Aðalráðstefna
Guðlegt eðli ykkar og eilíf örlög
Aðalráðstefna apríl 2022


Guðlegt eðli ykkar og eilíf örlög

Ég býð ykkur að hafa Jesú Krist að þungamiðju í lífi ykkar og minnast grundvallarsanninda þema Stúlknafélagsins.

Kæru systur, þakka ykkur fyrir að vera hér. Það er mér heiður að fá að taka þátt í kvennahluta aðalráðstefnu. Ég hef endrum og eins notið þeirra forréttinda að sækja námsbekki Stúlknafélagsins. Lofið mér að benda á hið augljósa – ég er hvorki ungur né er ég kvenkyns! Ég hef þó lært að ég er ekki eins utangátta ef ég get þulið þema Stúlknafélagsins með stúlkunum. Hinar djúpstæðu kenningar sem kenndar eru í þema Stúlknafélagsins1 eru mikilvægar fyrir stúlkur en eiga við um alla, þar á meðal okkur sem ekki erum stúlkur.

Þema Stúlknafélagsins hefst með þessum orðum: „Ég er ástkær dóttir himneskra foreldra, með guðlegt eðli og eilíf örlög.“2 Þessi setning hefur að geyma fjögur mikilvæg sannindi. Í fyrsta lagi: Þið eruð ástkærar dætur. Ekkert sem þið gerið – eða gerið ekki – getur breytt því. Guð elskar ykkur vegna þess að þið eruð andadætur hans. Stundum getur verið að við finnum ekki fyrir elsku hans, en hún er samt alltaf til staðar. Elska Guðs er fullkomin.3 Hæfni okkar til að skynja þessa elsku er það ekki.

Andinn leikur mikilvægt hlutverk í að miðla okkur elsku Guðs.4 Þó er hægt að skyggja á áhrif heilags anda „vegna sterkra tilfinninga eins og reiði, haturs, … [eða] ótta … [líkt og] að reyna að finna milt bragð vínberja meðan borðaður er sterkur piparávöxtur. … [Ein bragðtegundin] gjörsigrar [hina].“5 Hegðun sem fjarlægir okkur frá heilögum anda, svo sem að syndga,6 gerir okkur einnig erfitt fyrir að greina elsku Guðs til okkar.

Á líkan hátt, getur elska Guðs meðal annars virst lítilvæg vegna erfiðra aðstæðna og líkamlegra eða geðrænna veikinda. Í slíkum aðstæðum, getur leiðsögn áreiðanlegra leiðtoga eða fagmanna oft verið gagnleg. Við getum einnig reynt að bæta næmni okkar fyrir elsku Guðs með því að spyrja okkur sjálf: „Er elska mín fyrir Guði stöðug eða elska ég hann á góðum dögum en ekki á slæmum dögum?“

Önnur sannindin eru að við eigum himneska foreldra, föður og móður.7 Kenningin um himneska móður barst með opinberun og er sértæk hjá Síðari daga heilögum. Dallin H. Oaks forseti útskýrði mikilvægi þessa sannleika: „Hugmyndafræði okkar hefst á himneskum foreldrum. Dýpsta þrá okkar er að vera eins og þau.“8

Afar lítið hefur verið opinberað um móður á himnum, en það sem við vitum er dregið saman í trúarefni sem hægt er að finna í Gospel Library smáforritinu.9 Þegar þið hafið lesið það sem þar er, vitið þið allt sem ég veit sjálfur um þetta viðfangsefni. Ég vildi að ég vissi meira. Þið gætuð líka haft spurningar og viljað finna fleiri svör. Það að leita frekari skilnings er mikilvægur hluti af andlegri þróun okkar, en farið varlega. Rökhyggja getur ekki komið í stað opinberunar.

Vangaveltur munu ekki leiða til meiri andlegri vitneskju, en þær geta leitt til blekkinga eða beint athygli okkar frá því sem opinberað hefur verið.10 Til dæmis kenndi frelsarinn lærisveinum sínum: „Þess vegna verðið þér ávallt að biðja til föðurins í mínu nafni.“11 Við fylgjum þessari forskrift og beinum tilbeiðslu okkar til himnesks föður í nafni Jesú Krists og biðjum ekki til himneskrar móður.12

