2010–2019
Með augum Guðs
Október 2015


Með augum Guðs

Til að geta þjónað fólki af árangri í kirkjunni, þá þurfum við að geta séð það með augum foreldra, með augum himnesks föður.

Kæru bræður og systur, þakka ykkur fyrir að hafa stutt mig í gær, sem meðlim Tólfpostulasveitarinnar. Það er erfitt að lýsa því hve þýðingarmikið það er fyrir mig. Ég var sérstaklega þakklátur fyrir stuðning tveggja óvenjulegra kvenna í lífi mínu; eiginkonu minnar Ruth og okkar ástkæru dóttur Ashley.

Köllun mín er ærin sönnun á sannleiksgildi orða Drottins fyrr á þessari ráðstöfun: „Að hinir veiku og einföldu fái boðað fyllingu fagnaðarerindisins til endimarka heims, og frammi fyrir konungum og stjórnendum.“1 Ég er einn hinna veiku og einföldu. Þegar ég var kallaður sem biskup fyrir mörgum árum, í deild í austurhluta Bandaríkjanna, hringi bróðir minn í mig, sem bæði er eldri og mun vitrari. Hann sagði: „Þú þarft að vita að Drottinn hefur ekki kallað þig vegna einhverra sérstakra afreka þinna. Hvað þig varðar, þá er það líklega þveröfugt. Drottinn hefur kallað þig vegna þess sem hann þarf að fá áorkað í gegnum þig og það mun aðeins gerast, ef þú vinnur að hans hætti.“ Mér finnst að þessi viska eldri bróður míns eigi jafnvel enn betur við í dag.

Eitthvað undursamlegt gerist í þjónustu trúboða þegar hann eða hún gerir sér grein fyrir því að köllunin snýst ekki um hann eða hana; heldur miklu fremur um Drottin, verk hans, og börn himnesks föður. Mér finnst að það sama eigi við um postula. Þessi köllun snýst ekki um mig. Hún snýst um Drottin, verk hans, og börn himnesks föður. Sama hver köllunin eða vekefnið er í kirkjunni, góð þjónusta byggist á því að vita að sérhver sem við þjónum sé „ástríkur andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík … eiga þau sér guðlegt eðli örlög.“2

Í mínu fyrrverandi starfi var ég hjartalæknir, sérhæfður í hjartastoppi og hjartaígræðslu og margir sjúklingar mínir voru því alvarlega sjúkir. Eiginkona mín sagði á gaman saman hátt að það vísaði ekki á gott að vera einn af mínum sjúklingum. En svo öllu gamni sé sleppt, þá var ég vitni að dauða margra og þróaði með mér ákveðna tilfinningalega fjarlægð þegar hlutirnir fengu slæman endi. Á þann hátt gat ég lágmarkað dapurleika og vonbrigði.

Árið 1986 varð ungur maður að nafni Chad hjartveikur og fór í hjartaígræðslu. Honum gekk mjög vel í hálfan annan áratug. Chad gerði allt sem í hans valdi stóð til að lifa heilbrigður og eðlilegu lífi. Hann þjónaði í trúboði og var góður sonur foreldra sinna. Síðustu æviár hans reyndust honum þó erfið og ferðir hans í sjúkrahúsið voru tíðar.

Kvöld eitt var komið með hann í bráðamóttöku í sjúkrahúsið með hjartastopp. Samstarfsmenn mínir og ég unnum lengi að því að koma blóðrásinni aftur í rétt horf. Að lokum varð ljóst að ekki var hægt að endurlífga Chad. Við hættum árangurslausum endurlífgunartilraunum okkar og ég lýsti hann dáinn. Þótt ég væri hryggur og vonsvikinn, hélt ég mínu fagmannlega viðmóti. Ég hugsaði með mér: „Chad fékk góða umönnun. Hann lifði mörgum árum lengur en hann annars hefði getað.“ Mín tilfinningalega fjarlægð brotnaði þó brátt niður, er foreldrar hans komu inn í bráðamóttökuna og sáu son sinn liggjandi á börunum. Á þeirri stundu sá ég Chad með augum móður hans og föður. Ég skynjaði þær miklu vonir og væntingar sem þau höfðu varðandi hann, hina sterku þrá að hann mætti lifa örlítið lengur og örlítið betra lífi. Þegar mér varð þetta ljóst, fór ég að gráta. Þegar hér var komið urðu hlutverkaskipti og af innilegum kærleika, sem ég fæ aldrei gleymt, þá tóku Chad-hjónin að hughreysta mig.

