Aðalráðstefna
Trúboðsþjónusta hefur blessað líf mitt eilíflega
Aðalráðstefna apríl 2022


Trúboðsþjónusta hefur blessað líf mitt eilíflega

Ég bið þess að þið, piltar og stúlkur, ásamt foreldrum ykkar, munið skilja og vita hvernig trúboðsþjónusta blessar líf ykkar eilíflega.

Þakka þér fyrir, Nelson forseti, fyrir að miðla á ný leiðsögn um trúboðsþjónustu.

Bræður og systur, fyrir nokkrum árum, á meðan ég flutti ræðu á aðalráðstefnu, versnaði skyndilega sjón mín á vinstra auga vegna kölkunar í augnbotnum og í kjölfarið versnaði ástandið, svo ég hef takmarkaða sjón á því auga.

Ég er sífellt þakklátari fyrir annars konar sjón, eftir að hafa glímt við þessa áskorun, þar með talda eftirhyggju. Þegar ég hef litið til baka á líf mitt, hef ég getað gert mér grein fyrir ákveðnum upplifunum sem breyttu miklu. Ein þessara upplifana er það hvernig þjónusta mín í fastatrúboði á Englandi sem ungur maður, hefur blessað líf mitt og mótað andleg örlög mín.

Ég hef velt fyrir mér efnahagsáskorunum tengdum heimskreppunni á fjórða áratug 20. aldar, sem olli ógæfu fyrir foreldra mína og fjölskyldu okkar. Faðir minn lagði svo hart að sér við að bjarga bílasölunni sinni og því að halda fjölskyldunni á floti í þessum erfiðu aðstæðum, að um tíma hættu foreldrar mínir að sækja kirkju.

Þrátt fyrir að sækja ekki kirkjufundi sem fjölskylda, stöðvaði það mig ekki frá því að mæta með vinum mínum annað veifið.

Í þá daga var það í hugskoti mínu að fara í trúboð, en þetta var eitthvað sem ég ræddi ekki við foreldra mína.

Þegar við vorum í háskóla, ákváðu ég og nokkrir vinir mínir að þjóna í trúboði. Ég átti fund með biskupnum mínum og fyllti út trúboðsumsóknina þegar foreldrar mínir voru ekki í bænum. Þegar foreldrar mínir sneru aftur, kom ég þeim á óvart með þeim fréttum að ég hefði verið kallaður til þjónustu á Stóra-Bretlandi. Ég er þakklátur fyrir ákafan stuðning þeirra við þessa ákvörðun og fyrir góða vini, sem hjálpuðu mér að taka ákvörðun um að þjóna.

Trúboðsþjónusta mín bjó mig undir að vera betri eiginmaður og faðir, ásamt því að ná árangri í viðskiptum. Hún bjó mig einnig undir lífslanga þjónustu við Drottin í kirkju hans.

Á aðalráðstefnu í apríl 1985, fékk ég það verkefni að tala á prestdæmisfundinum. Ég beindi orðum mínum til piltanna. Ég talaði um undirbúning fyrir þjónustu sem trúboði. Ég sagði: „Þegar ég hugsa um alla þá þjálfun sem ég hef hlotið í kirkjuverkefnum, hefur ekkert verið mér mikilvægara en sú þjálfun sem ég hlaut er ég þjónaði nítján ára gamall sem fastatrúboði.“1

Drottinn þekkir ykkur. Þegar þið þjónið í trúboði, munuð þið eiga upplifanir sem hjálpa ykkur að kynnast honum betur. Þið munuð vaxa andlega í þjónustu við hann. Þið verðið send í hans nafni til að þjóna öðrum. Hann mun gefa ykkur reynslu með hugljómun frá heilögum anda. Drottinn mun veita ykkur umboð til að kenna í hans nafni. Þið getið sýnt honum að hann getur treyst ykkur og reitt sig á ykkur.

Fyrir rúmlega fimm mánuðum, slógust í för með mér öldungar Jeffrey R. Holland og Quentin L. Cook, sem einnig þjónuðu sem trúboðar á Bretlandseyjum, og heimsóttu meðlimi og trúboða í því fallega landi. Þegar við vorum þar, rifjaði ég upp reynslu mína sem ungur trúboði. Ég ber vitni um að á trúboði mínu komst ég í raun um að himneskur faðir minn og frelsari minn, Jesús Kristur, þekktu mig og elskuðu.

Það var mér blessun að fá tvo dásamlega trúboðsforseta, Selvoy J. Boyer og Stayner Richards, ásamt tryggum förunautum þeirra, Gladys Boyer og Jane Richards. Þegar ég lít til baka, get ég séð enn skýrar að þeir treystu mér og elskuðu mig. Þeir kenndu mér fagnaðarerindið. Þeir höfðu miklar væntingar til mín. Þeir veittu mér mörg erfið verkefni og þá ábyrgð að vera í forystu, til að hjálpa mér að vaxa og búa mig undir þjónustu fyrir lífstíð.

