2017
Andrés og orðbragðið
April 2017


Andrés og orðbragðið

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

„Ég reyni að iðrast, að biðja og bæta mig“ (Children’s Songbook, 98).

Ljósmynd
Andrei and the Bad Word

„Þú heldur að þú sért betri en allir aðrir af því að þú blótar ekki,“ sagði Nikulás í frímínútum.

„Það er ekki satt,“ sagði Andrés.

„Af hverju viltu þá ekki segja eitt ljótt orð? Bara eitt? Það gerir varla útaf við þig. Allir aðrir blóta.“

Andrés yppti öxlum. „Ég bara vill það ekki.“

Andrés vissi að rangt var að blóta og að það fældi burtu heilagan anda. Andrés vildi hafa heilagan anda hjá sér. Af þeirri ástæðu blótaði hann ekki.

Andrés var nýr í skólanum og fram að þessu var Nikulás sá eini í sjötta bekk sem vildi vera vinur hans. Nikulás áreitti hann þó dag hvern með blótsyrðum. Andrési fannst stöðugt erfiðara að neita honum um að blóta. Andrés óttaðist líka að Nikulás hætti að vera vinur hans og hann yrði þá alltaf einn.

„Segðu bara eitt ljótt orð,“ sagði Nikulás eftir skóla. „Þá skal ég hætta þessu.“

Loks varð Andrés svo þreyttur á þessu áreiti að hann sagði eitt ljótt orð – orð sem var ekki of slæmt.

Nikulás kinkaði kolli. „Gott, nú ertu einn af okkur.“

Eftir þetta töluðu vinir Nikulásar líka við Andrés. Þeir borðuðu hádegisverð með honum og spiluðu fótbolta við hann í frímínútum. Að vera með vinahópi Nikulásar var eins og að ganga ofan í kviksand. Því oftar sem Andrés varði tíma með þeim, því meira tók hann að líkjast þeim í orði og verki. Þeir blótuðu allir. Heilmikið. Þeir gerðu gys að hver öðrum og smánuðu hver annan. Þeir töluðu dónalega um kennara sína. Þeir reiddust oft og sýndu af sér illgirni. Smám saman tók Andrés að reiðast oftar og ástæðum þess að blóta fjölgaði.

Kvöld eitt þegar mamma og pabbi voru ekki heima, fóru Andrés og systir hans, Kata, að rífast yfir hvaða þátt skildi horfa á. Áður en Andrés fékk hugsað sig um hrökk upp úr honum blótyrði.

Kata horfði á hann miður sín. „Ég ætla að segja mömmu.“

Andrés hljóp inn í herbergið sitt og skellti hurðinni. Hvað var eiginlega að öllum? Af hverju eru þau alltaf að espa hann til reiði? Þegar foreldrar Andrésar komu heim, setti hann rifu á dyrnar og heyrði Kötu segja: „Mamma, Andrés blótaði að mér.“

„Hvað?“ Mamma virtist hissa. „Andrés myndi aldrei blóta.“

Andrés lokaði dyrunum og lét sig detta ofan í rúmið. Honum varð hugsað um hve mikið hann hafði breyst frá því hann byrjaði að blóta. Það var langt síðan hann hafði fundið fyrir heilögum anda.

Andrés kraup við rúmið og baðst fyrir. „Kæri himneski faðir, fyrirgefðu að ég hef verið illgjarn og reiður. Fyrirgefðu að ég tók upp á því að blóta. Ég ætla að verða betri.“

Þegar Andrés baðst fyrir, þá fann hann hlýja tilfinningu fylla brjóst sitt. Í fyrsta sinn frá því að hann byrjaði að blóta upplifði hann raunverulega gleði. Hann vissi að Guð elskaði hann og að hann gæti fundið fyrir heilögum anda. Honum fannst að sér hefði verið fyrirgefið og hann vissi að hann gæti breyst og orðið betri.

Eftir bænina játaði hann fyrir mömmu og bað Kötu afsökunar. Eftir þetta leið Andrési betur. Það var gott að iðrast.

Daginn eftir borðaði Andrés ekki hádegisverð með vinahópi Nikulásar í skólanum. Þess í stað settist hann hjá nokkrum krökkum sem hann ekki þekkti. Andrés vissi að hann myndi finna góða og glaða vini, sem ekki blótuðu, þótt það tæki einhvern tíma. Sem væru alveg eins og hann sjálfur.