2010–2019
Ég ígrunda það stöðugt í hjarta mínu
Október 2015


Ég ígrunda það stöðugt í hjarta mínu

Ég bið þess einlæglega að þið ákveðið að ígrunda orð Guðs, meira og dýpra.

Ég er fjárfestir að atvinnu. Sökum trúar minn er ég lærisveinn Jesú Krists, sonar Guðs.1 Ég fylgi öruggum fjárhagsreglum í viðskiptum mínum. Í trú minni kappkosta ég að fylgja andlegum reglum, sem gera mér kleift að líkjast meira frelsaranum.

Áskoranir færa blessanir

Ég hef hlotið margar minna lífsins blessana af því að einhver hefur boðið mér að takast á við erfitt verkefni. Í þeim anda ætla ég að skora á ykkur öll að gera tvennt. Hið fyrra tengist fjármálum. Hið síðara er andlegs eðlis. Báðar áskoranirnar krefjast sjálfsaga í langan tíma, ef við þeim er tekið, áður en uppskorið verður.

Fyrri áskorunin

Fyrri áskorunin er einföld: Ég hvet ykkur til að leggja vikulega fyrir. Upphæðin sem þið sparið er ekki sérlega mikilvæg; hún er undir ykkur komin. Þegar þið venjið ykkur á að leggja fyrir, munið þið hafa af því persónulegan hag. Þið gætuð líka hjálpað öðrum fjárhagslega með slíkri kostgæfni. Ímyndið ykkur þann jákvæða árangur að leggja fyrir í sex mánuði, eitt ár, tíu ár eða lengur. Hið smáa og einfalda getur með tímanum leitt til mikils árangurs.2

Síðari áskorunin

Síðari áskorun mín er nokkuð ólík hinni fyrri, en mun mikilvægari. Hún er þessi: Ég hvet ykkur til að „ponderize“ eða ígrunda og læra utanbókar3 eitt ritningavers í hverri viku. Hugtakið ponderize finnst ekki í orðabókinni, en það hefur fest rætur í hjarta mínu. Hvað felst í því að ígrunda og læra þannig? Ég myndi telja að í því fælist 80 prósent hugleiðsla og 20 prósent utanbókar lærdómur.

Tvö einföld skref þarf að taka:

Í fyrsta lagi þurfið þið að velja ykkur ritningarvers í hverri viku og staðsetja það þannig að það sé dag hvern fyrir augum ykkar.

Í öðru lagi þurfið þið að lesa eða hugsa um versið nokkrum sinnum á degi hverjum og íhuga merkingu textans og lykilhugtaka í tiltekinni viku.

Ímyndið ykkur þann jákvæða árangur sem hlytist af því að gera þetta í hverri viku í sex mánuði, eitt ár, tíu ár eða lengur.

Þið munuð finna aukið andríki ef þið gerið þetta. Þið munuð líka geta kennt og lyft ástvinum ykkar á áhrifaríkari hátt.

Ljósmynd
Köfun

Ef þið kjósið að íhuga vikulega, gæti ykkur liðið eins og þeim sem hefur áður notið þess að kafa, en hefur nú ákveðið að læra köfunartækni. Ef þið gerið þetta mun skilningur ykkar aukast á reglum fagnaðarerindisins og þið verðið blessuð með dýpri andlegri sýn.

Ljósmynd
Scuba köfun

Þegar þið ígrundið ykkar valda vers í hverri viku, munu orð þeirra rituð á hjarta ykkar.4 Orð og orðasambönd munu líka ritast í huga ykkar. Með öðrum orðum, þá mun það verða auðvelt og eðlilegt að læra utanbókar. Megin markmið ígrundunar er að fylla hugann af hugsunum – sem halda ykkur í nálægð við anda Drottins.

Frelsarinn sagði: „Varðveitið lífsins orð stöðugt í huga yðar.“5 Ígrundun er einföld og fræðandi, einmitt í þeim tilgangi.

Ég held að Nefí hafi ígrundað: Hann sagði: „Sál mín hefur unun af ritningunum og hjarta mitt ígrundar þær [stöðugt] og færir þær í letur, börnum mínum til uppfræðslu.“6 Hann hafði börn sín í huga þegar hann ígrundaði og ritaði ritningarnar. Hvaða hag gæti fjölskylda ykkar haft af stöðugri viðleitni ykkar til að fylla huga ykkar af orði Guðs?

