Ritningar
Bók Móse 3


3. Kapítuli

(Júní — október 1830)

Guð skapaði allt andlega, áður en það var náttúrlega á jörðunni — Hann skapaði manninn, fyrsta holdið, á jörðunni — Konan er meðhjálp fyrir manninn.

1 Þannig voru himinn og jörð fullgerð og allur skari þeirra.

2 Og á sjöunda degi lauk ég, Guð, verki mínu og öllu sem ég hafði gjört. Og ég hvíldist hinn sjöunda dag frá öllu verki mínu, og allt var fullgert sem ég hafði gjört, og ég, Guð, sá, að það var gott —

3 Og ég, Guð, blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist ég af öllu verki mínu, sem ég, Guð, hafði skapað og gjört.

4 Og sjá, nú segi ég þér, að þetta eru sköpunarstig himins og jarðar, þegar þau voru sköpuð, á þeim degi, þegar ég, Drottinn Guð, gjörði himin og jörð —

5 Og hverja plöntu vallarins, áður en hún var á jörðunni, og hverja jurt vallarins, áður en hún óx. Því að alla hluti, sem ég, Drottinn Guð, hef talað um, skapaði ég andlega, áður en þeir urðu náttúrlegir á jörðunni. Því að ég, Drottinn Guð, hafði ekki látið rigna á jörðina. Og ég, Drottinn Guð, hafði skapað öll mannanna börn, en ekki enn mann til að yrkja jörðina, því að á himni skapaði ég þau. En enn var hvorki hold á jörðunni né í vatninu, né heldur í loftinu —

6 En ég, Drottinn Guð, talaði, og þoku lagði upp af jörðunni og vökvaði allt yfirborð jarðar.

7 Og ég, Drottinn Guð, myndaði mann af dufti jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Og maðurinn varð lifandi sál, hið fyrsta hold á jörðu, sem og fyrsti maðurinn. Engu að síður var allt skapað áður, en andlega var það skapað og gjört, samkvæmt orði mínu.

8 Og ég, Drottinn Guð, gróðursetti aldingarð austan til í Eden og setti þar manninn, sem ég hafði myndað.

9 Og ég, Drottinn Guð, lét á náttúrlegan hátt vaxa upp af jörðunni sérhvert tré, sem girnilegt er á að líta fyrir manninn, og maðurinn fékk litið það. Og einnig það varð lifandi sál, því að það varð andlegt þann dag er ég skapaði það, því það er á því sviði, sem ég, Guð, skapaði það á, já, allt, sem ég ætlaði manninum til nota. Og maðurinn sá, að það var gott til fæðu. Og ég, Drottinn Guð, gróðursetti og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og einnig skilningstré góðs og ills.

10 Og ég, Drottinn Guð, lét fljót renna frá Eden, til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum höfuðám.

11 Og ég, Drottinn Guð, nefndi þá fyrstu Píson og hún fellur um allt landið Havíla, þar sem ég, Drottinn Guð, skapaði mikið gull —

12 Og gull þess lands var gott, og þar fékkst bedolakharpeis og sjóamsteinar.

13 Og önnur áin var nefnd Gíhon, hin sama og fellur um allt Kúsland.

14 Og þriðja áin var nefnd Kíddekel, sú sem fellur fyrir austan Assúr. Fjórða stóráin var Efrat.

15 Og ég, Drottinn Guð, tók manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.

16 Og ég, Drottinn Guð, bauð manninum og sagði: Af öllum trjám í aldingarðinum er þér frjálst að eta —

17 En af skilningstré góðs og ills skalt þú ekki eta. Þó mátt þú sjálfur velja, því að það er þér gefið, en haf hugfast, að ég fyrirbýð það, því að á þeim degi, sem þú etur af því, munt þú örugglega deyja.

18 Og ég, Drottinn Guð, sagði við minn eingetna: Eigi er gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil því gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.

19 Og ég, Drottinn Guð, myndaði af jörðunni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og bauð þeim að koma til Adams, til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og þau voru einnig lifandi sálir, því að ég, Guð, blés þeim lífsanda í brjóst og bauð, að hvert það heiti, sem Adam gæfi hverri skepnu, skyldi vera nafn hennar.

20 Og Adam gaf öllum fénaðinum nafn, og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir Adam var þar ekki við hans hæfi.

21 Og ég, Drottinn Guð, lét fastan svefn falla á Adam, og hann svaf, og ég tók eitt af rifjum hans og græddi holdið aftur í þess stað —

22 Og ég, Drottinn Guð, gjörði konu af rifinu, sem ég hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.

23 Og Adam sagði: Þetta veit ég nú, að er bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal kvenmaður nefnd, því að hún er af karlmanni tekin.

24 Þess vegna skal maðurinn yfirgefa föður sinn og móður sína og halda sér fast að eiginkonu sinni. Og þau verði eitt hold.

25 Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.