Allt frá því að Guð útnefndi spámenn, hafa þeir umboð til að tala fyrir hans hönd. Þeir gefa ekki út kenningar „að eigin geðþótta“13 eða kenna það sem ekki hefur verið opinberað. Ígrundið orð spámannsins Bíleams í Gamla Testamentinu, sem boðnar voru mútur til að bölva Ísraelsþjóðinni, Móab til ávinnings. Bíleam sagði: „Þó að [konungur Móabs] gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli gæti ég ekki gengið gegn fyrirmælum Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru.“14 Síðari daga spámenn hafa svipaðar takmarkanir. Það er bæði hrokafullt og afkastalítið að krefjast opinberunar frá Guði. Þess í stað vonum við á Drottin og tímaáætlun hans, um að opinberun sannleika hans gerist með þeim hætti sem hann hefur komið á.15

Þriðju sannindin í fyrstu málsgrein þema Stúlknafélagsins er að við höfum „guðlegt eðli.“ Þetta er órjúfanlegt frá eðli okkar. Það er andlega „erfðafræðilegt,“ erft frá himneskum foreldrum okkar16 og krefst engrar viðleitni af okkar hálfu. Þetta er okkar mikilvægasta auðkenni, sama hvernig við kjósum annars að auðkenna okkur. Skilningur á þessum djúpstæða sannleika er mikilvægur öllum, en sérstaklega einstaklingum sem tilheyra hópum sem hafa sögulega verið jaðarsettir, kúgaðir eða þrælkaðir. Munið að mikilvægasta auðkenni ykkar tengist guðlegu eðli ykkar sem barni Guðs.

Fjórðu sannindin eru að við eigum okkur „eilíf örlög.“ Slíkum örlögum er ekki þröngvað upp á okkur. Eftir dauðann munum við taka á móti því sem við höfum gert okkur hæf fyrir og „njóta [aðeins] þess, sem [við erum fús] til að taka á móti.“17 Skilningur á eilífum örlögum okkar er háður ákvörðunum okkar. Þetta krefst þess að gera og halda helga sáttmála. Þessi sáttmálsvegur er leið okkar til Krists og byggist á fullkomnum sannleika og eilífum, óbreytanlegum lögmálum. Við getum ekki farið okkar eigin veg og búist við fyrirheitnum niðurstöðum Guðs. Það að vænta blessana hans, meðan eilífum lögmálum sem þær byggjast á er ekki hlýtt,18 er byggt á misskilningi, alveg eins og ef við snertum heitt helluborð og „ákveðum“ að brenna okkur ekki.

Þið vitið kannski að ég meðhöndlaði sjúklinga með hjartabilanir. Þeir fengu sínar bestu niðurstöður með því að fylgja rótgrónum, gagnreyndum meðferðaráformum. Þrátt fyrir þessa vitneskju, reyndu sumir sjúklingarnir að semja um öðruvísi meðferðaráform. Þeir sögðu: „Ég vil ekki taka svona mikið af lyfjum“ eða „ég vil ekki svona mikla eftirfylgni.“ Auðvitað höfðu sjúklingarnir frelsi til að taka eigin ákvarðanir, en ef þeir viku frá ákjósanlegustu meðferðaráformunum, liðu niðurstöðurnar fyrir það. Hjartasjúklingar geta ekki valið lakari leið og skellt skuldinni á hjartalækninn fyrir lakari útkomu.

Hið sama á við um okkur. Sú leið sem himneskur faðir mælir fyrir um, leiðir til bestu útkomunnar í eilífum skilningi. Okkur er frjálst að velja, en við getum ekki valið afleiðingar þess að fylgja ekki hinni opinberuðu leið.19 Drottinn hefur sagt: „Það, sem brýtur lögmál og stenst ekki með lögmáli, heldur reynir að setja sér sitt eigið lögmál, … getur hvorki helgast með lögmáli né með miskunn, réttvísi eða dómi.“20 Við getum ekki vikið frá áætlun himnesks föður og skellt skuldinni á hann fyrir lakari útkomu.

