Aðalráðstefna
Kóvid-19 og musterin
Aðalráðstefna apríl 2021


Kóvid-19 og musterin

Hafið sáttmála og blessanir musterisins efst í huga og hjarta. Verið trúföst þeim sáttmálum sem þið hafið gert.

Kæru bræður og systur, við höfum sannlega notið andlegrar veislu. Hve þakklátur ég er fyrir bænirnar, boðskapinn og tónlistina á allri ráðstefnunni. Ég þakka ykkur öllum fyrir að vera með okkur, hvar sem þið eruð.

Snemma á síðasta ári tókum við þá erfiðu ákvörðun að loka öllum musterum tímabundið, vegna Kóvíd-19 faraldursins og vilja okkar til að vera góðir heimsborgarar. Á umliðnum mánuðum hefur okkur verið blásið í brjóst að opna musterin smám saman aftur með varfærnislegum hætti. Musteri er nú verið að opna í fjórum áföngum, þar sem algjörlega er farið eftir reglum og öryggisvörnum stjórnvalda.

Í þeim musterum sem eru í fyrsta áfanga, geta pör, sem áður hafa hlotið eigin musterisgjöf, verið innsigluð sem eiginmaður og eiginkona.

Í þeim musterum sem eru í öðrum áfanga, eru allar helgiathafnir framkvæmdar fyrir lifendur, þar með talið musterisgjöf, innsiglun eiginmanns og eiginkonu og barna til foreldra. Við höfum nýlega breytt ákvæðum annars áfanga og leyfum nú ungmennum okkar, nýjum meðlimum og öðrum sem hafa takmörkuð meðmæli að taka þátt í staðgengilsskírnum fyrir áa sína.

Í musterum sem eru í þriðja áfanga, geta þeir sem hafa pantað tíma ekki aðeins tekið þátt í helgiathöfnum fyrir lifendur, heldur í öllum staðgengils-helgiathöfnum fyrir látna áa.

Fjórði áfangi er viðsnúningur til fullrar reglubundinnar starfsemi.

Við erum þakklátir fyrir þolinmæði ykkar og trúfasta þjónustu á þessum breyttu og erfiðu tímum. Ég bið þess að þrá ykkar til að tilbiðja og þjóna í musterinu sé dýpri en nokkru sinni áður.

Þið gætuð velt fyrir ykkur hvenær þið getið farið aftur í musterið. Svarið er: Musteri ykkar verður opnað þegar staðbundnar reglur stjórnvalda leyfa það. Þegar áhrif Kóvíd-19 á ykkar svæði er innan öruggra marka, mun musteri ykkar opna aftur. Gerið allt sem þið getið til að draga úr fjölda Kóvíd smita á ykkar svæði, svo að musterisstarf geti aukist þar.

Hafið sáttmála og blessanir musterisins efst í huga og hjarta fram að því. Verið trúföst þeim sáttmálum sem þið hafið gert.

Við erum nú að byggja upp fyrir framtíðina! Fjörutíu og eitt musteri eru nú í byggingu eða endurnýjun. Einungis á síðasta ári var fyrsta skóflustunga tekin að tuttugu og einu musteri, þrátt fyrir faraldurinn.

Við viljum að hús Drottins verði jafnvel enn nær meðlimum okkar, svo þeir fái notið þeirra helgu forréttinda að sækja musterið heim eins oft og aðstæður þeirra leyfa.

Þegar ég kynni fyrirhugaða byggingu 20 fleiri mustera, hef ég í huga og hrósa brautryðjendum – fyrr og síðar – sem með lífi sínu hafa sett mark sitt á sögu okkar tíma. Ný musteri verða byggð á hverjum eftirtalinna staða: Osló, Noregi; Brussel, Belgíu; Vín, Austurríki; Kumasi, Gana; Beira, Mósambík; Höfðaborg, Suður-Afríku; Singapúr, Lýðveldinu Singapúr; Belo Horizonte, Brasilíu; Cali, Kólumbíu; Querétaro, Mexíkó; Torreón, Mexíkó; Helena, Montana; Casper, Wyoming; Grand Junction, Koloradó; Farmington, Nýju Mexíkó; Burley, Idaho; Eugene, Oregon; Elko, Nevada; Yorba Linda, Kaliforníu; Smithfield, Utah.

Musteri eru mikilvægur hluti af endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists í fyllingu sinni. Helgiathafnir musterisins fylla líf okkar krafti og styrk – sem ekki er hægt að gera á neinn annan hátt. Við þökkum Guði fyrir þessar blessanir.

Er við ljúkum þessari ráðstefnu, þá tjáum við ykkur aftur elsku okkar. Við biðjum þess að Guð vaki yfir ykkur og úthelli blessunum sínum yfir sérhvert ykkar. Saman erum við þátttakendur í þessari helgu þjónustu. Sækjum öll hugrökk fram í þessu dýrðlega verki Drottins! Það er bæn mín, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.