2010–2019
Minnist þess á hvern þið hafið sett traust ykkar
Október 2015


Minnist þess á hvern þið hafið sett traust ykkar

Von okkar um að lifa aftur með föðurnum liggur í friðþægingu Jesú Krists.

Þegar ég var níu ára gamall, þá kom gamla, hvíthærða móðuramma mín, sem var einungis 1,5 m há, til að dvelja heima hjá okkur í nokkrar vikur. Einn eftirmiðdaginn sem hún var þar, ákváðu ég og tveir eldri bræður mínir, að grafa holu á engi hinum megin götunnar frá húsi okkar. Ég veit ekki af hverju við gerðum það, stundum grafa drengir holur. Við urðum smá skítugir, en ekki þannig að það kæmi okkur í of mikil vandræði. Aðrir drengir í nágrenninu sáu hve spennandi það var að grafa holu og byrjuðu að hjálpa til. Þá urðum við allir skítugir saman. Jörðin var hörð svo að við drógum garðslöngu að svæðinu og settum smá vatn í botninn á holunni til að mýkja jarðveginn. Við fengum smá drullu á okkur er við grófum, en holan varð stærri.

Einhverjir í hópnum ákváðu að við gætum breytt holunni í sundlaug svo við fylltum hana af vatni. Þar sem ég var yngstur og langaði til að passa í hópinn, var ég talaður til að hoppa ofan í holuna og prófa hana. Nú var ég orðinn virkilega skítugur. Ég ætlaði mér ekki að verða svona óhreinn en þannig endaði það.

Þegar það fór að kólna fór ég yfir götuna með þeim ásetningi að ganga inn í húsið. Amma mín mætti mér í útidyrunum og neitaði mér inngöngu. Hún sagði mér að ef hún myndi hleypa mér inn þá myndi ég vaða með drullu inn í húsið sem hún væri nýbúin að þrífa. Þá gerði ég eins og hver annar níu ára gutti myndi gera í þessari stöðu og hljóp að bakdyrunum, en hún var fljótari en ég átti von á. Ég varð reiður, stappaði niður fótunum og heimtaði að fá að fara inn í húsið en dyrnar voru lokaðar.

Ég var blautur, forugur og kaldur og í ímyndun æsku minnar hélt ég að ég myndi deyja í bakgarðinum okkar. Loks spurði ég hana hvað ég yrði að gera til að komast inn í húsið. Áður en ég vissi af, þá stóð ég í miðjum bakgarðinum og amma mín sprautaði á mig með garðslöngunni. Eftir eilífð, að mér fannst, úrskurðaði amma mig hreinan og leyfði mér að koma inn í húsið. Það var hlýtt í húsinu og ég gat farið í þurr, hrein föt

Með þessa dæmisögu úr raunveruleikanum í huga, hugsið þá vinsamlega um eftirfarandi orð Jesú Krists: „Og ekkert óhreint fær komist inn í ríki hans. Þess vegna gengur engin inn til hvíldar hans, nema þeir, sem laugað hafa klæði sín í blóði mínu vegna trúar sinnar og iðrunar á öllum syndum sínum og vegna staðfestu sinnar allt til enda.“1

Það var óþægilegt og ógeðfellt þegar amma mín spúlaði mig fyrir utan húsið okkar. Það sem væri eilíflega sorglegt væri að vera neitað um að snúa aftur til himnesks föður okkar vegna þess að við veldum að vera áfram í holu syndarinnar eða út ötuð forinni úr henni. Við ættum ekki að blekkja okkur sjálf með því hvað það kostar að snúa aftur, og halda okkur í návist himnesks föður. Við verðum að vera hrein.

Áður en við komum til jarðarinnar tókum við, sem andasynir og dætur Guðs, þátt í stórþingi.2 Hvert og eitt okkar fylgdist vel með og ekkert okkar sofnaði. Á því þingi lagði himneskur faðir okkar fram áætlun. Hann vissi að við myndum syndga, þar sem áætlun hans verndaði sjálfræði okkar og krafðist þess að við lærðum af okkar eigin reynslu og ekki bara hans. Hann vissi líka að synd myndi valda því að við yrðum óhrein og óhæf til að snúa aftur í návist hans því að dvalarstaður hans er enn hreinni en húsið sem amma mín þreif.

Vegna þess að faðir okkar á himnum elskar okkur og hefur það markmið að „gera ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika,“3 þá innifól áætlun hans hlutverk frelsara, einhvers sem gæti hjálpað okkur að verða hrein, sama hvað óhrein við gætum orðið. Þegar himneskur faðir okkar tilkynnti þörfina fyrir frelsara þá tel ég að við höfum öll snúið okkur og horft til Jesú Krists, hins frumgetna í andanum, þess sem hafði þroskast að því marki að hann líktist föðurnum.4 Ég trúi því að við höfum vitað að það yrði að vera hann, að enginn okkar hinna gæti gert þetta en að hann gæti það og að hann myndi gera það.

Í Getsemanegarðinum og á krossinum á Hauskúpuhæð, þjáðist Jesús Kristur á bæði líkama og sál, skalf af sársauka, blæddi úr hverri svitaholu, grátbað föður sinn að taka þennan beiska bikar frá sér,5 en samt drakk hann.6 Hvers vegna gerði hann það? Með hans eigin orðum, þá langaði hann að gjöra föðurinn dýrðlegan og ljúka „undirbúningi [sínum] fyrir mannana börn“7 Hann vildi halda sáttmála sína og gera heimför okkar mögulega. Hvers ætlast hann til af okkur í staðinn? Hann biður okkur einfaldlega að játa syndir okkar og iðrast svo að við þurfum ekki að þjást eins og hann.8 Hann býður okkur að verða hrein svo að við verðum ekki skilin eftir fyrir utan hús himnesks föður okkar.