Önnur málsgrein þema Stúlknafélagsins segir: „Ég, sem lærisveinn Jesú Krists, leitast við að líkjast honum. Ég leita persónulegrar opinberunar og bregst við henni og þjóna öðrum í helgu nafni hans.“ Við getum byggt upp vitnisburð um Jesú Krist með því að starfa í trú.21 Við getum gert tilkall til þeirrar andlegu gjafar „að vita, að Jesús Kristur er sonur Guðs og að hann var krossfestur vegna synda heimsins.“ Við getum líka hlotið þá gjöf að trúa orðum þeirra sem vita það,22 þar til við vitum það sjálf. Við getum fylgt kenningum frelsarans og hjálpað öðrum að koma til hans. Á þennan hátt sameinumst við honum í verki hans.23

Þema Stúlknafélagsins heldur áfram: „Ég mun standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og alls staðar.“ Allir meðlimir kirkjunnar eru nauðsynlegir sem vitni um Guð,24 þó eru postularnir og hinir Sjötíu útnefndir sem sérstök vitni um nafn Krists.25 Ímyndið ykkur fótboltaleik þar sem aðeins markvörðurinn gætir marksins. Án hjálpar liðsfélaga sinna getur markvörðurinn ekki gætt marksins nógu vel og liðið mun alltaf tapa. Þannig eru líka allir mikilvægir í liði Drottins.26

Síðasta málsgrein þema Stúlknafélagsins hefst svona: „Ég keppi að upphafningu, virði gjöf iðrunar og reyni dag hvern að verða betri.“ Vegna friðþægingarfórnar frelsarans getum við iðrast, lært af mistökum okkar og ekki verið sakfelld fyrir þau. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Of margir líta á iðrun sem refsingu. … Sú tilfinning að verið sé að refsa manni, er af völdum Satans. Hann reynir að koma í veg fyrir að við lítum til Jesú Krists, sem stendur með útbreidda arma, vonar og er fús til að lækna, fyrirgefa, hreinsa, styrkja og helga.“27

Þegar við iðrumst af einlægni er ekkert andlegt ör eftir, sama hvað við gerðum, hve alvarlegt það var eða hversu oft sem við endurtókum það.28 Jafn oft og við iðrumst og biðjumst einlæglega fyrirgefningar, getur okkur verið fyrirgefið.29 Hvílík gjöf frá frelsara okkar, Jesú Kristi!30 Heilagur andi getur fullvissað okkur um að okkur hafi verið fyrirgefið. Þegar við finnum fögnuð og frið,31 er sektarkenndinni sópað burtu32 og synd okkar hrjáir okkur ekki lengur.33

Jafnvel eftir að hafa iðrast einlæglega, gætum við samt hrasað. Að hrasa þýðir ekki að iðrunin hafi verið ófullnægjandi, en endurspeglar einfaldlega mennskan veikleika. Það er hughreystandi að vita að „Drottinn sér veikleika í öðru ljósi en hann sér uppreisn.“ Við ættum ekki að efa getu frelsarans til að hjálpa okkur með veikleika okkar, því „[Drottinn] talar … alltaf um veikleika af miskunn.“34

Þema Stúlknafélagsins lýkur með þessum orðum: „Ég mun, fyrir trú, styrkja heimili mitt og fjölskyldu, gera og halda helga sáttmála og meðtaka helgiathafnir og blessanir hins heilaga musteris.“ Að styrkja heimili og fjölskyldu gæti þýtt að móta fyrsta hlekkinn í keðju trúfesti, halda á lofti trúararfleifð eða koma henni aftur í samt lag.35 Engu að síður kemur styrkur vegna trúar á Jesú Krist og með því að gera helga sáttmála.

Í musterinu lærum við hver við erum og hvar við höfum verið. Rómverski heimspekingurinn Cíceró sagði: „Að hafa ekki vitneskju um það sem gerðist fyrir fæðingu sína er að lifa ávallt sem barn.“36 Hann vísaði auðvitað til veraldlegar sagnfræði, en hægt er að útvíkka athugasemd hans. Við lifum eilíflega sem börn ef við virðum að vettugi þau eilífu sjónarmið sem við hljótum í musterinu. Þar ölumst við upp í Drottni, „[hljótum] fyllingu heilags anda,“37 og verðum fullkomlega skuldbundin sem lærisveinar frelsarans.38 Þegar við höldum sáttmála okkar, hljótum við kraft Guðs í líf okkar.39

Ég býð ykkur að hafa Jesú Krist að þungamiðju í lífi ykkar og minnast grundvallarsanninda þema Stúlknafélagsins. Ef þið eruð fús, mun heilagur andi leiðbeina ykkur. Himneskur faðir okkar vill að þið verðið erfingjar hans og hljótið allt sem hann á.40 Hann getur ekki boðið ykkur meira. Hann getur ekki heitið ykkur meiru. Hann elskar ykkur meira en þið gerið ykkur grein fyrir og vill að þið séuð hamingjusöm í þessu lífi og komandi lífi. Í nafni Jesú Krists, amen.