Ritningar
Kenning og sáttmálar 107


107. Kafli

Opinberun um prestdæmið, gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, dagsett í kringum apríl 1835. Þó að þessi kafli hafi verið skáður 1835, þá styðja söguheimildir, að flest versin frá 60 til og með 100 feli í sér opinberun sem gefin var með Joseph Smith 11. nóvember 1831. Þessi kafli tengdist skipulagningu Tólfpostularáðsins í febrúar og mars 1835. Líklega flutti spámaðurinn hana í návist þeirra, sem voru að undirbúa brottför sína í fyrsta trúboð sveitar sinnar, 3. maí 1835.

1–6, Prestdæmin eru tvö: Melkísedeks og Arons; 7–12, Þeir sem hafa Melkísedeksprestdæmið hafa vald til að starfa í öllum embættum kirkjunnar; 13–17, Biskupsráðið er yfir Aronsprestdæminu, sem starfar að ytri helgiathöfnum; 18–20, Melkísedeksprestdæmið hefur lykla að öllum andlegum blessunum; Aronsprestdæmið hefur lykla að englaþjónustunni; 21–38, Æðsta forsætisráðið, hinir tólf, og hinir sjötíu, mynda yfirsveitirnar, og skulu ákvarðanir þeirra teknar einhuga og í réttlæti; 39–52, Patríarkareglan stofnuð frá Adam til Nóa; 53–57, Hinir heilögu til forna söfnuðust saman í Adam-ondi-Ahman, og Drottinn birtist þeim; 58–67, Hinir tólf skulu koma reglu á embættismenn kirkjunnar; 68–76, Biskupar þjóna sem almennir dómarar í Ísrael; 77–84, Æðsta forsætisráðið og hinir tólf mynda hæstarétt kirkjunnar; 85–100, Prestdæmisforsetar stjórna viðkomandi sveitum sínum.

1 Í kirkjunni eru tvö prestdæmi, það er Melkísedeks og Arons, sem felur í sér levíska prestdæmið.

2 Hið fyrra nefnist Melkísedeksprestdæmi, vegna þess hve Melkísedek var mikils metinn háprestur.

3 Fyrir hans daga nefndist það Hið heilaga prestdæmi eftir reglu Guðssonarins.

4 En vegna virðingar eða lotningar fyrir nafni hinnar æðstu veru og til að forðast stöðugar endurtekningar á nafni hans, nefndi kirkjan til forna það prestdæmi eftir Melkísedek, eða Melkísedeksprestdæmi.

5 Allt annað vald eða öll önnur embætti kirkjunnar eru viðaukar við þetta prestdæmi.

6 En aðaldeildir eru tvær — önnur er prestdæmi Melkísedeks og hin er prestdæmi Arons eða Levís.

7 Embætti öldungs fellur undir Melkísedeksprestdæmið.

8 Melkísedeksprestdæmið hefur réttinn til forsætis og kraft og vald yfir öllum embættum kirkjunnar á öllum tímum heimsins til að starfa að andlegum málum.

9 Forsætisráð hins háa prestdæmis, eftir reglu Melkísedeks, hefur rétt til að starfa í öllum embættum kirkjunnar.

10 Háprestar, eftir reglu Melkísedeksprestdæmis, hafa rétt til að starfa í stöðu sinni undir stjórn forsætisráðsins við framkvæmd andlegra mála, og einnig í embætti öldungs, prests (hinnar levísku reglu), kennara, djákna og meðlims.

11 Öldungur hefur rétt til að starfa í hans stað, þegar háprestur er ekki viðstaddur.

12 Háprestur og öldungur skulu starfa að andlegum málum, í samræmi við sáttmála og fyrirmæli kirkjunnar, og þeir hafa rétt til að starfa í öllum þessum embættum kirkjunnar, þegar enginn æðri valdhafi er til staðar.

13 Hitt prestdæmið nefnist prestdæmi Arons, vegna þess að það var veitt Aron og niðjum hans í alla ættliði.

14 Það nefnist lægra prestdæmið, vegna þess að það er viðauki við hið æðra, eða Melkísedeksprestdæmið, og hefur vald til að starfa að ytri helgiathöfnum.

