Aðalráðstefna
Þið getið safnað saman Ísrael!
Aðalráðstefna apríl 2021


Þið getið safnað saman Ísrael!

Ég er algjörlega viss um að þið æskufólkið getið þetta, það er eitthvað við auðkenni ykkar og hinn mikla innri kraft sem í ykkur býr.

Fyrir tæpum þremur árum, bauð Russell M. Nelson forseti öllum ungmennum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu að skrá sig í „æskulýðssveit Drottins, til að safna saman Ísrael“ beggja vegna hulunnar. Hann sagði: „Sú samansöfnun er það mikilvægasta sem á sér stað á jörðu á okkar tíma.“1 Ég er algjörlega viss um að þið æskufólkið getið þetta – og gerið það afar vel – því það er (1) eitthvað við auðkenni ykkar og (2) hinn mikla innri kraft sem í ykkur býr.

Ljósmynd
Bróðir og systir Corbitt

Fyrir fjörutíu og einu ári fundu tveir trúboðar frá kirkjunni okkar sig knúna til að fara að húsi í New Jersey, Bandaríkjunum. Á tilsettum tíma og á undraverðan hátt, voru báðir foreldrarnir og öll tíu börnin skírð. Með orðum spámannsins, þá létu þau „Guð ríkja“2 í lífi sínu. Ég ætti að segja „í lífi okkar.“ Ég var þriðja barnið. Ég var 17 ára þegar ég ákvað að gera varanlega sáttmála um að fylgja Jesú Kristi. Hvað annað haldið þið að ég hafi ákveðið að gera? Ég ætlaði ekki að þjóna í trúboði. Það var til of mikils ætlast. Það var ekki hægt að vænta þess af mér, ekki satt? Ég var alveg nýr kirkjumeðlimur. Ég var peningalaus. Að auki, þótt ég væri nýútskrifaður úr erfiðasta menntaskólanum í nágrenni Vestur-Fíladelfíu og hefði staðið frammi fyrir nokkrum ógnvekjandi áskorunum, óttaðist ég í leyni að fara að heiman í tvö heil ár.

Ljósmynd
Corbitt-fjölskyldan

Hið sanna auðkenni ykkar

Ég hafði þó nýlega komist að því að ég og allt mannkyn höfum búið hjá himneskum föður sem andasynir hans og dætur fyrir fæðingu okkar. Aðrir þurftu að vita, eins og ég vissi, að hann þráði að öll börn hans nytu eilífs lífs með sér. Svo áður en nokkur var á jörðu, færði hann öllum sína fullkomnu sáluhjálparáætlun með Jesú Krist sem frelsara okkar. Hörmulegt var að Satan var andvígur áætlun Guðs.3 Samkvæmt Opinberunarbókinni, „þá hófst stríð á himni“!4 Af slægð blekkti Satan þriðja hluta andabarna himnesks föður til að fá sig til að ríkja í stað Guðs.5 En þó ekki ykkur! Páll postuli sá að þið sigruðuð Satan „fyrir orð vitnisburðar [ykkar].“6

Að þekkja eigið auðkenni, með hjálp patríarkablessunar minnar, veitti mér hugrekki og trú til að taka á móti boði Spencers W. Kimball forseta um að safna saman Ísrael.7 Það á líka við um ykkur, kæru vinir. Að vita að þið hafið áður sigrað Satan með orði vitnisburðar ykkar, mun hjálpa ykkur að „elska, miðla og bjóða“8 nú og ætíð – að bjóða öðrum að koma og sjá, koma og liðsinna og koma og tilheyra, því þessi sama barátta um sálir barna Guðs á sér enn stað.