Mér er nú ljóst, að til að geta þjónað fólki af árangri í kirkjunni, þá þurfum við að geta séð það með augum foreldra, með augum himnesks föður. Aðeins þá getum við byrjað að skilja virði sálarinnar. Aðeins þá getum við skynjað þann kærleika sem himneskur faðir ber til allra barna sinna. Aðeins þá getum við skynjað umhyggju frelsarans fyrir þeim. Við getum ekki fyllilega uppfyllt loforð sáttmála okkar, að syrgja með syrgjendum og hugga þá sem huggunar þarfnast, nema við fáum séð þau með augum Guðs.3 Þessi víðari sýn, mun ljúka upp hjörtum okkar, svo við skynjum vonbrigði, ótta og sorg annarra. En himneskur faðir mun hjálpa og hughreysta okkur, líkt og foreldrar Chads hughreystu mig í bráðamóttökunni fyrir mörgum árum. Við þurfum að hafa augu sem sjá, eyru sem heyra og hjarta sem þekkir og skynjar, ef við ætlum að koma öðrum til bjargar, líkt og Thomas S. Monson forseti hefur svo oft hvatt okkur til að gera.4

Við fáum aðeins fyllst „hinni hreinu ást Krists,“5 ef við sjáum aðra með augum himnesks föður. Við ættum dag hvern að biðja Guð um slíkan kærleika. Mormón veitti þessa hvatningu: „Biðjið þess vegna til föðurins, ástkæru bræður mínir, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists.“6

Af öllu hjarta þrái ég að vera sannur fylgjandi Jesú Krists.7 Ég elska hann. Ég dái hann. Ég ber vitni um lifandi raunveruleika hans. Ég ber vitni um að hann er hinn smurði, Messías. Ég ber vitni um óviðjafnanlega miskunn, samúð og elsku hans. Ég ber vitni með þeim þeim postulum sem árið 2000 sögðu: „Jesús er hinn lifandi Kristur, hinn ódauðlegi sonur Guðs. … Hann er ljós, líf og von heimsins.“8

Ég ber vitni um að hinn upprisni Drottinn birtist í skógarlundinum, í New York fylki árið 1820, ásamt Guði, föður okkar á himnum, eins og Joseph Smith sagði þá hafa gert. Prestdæmislyklar eru á jörðunni í dag, til að gera endurleysandi og upphefjandi helgiathafnir mögulegar. Ég veit það. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 1:23.

  2. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Liahona, nóv. 2010, 129; lesin af Gordon B. Hinckley forseta, á aðalráðstefnu Líknarfélagsins sem haldin var 23. september 1995 í Salt Lake City, Utah.

  3. Sjá Mósía 18:8–10.

  4. Sjá t.d Thomas S. Monson, “To the Rescue,” Liahona, júlí 2001, 57–60; “Our Responsibility to Rescue,” Liahona,  okt. 2013, bls. 4–5). Monson ræddi um þetta efni í boðskap sínum til aðalvaldhafa, þann 30. september 2015, og sagði við þá sem þar voru að hann hyggðist aftur leggja áherslu á þann boðskap sem hann færði aðalvaldhöfum og svæðishöfum Sjötíu á þjálfunarfundi í apríl 2009 á aðalráðstefnutíma.

  5. Moró 7:47.

  6. Moró 7:48.

  7. Sjá Kenning og sáttmálar 18:27–28 :

    „Hinir tólf skulu vera lærisveinar mínir og þeir skulu taka á sig nafn mitt. Og hinir tólf eru þeir, sem þrá munu af öllu hjarta að taka á sig nafn mitt.

    Og þrái þeir af öllu hjarta að taka á sig nafn mitt, þá eru þeir kallaðir til að fara út um allan heim og prédika fagnaðarboðskap minn hverri skepnu.“

  8. „The Living Christ: The Testimony of the Apostles,“ Liahona, apríl 2000, 3. Með þessu bæti ég staðfestingu minni við skjalið sem er vitnisburður postulanna.