15 Biskupsráðið er forsætisráð þessa prestdæmis og hefur lykla eða vald þess.

16 Enginn maður hefur lagalegan rétt til þessa embættis, að hafa lykla þessa prestdæmis, nema hann sé beinn afkomandi Arons.

17 En þar eð háprestur Melkísedeksprestdæmis hefur vald til að starfa í öllum lægri embættum, getur hann starfað í embætti biskups þegar enginn beinn afkomandi Arons finnst, svo fremi að hann sé kallaður og settur í embætti og vígður þessu valdi af hendi forsætisráðs Melkísedeksprestdæmisins.

18 Kraftur og vald hins æðra, eða Melkísedeksprestdæmis, er að hafa lykla að öllum andlegum blessunum kirkjunnar —

19 Og njóta þess réttar að meðtaka leyndardóma himnaríkis og sjá himnana ljúkast upp fyrir sér og eiga samfélag við allsherjarsöfnuð og kirkju frumburðarins og njóta samfélags og návistar Guðs föðurins og Jesú, meðalgöngumanns hins nýja sáttmála.

20 Kraftur og vald hins lægra, eða Aronsprestdæmis, er að hafa lykla að þjónustu engla og starfa að ytri helgiathöfnum, bókstaf fagnaðarerindisins, iðrunarskírn til fyrirgefningar syndanna, í samræmi við sáttmálana og boðorðin.

21 Af nauðsyn koma forsetar eða ráðandi embættismenn frá eða eru útnefndir af eða úr hópi þeirra, sem vígðir eru í hin ýmsu embætti þessara tveggja prestdæma.

22 Þrír ráðandi háprestar Melkísedeksprestdæmis, sem heildin velur, tilnefnir og vígir til þessa embættis og studdir eru með trausti, trú og bænum kirkjunnar, mynda sveit, sem er forsætisráð kirkjunnar.

23 Hinir tólf farand-ráðgjafar eru kallaðir sem postularnir tólf eða sérstök vitni nafns Krists um allan heim — og skilja sig þannig frá öðrum embættismönnum kirkjunnar í skyldustörfum köllunar sinnar.

24 Og þeir mynda sveit, sem hefur sama vald og kraft og fyrrnefndir þrír forsetar.

25 Hinir sjötíu eru einnig kallaðir til að boða fagnaðarerindið og vera Þjóðunum sérstök vitni um allan heim — og skilja sig þannig frá öðrum embættismönnum kirkjunnar í skyldustörfum köllunar sinnar.

26 Og þeir mynda sveit, sem hefur sama vald og sveit hinna tólf sérstöku vitna eða fyrrgreindra postula.

27 Og sérhver ákvörðun, sem hver þessara sveita tekur, verður að vera með einróma samþykki hennar, það er, sérhver meðlimur hverrar sveitar verður að samþykkja ákvörðun hennar, eigi ákvarðanir þeirra að hafa sama vald eða gildi innbyrðis —

28 Meirihluti getur myndað sveit þegar aðstæður gjöra allt annað útilokað —

29 Sé þetta ekki reyndin, eiga ákvarðanir þeirra ekki rétt á sömu blessunum og ákvarðanir sveitar hinna þriggja forseta höfðu til forna, sem vígðir voru eftir reglu Melkísedeks og voru réttlátir og helgir menn.

30 Ákvarðanir þessara sveita, eða einhverrar þeirra, skulu teknar í fullu réttlæti, heilagleika og hjartans lítillæti, hógværð og umburðarlyndi, trú og dyggð og þekkingu, hófsemi, þolinmæði, guðrækni, bróðurlegri góðvild og kærleika —

31 Vegna þess að fyrirheitið er, að þrífist þetta í þeim, verða þeir ekki ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni.

32 Og verði einhver ákvörðun þessara sveita tekin óréttlátlega, má leggja hana fyrir allsherjarsamkomu hinna ýmsu sveita, sem mynda andlegt vald kirkjunnar. Á annan hátt verður ákvörðun þeirra ekki áfrýjað.

