Aðalráðstefna
Máttug breyting hjartans: „Ég hef ekkert meira að gefa þér“
Aðalráðstefna apríl 2022


Máttug breyting hjartans:

„Ég hef ekkert meira að gefa þér“

Þessi hjartans breyting er ekki atburður; það þarf trú, iðrun og stöðugt andlegt erfiði til að hún eigi sér stað.

Aðfaraorð

Föstudaginn 28. október 1588 bilaði stýrið í skipinu La Girona, sem var í eigu Flotans ósigrandi, svo aðeins var hægt að stjórna því með árum og rakst það á sker við Lacada Point á Norður-Írlandi.1

Skipinu hvolfdi. Einn skipbrotsmannanna sem barðist fyrir lífi sínu, var með gullhring sem eiginkona hans hafði gefið honum nokkrum mánuðum áður, með áletruninni: „Ég hef ekkert meira að gefa þér.“2

Orðtakið – „ég hef ekkert meira að gefa þér“ – og hringur sem myndaði hönd sem hélt á hjarta, var ástartjáning eiginkonu til eiginmanns síns.

Tenging við ritningar

Þegar ég las þessa sögu, hafði hún djúp áhrif á mig og ég hugsaði um boð frelsarans: „En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.“3

Mér varð líka hugsað um viðbrögð fólksins við orðum Benjamíns konungs: „Já, við trúum öllum þeim orðum, sem þú hefur til okkar mælt … [sem hafa] valdið svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar, að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka.“4

Persónuleg tenging

Leyfið mér að segja ykkur frá upplifun sem ég varð fyrir þegar ég var 12 ára, sem hefur áhrif á mig enn í dag.

Móðir mín sagði: „Eduardo, flýttu þér. Við erum sein á kirkjusamkomur.“

„Mamma, ég ætla að vera hjá pabba í dag,“ svaraði ég.

„Ertu viss um það? Þú verður að mæta á prestdæmissveitarfundinn þinn,“ sagði hún.

Ég svaraði: „Aumingja pabbi! Hann verður einn eftir. Ég ætla að vera hjá honum í dag.“

Pabbi var ekki meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Móðir mín og systur fóru á sunnudagssamkomur. Ég fór því að hitta pabba á verkstæðinu hans, þar sem honum fannst gott að vera á sunnudögum, og eins og ég hafði sagt mömmu, þá varði ég smá tíma, nokkrum mínútum, með honum, og spurði síðan: „Pabbi, er allt í lagi?“

Hann hélt áfram því áhugamáli sínu að gera við útvörp og klukkur og brosti bara til mín.

Ég sagði síðan við hann: „Ég ætla að fara að leika við vini mína.“

Án þess að líta upp, sagði pabbi við mig: „Í dag er sunnudagur. Áttu ekki að fara í kirkju?“

„Jú, en í dag sagði ég mömmu að ég myndi ekki fara,“ svaraði ég. Pabbi hélt áfram við áhugamálið og það fannst mér vera leyfi til að fara.

Um morguninn var mikilvægur fótboltaleikur og vinir mínir höfðu sagt mér að ég mætti ekki missa af honum og að við yrðum að vinna þann leik.

Áskorun mín var sú að ég þurfti að fara fram hjá kapellunni til að komast á fótboltavöllinn.

Ég flýtti mér ákveðið í átt að fótboltavellinum og stoppaði fyrir framan ásteytingarsteininn mikla, kapelluna. Ég hljóp að gangstéttinni á móti, þar sem voru stór tré, og ákvað að hlaupa á milli þeirra svo enginn sæi mig, því þetta var sá tími sem meðlimirnir voru að mæta á samkomurnar.

Ég kom rétt í þann mund sem leikurinn byrjaði. Ég gat spilað leikinn og farið heim áður en móðir mín kom heim.

Allt hafði gengið vel; liðið okkar hafði unnið og ég var himinlifandi. Þetta vel útfærða hlaup inn á völlinn fór þó ekki fram hjá ráðgjafa djáknasveitarinnar.

Bróðir Félix Espinoza hafði séð mig hlaupa hratt frá tré til trés, reynandi að vera óséður.

Í vikubyrjun kom bróðir Espinoza heim til mín og bað um að fá að tala við mig. Hann sagði ekkert um það sem hann hafði séð á sunnudaginn, né spurði hann mig hvers vegna ég hefði misst af fundinum mínum.

Hann rétti mér bara kennslubók og sagði: „Ég myndi vilja að þú kenndir í námsbekk prestdæmisins á sunnudaginn. Ég merkti við lexíuna fyrir þig. Hún er ekki erfið. Ég vil að þú lesir hana og ég kem eftir tvo daga til að hjálpa þér við undirbúning kennslunnar.“ Eftir að hafa sagt þetta, rétti hann mér handbókina og fór.

Ég vildi ekki kenna bekknum, en ég gat ekki fengið af mér að neita honum. Ég hafði hugsað mér að vera aftur hjá föður mínum – sem þýddi að það væri annar mikilvægur fótboltaleikur.