Ljósmynd
Öldungur Corbitt

Ykkar máttuga innri trú

Hvað með hinn mikla kraft innra með ykkur? Íhugið þetta: Þið fögnuðuð9 yfir því að komast í fallinn heim, þar sem líkamlegur og andlegur dauði bíður allra. Við myndum aldrei sigrast einsömul á hvoru tveggja. Við myndum ekki aðeins þjást af eigin syndum, heldur líka syndum annarra. Mannkyn myndi í raun upplifa hvers kyns breyskleika og vonbrigði10 – með gleymskuhulu hugans og heimsins versta óvin, sem reynir stöðugt að áreita og freista okkar. Öll von um að snúa aftur upprisin og hrein í heilaga návist Guðs, var algjörlega bundin því að einn héldi loforð sitt.11

Hvað veitir ykkur mátt til að sækja fram? Henry B. Eyring forseti kenndi: „Það þurfti trú á Jesú Krist til að styðja sæluáætlunina og hlutverk Jesú Krists í henni, þegar þið vissuð harla lítið um þær áskoranir sem biðu ykkar í jarðlífinu.“12 Þegar Jesús Kristur lofaði að hann myndi koma til jarðar og gefa líf sitt til að safna okkur saman13 og frelsa okkur, þá trúðuð þið honum ekki einfaldlega. Þið, „göfugu andar,“14 höfðuð „mjög sterka trú,“ svo þið tókuð loforði hans sem vísu.15 Hann gat ekki sagt ósatt, svo þið tókuð honum eins og hann hefði þegar úthellt blóði sínu fyrir ykkur, löngu áður en hann fæddist.16

Með táknrænum orðum Jóhannesar, þá „[sigruðuð þið Satan] fyrir blóð lambsins.“17 Dallin H. Oaks forseti kenndi: „[Þið] sáuð upphafið frá endinum.“18

Ímyndið ykkur að dag einn, áður en þið færuð í skólann, myndi annað foreldi ykkar lofa einlæglega að þið mættuð fá eftirlætis máltíðina þegar þið kæmuð heim! Þið fylltust eftirvæntingu! Í skólanum sáuð þið ykkur í huganum borða máltíðina og funduð næstum bragðið. Þið sögðuð auðvitað öðrum líka þessi góðu tíðindi. Þið hlökkuðuð svo mikið til að fara heim að verkefni og áskoranir skólans virtust létt. Ekkert gat spillt gleði ykkar eða vakið efasemdir, því þið vissuð að loforðið var öruggt! Á svipaðan hátt, áður en þið, hinir göfugu andar fæddust, lærðist ykkur að sjá loforð Krists á þennan örugga hátt og þið fenguð bragðað á19 sáluhjálp hans. Hin sterka trú ykkar er eins og vöðvar sem vaxa og verða sterkari eftir því sem þið æfið þá, en þeir eru hið innra.

Hvernig getið þið vakið hina miklu trú ykkar á Krist og notað hana til að safna saman Ísrael núna og sigrað Satan aftur? Með því að læra aftur að líta fram og sjá loforð Drottins af sömu fullvissu um samansöfnun og frelsun á okkar tíma? Hann notar aðallega Mormónsbók og spámenn sína til að kenna okkur hvernig. Löngu fyrir Krist, reyndu nefísku „spámennirnir, prestarnir og kennararnir … [að telja fólkið] á að vænta Messíasar og trúa á komu hans eins og hann væri þá þegar kominn.“20 Spámaðurinn Abínadí kenndi: „Og hefði Kristur ekki komið í heiminn, og hér tala ég um það, sem í vændum er, eins og það hefði þegar átt sér stað, væri engin endurlausn til.“21 Eins og Alma, þá „[leit Abinadí] fram með trúaraugum“22 og tók öruggu loforði Guðs um sáluhjálp sem væri það þegar uppfyllt. Þeir „[sigruðu] Satan fyrir blóð lambsins og orð vitnisburðar síns“ löngu áður en Kristur fæddist, á sama hátt og þið gerðuð. Drottinn veitti þeim síðan mátt til að bjóða og safna saman Ísrael. Hann mun gera það sama fyrir ykkur er þið lítið fram í trú, sjáið Ísrael safnað saman – heimslægt og í ykkar „nærumhverfi“23 – og bjóðið öllum!