33 Hinir tólf eru ráðandi farand-háráð, sem starfa skal í nafni Drottins undir stjórn forsætisráðs kirkjunnar, í samræmi við tilskipun himins, og byggja upp kirkjuna og stjórna öllum málum hennar hjá öllum þjóðum, fyrst meðal Þjóðanna og þar næst meðal Gyðinganna.

34 Hinir sjötíu skulu starfa í nafni Drottins undir stjórn hinna tólf eða farand-háráðsins að uppbyggingu kirkjunnar og stjórna öllum málum hennar meðal allra þjóða, fyrst meðal Þjóðanna og síðan Gyðinganna —

35 Hinir tólf eru sendir út og hafa lykla, sem ljúka upp dyrum að boðun fagnaðarerindis Jesú Krists, fyrst meðal Þjóðanna og síðan Gyðinganna.

36 Hin föstu háráð í stikum Síonar mynda sveit, sem hefur sama vald varðandi mál kirkjunnar við alla ákvarðanatöku og sveit forsætisráðsins eða farand-háráðið.

37 Háráðið í Síon myndar sveit, sem hefur sama vald varðandi mál kirkjunnar við alla ákvarðanatöku og ráð hinna tólf í stikum Síonar.

38 Það er skylda farand-háráðsins að kalla til hina sjötíu fremur en nokkra aðra, þegar þeir þarfnast aðstoðar, til að gegna hinum ýmsu köllunum við boðun og framkvæmd fagnaðarerindisins.

39 Það er skylda hinna tólf í öllum stórum greinum kirkjunnar að vígja guðspjallaþjóna, eins og þeim verður falið með opinberun —

40 Regla þessa prestdæmis var staðfest og skyldi hún ganga frá föður til sonar og tilheyra réttilega beinum afkomendum hinna útvöldu niðja, sem fyrirheitið fengu.

41 Þessi regla var sett á dögum Adams og gekk í ættir á eftirfarandi hátt:

42 Frá Adam til Set, sem vígður var af Adam sextíu og níu ára gamall og hlaut blessun hans þremur árum fyrir dauða hans (Adams) og hlaut það fyrirheit Guðs frá föður sínum, að afkomendur hans yrðu Drottins útvöldu og yrðu varðveittir allt til endiloka jarðar —

43 Vegna þess að hann (Set) var fullkominn maður og lifandi eftirmynd föður síns, líktist hann föður sínum svo í öllu, að einungis mátti milli þeirra greina af aldri hans.

44 Enos var vígður af hendi Adams eitt hundrað þrjátíu og fjögurra ára og fjögurra mánaða gamall.

45 Guð vitjaði Kenans í eyðimörkinni á fertugasta aldursári hans og hann hitti Adam á leið hans til staðarins Sedólamak. Hann var áttatíu og sjö ára þegar hann hlaut vígslu sína.

46 Mahalalel var fjögur hundruð níutíu og sex ára og sjö daga gamall þegar hann var vígður af hendi Adams, sem einnig blessaði hann.

47 Jared var tvö hundruð ára gamall þegar hann var vígður af hendi Adams, sem einnig blessaði hann.

48 Enok var tuttugu og fimm ára gamall þegar hann var vígður af hendi Adams, og hann var sextíu og fimm og Adam blessaði hann.

49 Og hann sá Drottin og hann gekk með honum og var stöðugt fyrir augliti hans. Og hann gekk með Guði í þrjú hundruð sextíu og fimm ár, og var þannig fjögur hundruð og þrjátíu ára þegar hann var numinn upp.

50 Metúsala var eitt hundrað ára þegar hann var vígður af hendi Adams.

51 Lamek var þrjátíu og tveggja ára þegar hann var vígður af hendi Sets.

52 Nói var tíu ára þegar hann var vígður af hendi Metúsala.

53 Þremur árum fyrir dauða sinn kallaði Adam Set, Enok, Kenan, Mahalalel, Jared, Enok og Metúsala, sem allir voru háprestar, og aðra afkomendur sína, sem réttlátir voru, til Adam-ondi-Ahman dalsins og veitti þeim þar síðustu blessun sína.

54 Og Drottinn birtist þeim og þeir risu á fætur og blessuðu Adam og kölluðu hann Míkael, höfðingjann, erkiengilinn.

55 Og Drottinn hughreysti Adam og mælti til hans: Ég hef sett þig fremstan, og frá þér mun koma fjöldi þjóða og þú ert höfðingi þeirra að eilífu.

