Ritningar
Kenning og sáttmálar 77


77. Kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, í kringum mars 1832. Í sögu Josephs Smith segir: „Við þýðingu á ritningunum fékk ég eftirfarandi skýringar á opinberun Jóhannesar.“

1–4, Dýr hafa anda og munu dvelja í eilífri sælu; 5–7, Stundleg tilvera þessarar jarðar er 7.000 ár; 8–10, Ýmsir englar endurreisa fagnaðarerindið og þjóna á jörðu; 11, Innsiglun hinna 144.000; 12–14, Kristur mun koma í upphafi sjö þúsundasta ársins; 15, Tveir spámenn verða upp vaktir fyrir Gyðingana.

1 Sp.: Hvert er glerhafið, sem Jóhannes talar um í 4. kapítula og 6. versi Opinberunarinnar?Svar: Það er jörðin, helguð, ódauðleg og eilíf.

2 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja verurnar fjórar, sem talað er um í sama versi?Svar: Það er líkingamynd, sem opinberarinn Jóhannes notar, er hann lýsir himninum, paradís Guðs, hamingju mannsins, dýranna, skriðkvikindanna og fugla loftsins; hið andlega í líkingu hins stundlega, og hið stundlega í líkingu hins andlega; andi mannsins í líkingu persónu sinnar, sem og andi dýranna og sérhverrar annarrar skepnu, sem Guð hefur skapað.

3 Sp.: Eru þessar fjórar verur einskorðaðar við einstakar skepnur eða sýna þær tegundir eða flokka?Svar: Þær einskorðast við fjögur einstök dýr, sem sýnd voru Jóhannesi og sýna skyldu dýrð hinna mismunandi tegunda lífveranna, hverrar í sinni ákveðnu reglu eða sköpunarsviði, í gleði þeirra yfir eilífri sælu sinni.

4 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja augun og vængina, sem dýrin hafa?Svar: Augun tákna ljós og þekkingu, það er að segja, þau eru full af þekkingu, og vængirnir tákna kraft, til að hreyfa sig, framkvæma o. s. frv.

5 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja öldungana tuttugu og fjóra, sem Jóhannes talar um?Svar: Okkur ber að skilja, að þessir öldungar, sem Jóhannes sá, voru öldungar, sem höfðu verið trúir í hinni helgu þjónustu, en voru látnir; sem tilheyrðu kirkjunum sjö og voru þá í paradís Guðs.

6 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja bókina, sem Jóhannes sá, sem innsigluð var á bakhlið með sjö innsiglum?Svar: Okkur ber að skilja, að hún geymir opinberaðan vilja, leyndardóma og verk Guðs, hið hulda í áætlun hans varðandi þessa jörð, á sjö þúsund ára lífsskeiði hennar eða stundlegri tilveru.

7 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja innsiglin sjö, sem hún var innsigluð með?Svar: Okkur ber að skilja, að fyrsta innsiglið varðar fyrstu þúsund árin, annað táknar næstu þúsund árin og þannig áfram til hins sjöunda.

8 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja englana fjóra, sem talað er um í 7. kapítula og 1. versi Opinberunarinnar?Svar: Okkur ber að skilja, að þeir eru fjórir englar, útsendir af Guði, og er þeim gefið vald yfir hinum fjóru heimshlutum, að bjarga lífi eða tortíma því. Þetta eru þeir, sem hafa hið ævarandi fagnaðarerindi að færa hverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð. Þeir hafa vald til að loka himnunum, að innsigla til lífs eða varpa niður til myrkravalda.

9 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja engilinn, sem stígur upp frá austri, Opinberunin, 7. kapítuli og 2. vers?Svar: Okkur ber að skilja, að engillinn, sem stígur upp frá austri, er sá, sem fengið hefur innsigli lifanda Guðs yfir hinum tólf ættkvíslum Ísraels. Þess vegna hrópar hann til englanna fjögurra, sem hafa hið ævarandi fagnaðarerindi, og segir: Vinnið ekki jörðunni grand og heldur ekki hafinu, né trjánum, þar til er vér höfum innsiglað þjóna Guðs vors á ennum þeirra. Og ef þér viljið veita því viðtöku, þá er þetta Elías, sem koma átti og safna saman ættkvíslum Ísraels og endurreisa alla hluti.

10 Sp.: Hvenær mun því lokið, sem talað er um í þessum kapítula?Svar: Því mun lokið á sjötta árþúsundinu, eða við opnun sjötta innsiglisins.

11 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja innsiglun hinna eitt hundrað fjörutíu og fjögurra þúsunda af öllum ættkvíslum Ísraels — tólf þúsund af hverri ættkvísl?Svar: Okkur ber að skilja, að þeir, sem innsiglaðir eru, eru háprestar, vígðir hinni heilögu reglu Guðs, til að framkvæma hið ævarandi fagnaðarerindi. Því þetta eru þeir, sem vígðir eru af hverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð, af þeim englum, sem gefið er vald yfir þjóðum jarðarinnar, til að leiða alla þá, sem vilja, inn í kirkju frumburðarins.

12 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja básúnublásturinn, sem talað er um í 8. kapítula Opinberunarinnar?Svar: Okkur ber að skilja, að eins og Guð skapaði heiminn á sex dögum og lauk á sjöunda degi verki sínu og helgaði það og myndaði einnig manninn úr dufti jarðar, svo mun Drottinn Guð og við upphaf sjöunda árþúsundsins helga jörðina, og fullkomna sáluhjálp mannsins og dæma alla hluti, og endurleysa allt, utan það, sem hann hefur ekki tekið sér vald yfir, þegar hann hefur innsiglað allt, til fullkomnunar öllu. Og básúnuhljómur sjöunda engilsins er undirbúningur og lok verks hans, við upphaf sjöunda árþúsundsins — er greiðir veginn fyrir komutíma hans.

13 Sp.: Hvenær mun því lokið, sem ritað er um í 9. kapítula Opinberunarinnar?Svar: Því mun lokið eftir opnun sjöunda innsiglisins, fyrir komu Krists.

14 Sp.: Hvernig ber okkur að skilja litlu bókina, sem Jóhannes át, og talað er um í 10. kapítula Opinberunarinnar?Svar: Okkur ber að skilja, að það var köllun hans og vígsla að safna saman ættkvíslum Ísraels. Sjá, þetta er Elías, sem, eins og ritað er, verður að koma og endurreisa alla hluti.

15 Sp.: Hvernig ber að skilja vottana tvo í 11. kapítula Opinberunarinnar?Svar: Þeir eru tveir spámenn, sem vaktir verða upp fyrir Gyðingaþjóðina á síðustu dögum, á tíma endurreisnarinnar, og spá skulu fyrir Gyðingana, eftir að þeir hafa safnast saman og byggt upp Jerúsalemborg í landi feðra sinna.