2017
Vopnuð réttlæti
March 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2017

Vopnuð réttlæti

Spámaður Guðs á jörðu, Thomas S. Monson forseti, hefur sagt: „Við erum nú á okkar tíma umlukin allskyns hugsanlegum syndum, löstum og illsku.“1

Yrðuð þið hissa, ef þið kæmust að því að Monson forseti sagði þessi orð fyrir fimmtíu árum síðan? Hvað getum við sagt um illsku okkar tíma, ef ranglætið var fordæmislaust á þeim tíma? Drottinn hefur, af góðri ástæðu, sagt um okkar ráðstöfun: „Sjá, óvinirnir hafa sameinast“ (K&S 38:12).

„Öll við erum kölluð“2 í stríðið sem hófst áður en við fæddumst á jörðu. Það hófst jafnvel fyrir sköpun jarðar. Það hófst fyrir mörgum öldum í fortilverunni, þar sem Satan gerði uppreisn og „reyndi að tortíma sjálfræði mannsins“ (HDP Móse 4:3).

Satan beið lægri hlut í baráttunni og „var varpað niður á jörðina“ (Op 12:9) og hér heldur hann áfram stríðinu. Hér, á jörðu, „á hann í stríði við Guðs heilögu og umlykur þá á alla vegu“ (K&S 76:29) með lygum, blekkingum og freistingum.

Hann berst gegn spámönnunum og postulunum. Hann berst gegn skírlífislögmálinu og helgi hjónabandsins. Hann berst gegn fjölskyldunni og musterinu. Hann berst gegn því sem er gott, heilagt og dyggðugt.

Hvernig verjumst við slíkum óvini? Hvernig spornum við gegn hinu illa sem hvarvetna virðist liggja sem mara yfir veröld okkar? Hvaða vopn getum við notað? Hverjir eru bandamenn okkar?

Máttur lambsins

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að Satan næði aðeins valdi yfir okkur að svo miklu leyti sem við leyfum honum það.3

Nefí sá okkar tíma og „sá vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð“ (1 Ne 14:14; skáletrað hér).

Hvernig vopnum við okkur réttlæti og krafti? Við höldum hvíldardaginn heilagan og heiðrum prestdæmið. Við gerum og höldum helga sáttmála, vinnum að ættarsögu okkar og förum í musterið. Við reynum stöðugt að iðrast og biðja Drottin um að „[beita] friðþægingarblóði Krists, [svo] að [við] megum hljóta fyrirgefningu synda [okkar]“ (Mósía 4:2). Við biðjum og þjónum og vitnum um og iðkum trú á Jesú Krist.

Við vopnumst líka réttlæti og krafti þegar við „[varðveitum] lífsins orð stöðugt í huga [okkar]“ (K&S 84:85). Við varðveitum þessi orð með því að sökkva okkur niður í hinar helgu ritningar og orð hinna útvöldu þjóna Drottins, sem munu miðla okkur vilja hans og eru rödd hans (sjá K&S 68:4) á aðalráðstefnu komandi mánaðar.

Við þurfum ætíð að minnast þess að við njótum hjálpar beggja megin hulunnar í baráttu okkar við hið illa. Við njótum m.a. verndar Guðs, hins eilífa föður, Drottins Jesú Krists og heilags anda.

Við njótum líka verndar hins óséða herskara himins. „Óttast ekki,“ sagði Elía við óttasleginn ungan mann, er að þeim sótti illur her, „því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru“ (sjá 2 Kon 6:15–16).

Við þurfum ekki að óttast. Guð elskar sína heilögu. Hann mun aldrei yfirgefa okkur.

Ég veit, fyrir bænheyrslu Guðs, að hann hefur frelsað mig frá illu. Ég ber vitni um að með hjálp Guðs föðurins, frelsara heimsins, og heilags anda, þá mun okkur tryggður yfirgnæfandi kraftur til að standa gegn hverskyns illum öflum.

Megum við ætíð vera vopnuð réttlæti, svo við séum full sjálfstrausts um hina endanlegu útkomu.

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „Correlation Brings Blessings,“ Relief Society Magazine, apríl 1967, 247.

  2. „We Are All Enlisted,“ Hymns, nr. 250.

  3. Sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 214.