2017
Hvernig get ég ígrundað í huga og hjarta?
April 2017


Hvernig get ég ígrundað í huga og hjarta?

Lærið hvað gera skal til að hljóta svör við spurningum.

Ljósmynd
girl with heart

Hvað getið þið gert þegar þið hafið spurningar um eitthvað sem viðkemur kenningum eða sögu kirkjunnar eða er persónulegt? Hvernig finnið þið svörin? Drottinn lofaði: „Ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda“ (K&S 8:2). Hvernig beitir þú huga og hjarta til að bera kennsl á innblástur? Hér eru nokkrar ábendingar.

Hugur

Lærið, biðjið, hlustið

Öldungur Robert D. Hales, í Tólfpostulasveitinni, sagði að þegar við hyggjumst taka „mikilvægar ákvarðanir fyrir lífið … , þá væntir himneskur faðir þess að við notum sjálfræði okkar, ígrundum aðstæður eins og reglur fagnaðarerindisins kveða á um og komum fram fyrir hann í bæn með ákvörðun“ („The Holy Ghost,“ Liahona, maí 2016, 105).

Þetta á við um allar spurningar. Þegar þið ígrundið, biðjið þá einlæglega varðandi þau svör sem þið finnið í leit ykkar. Heilagur andi mun veita ykkur hugboð – sem gæti verið hugmynd, orð sem koma í hugann eða einhvers konar persónuleg áminning – til að leiða ykkur að enn frekari svörum sem þið þurfið á að halda.

Notið hjálpartæki

Kannið ritningarnar, einnig Leiðarvísi að ritningunum, og annað gagnlegt. Þið getið líka kannað annað SDH efni, svo sem aðalráðstefnur, trúarefni á LDS.org, kirkjutímarit, ritverk Josephs Smith og fleira. (Sjá bls. 54, þar sem finna má skrá yfir gagnlegt kirkjuefni.)

Talið um það

Óttist ekki að biðja um aðstoð. Öldungur Ronald A. Rasband í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Ég ætla að skora á ykkur. … Þið skuluð hugsa um einhvern [sem getur hjálpað ykkur að finna svör] – góðan vin, foreldri eða foreldra, afa eða ömmu, kennara, biskupsráð [eða] leiðbeinanda … og þið þurfið að fá þessum spurningum svarað“ (Face to Face broadcast, 20. jan 2016). Látið reyna á þetta! Talið við einhvern sem þið treystið fyrir spurningu ykkar og leitið saman að svörum.

Hjarta

Lærið, biðjið, hlustið

Þessi skref eru mikilvæg til að ígrunda bæði í huga og hjarta. Dieter F. Uchtdorf forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Ef þið viljið þekkja andlegan sannleika, þá þurfið þið réttu verkfærin til þess. Þið getið ekki öðlast þekkingu á andlegum sannleika með röngum og gagnslausum verkfærum“ („Receiving a Testimony of Light and Truth,“ Liahona, nóv 2014, 22). Heilagur andi er verkfærið sem við getum notað til að læra um það sem andlegt er. Þegar þið því biðjið og hlustið á andann, þá mun sá tími koma að þið finnið svörin.

Verið þolinmóð

Uchtdorf forseti útskýrði einnig: „Því meira sem við beinum hjarta og huga að Guði, því meira ljós frá himni mun falla á sál okkar. … Smám saman mun það sem áður virtist þokukennt, myrkt og fjarlægt verða skýrt, bjart og okkur kunnuglegt“ („Receiving a Testimony of Light and Truth,“ 22). Það getur tekið langan tíma að leita svara Ef þið hins vegar eruð fús til að hlusta eftir svörum, jafnvel þótt það taki tíma, þá munið þið finna þau.

Æfið að bera kennsl á hugboð

Því oftar sem þið berið kennsl á hugboð og farið eftir þeim er andinn hvíslar í hjartað, því auðveldar mun ykkur reynast að bera kennsl á fleiri hugboð á komandi tíma. Þið getið fundið „hvort það sé rétt“ eða upplifað „sljóleika,“ ef það er rangt (sjá K&S 9:8–9). Þið gætuð líka fundið ljúfa áminningu, friðartilfinningu eða annarskonar tilfinningu, sem er einkennandi fyrir ykkur. Drottinn þekkir ykkur og hann veit hvernig þið munuð skilja andann. Hann mun veita ykkur ljúfa leiðsögn, sem er ætluð ykkur sérstaklega. Haldið því áfram að hlusta og æfa.