Versið mitt

Nýlega ígrundaði ég Alma 5:16. Það hljómar svona: „Ég segi yður: Getið þér ímyndað yður, að þér heyrið rödd Drottins segja við yður á þessum degi: Komið til mín, þér blessaðir, því að sjá, verk yðar á yfirborði jarðar hafa verið réttlætisverk?“

Í lok vikunnar voru það þessi orð sem rituðust í huga minn: Ímyndaðu þér að heyra rödd Drottins segja: „Komið til mín, þér blessaðir, því að sjá, verk yðar hafa verið réttlætisverk“ (Alma 5:16).

Eins og þið sjáið, þá lærði ég ekki versið utanbókar orð fyrir orð. Ég ígrundaði hins vegar stöðugt lykilatriði versins og hvar þau voru að finna. Best var þó að í þessu ferli voru hugsanir mínar á háu plani. Ég ímyndaði mér alla vikuna að frelsarinn segði hvetjandi orð við mig. Sú ímynd hafði áhrif á hjarta mitt og hvatti mig áfram til að vinna „réttlætisverk.“ Þetta getur gerst er við „[beinum] öllum hugsunum [okkar] til [Krists].“7

Við verðum að spyrna á móti

Þið gætuð spurt: „Hvers vegna ætti ég að gera það?“ Svar mit er að við lifum á tíma stöðugrar útbreiðslu illsku. Við getum ekki bara sætt okkur við óbreytt ástand og nærst á ljótum orðum og syndsamlegum myndum, næstum hvar sem við förum, án þess að gera nokkuð í því. Við verðum að spyrna á móti. Þegar hugur okkar er fylltur upplyftandi hugsunum og ímyndum, þegar við „höfum hann ávallt í huga,“8 verður ekkert pláss fyrir rusl og óþverra.

Í Mormónsbók býður Jesús Kristur öllum: „Íhugið það, sem ég hef sagt.“9 Lítið á ígrundun sem viðbótarverkfæri einka- og fjölskyldunáms á ritningunum, en látið hana aldrei koma í staðin fyrir þær. Ígrundun er eins og aukavítamín við ykkar núverandi andlegu næringu.

Það er svo erfitt

Þið gætuð sagt: „Ígrundun er of erfið fyrir mig.“ Ekki láta það aftra ykkur. Erfitt getur verið gott. Kristur býður okkur að gera ótal margt sem erfitt er, því hann veit að við hljótum blessun af erfiði okkar.10

Ljósmynd
Ritningarvers í síma

Ungur nágranni okkar uppgötvaði góða leið til að ígrunda. Hann setur sitt vikulega ritningarvers á símaskjáinn sinn. Önnur hugmynd sem mætti reyna er að miðla systkini versinu, barni eða vini. Ég og eiginkona mín, Julie, hjálpumst að. Við veljum versin okkar alltaf á sunnudögum. Hún setur sitt á ísskápinn. Ég set mitt í pallbílinn. Við miðlum síðan hugsunum okkar um versin í tilsettri viku. Við ræðum líka versin við börnin okkar. Þegar við gerum það, virðast þau eiga auðveldar með að miðla okkur hugsunum sínum um orð Guðs.

Ljósmynd
Systir Durrant setur ritningarvers á ísskáp
Ljósmynd
Bróðir Durrant setur ritningarvers í pallbíl

Ég og Julie eigum líka aðild að nethópi, þar sem fjölskyldan, vinir og trúboðar geta miðlað ritningarversunum sínum í hverri viku og stundum látið fylgja með boðskap eða vitnisburð. Það stuðlar að stöðugleika að vera hluti af hópi. Dóttir mín, sem er í efri grunnskóla, og vinahópur hennar nota samfélagsmiðlana og textaskilaboð til að miðla hvert öðru ritningarversum.

Ljósmynd
Stúlka miðlar ritningarversi í samfélagsmiðli

Bjóðið fólki utan okkar trúar hiklaust í hópinn ykkar. Það er líka að leita leiða til að upphefja hugsanir sínar og komast nær Guði.

Hver er ávinningurinn?

