Aðalráðstefna
Þeir fá ekki sigrað, við getum ekki fallið
Aðalráðstefna apríl 2021


Þeir fá ekki sigrað, við getum ekki fallið

Ef við byggjum undirstöðu okkar á Jesú Kristi, getum við ekki fallið!

Ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, sagði á síðustu aðalráðstefnu: „Á þessum örðugu tíðum, sem Páll postuli sagði fyrir um, reynir Satan jafnvel ekki lengur að halda árás sinni á áætlun Guðs leyndri. Stigmagnandi illska er ríkjandi Eina leiðin til að komast af andlega er með því að láta Guð ríkja í lífi okkar, að læra að þekkja rödd hans og nýta krafta okkar til að taka þátt í samansöfnun Ísraels.“1

Er við íhugum boð spámannsins um að læra að hlýða á rödd Guðs, eru þá hjörtu okkar ákveðin eða hörð? Við skulum muna eftir leiðsögninni sem veitt er í Jakob 6:6: „Já, ef þér viljið heyra rödd hans nú í dag, þá skuluð þér ekki herða hjörtu yðar, því að hvers vegna skylduð þér vilja deyja?“ Verum ákveðin í því að láta Guð ríkja í lífi okkar.

Hvernig getum við látið Guð, en ekki andstæðinginn, ríkja í lífi okkar? Í Kenningu og sáttmálum 6:34 lesum við: „Óttast þess vegna ekki, litla hjörð. Gjörið gott, leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast.“ Þetta er mikilsvert fyrirheit. Þó að jörð og helja sameinist gegn okkur, fá þær ekki á okkur sigrast ef við veljum að láta Guð ríkja, með því að byggja líf okkar á bjargi hans.

Jesús Kristur kenndi um vitran mann og heimskan mann, er hann talaði við lærisveina sína, eins og skráð er í Matteus, kapítula 7 í Nýja testamentinu. Mörg ykkar hafið heyrt Barnafélagssálminn „Hyggni maðurinn og heimski maðurinn.“2 Ef þið hafið gefið ykkur tíma til að bera saman versin fjögur í sálminum, þá sjáið þið að vers 1 og 2 eru ósköp lík versi 3 og 4. Bæði hyggni maðurinn og heimski maðurinn voru að reisa hús. Þeir vildu veita fjölskyldu sinni öruggt og þægilegt heimili. Þeir þráðu að lifa hamingjusamlega saman sem fjölskylda að eilífu, rétt eins og þið og ég. Aðstæður í umhverfinu voru þær sömu: „Regnið féll og flóðið kom upp.“ Þegar við syngjum þennan söng, syngjum við hann sex sinnum. Eini munurinn er sá að hyggni maðurinn byggði hús sitt á bjargi og húsið stóðst, en heimski maðurinn byggði hús sitt á sandi og húsið hans flaut í burtu. Það skiptir því máli hver undirstaða okkar er, sem hefur svo afgerandi áhrif á hina endanlegu og eilífu útkomu.

Ég vona og bið þess að við megum öll finna og vera á hinni öruggu undirstöðu er við byggjum upp framtíðarlíf okkar. Í Helaman 5:12 erum við áminnt: „Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“

Þetta er fyrirheit frá Guði! Ef við byggjum undirstöðu okkar á Jesú Kristi, getum við ekki fallið! Er við stöndumst staðfastlega allt til enda, mun Guð hjálpa okkur að grundvalla líf okkar á bjargi sínu „og hlið heljar munu eigi á [okkur] sigrast“ (sjá Kenning og sáttmálar 10:69). Við getum ekki breytt öllu sem koma mun, en við getum valið hvernig við búum okkur undir það sem koma mun.

Sum ykkar hugsið ef til vill: „Fagnaðarerindið er gott, svo við lifum hugsanlega eftir því einu sinni í viku.“ Að mæta í kirkju einu sinni í viku dugar ekki til að byggja á bjarginu. Gjörvallt líf okkar ætti að vera fyllt fagnaðarerindi Jesú Krists. Fagnaðarerindið er ekki hluti lífs okkar, en við erum reyndar hluti af fagnaðarerindi Jesú Krists. Hugleiðið þetta. Er þetta ekki satt? Jarðlíf okkar er eingöngu hluti af heildaráætlun sáluhjálpar og upphafningar.

Guð er himneskur faðir okkar. Hann elskar okkur öll Hann þekkir getu okkar mun betur en við sjálf. Hann þekkir ekki aðeins hvert smáatriði lífs okkar. Hann þekkir hvert smáatriði af smáatriðum af smáatriðum lífs okkar.

Vinsamlega fylgið vituri leiðsögn okkar lifandi spámanns, Nelsons forseta. Eins og skráð er í Kenningu og sáttmálum 21:5–6:

„Því að hans orði skuluð þér taka á móti með fullkominni þolinmæði og trú.

Því að gjörið þér það, munu hlið heljar eigi á yður sigrast. Já, og Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá yður og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar.“

Þess vegna fá þeir ekki sigrað og við getum ekki fallið!

Ég vitna fyrir ykkur að Kristur mun koma á ný í síðara skiptið, eins og hann kom í fyrra skiptið, en að þessu sinni í miklu veldi og dýrð. Ég vona og bið þess að ég verði reiðubúinn að mæta honum, hvort heldur hérna megin eða handan hulunnar. Er við höldum upp á þessa dásamlegu páskatíð, vona ég að með friðþægingu Jesú Krists og krafti upprisu hans (sjá Moróní :41) get ég stigið upp, mætt skapara mínum og sagt: „Takk fyrir.“ Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020.

  2. „Hyggni maðurinn og heimski maðurinn“ (Barnasöngbókin, 132).