Námshjálp
ÞJS, Lúkas 12


ÞJS, Lúkas 12:9–12. Samanber Lúkas 12:9–10; sjá einnig ÞJS, Mattheus 12:37–38 og K&S 132:26–27

Jesús útskýrir, að lastmæli gegn heilögum anda verði ekki fyrirgefið.

9 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs.

10 Nú vissu lærisveinar hans að hann sagði þetta vegna þess að þeir höfðu talað illt gegn honum frammi fyrir fólkinu, því að þeir þorðu ekki að viðurkenna hann fyrir mönnum.

11 Og þeir ræddu sín á meðal og sögðu: Hann þekkir hjörtu vor og mælir oss til fordæmingar og oss verður eigi fyrirgefið. En hann svaraði þeim og sagði við þá:

12 Hverjum, sem mælir gegn Mannssyninum og iðrast, verður það fyrirgefið, en þeim, sem lastmælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið.

ÞJS, Lúkas 12:41–57. Samanber Lúkas 12:37–48

Jesús kennir, að þjónar hans verði ætíð að vera reiðubúnir fyrir komu hans.

41 Því að sjá, hann kemur á fyrstu vöku nætur, og hann mun einnig koma á annarri vökunni, og einnig mun hann koma á þriðju vökunni.

42 Og sannlega segi ég yður, hann hefur þegar komið, eins og skráð er um hann. Og hann mun koma á annarri vökunni, eða þriðju vökunni. Sælir eru þeir þjónar, sem hann finnur breyta svo, þá er hann kemur.

43 Því að húsbóndi þeirra þjóna mun girða sig og láta þá setjast til matar, og mun koma og þjóna þeim.

44 Og sannlega segi ég yður þetta, til að þér megið vita að Drottinn kemur sem þjófur á nóttu.

45 Og það verður líkt og með mann sem er húsbóndi. Ef hann vakir ekki yfir eigum sínum, þá kemur þjófurinn á þeirri stundu sem hann væntir eigi og tekur eigur hans og skiptir þeim á meðal félaga sinna.

46 Og þeir segja sín á meðal: Ef hinn góði maður hússins hefði vitað á hvaða stundu þjófurinn kæmi, hefði hann vakað og ekki leyft að brotist væri inn í hús hans og eigur hans teknar.

47 Og hann sagði við þá: Sannlega segi ég yður, verið því einnig reiðubúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.

48 Þá sagði Pétur við hann: Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?

49 Og Drottinn sagði: Ég tala til þeirra sem Drottinn gjörir að ráðsmönnum húss síns, til þess að skammta börnum hans matinn á réttum tíma.

50 Og þeir sögðu: Hver er þá hinn trúi og vitri þjónn?

51 Og Drottinn sagði við þá: Það er sá þjónn sem vakir, til þess að gefa matarskammt sinn á réttum tíma.

52 Blessaður er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.

53 Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.

54 En hinn illi þjónn er sá sem ekki vakir. Og ef sá þjónn vakir ekki, segir hann í hjarta sínu: Húsbóndi minn frestar komu sinni. Og hann tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður.

55 Húsbóndi þess þjóns mun koma á þeim degi, er hann væntir eigi, á þeirri stundu, er hann veit eigi, höggva hann og láta hann fá hlut sinn með vantrúuðum.

56 Og þjónninn, sem þekkti vilja húsbónda síns og bjó sig ekki undir komu húsbónda síns, né breytti að vilja hans, hann mun barinn mörg högg.

57 En hinn, sem eigi þekkti vilja húsbónda síns og vann til refsingar, mun barinn fá högg. Af þeim, sem mikið er gefið, mun mikils krafist og af þeim, sem Drottinn hefur mikið falið, munu menn heimta meira.