Ljósmynd
Systir Durrant lærir ritningarnar

Hver er svo ávinningurinn? Ég og Julie höfum verið að ígrunda vers vikulega nú í rúmlega þrjú ár. Upphaflega setum við okkur 20 ára markmið. Hún sagði nýlega við mig: „Þegar þú skoraðir fyrst á mig að ígrunda ritningavers í viku hverri í 20 ár, velti ég fyrir mér hvort ég gæti gert það í einn mánuð. Ég hugsa ekki svona lengur. Ég fæ vart trúað ánægju þess að setja ritningarvers á ísskápinn í hverri viku og hvernig það lyftir anda mínum að ígrunda það í hvert sinn sem ég kem auga á það.“

Eftir að systir nokkur frá Texas í Bandaríkjunum hafði ígrundað í sex vikur, sagði hún: „Vitnisburður minn hefur styrkst, … og ég skynja að ég hef komist nær himneskum föður. … Mér finnst unaðslegt hvernig orð Guðs hefur áhrif á mig til hins betra.“

Unglingsvinur skrifaði: „Ég hef virkilega notið þess að geta ígrundað, því það hefur hjálpað mér að einblína á það sem raunverulega er mikilvægt.“

Einn trúboðanna okkar sagði þetta: „Ég hef verið að ígrunda eitt vers á viku frá júní 2014 og ég nýt þess innilega. … Þessi ritningarvers hafa orðið mér kærir vinir, sem ég get reitt mig á þegar neyð kemur upp.“

Hvað mig varðar, þá finn ég ríkulegar fyrir andanum þegar ég ígrunda vikulega. Ritningarnar hafa líka orðið mér kærari, er ég hef reynt að „[láta] dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust.11

Hugleiðið þessa áskorun og miklu blessun sem Nefí segir frá: „Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.“12 Orðin„endurnærðir af orði Krists“ gefa til kynna að ígrundun sé eins og að taka bita af bragðgóðum mat og síðan að tyggja vel og vandlega, til þess að njóta hans til hins ýtrasta.

Ljósmynd
Kona kryddar salat

Hvaða vers veljið þið?

Munuð þið ígrunda ritningarvers í hverri viku það sem eftir er af mánuðinum eða af árinu? Kannski lengur? Ég og Julie skoruðum á alla hugdjarfa trúboða í Dallas, Texas, að ígrunda með okkur næstu 20 árin. Saman náum við marklínunni eftir 17 ár. Eftir það munum við setja okkur ný markmið til að lyfta hugum okkar og komast nær Kristi.

Þið getið gengið úr skugga um það með því að spyrja: „Hvaða vers völduð þið núna?“ Ef þið gerið það, verið þá viðbúin að miðla ykkar ritningarversi líka. Við munum öll hafa hag af slíkum samskiptum.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða breytingum líf ykkar og fjölskyldu ykkar getur tekið, ef þið rituðuð ritningarvers í hug ykkar og hjarta í hverri viku, næstu mánuðina eða árin eða lengur?

Jesús Kristur er fyrirmynd okkar

Jesú Kristur hlýtur að hafa þróað með sér ást á ritningunum á unga aldri. Hann hlýtur að hafa lesið og ígrundað ritningarnar sem ungur drengur, til þess að eiga innihaldsríkar umræður við hina vitru fræðimenn í musterinu, er hann var 12 ára.13 Hann hóf þjónustu sína 30 ára gamall14 og hann vísaði fljótt og oft í ritningarnar í þjónustutíð sinni.15 Mætti því ekki álykta að Jesús hafi varið hið minnsta 20 árum í að læra og ígrunda ritningarnar til að búa sig undir hlutverk sitt? Er eitthvað sem þið þurfið að gera til að búa ykkur sjálf andlega undir tækifæri framtíðar til að kenna og blessa fjölskyldu ykkar og aðra?

Iðkið trú og gerið þetta

Til að undirstrika, þá vona ég að þið leggið vikulega fyrir. Iðkið trú, sýnið aga og gerið það. Ég bið þess líka einlæglega að þið ákveðið að ígrunda orð Guðs, meira og dýpra, í viku hverri. Iðkið trú, sýnið aga og gerið það.

Ólíkt og á við um fyrri áskorunina, um peningasöfnun, “ þá munum við eilíflega njóta alls ávinnings síðari áskorunarinnar, sem er sálarfrelsandi – og hvorki mölur, né ryð þessa heims fær eytt.16

Öldungur D. Todd Christofferson veitti þessa skýru leiðsögn og loforð: „Lærið ritningarnar vandlega, af einbeitingu. Ígrundið og biðjið varðandi þær. Ritningarnar eru opinberun og þær leiða til fleiri opinberana.“17

Lokaorð

Ég lofa ykkur því að þið munið ekki sjá eftir því að hafa ritað í huga ykkar og hjarta eitt ritningarvers í viku hverri. Þið munið skynja varanlegan andlegan tilgang, vernd og kraft.

Hafið í huga orð Jesú Krists, þar sem hann segir: „Gjörið það, sem þér hafið séð mig gjöra.“18 Ég bið þess að við megum tileinka okkur öll hans orð, í nafni Jesú Krists, amen.