2013
Hjálpa börnum að búa sig undir skírn
Apríl 2013


Hjálpa börnum að búa sig undir skírn

Bernskan er tími gleði og nýjunga. Að hjóla í fyrsta sinn, fara í skóla eða smakka á nýjum rétti, eru fáein dæmi um ævintýraljóma bernskuáranna. Hinum fullorðnu gefst kostur á að hjálpa börnunum á vegi uppgötvana. Hinum fullorðnu í kirkjunni gefst líka kostur á að hjálpa þeim að vaxa í fagnaðarerindinu (sjá K&S 68:25). Hvað getum við gert til að tryggja að skírn barns—fyrsti sáttmálinn sem einstaklingur gerir við sinn ástkæra föður á himnum—sé falleg og minnisstæð athöfn?

„Megin tilgangur kirkjunnar er að kenna æskufólkinu: Fyrst á heimilinu og síðan í kirkjunni,“ kenndi Boyd K. Packer forseti.1

Í eftirfarandi dæmum miðla foreldrar hvernig þeir hafa búið börn sín undir hinar helgu helgiathafnir og sáttmála skírnar og staðfestingar.

Við byrjum snemma

„Þegar börnin verða sjö ára er haldið upp á það,“ sagði Lori, fjögurra barna móðir. Hún og eiginmaður hennar kenna börnum sínum um skírnina allt frá fæðingu þeirra. En þegar börnin urðu sjö ára, lögðu þau enn frekari áherslu á slíkan undirbúning. Þau höfðu lexíur á fjölskyldukvöldum og nálguðust efnið um skírn mismunandi hvern mánuð, ræddu til að mynda um sáttmála og fordæmi Jesú.

Lori sagði að lexíur mánaðarins þegar börnin urðu fullra átta ára hefðu verið einkar ljúfar. Hún sýndi börnunum fatnaðinn sem þau íklæddust þegar þeim var gefið nafn og þau blessuð og ræddi um daginn sem sú helgiathöfn var framkvæmd á.

„Þetta er fullkominn tími til að leggja áherslu á blessanir sáttmála musterisins,“ sagði Lori. „Við bendum alltaf á í kennslu okkar að ákvörðunin um að láta skírast sé fyrsta skrefið í því að búa sig undir blessanir musterisins.“

Við gerum þetta að málefni fjölskyldunnar

Monica, fjögurra barna móðir, mælir með því að eldri börnin séu höfð með í því að hjálpa þeim yngri að búa sig undir skírn, ef mögulegt er. „Að hlusta á bróður eða systir á unglingsaldri miðla eigin reynslu er í raun áhrifaríkt,“ sagði hún. Lori bætti við að stundum bæðu þau börnin sem búa sig undir skírn að kenna yngri systkinum sínum það sem þeim hefur lærst.

Við notum það sem trúboðsverkfæri

Þegar dóttir Daníels varð átta ára, varð honum ljóst að hún vildi deilda skírnardegi sínum með vinum sínum utan kirkjunnar. Fjölskyldan ákvað því að bjóða vinum Allison í skólanum og hverfinu í skírnina. Þessir vinir hennar voru beðnir að hafa eftirlætis ritningargrein sína úr Biblíunni með sér í skírnina. Eftir skírnina strikaði Allison undir ritningargreinarnar í nýju ritningunum sínum og skrifaði nöfn vina sinn við hlið þeirra.

„Auðvitað vorum við, sem fjölskylda hennar, með í öllu þennan dag. En við leyfðum henni líka að vera með vinum sínum um stund eftir á og ræða við þá um tilfinningar hennar,“ sagði Daníel. „Það var afar ljúf stund að sjá barnið sitt sýna gott fordæmi.“

Við æfum viðtalið við biskupinn

Kimberly, sem á börn sem nálgast skírnaraldurinn, minntist þess þegar hún gekk inn í skrifstofu biskupsins fyrir skírnarviðtalið þegar hún var átta ára. „Ég var svo kvíðin!“ Sagði Kimberly.

Nú reynir hún að tryggja að börn hennar verði ekki skelfd. Hún og eiginmaður hennar ræða við börnin um viðtalið við biskupinn og leggja fyrir þau spurningar í álíka viðtalsumhverfi. Þessi viðtöl gera meira en að gera börnin kunnug framvindu viðtalsins—þau hvetja þau líka til að hugsa alvarlega um hvaða merkingu skírnarsáttmálinn hefur í huga þeirra.

Við höfum dásamlegt tækifæri

Foreldrar þessir eru fljótir að benda á að þeir hafi ekki gert neitt óhóflega mikið í því að búa börn sín undir skírn og staðfestingu, en mörg þeirra nota orð líkt og „stöðugt“ og „jöfnum höndum“ er þau lýsa kennslu sinni í áranna rás. „Við gengum úr skugga um að börnin okkar skildu að þetta væri mikilvægt skref í lífi þeirra og alvarlegt mál,“ sagði Kimberly. „Við gengum ávallt úr skugga um að við værum þau sem sæjum um undirbúning þeirra og stóluðum ekki bara á fræðslu kennara Barnafélagsins.“

Hve dásamlegt tækifæri sem við fáum til að hjálpa börnum okkar sem við elskum, að búa sig undir skírn og staðfestingu! Þegar við gerum það með bæn í huga, mun Drottinn vera með okkur í því að þróa þessa fyrstu sáttmálsreynslu í öruggan grundvöll til framtíðarvaxtar.

Heimildir

  1. Boyd K. Packer, „Teach the Children,” Líahóna, maí 2000, 16.

Ljósmynduð teikning eftir John Luke, Craig Dimond og Cody Bell