2017
Hvernig veit ég hvort Guð hlustar á bænir mínar?
April 2017


Spurningar og svör

„Hvernig veit ég hvort Guð hlustar á bænir mínar?“

Bænin er dásamleg blessun og okkur er heitið því að himneskur faðir leggi ætíð við hlustir, en oft þarf að leggja nokkuð af mörkum til að bera kennsl á svörin hans.1

Íhugið þetta: Annaðhvort heyrir Guð í ykkur eða ekki. Ef hann gerir það ekki, þá er bænin auðvitað gagnslaus. Geri hann það hins vegar (sem hann og gerir!), þá þurfið þið að læra hvernig þið getið átt raunveruleg samskipti við hann í bæn, borið kennsl á svör hans og síðan breytt trúfastlega eftir þeim.

Þegar okkur finnst hann ekki hlusta, þá gætum við þurft að upplifa einhvern persónulegan þroska. Þið getið spurt ykkur nokkurra spurninga: Er ég flekklaus? Er ásetningur minn góður? Er ég fús til að gera það sem hann býður?2 Ef svarið við öllum þessum spurningum er jákvætt, þá getið þið treyst því að „Drottinn Guð þinn muni … svara bænum [ykkar]“ (K&S 112:10). Hafið í huga að svör berast stundum óvænt eða svo vart verði eftir tekið.

Ef svar ykkar við einhverjum þessara spurninga er neikvætt, vitið þá að það er aldrei um seinan! Gerið nauðsynlegar breytingar á lífi ykkar, svo þið fáið notið andans. Verið fús til að bregðast við hugboðunum sem berast.

Hafið líka í huga að hver og einn hlýtur svör á ólíkan hátt. Biðjið þess að heilagur andi fái kennt ykkur hvernig þið getið borið kennsl á svörin. Það kann að vera erfitt í fyrstu, en æfingin skapar meistarann, líkt og á við um allt annað. Hafið trú og treystið því að himneskur faðir sé ætíð að hlusta.

Hlusta á andann

Reynið að hlusta á heilagan anda. Fólk skynjar heilagan anda á ólíkan hátt. Þið gætuð verið að hlusta eftir lágri, hljóðlátri rödd sem innblæstri, en svarið gæti komið í formi tilfinningar. Ég veit að heilagur andi mun segja ykkur það sem þið hafið þörf fyrir að vita – þið þurfið bara að leggja við hlustir.

Elise G., 13 ára, Alberta, Kanada

Svör í kirkju

Eitt sinn efaðist ég stórlega um hvort ég ætti að fara á stefnumót með einstaklingi sem var ekki í kirkjunni. Sunnudag einn flutti systir nokkur ræðu á sakramentissamkomu, sem virtist tala beint til mín. Á þeirri stundu hlaut ég fullvissu um að Drottinn hafði svarað bæn minni. Áður hafði ég ekki vitað hvað gera skildi en á þeirri stundu hughreysti heilagur andi mig og fyllti hjarta mitt af gleði og hugrekki. Guð svarar okkur í gegnum tilfinningar, hugsanir, ritningar og jafnvel ræðumenn í kirkju!

Karen V., 19 ára, Minas Gerais, Brasilíu

Minnast þess hver við erum

Ég veit að Guð heyrir í okkur, því bæn vekur frið, líkn og kærleika í hjarta mér. Ég skynja að Guð verndar mig og fjölskyldu mína dag frá degi gegn margskonar hættum og ég finn kærleika hans til mín. Áður en ég fer í skólann, þá þyl ég ætíð upp þema Stúlknafélagsins. Það hjálpar mér að minnast þess að ég er dóttir himnesks föður, sem elskar mig.

Nicol M., 19 ára, Líma, Perú

Bæn barns

Ég veit að himneskur faðir heyrir bænir mínar, vegna þessara orða í Barnafélagssöngnum „Bæn barns“ (Barnasöngbókin 6): „Himneski faðir, eru þú þarna, heyrir og svarar bænum allra barna? Himininn segja sumir langt frá, … finn ég hann samt fast mér hjá.“ Þegar ég minnist þessa söngs, veit ég að hann er að hlusta, því ég skynja andann og hans óendanlegu elsku til mín. Þegar ég minnist þess að hann elskar mig, finn ég huggun og fullvissu um að hann hlustar á bænir mínar.

Elaine B., 16 ára, Norður-Karolínu, Bandaríkjunum

Setja traust sitt á hann

Himneskur faðir hlustar ætíð á bænir okkar, en stundum virðist okkur hann ekki svara þeim, því ekki er víst að hann svari eins og við óskum eða á þeim tíma sem við óskum. Við þurfum að vera fús til að beygja okkur undir vilja hans og treysta því að hann viti hvað okkur er fyrir bestu. Himneskur faðir elskar okkur og mun ætíð reyna að hjálpa okkur til þroska og vaxtar með bænheyrslu sinni.

Mosiah M., 17 ára, Utah, Bandaríkjunum

Biðjið og yður mun gefast

Í ritningunum er okkur kennt að Guð muni ætíð hlusta á bænir okkar og svara þeim, ef við biðjum í trú og af einlægni. Við munum finna fullvissu í hjörtum okkar um að hann hlustar á okkur, tilfinningu friðar og rósemdar. Við getum líka skynjað að allt muni fara vel, ef við förum að vilja föðurins. Ef við efumst um að hann hlusti á okkur, ættum við að leita leiðsagnar í ritningunum og síðan að spyrja um sannleiksgildi þess sem við lásum.

Constanza L., 20 ára, Bío Bío, Chíle

Kanna það

Ég velti eitt sinn fyrir mér hvort Guð hlustaði á bænir mínar og fann þá svarið í hjarta mér. Ég hlustaði á einhvern gefa vitnisburð um bænina og ég fann fyrir heilögum anda. Ég hvet ykkur líka til þess að spyrja foreldra ykkar, biskup eða einhverja meðlimi í deild ykkar. Þið gætuð jafnvel beðist fyrir til að fá hjálp við þetta úrlausnarefni!

Joshua S., 13 ára, Oregon, Bandaríkjunum

Biðja af einlægni

Eftir að þið hafið beðist fyrir, þá getið þið hlustað og gætt að því sem vaknar í hjarta. Svarið við bæn ykkar kann að leynast þar. Þegar við biðjum af einlægu hjarta, mun himneskur faðir svara í samræmi við trú okkar á hann. Hann svarar ekki í þeim eina tilgangi að seðja forvitni okkar.

Jean-Claude N., 16 ára, Kasaï-Central, Lýðveldinu Kongó