Þó að æskilegt lífsmynstur okkar sé að forðast syndir, hvað friðþægingarfórn Jesú Krists varðar, þá skiptir ekki máli hvaða syndir við höfum drýgt eða hve djúpt við höfum sokkið í hina frægu holu. Það skiptir ekki máli þótt við fyrirverðum okkur eða förum hjá okkar vegna þeirra synda sem „ná svo auðveldlega tökum á [okkur],“9 eins og spámaðurðinn Nefí sagði. Það skiptir ekki máli þó að við höfum, eitt sinni fyrir löngu selt frumburðarrétt okkar fyrir grautarskál.10

Það sem skiptir máli er að Jesús Kristur, sonur Guðs, þoldi „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar“ til þess að „hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt.“11 Hverju skiptir það að hann var fús til að beygja sig niður,12 að koma til þessarar jarðar og „stíga neðar öllu“13 og þola „þær ýktustu andstæður sem nokkur maður“ gæti nokkurn tíma þolað.14 Það sem skiptir máli er að Kristur er að tala máli okkar fyrir föðurnum þegar hann segir: „Faðir, sjá þjáningar og dauða hans, sem enga synd drýgði, og þú hafðir velþóknun á … Faðir, þyrm því þessum bræðrum mínum, sem trúa á nafn mitt svo að þeir megi koma til mín og öðlast ævarandi líf.“15 Það er það sem skiptir raunverulegu máli og það sem ætti að veita okkur öllum endurnýjaða von og einurð til að reyna enn einu sinni, því hann hefur ekki gleymt okkur.16

Ég ber vitni um það að frelsarinn mun aldrei snúa burt frá okkur þegar við leitum hans í auðmýkt til að iðrast, hann mun aldrei líta á okkur sem vonlaus tilfelli og mun aldrei segja: „Æ, nei ekki þú aftur.“ Hann mun heldur aldrei hafna okkur vegna þess að hann skilji ekki hve erfitt það er að forðast synd. Hann skilur þetta allt fullkomnlega, þar með talið sorgina, skömmina og óþolinmæðina, sem eru óhjákvæmilegar afleiðingar syndar.

Iðrun er raunveruleg og hún virkar. Hún er ekki tilbúin tilfinning eða afurð „truflaðaðrar hugsunar.“17 Hún hefur valdið til að lyfta byrðum og skipta þeim út fyrir von. Hún getur leitt til mikillar breytingar á hjörtum sem veldur því að „við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka.“18 Það er nauðsynlegt að iðrun sé ekki auðveld. Það sem hefir eilíft gildi er það sjaldnast. Niðurstaðan er hins vegar þess virði Eins og Boyd K. Packer forseti flutti vitnisburð um í síðustu ræðu sinni til hinna Sjötíu: „Hugsunin er þessi, friðþægingin skilur ekki eftir sig neitt far, engin vegsummerki. Það sem er ákveðið er ákveðið … Friðþægingin skilur ekki eftir far, engin vegsummerki. Hún læknar bara og það sem læknast, helst læknað.“19

Þannig er það, að von okkar um að lifa aftur með föðurnum byggist á friðþægingu Jesú Krists, í sterkri andstöðu við kröfur réttlætis, þá byggist það á fúsleika þess sem syndlaus var að taka á sig sameinaða byrði synda alls mannkyns, þar með taldar þær syndir sem sumir synir og dætur Guðs velja að þjást fyrir sjálf.

Sem þegnar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, þá ætlum við friðþægingarfórninni meiri mátt en flestir aðrir því að við vitum það að ef við gerum sáttmála, iðrumst stöðugt og stöndum stöðugt allt til enda, þá mun hann gera okkur samarfa sína20 og eins og hann munum við meðtaka allt sem faðirinn á.21 Það er byltingakennd kenning, en samt er hún sönn. Friðþæging Jesú Krists gerir boð frelsarans, „verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn,“22 algerlega framkvæmanlegt fremur en óþolandi ómögulegt.

Ritningarnar kenna að hver einstaklingur verði að vera „[dæmdur] eftir hinum heilaga dómi Guðs.“23 Á þeim degi verður ekki mögulegt að dyljast í stærri hópi fólks eða að benda á aðra sem afsökun fyrir óhreinleika okkar. Sem betur fer kenna ritningarnar einnig að Jesús Kristur, sem þjáðist fyrir syndir okkar, sem er málsvari okkar hjá föðurnum, sem kallar okkur vini sína, sem elskar okkur óendanlega, verði að lokum dómari okkar. Ein af blessunum friðþægingar Jesú Krists sem gleymist oft er sú að „faðirinn … hefur … falið syninum allan dóm.“24

Bræður og systur ef ykkur finnst dregið af ykkur eða að þið velti því fyrir ykkur hvort þið getið nokkurn tíma komist út úr þessari andlegu holu sem þið hafið grafið ykkur, munið þá hver stendur „milli [okkar] og réttvísinnar,“sem er „gagntekinn samúð með mannanna börnum“ og sem hefur tekið á sig misgjörðir okkar og brot og „fullnægt kröfum réttvísinnar.“25 Með öðrum orðum, eins og Nefí gerði á sínum síðustu andartökum sjálfsefa, minnist þess bara „á hvern [þið] hafið sett traust [ykkar],“26 jafnvel Jesú Krist, og iðrist þá og upplifið aftur „[fullkomið vonarljós].“27 Í nafni Jesú Krists, amen.