Aðalráðstefna
Þér verðið frjálsir
Aðalráðstefna apríl 2021


Þér verðið frjálsir

Jesús Kristur er ljósið sem við ættum að halda á lofti, jafnvel á myrkum tímum lífs okkar.

Kæru bræður og systur, ég er svo þakklátur fyrir þau forréttindi að tala til ykkar frá Afríku. Það er blessunarríkt að hafa tækni okkar tíma og nota hana á svo áhrifamikinn hátt til að ná til ykkar hvar sem þið eruð.

Í september 2019 nutum ég og systir Mutombo, sem þjónandi leiðtogar Maryland Baltimore trúboðsins, þeirra forréttinda að fara á nokkrar söguslóðir kirkjunnar í Palmyra, New York, er við sóttum leiðtoganámskeið trúboðsins. Við lukum för okkar í Lundinum helga. Tilgangur okkar með því að fara í Lundinn helga, var ekki að hljóta sérstaka staðfestingu eða sýn, en við fundum nærveru Guðs á þessum helga stað. Hjarta okkar fylltist þakklæti fyrir spámanninn Joseph Smith.

Á leiðinni til baka tók systir Mutombo eftir því að ég brosti breitt við aksturinn, svo hún spurði: „Af hverju ertu svona eftirvæntingarfullur?“

Ég svaraði: „Elsku Nathalie, sannleikurinn mun alltaf sigra villu og myrkur mun ekki ríkja áfram á jörðu, vegna hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists.“

Guð faðirinn og Jesús Kristur vitjuðu hins unga Josephs Smith, til að gera hið hulda ljóst, svo við getum hlotið „þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (Kenning og sáttmálar 93:24).

Eftir næstum tvö hundruð ár, leita margir enn þess sannleika sem þarf til að verða frjáls frá sumum hefðum og lygum sem andstæðingurinn dreifir um heiminn. Margir eru „blindaðir vegna slóttugra klækja mannanna“ (Kenning og sáttmálar 123:12). Í bréfi sínu til Efesusbúa, kenndi Páll: „Vakna þú sem sefur og rís upp frá dauðum og þá mun Kristur lýsa þér“ (Efesusbréfið 5:14). Frelsarinn lofaði að hann yrði öllum ljós sem heyrðu orð hans (sjá 2. Nefí 10:14).

Fyrir þrjátíu og fimm árum voru foreldrar mínir líka blindaðir og leituðust við að þekkja sannleikann af örvæntingu og vita hvar hann væri að finna. Foreldrar mínir fæddust báðir í þorpi þar sem hefðir voru rótfastar í lífi einstaklinga og fjölskyldna. Þau yfirgáfu bæði þorpið þegar þau voru ung og fóru til borgarinnar í leit að betra lífi.

Þau giftu sig og hófu fjölskyldulíf á mjög fábrotinn hátt. Við vorum næstum átta í litlu húsi – foreldrar mínir, tvær systur mínar og ég og frændi, sem áður bjó hjá okkur. Ég velti fyrir mér hvort við værum í raun fjölskylda, því okkur var óheimilt að borða kvöldmat við sama borð og foreldrar okkar. Þegar faðir okkar kom frá vinnu, vorum við beðin um að fara út um leið og hann kom í húsið. Næturnar voru mjög stuttar, því við gátum ekki sofið vegna skorts á samlyndi og sannri ást í hjónabandi foreldra okkar. Heimili okkar var ekki aðeins lítið í sniðum, heldur var það drugnalegur staður. Áður en við hittum trúboðana, fórum við ekki í sömu kirkjur alla sunnudaga. Greinilegt var að foreldrar okkar leituðu einhvers sem heimurinn gat ekki veitt.

Þannig var þetta þar til við hittum öldung og systur Hutchings, fyrstu eldri trúboðshjónin sem kölluð voru til að þjóna í Zaire (þekkt í dag sem AL Kongó eða Kongó-Kinshasa). Þegar við tókum að hitta þessa dásamlegu trúboða, sem voru eins og englar frá Guði, tók ég eftir að eitthvað tók að breytast í fjölskyldu okkar. Eftir skírn okkar, tókum við sannlega upp nýjan lífsstíl vegna hins endurreista fagnaðarerindis. Orð Krists tóku að útvíkka sálir okkar. Þau tóku að upplýsa skilning okkar og urðu okkur ljúffeng, þar sem sannleikurinn sem við tókum á móti var greinanlegur og við sáum ljósið og þetta ljós varð dag hvern bjartara og bjartara.

Þessi skilningur á svörum fagnaðarerindisins hjálpaði okkur að líkjast meira frelsaranum. Stærð heimilis okkar breyttist ekki; ekki heldur félagslegar aðstæður okkar. Ég varð þó vitni að hugarfarsbreytingu foreldra minna er við báðumst fyrir kvölds og morgna. Við lærðum Mormónsbók; við héldum fjölskyldukvöld; við urðum sannlega fjölskylda. Alla sunnudaga vöknuðum við klukkan 6:00 til að búa okkur undir kirkju og ferðuðumst möglunarlaust í klukkustundir í hverri viku til að sækja samkomur. Það er dásamlegt að verða vitni að þessu. Við, sem áður vorum í myrkri, rákum myrkrið frá okkur (sjá Kenning og sáttmálar 50:25) og „sáum mikið ljós“ (2. Nefí 19:2).

