2016
Greina eftirlíkingar Satans
April 2016


Greina eftirlíkingar Satans

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Þegar við stöndum frammi fyrir andlegum eftirlíkingum, þá getur Mormónsbók auðveldað okkur að greina hvað er sannleikur og hvað ekki.

Ljósmynd
woman with money

Ég var að setja nokkra dollaraseðla í veskið mitt í matvörubúðinni, þegar einn seðillinn greip athygli mína. Mér fannst græni liturinn vera heldur fölari en á hinum seðlunum, svo ég skoðaði hann betur. Þá tók ég eftir að myndin af George Washington var ekki jafn skýr og á hinum seðlunum. Meira að segja pappírinn var öðruvísi. Þetta var falsaður seðill! Afgreiðslumaðurinn tók hann til baka og lét mig fá ófalsaðan seðil í staðinn og fór með falsaða seðlinn til verslunarstjórans.

Eftir þetta hef ég oft hugsað um þennan falsaða peningaseðil. Ég velti fyrir mér hversu lengi hann hafði verið í umferð og hve margir hefðu látið blekkjast af honum yfir árin. Ef ég hefði ekki verið athugull, hefði ég í raun líka látið blekkjast. Með því að bera hann saman við ófalsaðan seðil og einblýna á það sem var ólíkt frekar en það sem þeir áttu sameiginlegt, þá sá ég að hann var falsaður.

Í Mormónsbók eru ótal dæmi um þá sem ástunduðu andlegar blekkingar, með því að nota aðferðir Satans til að ljúga og blekkja sér í hag. Með því að kynna okkur brögð þeirra og aðferðir, þá getum við séð í gegnum blekkingar þeirra á sama hátt og hið þjálfaða auga fær greint á milli ófalsaðs og falsaðs seðils. Því betur sem við þjálfum augað í því að greina á milli, því auðveldara reynist okkur að sjá blekkingar okkar tíma og vara okkur á lyginni.

Upplýsingasöfnun um eftirlíkingar Satans

Satan reynir að leiða okkur afvega með sínum andlegu eftirlíkingum, og ef við vörum okkur ekki, munum við láta blekkjast. Joseph F. Smith forseti (1838–1918) aðvaraði: „Satan er slyngur blekkingameistari og þegar hið sanna fagnaðarerindi er í síauknum mæli boðað heiminum, þá leggur hann sig enn betur fram við að dreifa blekkingum sinna fölsuðu kenninga. Varist hinn falsaða gjaldmiðil hans, því með honum er aðeins mögulegt að kaupa sér vonbrigði, vansæld og andlegan dauða.“1

Besta vörnin gegn því að láta blekkjast af eftirlíkingum Satans, er að vera eins kunnugur sannleika fagnaðarerindisins og mögulegt er. Því betur sem við þekkjum sannleikann, því auðveldara eigum við með að sjá hvað aðgreinir, þegar Satan reynir að blekkja okkur með eftirlíkingum sínum. Þegar hann reynir það, þurfum við að einblína á það sem aðgreinir, en ekki það sem er sameiginlegt, á sama hátt og ég gerði með peningaseðilinn, því þannig mun lygin alltaf opinberast.

Ezra Taft Benson forseti (1899-1994), kenndi: „Mormónsbók afhjúpar óvini Krist. … Guð, í sinni alvisku, gerði Mormónsbók þannig úr garði, að við fengjum greint og vitað hvernig sjá má í gegnum ósannar hugmyndir okkar tíma, í menntun, stjórnmálum og heimspeki.“2

Við eigum nú í stríði við Satan. Við, líkt og á við um alla herkænsku, þurfum að vita hvað óvinurinn hefur fyrir stafni. Það getur t.d. verið ómetanlegt að vita hvar og hvenær óvinurinn lætur til skarar skríða. Af þeirri ástæðu er hugtakið yfir slíkt kallað „upplýsingasöfnun.“ Við verðum klókari en óvinurinn með því að þekkja hann. Mormónsbók auðveldar okkur „upplýsingasöfnun“ um eftirlíkingar og aðferðir Satans.

Fagurmælgi er eftirlíking

Rúmlega helmingur blekkingameistara Mormónsbókar notar fagurmælgi og persónutöfra til að ná fram tilgangi sínum. Serem var til að mynda „maður lærður, með fullt vald á tungu þjóðarinnar. Þess vegna gat hann skjallað þá óspart og beitt mikilli mælsku í samræmi við vald djöfulsins“ (Jakob 7:4) Hinir ranglátu prestar Nóa konungs töluðu með „hégómlegum skjallyrðum“ (Mósía 11:7) og fengu þannig fólkið til að taka þátt í skurðgoðadýrkun og öðru guðleysi. Kóríhor náði álíka árangri þegar hann var uppi, „og leiddi hjörtu margra afvega“ (Alma 30:18). Amalikkía og Gadíanton notuðu báðir fagurmælgi til að koma sér upp herliði ranglátra fylgjenda (sjá Alma 46:10; He 2:4).

Þetta er ekki aðeins tilviljun. Fagurmælgi ristir grunnt, er fölsk og ýkt. Nefí aðvaraði þá sem „þannig munu kenna falskar, hégómlegar og fávísar kenningar, og verða hrokafullir í hjarta og leggjast lágt til að dylja ráð sín fyrir Guði. Og verk þeirra verða unnin í myrkri“ (2 Ne 28:9).

Fagurmælgi er oft notuð til þess að blekkja; að baki hennar býr oft dulin ástæða eða dulinn ásetningur. Fagurmælgi er umbúðir án innihalds, og það höfðar til hégóma og stærilætis hins náttúrlega manns. Spámenn Drottins segja okkur aftur á móti hinn einfalda en mikilvæga sannleika sem við þurfum að heyra.