56 Og Adam stóð upp mitt á meðal safnaðarins, og þótt hann væri beygður af elli, sagði hann fyrir um það sem henda mundi afkomendur hans allt til síðustu kynslóðar, fylltur af heilögum anda.

57 Allt var þetta skráð í bók Enoks og um það mun vitnað á sínum tíma.

58 Það er einnig skylda hinna tólfvígja og koma reglu á alla aðra embættismenn kirkjunnar, í samræmi við þá opinberun, sem segir:

59 Til kirkju Krists í landi Síonar, til viðbótar lögum kirkjunnar varðandi málefni hennar —

60 Sannlega segi ég yður, segir Drottinn hersveitanna: Ráðandi öldunga verður að hafa, sem eru í forsæti þeirra, er gegna embætti öldungs —

61 Og einnig presta sem eru í forsæti þeirra, er gegna embætti prests —

62 Og einnig kennara í forsæti þeirra, sem gegna embætti kennara, á sama hátt, og einnig djákna —

63 Og þannig frá djákna til kennara og frá kennara til prests og frá presti til öldungs, sérhver eins og tilnefning hans segir til um, í samræmi við sáttmála og fyrirmæli kirkjunnar.

64 Þá kemur hið háa prestdæmi, sem er æðst allra.

65 Þess vegna hlýtur einn að vera tilnefndur af hinu háa prestdæmi til að vera í forsæti prestdæmisins, og skal hann nefndur forseti hins háa prestdæmis kirkjunnar —

66 Eða með öðrum orðum, ráðandi háprestur yfir hinu háa prestdæmi kirkjunnar.

67 Frá honum kemur framkvæmd helgiathafna og blessana til kirkjunnar, með handayfirlagningu.

68 Þess vegna er embætti biskups ekki jafnt því, þar eð embætti biskups starfar að stundlegum málum —

69 Engu að síður verður hið háa prestdæmi að velja biskupinn, nema hann sé beinn afkomandi Arons —

70 Því að sé hann ekki beinn afkomandi Arons getur hann ekki haft lykla þessa prestdæmis.

71 Þó má setja háprest, það er eftir reglu Melkísedeks, í embætti til að starfa að stundlegum málum, þar eð hann fyrir sannleiksandann hefur þekkingu á þeim —

72 Og einnig til að vera dómari í Ísrael, til að vinna að málum kirkjunnar, til að dæma í málum hinna brotlegu eftir framburði vitna, sem lagður verður fyrir hann, í samræmi við lögin, með aðstoð ráðgjafa hans, sem hann hefur valið eða mun velja meðal öldunga kirkjunnar.

73 Þetta er skylda biskups, sem ekki er beinn afkomandi Arons, heldur hefur verið vígður hinu háa prestdæmi eftir reglu Melkísedeks.

74 Þannig skal hann vera dómari, já, almennur dómari meðal íbúa Síonar eða í stiku Síonar eða í hverri grein kirkjunnar, þar sem hann er settur til þessarar helgu þjónustu, þar til mörk Síonar verða færð út og nauðsynlegt reynist að hafa fleiri biskupa eða dómara í Síon eða annars staðar.

75 Og verði fleiri biskupar útnefndir, skulu þeir starfa í þessu sama embætti.

76 En beinn afkomandi Arons hefur lagalegan rétt til forsætisráðs þessa prestdæmis, til lykla þessarar helgu þjónustu, til að starfa sjálfstætt í embætti biskups án ráðgjafa, til að sitja sem dómari í Ísrael, nema þegar forseti hins háa prestdæmis er yfirheyrður, eftir reglu Melkísedeks.

77 Og ákvörðun þessara ráða, hvors um sig, sé í samræmi við þau boð, sem segja:

78 Sannlega segi ég yður enn: Mikilvægustu og erfiðustu mál kirkjunnar, þegar ekki næst eining um ákvörðun biskups eða dómaranna, séu afhent og borin undir ráð kirkjunnar frammi fyrir forsætisráði hins háa prestdæmis.

