2008
„HVERN SEGIÐ ÞÉR MIG VERA?‘
Mars 2008


„HVERN SEGIÐ ÞÉR MIG VERA?“

Frelsarinn spurði lærisveina sína þessarar spurningar og Pétur svaraði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs“ (Matt 16:13–16). Hér eru svör ungs fólks hvarvetna um heim við þessari spurningu:

Jesús Kristur hefur gert svo mikið fyrir mig. Hann hefur gefið mér fjölskylduna mína og fagnaðarerindið. Hann hjálpar mér í námi mínu. Ég hef hlotið nokkra skólastyrki og trúi að hann hafi blessað mig á þann hátt. Ef hann hefði ekki komið til að sýna okkur hvernig lifa ætti lífinu, gætum við ekki snúið að nýju til föður okkar á himnum.

Bryan N., 13 ára, Hondúras

Ég veit að við munum rísa upp, vegna þjáninga og dauða frelsarans, og við getum frelsast andlega og líkamlega. Ég hef komist að því að við getum hlotið fyrirgefningu fyrir trú og iðrun.

Joan O., 19 ára, Filippseyjum

Fyrir löngu gekk maður um á þessari jörðu, maður sem snert hefur hjörtu milljóna—þar á meðal mitt. Það er Jesús Kristur. Friðþægingarfórn hans hefur áhrif á mig dag hvern. Hve undravert það er að vita að fyrir hans sár, getum við læknast af okkar sárum. Ég er að búa mig undir að þjóna í trúboði, vegna þess að ég veit að Jesús er Kristur, og vil miðla þeim íbúum heimsins fagnaðarerindinu sem enn hafa ekki upplifað hina óendanlegu elsku hans. Hann er frelsari og lausnari sálar minnar.

Kristian M., 24 ára, Króatíu

Jesús Kristur gerði fyrir okkur það sem enginn annar hefði getað. Það var dásamleg stund þegar ég hlaut Aronsprestdæmið, því ég vissi að það var vilji Drottins. Ég var að fylgja fordæmi hans. Ég veit að hann mun halda áfram að leiða mig og fræða mig um veg sinn.

Limhi G., 17 ára, Mexíkó

Eftir lát móður minnar, varð lífið stöðugt óbærilegra. Ég fór loks til biskups míns til að fá leiðsögn. Það sem hann ráðlagði mér var ekki nákvæmlega það sem ég vænti, en það breytti lífi mínu. Hann hvatti mig til að setja traust mitt á himneskan föður með því að biðjast fyrir, lesa ritningarnar og reiða mig á að frelsarinn yrði mér innan handar—reiða mig algjörlega á að hann létti byrði mína. Tveimur og hálfu ári síðar er mér ljóst að varanlegur friður stendur okkur öllum til boða, vegna þess hver frelsari okkar er og þess sem hann gerði fyrir okkur.

Whitney W., 19 ára, Arisóna, Bandaríkjunum

Ég veit að Jesús Kristur lifir. Hann elskar mig og gaf líf sitt fyrir mig. Hann er vinur minn. Kenningar hans gera mér kleift að líkjast honum. Hann er réttvís, fullkominn og kærleiksríkur. Hann þjáðist í Getsemane fyrir alla. Ég veit að hann er hinn lifandi Kristur, frelsari minn, bjargið mitt, Drottinn minn.

Claudia R., 25 ára, Mexíkó

Ég hef lært um Jesú Krist í Barnafélagi kirkjunnar allt frá því að ég var lítil telpa. Vitnisburður minn hefur styrkst frá því. Ég er nú í trúboði og nýt þess að geta miðlað fagnaðarerindinu og borið dag hvern vitni um Jesú Krist.

Þegar ég hugsa um frelsarann, og allt það sem hann hefur gert fyrir mig, þrái ég að komast nær honum. Ég er að tileinka mér það sem ég lærði sem barn. Mér finnst yndislegt að geta hjálpað öðrum að skynja elsku frelsara okkar Jesú Krists. Vitnisburður þessi er ekki orðin tóm—hann kemur frá hjartanu.

Susana V., 21 árs, Tonga