2018
Finna sig heima aftur
April 2018


Finna sig heima aftur

Judy Rascher, Koloradó, Bandaríkjunum

Símtal bróður míns kom mér á óvart. „Mamma var að deyja,“ sagði hann „Hún datt og rak höfuðið í.“

Ég varð miður mín. Mamma var dáin og ég hafði talað við hana kvöldið áður. Ég spurði mig sífellt um ástæðu þess að þetta hefði gerst. Ég skildi hreinlega ekki af hverju hún þurfti að yfirgefa mig. Ég var reið! Ég ól á reiðinni í nokkrar vikur.

Loks ákvað ég hver sökudólgurinn væri. Þetta var Guði að kenna. Hann tók hana frá mér of snemma. Mamma varð af mörgum merkisviðburðum í lífi mínu og mér fannst það honum að kenna. Ég var ekki meðlimur kirkjunnar á þessum tíma, en þó sannkristin. Í stað þess að sækja styrk hjá Guði, þá snéri ég baki við honum og útilokaði hann úr lífi mínu.

Ég saknaði mömmu svo mikið. Á uppeldisárum mínum var heimili foreldra minna mér griðastaður. Hvar sem ég var eða hvað sem ég var að gera, þá leið mér alltaf eins og ég væri heima, er ég talaði við eða varði tíma með mömmu. Nú var sú tilfinning „að vera heima,“ sem ég elskaði, horfin

Árin liðu og ég missti næstum alla trú mína. Ég reyndi að skilja af hverju mamma þurfti að deyja, en ekkert varð til þess að friða mig. Síðan gerðist það í um eina viku að þessi hugsun sótti stöðugt á mig: Ég þarf að líta til himins eftir skilningi. Ég sagði kærri vinkonu minni frá þessu, sem var meðlimur kirkjunnar. Hún spurði hvort ég vildi læra meira um trú hennar.

Mér varð það ekki ljóst þegar í stað, en andinn vakti sál mína upp af værum svefni. Því meira sem ég lærði um fagnaðarerindið, því meira fannst mér ég hafa fundið öruggan stað aftur. Sú tilfinning „að vera heima“ vaknaði aftur.

Ég var skírð í maí 2013. Ég er þakklát fyrir að trú mín vaknaði aftur. Ég sný ekki lengur baki við Guði. Þess í stað þá tek ég á móti honum. Ég er enn sorgmædd yfir hinum skyndilega missi mömmu, en vegna trúar minnar á Guð, þá veit ég að ég mun dag einn „vera heima“ með mömmu og fjölskyldu minni að eilífu.