79 Og forsætisráð hins háa prestdæmisráðs skal hafa vald til að kalla aðra hápresta, já, tólf, til að þjóna sem ráðgjafar. Og þannig skulu forsætisráð hins háa prestdæmis og ráðgjafar þess hafa vald til að dæma eftir framburði vitna í samræmi við lög kirkjunnar.

80 Og eftir þann úrskurð skal þess ekki minnst framar fyrir Drottni, því að þetta er æðsta ráð kirkju Guðs og lokaákvörðun í ágreiningi um andleg efni.

81 Enginn, sem tilheyrir kirkjunni, stendur utan valdsviðs þessa ráðs kirkjunnar.

82 Og brjóti forseti hins háa prestdæmis af sér, skal hans minnst fyrir almennu ráði kirkjunnar, sem njóta skal aðstoðar tólf ráðgjafa hins háa prestdæmis —

83 Og úrskurður sá, er þeir fella yfir honum, skal binda endi á ágreining er hann snertir.

84 Þannig skal enginn undanþeginn réttvísi og lögmálum Guðs, svo að allt sé gjört af reglu og hátíðleik fyrir honum, í samræmi við sannleika og réttlæti.

85 Og sannlega segi ég yður enn, að skylda forseta djáknaembættis er að vera í forsæti tólf djákna, að sitja í ráði með þeim og kenna þeim skyldur þeirra, að hver uppbyggi annan, eins og segir í sáttmálunum.

86 Og einnig er skylda forseta kennaraembættis að vera í forsæti tuttugu og fjögurra kennara og sitja í ráði með þeim, kenna þeim skyldur embættis síns, eins og segir í sáttmálunum.

87 Einnig er skylda forseta Aronsprestdæmis að vera í forsæti fjörutíu og átta presta og sitja í ráði með þeim, kenna þeim skyldur embættis síns, eins og segir í sáttmálunum —

88 Þessi forseti skal vera biskup, því að það er ein af skyldum þessa prestdæmis.

89 Enn fremur, skylda forseta öldungaembættis er að vera í forsæti níutíu og sex öldunga og sitja í ráði með þeim og kenna þeim samkvæmt sáttmálunum.

90 Þetta forsætisráð er annað en ráð hinna sjötíu, og er ætlað þeim, sem ekki ferðast um heiminn.

91 Og enn fremur, skylda forseta hins háa prestdæmisembættis er að vera í forsæti allrar kirkjunnar, og vera líkt og Móse —

92 Sjá, hér er viska. Já, að vera sjáandi, opinberari, þýðandi og spámaður, og njóta allra gjafa Guðs, sem hann veitir yfirmanni kirkjunnar.

93 Og það er samkvæmt þeirri sýn, sem sýnir reglu hinna sjötíu, að þeir hafi sjö forseta, sem eru í forsæti þeirra og valdir eru úr hópi hinna sjötíu —

94 Og sjöundi forseti þessara forseta skal vera í forsæti hinna sex —

95 Og þessir sjö forsetar skulu velja aðra sjötíu auk hinna fyrri sjötíu, sem þeir tilheyra, og eiga að vera í forsæti þeirra —

96 Og einnig aðra sjötíu, þar til þeir eru sjö sinnum sjötíu, ef starfið í víngarðinum gjörir það nauðsynlegt.

97 Og þessir sjötíu skulu vera farand-þjónar, fyrst til Þjóðanna og síðan Gyðinganna.

98 En aðrir embættismenn kirkjunnar, sem hvorki tilheyra hinum tólf né hinum sjötíu, eru ekki skuldbundnir til að ferðast um meðal allra þjóða, heldur skulu þeir ferðast eins og aðstæður þeirra krefja, þó að þeir kunni að halda jafn háum og ábyrgðarmiklum embættum í kirkjunni.

99 Lát því hvern mann læra skyldu sína og starfa af fullri kostgæfni í því embætti, sem hann hefur verið tilnefndur í.

100 Sá, sem er hyskinn, skal ekki teljast verðugur þess að standast, og sá sem ekki lærir skyldu sína og reynist ekki þóknanlegur, skal ekki teljast verðugur þess að standast. Vissulega ekki. Amen.