Bróðir Espinoza var einstaklingur sem unga fólkið mat mikils.5 Hann hafði fundið hið endurreista fagnaðarerindi og breytt lífi sínu eða, með öðrum orðum, hjarta sínu.

Þegar laugardagssíðdegi rann upp, hugsaði ég: „Jæja, kannski vakna ég veikur á morgun og þarf ekki að fara í kirkju.“ Það var ekki fótboltaleikurinn sem ég hafði lengur áhyggjur af; það var bekkurinn sem ég þurfti að kenna, einkum lexían um hvíldardaginn.

Sunnudagur rann upp og ég vaknaði hraustari en nokkru sinni áður. Ég hafði enga afsökun – enga undankomuleið.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég kenndi lexíu, en bróðir Espinoza var þarna við hlið mér og þetta var dagur máttugrar breytingar hjartans fyrir mig.

Frá þessari stundu tók ég að halda hvíldardaginn heilagan og með tímanum, með orðum Russells M. Nelson forseta, hefur hvíldardagurinn orðið mér feginsdagur.6

„Drottinn, ég gef þér allt; ég hef ekkert meira að gefa þér.“

Að öðlast

Hvernig öðlumst við hina máttugu breytingu hjartans? Hún hefst og á sér loks stað:

  1. Þegar við lærum ritningarnar til að öðlast þekkingu er styrkir trú okkar á Jesú Krist, sem síðan vekur löngun til að breytast.7

  2. Þegar við ræktum þessa löngun með bæn og föstu.8

  3. Þegar við tileinkum okkur í verki það sem orðið kennir eða færir okkur og við gerum sáttmála um að fela honum hjarta okkar, eins og fólk Benjamíns konungs gerði.9

Viðurkenning og sáttmálsgjörð

Hvernig vitum við að breyting á sér stað í hjarta okkar?10

  1. Þegar við viljum þóknast Guði í öllu.11

  2. Þegar við komum fram við aðra af kærleika, virðingu og hugulsemi.12

  3. Þegar við finnum að eiginleikar Krists eru að verða hluti af persónuleika okkar.13

  4. Þegar við finnum að leiðsögn heilags anda verður samfelldari.14

  5. Þegar við höldum eitthvað boðorð sem okkur hefur reynst erfitt að hlýða og höldum áfram að lifa eftir því.15

Höfum við ekki upplifað máttuga hjartans breytingu þegar við hlustum vandlega á leiðsögn leiðtoga okkar og ákveðum af glöðu geði að fylgja þeim?

„Drottinn, ég gef þér allt; ég hef ekkert meira að gefa þér.“

Viðhald og ávinningur

Hvernig viðhöldum við hinni máttugu breytingu?

  1. Þegar við meðtökum sakramentið vikulega og endurnýjum sáttmálann um að taka á okkur nafn Krists, höfum hann ávallt í huga og höldum boðorð hans.16

  2. Þegar við beinum lífi okkar í átt að musterinu.17 Reglubundin musterissókn mun gera okkur mögulegt að viðhalda nýju og endurnýjuðu hjarta, er við tökum þátt í helgiathöfnunum.

  3. Þegar við elskum og þjónum samferðafólki okkar með hirðisþjónustu og trúboðsstarfi.18

Okkur til gleði mun þessi innri breyting síðan eflast og vaxa, þar til hún leiðir til góðra verka.19

Þessi máttuga hjartans breyting vekur okkur frelsistilfinningu, traust og frið.20

Þessi hjartans breyting er ekki atburður; það þarf trú, iðrun og stöðugt andlegt erfiði til að hún eigi sér stað. Hún hefst þegar við þráum að lúta Drottni og sýnum hana með því að gera og halda sáttmála við hann.

Sú einstaka breytni hefur jákvæð áhrif bæði á okkur og fólkið umhverfis.

Með orðum Russells M. Nelson forseta: „Hugsið ykkur hve fljótt myndi greiðast úr hinum hrikalegu átökum um allan heim – og í persónulegu lífi okkar – ef við öll veldum að fylgja Jesú Kristi og hlýða kenningum hans.“21 Þessi breytni, að lifa eftir kenningum frelsarans, leiðir til máttugrar breytingar hjartans.

Kæru bræður og systur, ungt fólk og börn, þegar við tökum þátt í ráðstefnunni um helgina, látum þá orð spámanna okkar, sem munu koma frá Drottni, ná til hjartna okkar, til að upplifa máttuga breytingu.

Þeim sem hafa ekki enn gengið í hina endurreistu kirkju Drottins, býð ég að hlusta á trúboðana af einlægri löngun til að vita hvers Guð væntir af ykkur og upplifa þessa innri umbreytingu.22

Í dag er dagurinn til að ákveða að fylgja Drottni Jesú Kristi. „Drottinn, ég fel þér hjarta mitt; ég hef ekkert meira að gefa þér.“

Á sama hátt og hringurinn var endurheimtur eftir skipbrotið, mun okkur bjargað úr ofsafengnum sjó þessa lífs þegar við gefum Guði hjarta okkar og í því ferli erum við fáguð og hreinsuð með friðþægingu Krists og verðum „börn Krists“ og andlega „fædd af honum.“23 Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.