkert hold getur dvalið í návist Guðs nema fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar, sem fórnaði lífi sínu í holdinu og tók það aftur fyrir kraft andans til að koma til leiðar upprisu dauðra og verða sjálfur hinn fyrsti til að rísa upp.

9 Hann er þess vegna frumgróði Guðs, þar eð hann mun annast meðalgöngu fyrir öll mannanna börn, og þeir, sem á hann trúa, munu frelsast.

10 Og fyrir meðalgöngu hans, sem allir njóta góðs af, koma allir menn fyrir Guð. Af þeim sökum munu þeir standa í návist hans og taka við dómnum, sem hann fellir í samræmi við sannleikann og helgi þá, sem í honum býr. Lögmálið, sem hinn heilagi gaf — til framkvæmdar þeirrar refsingar, sem fastákveðin var, refsingar, sem er í andstöðu við sæluna, sem einnig var fastákveðin — fullnægir tilgangi friðþægingarinnar —

11 Því að andstæður eru nauðsynlegar í öllu. Væri ekki svo, þú sem fyrstur fæddist í óbyggðunum, næði réttlætið ekki fram að ganga, ranglæti væri ekki til, né heldur heilagleiki eða vansæld — hvorki gott né illt. Þar af leiðandi hlytu allir hlutir að vera samofnir í eina heild. Ef til væri einungis ein óskipt heild, hlyti hún að vera sem í dái, þar eð hún byggi hvorki yfir lífi né dauða, hvorki forgengileika né óforgengileika, hamingju né vansæld, hvorki tilfinningu né tilfinningaleysi.

12 Hún hefði þess vegna verið sköpuð út í bláinn, og því tilgangslaust að ljúka sköpun hennar. Því hlyti sú tilhögun að gjöra visku Guðs og eilíf áform að engu, svo og vald Guðs, miskunn og réttvísi.

13 Og ef þér segið, að ekkert lögmál sé til, þá munuð þér einnig segja, að engin synd sé til. Og ef þér segið, að engin synd sé til, þá munuð þér einnig segja, að ekkert réttlæti sé til. Og sé ekkert réttlæti til, þá er heldur engin hamingja til. Og sé hvorki réttlæti né hamingja til, þá er heldur engin refsing eða vansæld til. Og ef ekkert af þessu er til, þá er enginn Guð til. Og sé enginn Guð til, þá erum við ekki til og heldur ekki jörðin, því að engin sköpun hefði getað farið fram, hvorki sköpun á því, sem áhrifum veldur, né heldur hinu, sem fyrir áhrifum verður, og því hlyti allt að hafa orðið að engu.

14 Synir mínir, nú segi ég ykkur þetta, ykkur til gagns og fróðleiks, því að Guð er til og hefur skapað allt, sem til er — bæði himna og jörðu og allt, sem í þeim er — bæði það, sem áhrifum veldur, og það, sem fyrir áhrifum verður.

15 Og til fullkomnunar eilífðaráformum hans varðandi manninn, eftir að hann skapaði frumforeldra okkar, dýr merkurinnar, fugla loftsins og allt annað, sem skapað hefur verið, var nauðsyn á því, að andstæður væru til, hinn forboðni ávöxtur í andstöðu við lífsins tré, önnur sæt en hin bitur.

16 Og þess vegna gaf Drottinn Guð manninum rétt til að breyta samkvæmt sjálfstæðum vilja, og sjálfstæð gat breytni mannsins aðeins orðið, ef hann léti laðast að annarri hvorri andstæðunni.

17 Og samkvæmt því, sem ég hef lesið og ritað er, verð ég, Lehí, að gjöra ráð fyrir, að engill Guðs hafi fallið af himnum ofan. Og þar eð hann sóttist eftir því, sem illt er fyrir augliti Guðs, varð hann djöfullinn.

18 Og þar eð hann hafði fallið af himni ofan og orðið vansæll að eilífu, sóttist hann einnig eftir vansæld alls mannkyns. Af þeim sökum sagði hann við Evu, já, þessi gamli höggormur, hann, sem er djöfullinn og faðir allra lyga: Et af hinum forboðna ávexti, og þú munt ekki deyja, heldur verða sem Guð og þekkja gott og illt.

19 Og eftir að Adam og Eva höfðu neytt hins forboðna ávaxtar, voru þau rekin út úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina.

20 Og þau hafa getið af sér börn, já, reyndar allt mannkyn.

21 Og lífdagar mannanna barna voru framlengdir samkvæmt vilja Guðs, svo að þau mættu iðrast í vist sinni í holdinu. Og þannig varð holdlegt ástand þeirra reynslutími og tíminn framlengdur til samræmis við boðorðin, sem Drottinn Guð gaf mannanna börnum. Því að hann gaf boðorð um, að allir menn skyldu iðrast og sýndi öllum mönnum fram á, að þeir væru glataðir vegna afbrota foreldra sinna.

22 Og sjá. Hefði nú Adam ekki brotið af sér, hefði hann ekki fallið, heldur dvalið um kyrrt í aldingarðinum Eden. Og allt, sem skapað var, hefði orðið að haldast í óbreyttri mynd, frá því sem varð eftir sköpunina, og hefði haldist þannig að eilífu án nokkurs endis.

23 Og þeim hefði ekki orðið barna auðið og hefðu þannig haldið áfram í sakleysi án nokkurrar gleði, þar eð þau þekktu enga vansæld. Og þau hefðu ekkert gott gjört, þar eð þau þekktu enga synd.

24 En sjá. Allt hefur verið gjört af visku þess, sem allt veit.

25 Adam féll, svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta.

26 Og Messías kemur í fyllingu tímans til að endurleysa mannanna börn frá fallinu. Og vegna þess að þau eru endurleyst frá fallinu, verða þau frjáls að eilífu og þekkja gott frá illu, hafa sjálf áhrif, en verða ekki aðeins fyrir áhrifum, nema hvað áhrærir refsingu lögmálsins á hinum mikla og efsta degi, samkvæmt því boðorði, sem Guð hefur gefið.

27 Þess vegna eru menn frjálsir í holdinu, og allt er þeim gefið, sem mönnum er nauðsynlegt. Og þeim er frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna, eða velja helsi og dauða í samræmi við ánauð og vald djöfulsins. Því að hann sækist eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann er sjálfur.

28 Og nú, synir mínir, óska ég, að þið lítið til hins mikla meðalgöngumanns og hlýðið hinum miklu boðorðum hans, séuð trúir orðum hans og veljið eilíft líf að vilja hans heilaga anda —

29 En veljið ekki eilífan dauða að vilja holdsins og þess illa, sem því er bundið og gefur anda djöfulsins vald til að hneppa í ánauð og koma ykkur niður til heljar, svo að hann megi ríkja yfir ykkur í sínu eigin ríki.

30 Ég hef látið mér þessi fáu orð um munn fara við ykkur alla, synir mínir, á síðustu dögum reynslutíma míns. Og ég hef valið hinn góða hlut í samræmi við orð spámannsins. Og ég ber ekki annað fyrir brjósti en ævarandi velferð sálna ykkar. Amen.