Ritningar
Kenning og sáttmálar 33


33. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Ezra Thayre og Northrops Sweet í Fayette, New York, í október 1830. Við kynningu þessarar opinberunar staðfestir saga Josephs Smith, að „Drottinn… er ávallt reiðubúinn að leiðbeina þeim, sem af kostgæfni leita í trú.“

1–4, Verkamenn eru kallaðir til að boða fagnaðarerindið á elleftu stundu; 5–6, Kirkjan er stofnuð og hinum kjörnu skal safnað saman; 7–10, Iðrist, því að himnaríki er í nánd; 11–15, Kirkjan er byggð á bjargi fagnaðarerindisins; 16–18, Undirbúið komu brúðgumans.

1 Sjá, ég segi yður, þjónar mínir Ezra og Northrop: Opnið eyru yðar og hlýðið á rödd Drottins Guðs yðar, en orð hans er lifandi og máttugt, beittara en tvíeggjað sverð, er smýgur í gegnum merg og bein, sál og anda, og greinir hugsanir og áform hjartans.

2 Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að þér eruð kallaðir til að hefja upp raust yðar sem með lúðurhljómi, til að boða fagnaðarerindi mitt spilltri og rangsnúinni kynslóð.

3 Því að sjá, akurinn er þegar hvítur til uppskeru, og þetta er hin ellefta stund og í síðasta sinn sem ég mun kalla á verkamenn í víngarð minn.

4 Og víngarður minn hefur spillst gjörsamlega, og enginn gjörir gott utan fáeinir, og þeim skjátlast í mörgum tilvikum vegna prestaslægðar, og allra hugir eru spilltir.

5 Og sannlega, sannlega segi ég yður, að þessa kirkju hef ég stofnað og kallað út úr óbyggðunum.

6 Og einmitt þannig mun ég safna mínum kjörnu saman úr öllum fjórum skautum heimsins, öllum þeim, sem trúa munu á mig og hlýða rödd minni.

7 Já, sannlega, sannlega segi ég yður, að akurinn er þegar hvítur til uppskeru. Beitið þess vegna sigð yðar og uppskerið af öllum mætti yðar, huga og styrk.

8 Ljúkið upp munni yðar og hann skal fyllast, og þér skuluð jafnvel verða eins og Nefí til forna, sem ferðaðist frá Jerúsalem út í óbyggðirnar.

9 Já, ljúkið upp munni yðar og hlífið yður eigi, og bök yðar skulu hlaðin kornbindum, því að tak eftir, ég er með yður.

10 Já, ljúkið upp munni yðar og hann skal fyllast og segið: Iðrist, iðrist og greiðið Drottni veg og gjörið beinar brautir hans, því að himnaríki er í nánd —

11 Já, iðrist og látið skírast, hver og einn, til fyrirgefningar synda yðar. Já, látið skírast af vatni, og síðan kemur skírn af eldi og af heilögum anda.

12 Sjá, sannlega, sannlega segi ég yður, þetta er fagnaðarerindi mitt, og hafið hugfast að þeir skulu eiga trú á mig, ella geta þeir á engan hátt frelsast —

13 Og á þessu bjargi mun ég byggja kirkju mína. Já, á þessu bjargi eruð þér byggðir, og ef þér eruð stöðugir, munu hlið heljar eigi á yður sigrast.

14 Og þér skuluð hafa hugfast að halda reglur og sáttmála kirkjunnar.

15 Og hverja þá, sem trúa, skuluð þér staðfesta í kirkju minni með handayfirlagningu, og ég mun veita þeim gjöf heilags anda.

16 Og Mormónsbók og hinar heilögu ritningar hef ég gefið yður til leiðsagnar, og kraftur anda míns lífgar allt.

17 Verið þess vegna staðfastir og biðjið án afláts, látið loga á hreinum lömpum yðar og hafið olíu með yður, svo að þér séuð reiðubúnir við komu brúðgumans —

18 Því að sjá, sannlega, sannlega segi ég yður, að ég kem skjótt. Já, vissulega. Amen.