2017
Spámenn til leiðsagnar
September 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, september 2017

Spámenn til leiðsagnar

Fyrir nokkrum árum sat ég í herbergi í Salt Lake musterinu, þar sem Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin eiga samfund einu sinni í hverri viku. Ég horfði á vegginn sem blasti við Æðsta forsætisráðinu og sá þar andlitsmyndir af öllum forsetum kirkjunnar.

Þegar ég virti myndirnar fyrir mér, fyrirrennara minna – allt frá spámanninum Joseph Smith (1805–44) til Gordons B. Hinckley forseta (1910–2008) – hugsaði ég með mér: „Hve þakklátur ég er fyrir leiðsögn hvers þeirra.“

Þetta voru merkir menn sem aldrei efuðust, létu hugfallast eða brugðust. Þetta voru menn Guðs. Þegar ég hugsa um þá spámenn sem ég hef þekkt og elskað, minnist ég lífs þeirra, eiginleika og innblásinna kenninga.

Heber J. Grant (1856–1945) var forseti kirkjunnar þegar ég fæddist. Þegar ég hugsa um líf hans og kenningar, þá trúi ég að þolgæði hafi verið einn sá eiginleiki sem svo ríkulega einkenndi Grant forseta – þolgæði varðandi það sem er gott og göfugt.

George Albert Smith (1870–1951) var forseti kirkjunnar á þeim tíma sem ég þjónaði sem biskup deildar minnar í Salt Lake City. Hann talaði um að mikið stríð stæði yfir á milli Drottins og óvinarins. „Ef þið eruð Drottins megin línunnar,“ kenndi hann, „þá hefur hann áhrif á ykkur og þið munuð enga þrá hafa til að gera rangt.“1

Ég var kallaður af David O. McKay (1873–1970) árið 1963, til að þjóna sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni. Hann hvatti til hugulsemi gagnvart öðrum með eigin lífsmáta. „Sannur kristindómur,“ sagði hann, „er kærleikur í verki.“2

Joseph Fielding Smith forseti (1876–1972), einn afkastamesti rithöfundur kirkjunnar, hafði þá ráðandi reglu í lífi sínu að læra fagnaðarerindið. Hann las ritningarnar látlaust og þekkti betur kenningar þeirra en nokkur annar sem ég hef kynnst.

Harold B. Lee forseti (1899–1973) þjónaði sem stikuforseti minn þegar ég var drengur. Ein eftirlætis tilvitnun hans var: „Standið … á heilögum stöðum og haggist ekki.“3 Hann hvatti hina heilögu til að vera í samhljóm við heilagan anda og móttækilega fyrir hinni lágværu rödd heilags anda.

Ég trúi að hin ráðandi regla í lífi Spencer W. Kimball forseta (1895–1985) hafi verið eldmóður. Hann helgaði sig algjörlega og ótvírætt Drottni. Hann helgaði sig líka lífsmáta fagnaðarerindisins.

Þegar Ezra Taft Benson (1899–1994) varð forseti kirkjunnar, kallaði hann mig til að þjóna sem annar ráðgjafi sinn í Æðsta forsætisráðinu. Kærleikur var hans ráðandi regla, sem kemur vel fram í hans eftirlætis tilvitnun í orð frelsarans: „Hvers konar menn ættuð þér því að vera? Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er.“4

Howard W. Hunter forseti (1907–95) var sá sem ætíð leitaði að því besta í fari annarra. Hann var ætíð háttvís og auðmjúkur. Það voru mér forréttindi að þjóna sem annar ráðgjafi hans.

Gordon B. Hinckley forseti hvatti okkur til að gera okkar besta. Hann bar máttugan vitnisburð um frelsarann og hlutverk hans. Hann kenndi okkur af kærleika. Það var mér heiður og blessun að þjóna sem fyrsti ráðgjafi hans.

Frelarinn sér okkur fyrir spámönnum af því að hann elskar okkur. Á aðalráðstefnu í október munu aðalvaldhafar kirkjunnar enn á ný njóta þeirra forréttinda að miðla orði hans. Við tökumst á við þá ábyrgð af mikilli alvöru og auðmýkt.

Hve blessuð við erum að hafa hina endurreistu kirkju Jesú Krists á jörðu og að kirkjan sé grundvölluð á bjargi opinberunar. Látlausar opinberanir eru lífæð fagnaðarerindis Jesú Krists.

Megum við búa okkur undir að hljóta persónulega opinberun, sem gnótt er af á aðalráðstefnu. Megi hjörtu okkar fyllast djúpri staðfestu, er við réttum upp hönd til stuðnings lifandi spámönnum og postulum. Megum við hljóta fræðslu, uppörvun, huggun og styrk, er við hlýðum á boðskap þeirra. Megum við vera fús til að skuldbinda okkur Drottni Jesú Kristi – fagnaðarerindi og verki hans – og einsetja okkur að halda boðorð hans af aukinni staðfestu og framfylgja vilja hans.