Fagurmælgi er mál Satans. James E. Faust forseti (1920–2007), annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, útskýrði: „[Satan] hljómar oft afar sannfærandi og auðvelt er að réttlæta það sem hann hefur fram að færa. Rödd hans er biðjandi, lokkandi og þýð. Hún er hvorki ógnvænleg né ósamhljóma. Engin myndi hlusta á rödd Satans, ef hún hljómaði ógnvænlega eða grimmdarlega.“3

Ljósmynd
whispering

Þegar heimurinn kemur fram með hugmynd, speki eða skoðun, sem aðeins virðist höfða til hégóma okkar eða stærilætis, eða sem einfaldlega hljómar of gott til að vera satt, þá ættu viðvörunarbjöllur okkar þegar að klingja. Lítið á slíkar hugmyndir sem eftirlíkingar. Berið þær saman við sannleikann sem spámenn Drottins kenna. Beinið athygli að því sem er aðgreinandi, en ekki því sem virðist eins, og þá verður augljóst að um eftirlíkingu hugmyndar er að ræða.

Nehor — vinsæll blekkingameistari

Nehor notaði fagurmælgisaðferð Satans án vandkvæða. Við skulum taka hann sem dæmi um þann sem blekkir andlega. Nehor, sem boðaði kenningu sem virtist styðja hugmyndina um frelsara, var gæddur persónutöfrum og var vinsæll prédikari meðal Nefíta. Nehor aflaði sér margra fylgjenda með því að kenna að „allt mannkyn yrði hólpið á efsta degi“ og myndi „öðlast eilíft líf“ (Alma 1:4).

Skiljum við afhverju boðskapur Nehors var svo vinsæll? Kenning hans var um þægilegan og notalegan Guðs — Guð sem frelsaði alla, sökum elsku sinnar, í hvaða ástandi sem menn væru. Að menn gætu hagað sér eins og þeir kysu, því allt væri í góðu lagi. Þetta er heillandi heimspeki, sem fólk á tíma Nehors tók fegins hendi (sjá Alma 1:5), rétt eins og margir gera á okkar tíma. Fólk óskar greinilega eftir því að komast fyrirhafnarlaust til himins.

Hvað var þá athugavert við boðskap Nehors? Við skulum skoða aftur megin staðhæfingar hans:

  • Guð skapaði alla menn — rétt.

  • Guð elskar alla menn — rétt.

  • Við ættum ekki að óttast Guð — rétt.

  • Við ættum að fagna yfir hjálpræði Guðs — rétt.

Fram til þessa, þá er margt líkt með kennslu Nehors og sannleika fagnaðarerindisins. Hafið þó í huga — að eins og með falsaða peningaseðilinn, þá þurfum við að leita að því sem aðgreinir, ekki því sem er samsvarandi. Við skulum nú skoða síðustu staðhæfingu Nehors:

  • Guð mun veita öllum mönnum eilíft líf — rangt!

Hér er hin mikilvæga aðgreining, sem segir okkur að Nehor sé að blekkja andlega. Sáluhjálp frá líkamlegum dauða er öllum tryggð, en sáluhjálp frá andlegum dauða er háð því skilyrði að við séum fús til að iðrast. Ef við iðrumst, þá getum við öðlast eilíft líf (sjá Jakob 6:11). Fólk kemst ekki fyrirhafnarlaust til himins.

Gídeon og Alma sáu í gegnum blekkinguna

Illur tilgangur Nehors var afhjúpaður daginn sem hann stóð frammi fyrir Gídeon, réttlátum kennara í kirkju Guðs. Gídeon hafði á árum áður staðið gegn Nóa konungi og hafði því reynslu af því að takast á við andlegar blekkingar. (sjá Mósía 19:4–8). Nehor „tók að deila harkalega við hann til að leiða kirkjunnar fólk frá henni, en [Gideon] stóðst hann og áminnti hann með orðum Guðs“ (Alma 1:7). Gídeon var ljóst að Nehor var að blekkja. Þegar Nehor var afhjúpaður, þá greip hann til annarrar aðferðar Satans — morðs. Dauði Gídeons varð hins vegar ekki til einskis. Fólkið færði Alma blekkingamanninn Nehor, til dóms.

Alma varð ljóst að Nehor var ekki einungis sekur um prestaslægð og morð, heldur einnig að ef hann fengi að ganga frjáls meðal þjóðar hans „yrði það henni til algjörrar tortímingar“ (Alma 1:12). Nehor var því dæmdur til dauða og hann leið „smánarlegan dauðdaga“ (Alma 1:15).

Gídeon og Alma eru fordæmi fyrir okkur. Þegar við höfum andann með okkur, munum við sjá og heyra „hlutina eins og þeir í raun eru“ (Jakob 4:13). Við munum greina áform og blekkingaraðferðir Satans „jafn [skýrt og muninn] á dagsbirtu og myrkri“ (Moró 7:15).

Óvinurinn reynir að blekkja okkur og er klókur, en líkt og Gídeon og Alma, þá getum við snúið á hann. Á sama hátt og ég tók smám saman að átta mig á því sem aðgreindi seðlana mína, þá getum við þjálfað auga okkar, huga og anda, til að greina á milli sannleika og lygi. Þegar við gerum það, munum við átta okkur á þeim sem eru að blekkja og hafna lygi þeirra.

Heimildir

  1. Joseph F. Smith, Gospel Doctrine, 5. útg. (1939), 376.

  2. Kenningar spámanna kirkjunnar: Ezra Taft Benson (2014), 132.

  3. James E. Faust, „The Forces That Will Save Us,“ Liahona, jan. 2007, 4.