Ég hef einnig hugleitt það að vera kallaður af Spencer W. Kimball forseta til að vera í forsæti fyrir Torontó-trúboðið í Kanada, ásamt kærri eiginkonu minni, Barböru, með börn okkar okkur við hlið. Kimball forseti kallaði okkur til þjónustu í apríl 1974, stuttu eftir að hafa gefið innblásinn boðskap til trúboða undir heitinu: „Þegar heimurinn mun snúast til trúar.“2 Í þessum boðskap útskýrði Kimball forseti sýn sína um það hvernig fagnaðarerindinu yrði dreift um allan heiminn. Hann bað um marga fleiri trúboða hvaðanæva að úr heiminum. Hann minnti okkur á væntingar Drottins, „að sérhver maður … hefji upp aðvörunarraust til íbúa jarðar.“3 Kennsla Kimballs forseta um væntingarnar til pilta til að þjóna í trúboði, varð umræðuefni á heimilum um allan heim. Þessar væntingar hafa ekki breyst. Ég er þakklátur fyrir það að Russell M. Nelson forseti hafi í morgun einnig ítrekað væntingar Drottins.

Nær 10 ár eru síðan Thomas S. Monson forseti tilkynnti lækkun trúboðsaldurs fyrir pilta og stúlkur.4 Að mínu mati var helsta ástæða þessarar breytingar sú að gefa fleiri ungmennum lífsumbreytandi tækifæri til að þjóna sem trúboði.

Sem postuli Drottins Jesú Krists, leita ég nú til ykkar, pilta – og þeirra stúlkna sem þrá að þjóna í trúboði – til að hefja umræður þegar í stað við foreldra ykkar um að þjóna í trúboði. Ég býð ykkur líka að ræða við vini ykkar um þjónustu sem trúboði og ef einn vina ykkar er ekki ákveðinn, hvetjið hann til að ræða við biskupinn sinn.

Skuldbindið ykkur og himneskum föður ykkar um að þjóna í trúboði og að upp frá þessum tíma munið þið halda hjörtum ykkar, höndum og hugum hreinum og verðugum. Ég býð ykkur að öðlast sterkbyggðan vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Feður og mæður þessara dásamlegu ungmenna, þið eruð í lykilhlutverki í undirbúningsferlinu. Byrjið strax í dag að ræða um trúboðsþjónustu við börnin ykkar. Við vitum að fjölskyldan hefur mest áhrif þegar kemur að undirbúningi pilta og stúlkna.

Ef þið eruð enn á réttu aldursbili fyrir trúboðsþjónustu en hafið ekki þjónað enn vegna faraldursins eða af öðrum ástæðum, býð ég ykkur núna að þjóna. Ræðið við biskup ykkar og búið ykkur undir að þjóna Drottni.

Ég hvet ykkur, biskupar, til að liðsinna öllum piltum og stúlkum sem nálgast trúboðsaldurinn til að búa sig undir þjónustu og ég hvet ykkur, biskupa, einnig til að finna þá sem hafa náð tilskyldum aldri, en hafa ekki enn þjónað. Bjóðið öllum piltum að verða trúboði, ásamt öllum þeim stúlkum sem þrá að þjóna.

Við þökkum þeim trúboðum sem þjóna um þessar mundir. Trúboð ykkar hefur farið fram mitt í heimsfaraldri. Þetta þýðir að trúboðsupplifun ykkar hafi verið ólík minni trúboðsupplifun eða upplifunum allra trúboða sem þjónuðu fyrir árið 2020. Ég veit að það hefur ekki verið einfalt. Jafnvel á þessum erfiðu tímum, hefur Drottinn verk fyrir ykkur að vinna og þið hafið sinnt því afskaplega vel. Þið hafið til dæmis notað tækni á nýjan hátt, til að finna þá sem tilbúnir eru að læra um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists. Með því að þjóna af dugnaði og í samræmi við getu ykkar, veit ég að Drottinn gleðst yfir framtaki ykkar. Ég veit að þjónusta ykkar mun blessa líf ykkar.

Þegar þið verðið leyst frá trúboði ykkar, hafið þá í huga að þið eruð ekki leyst frá virkni í kirkjunni. Byggið á þeim góðu venjum sem þið lærðuð á trúboðinu, haldið áfram að styrkja vitnisburð ykkar, leggið hart að ykkur, biðjið og verið hlýðin Drottni. Virðið þá sáttmála sem þið hafið gert. Haldið áfram að blessa aðra og þjóna þeim.

Ég bið þess að þið, piltar og stúlkur, ásamt foreldrum ykkar, munið skilja og vita hvernig trúboðsþjónusta blessar líf ykkar eilíflega. Megið þið vita í hugum ykkar og finna í hjörtum ykkar mátt þess boðs sem Drottinn veitti hinum miklu trúboðum, sonum Mósía. Hann sagði: „Farið … og staðfestið orð mitt. Verið þolinmóðir í þjáningum yðar og þrengingum og sýnið … þannig gott fordæmi í mér, og ég mun gjöra yður að verkfæri í höndum mínum til hjálpræðis margri sál.“5

Megi Guð blessa ungmenni kirkjunnar til að öðlast þrá til að búa sig undir að þjóna honum, er auðmjúk bæn mín á þessum morgni, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. M. Russell Ballard, „Prepare to Serve,“ Ensign, maí 1985, 41.

  2. Sjá Spencer W. Kimball, „When the World Will Be Converted,“ Ensign, okt. 1974, 2–14. Þessi ræða var flutt 4. apríl 1974, á málstofu fyrir svæðisfulltrúa.

  3. Kenning og sáttmálar 63:37.

  4. Sjá Thomas S. Monson, „Velkomin á ráðstefnu,“ aðalráðstefna, okt. 2012.

  5. Alma 17:11.