Hundruðir trúboða byggja á máttugri trú sinni á Krist í fortilverunni, með því að ímynda sér þá sem þeir hafa verið í sambandi við eða kennt, klædda skírnar- og musterisklæðum. Í ræðu sinni, „Begin with the End in Mind [Í upphafi skal endinn skoða],“24 sagði Nelson forseti frá persónulegu dæmi þar sem hann gerði þetta og bauð trúboðsleiðtogum að kenna trúboðunum að gera slíka hið sama. Séu okkar kæru trúboðar meðvitaðir um að þeir iðkuðu þessa miklu trú á Jesú Krist í fortilverunni, mun það verða þeim mikil hjálp við að „hlýða á hann“25 og virkja mikla trú sína til að safna saman Ísrael, eins og Drottinn hefur lofað.

Auðvitað skaðar það trú að ímynda sér lygar.26 Vinir mínir, það mun veikja trú ykkar á Krist að ímynda sér eða skoða það sem andstætt er ykkar raunverulega auðkenni, einkum klámefni, því án iðrunar gæti það tortímt ykkur. Notið ímyndunarafl ykkar til að efla trú ykkar á Krist, ekki eyða henni.

Áætlunin fyrir börn og unglinga

Áætlun barna og unglinga er spámannlegt verkfæri til að hjálpa ykkur, æskufólkinu, að efla mikla trú ykkar. Oaks forseti kenndi: „Þessi áætlun er gerð til að hjálpa ykkur að líkjast meira frelsaranum á fjórum sviðum: Andlega, félagslega, líkamlega og vitsmunalega.“27 Þegar þið, æskufólkið, verðið leiðandi í því að lifa eftir fagnaðarerindinu, látið ykkur annt um aðra, bjóðið öllum að taka á móti fagnaðarerindinu, sameinið fjölskyldur að eilífu og skipuleggið skemmtilega viðburði,28 mun hin mikla trú á Krist sem þið höfðuð í fortilverunni vakna og veita ykkur mátt til að gera verk hans í þessu lífi!

Persónuleg markmið, „einkum skammtíma markmið,“29 hjálpa ykkur að endurvekja þá máttugu trú. Þegar þið setjið góð markmið eruð þið að líta fram, eins og þið gerðuð áður, og skiljið hvað það er sem faðir ykkar á himnum væntir að þið og aðrir verðið.30 Síðan ráðgerið þið og leggið hart að ykkur til að fá því áorkað. Öldungur Quentin L. Cook kenndi: „Vanmetið aldrei mikilvægi þess að skipuleggja, setja markmið … og [bjóða öðrum] – allt með augum trúar.“31

Valið er ykkar! Drottinn sagði um ykkur: „Krafturinn [til að velja] býr í þeim.“32 Öldungur Neil L. Andersen útskýrði: „Trú ykkar mun ekki vaxa af tilviljun, heldur af eigin vali.“33 Hann bætti við: „[Öllum] einlægum spurningum [sem þið hafið] … verður svarað fyrir þolinmæði og auga trúar.“34

Ég ber vitni um að (1) hið sanna auðkenni ykkar og (2) ykkar mikli trúarmáttur á Krist, hið innra, mun gera ykkur kleift að „búa heiminn undir endurkomu frelsarans, með því að bjóða öllum að koma til Krists og taka á móti blessunum friðþægingar hans.“35 Megum við öll miðla gleði hins örugga loforðs Mormónsbókar:

„Hinir réttlátu, sem hlýða á orð spámannanna, en … vænta með staðfestu Krists …, þrátt fyrir ofsóknir … farast ekki.

„[Kristur] mun lækna þá, og þeir munu lifa með honum í friði.“36

Í nafni Jesú Krists, amen.