Ég minnist þess er ég var dag einn ófús til að vakna árla morguns til fjölskyldubænar, að ég möglaði við systur mínar: „Er ekkert annað hægt að gera á þessu heimili en að biðja, biðja og biðja.“ Pabbi heyrði hvað ég sagði. Ég minnist þess að hann kenndi mér ákveðið en ástúðlega: „Svo lengi sem þú ert í mínum húsum, muntu biðja, biðja, biðja.“

Orð föður míns hljómuðu dag hvern í eyrum mínum. Hvað haldið þið að ég og systir Mutombo gerum við börn okkar í dag? Við biðjum, biðjum og biðjum. Það er okkar arfleifð.

Maðurinn sem fæddist blindur og Jesús Kristur læknaði, eftir að hafa sætt þrýstingi nágranna sinna og faríseanna, sagði:

„Maður að nafni Jesús gerði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina þegar ég var búinn að þvo mér. …

… Eitt veit ég að ég, sem var blindur, er nú sjáandi“ (Jóhannes 9:11, 25).

Við vorum líka blind og getum nú séð. Hið endurreista fagnaðarerindi hefur haft áhrif á fjölskyldu okkar frá þeim tíma. Að skilja svör fagnaðarerindisins, hefur blessað þrjár kynslóðir fjölskyldu minnar og mun áfram blessa margar komandi kynslóðir.

Kristur er ljósið sem skín í myrkri. Sá sem fylgir honum „mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“ (Jóhannes 8:12).

Í næstum ár, á bilinu 2016 og 2017, tókust íbúar Kasai-svæðisins á við hræðilegan harmleik. Þetta var mjög dimmt tímabil fyrir fólkið, vegna átaka milli hefðbundins hóps vígamanna og stjórnarhersins. Ofbeldið dreifðist út frá bæjum í miðhéraði Kasai til stærri hluta Kasai-svæðisins. Margir flúðu heimili sín sér til skjóls og földu sig í kjarrinu. Þau höfðu hvorki mat né vatn, eða í raun nokkuð og meðal þeirra voru nokkrir meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Kananga-svæðinu. Sumir meðlimir kirkjunnar voru drepnir af vígasveitunum.

Bróðir Honoré Mulumba frá Nganza-deildinni í Kananga og fjölskylda hans voru meðal hinna fáu sem földu sig í húsum sínum og vissu ekki hvert þeir áttu að fara því öll stræti voru einn vígavöllur. Einn daginn höfðu einhverjir vígamenn í hverfinu tekið eftir nærveru bróður Mulumba og fjölskyldu hans, þar sem þau fóru eitt kvöldið út til að leita grænmetis í fjölskyldugarðinum sér til matar. Hópur vígamanna fór til heimila þeirra, dró þau nauðug út og skipaði þeim að styðja hernaðaraðgerðir sínar, ella verða drepin.

Bróðir Mulumba sagði af hugrekki: „Ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við fjölskyldan höfum meðtekið Jesú Krist og trúum á hann. Við munum verða trú sáttmálum okkar og gangast við dauða.“

Þeir sögðu við þau: „Þar sem þið hafið valið Jesú Krist, munu líkamar ykkar étnir af hundum,“ og þeir hétu að koma aftur. Þeir komu þó aldrei aftur og fjölskyldan dvaldi þar í tvo mánuði og sá þá aldrei aftur. Bróðir Mulumba og fjölskylda hans héldu trúarkyndli sínum logandi. Þau höfðu sáttmála sína hugfasta og voru vernduð.

Jesús Kristur er ljósið sem við ættum að halda á lofti, jafnvel á myrkum tímum lífs okkar (sjá 3. Nefí 18:24). Þegar við veljum að fylgja Kristi, veljum við að breytast. Sá karl eða sú kona sem breytist í Kristi, mun njóta leiðsagnar Krists og við munum spyrja eins og Páll gerði: „[Drottinn, hvað viltu að ég geri?“] (Postulasagan 9:6). Við munum „feta í fótspor hans“ (1. Pétursbréf 2:21). Við munum „breyta eins og [hann] breytti“ (1. Jóhannesarbréf 2:6). (Sjá Ezra Taft Benson, „Born of God,“ Ensign, okt. 1989, 2, 6.)

Ég vitna um hann sem dó, var grafinn og reis upp á þriðja degi og steig upp til himna, svo að þú og ég fáum hlotið blessanir ódauðleika og upphafningar. Hann er „ljós, líf og von heimsins“ (Eter 4:12). Hann er mótefnið og lækningin við ruglingi heimsins. Hann er æðsti staðall upphafningar, já, Jesús Kristur. Í nafni Jesú Krists, amen.