2010–2019
Uppgötva guðleikann hið innra
Október 2015


Uppgötva guðleikann hið innra

Við komum til þessarar jarðar til að uppgötva og næra sáðkorn hins guðlega eðlis innra með okkur.

Systur, við elskum ykkur! Ég ber vitni um að lífið er gjöf. Guð hefur áætlun fyrir hverja okkar og okkar persónulegi undirbúningur hófst löngu áður en við komum til þessarar jarðar.

Upp á síðkastið hef ég skilið betur kraftaverk fæðingar barns í jarðlífið sem hluta af áætlun himnesks föður. Sérhvert okkar þróaðist líkamlega í kviði móður okkar og var í marga mánuði háð líkama hennar til lífsviðhalds. Loks kom svo að fæðingunni sjálfri – afdrifarík bæði fyrir móður og barn – sem skilur okkur að.

Ljósmynd
Hvítvoðungur

Þegar barnið kemur í heiminn breytist hitastigið og ljósmagnið og hinn skyndilega þrýstingsbreyting á brjóstkassa barnsins veldur því að það grípur fyrsta andadráttinn. Hin smáu lungu fyllast skyndilega af lofti í fyrsta sinn, líffærin taka að starfa og barnið tekur að anda. Þegar klippt er á naflastrenginn er líflínan endanlega rofin á milli móður og barns og líf barnsins hefst á jörðinni.

Job sagði: „Andi Guðs hefir skapað mig, og andblástur hins Almáttka gefur mér líf.“1

Við komum í þennan heim „aðskilin dýrðarskýjum.“2 „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ segir að sérhvert okkar sé „ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra“ og „sérhver okkar [eigi sér] guðlegt eðli og örlög.“3 Himneskur faðir miðlar okkur rausnarlega af guðleika sínum. Þetta guðlega eðli er gjöf frá honum, af kærleika sem aðeins foreldri fær skynjað.

Við komum til þessarar jarðar til að uppgötva og næra sáðkorn hins guðlega eðlis innra með okkur.

Við vitum af hverju

Elaine Cannon, fyrrverandi aðalforseti Stúlknafélagsins, sagði: „Það eru tveir mikilvægir dagar í lífi kvenna: Fæðingardagur þeirra og dagurinn sem þær uppgötva af hverju.“4

Við vitum af hverju. Við erum hér til að aðstoða við uppbyggingu ríkis hans á jörðu og undirbúa síðari komu sonar hans, Jesú Krists. Af öllum lífsins krafti, reynum við að fylgja honum. Hið guðlega eðli innra með okkur styrkist og eflist af þeirri áreynslu að nálgast föður okkar og son hans.

Okkar guðlega eðli hefur ekkert að gera með okkar persónulegu afrek, stöður sem við hljótum, fjölda maraþonhlaupa sem við tökum þátt í eða vinsældir okkar eða sjálfsmat. Okkar guðlega eðli er frá Guði komið. Við hlutum það í fyrri tilveru, áður en við fæddumst og það mun viðhaldast um eilífð.

Við erum elskaðar

Við staðfestum okkar guðlega eðli er við miðlum og upplifum elsku föður okkar á himnum. Við höfum sjálfræði til að leggja rækt við það og stuðla að vexti þess. Pétur sagði að okkur hafi verið gefin „hin dýrmætu og háleitu fyrirheit,“ svo við mættum „verða hluttakendur í guðlegu eðli.“5 Þegar við tökum að skilja hverjar við erum – dætur Guðs – þá uppgötvum við þessi dýrmætu loforð.

Við fáum séð okkur sjálfar sem hans, er við horfum út um glugga, en ekki aðeins í spegil. Við komum auðvitað til hans í bæn, lesum orð hans af námfýsi og gerum vilja hans. Við getum þá tekið á móti staðfestingu að ofan frá honum, en ekki beint frá heiminum umhverfis eða þeim sem eru á Facebook eða Instagram.

Ef þið efist einhvern tíma um þennan guðlega neista hið innra, krjúpið þá í bæn og spyrjið himneskan föður: „Er ég raunverulega dóttir þín og elskar þú mig?“ Öldungur M. Russell Ballard sagði: „Hvað Drottni finnst um ykkur eru ein ljúfustu staðfestingarboð andans.“6

Við heyrum honum til. Páll sagði: „Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn.“7 Oft er fyrsti Barnafélagssöngurinn sem við lærum: „Guðs barnið eitt ég er.“8 Nú er góður tími til að huga að hinum kæru orðu „Guðs barnið eitt ég er“ og bæta við: „Hvað geri ég þá?“ Við getum jafnvel spurt spurninga eins og: „Hvað geri ég til að lifa líkt og barn Guðs?“ „Hvernig get ég þróað hið guðlega eðli hið innra?“

Dieter F. Uchtdorf sagði: „Guð sendi ykkur hingað til að búa ykkur dásamlegri framtíð en þið fáið ímyndað ykkur.“9 Sú framtíð verður að veruleika þegar þið, dag hvern, gerið meira en aðeins að vera til; hún verður að veruleika þegar þið fyllið mæli sköpunar ykkar. Það býður Drottni í líf ykkar og þið takið að laga ykkur að vilja hans.

Við lærum vegna okkar guðlega eðlis

Hið guðlega eðli okkar vekur okkur þrá til að þekkja sjálf þennan sannleika.

Stúlka að nafni Amy kenndi mér nýlega nokkuð er hún skrifaði: „Það er erfitt að vera unglingur á þessum tímum. Vegurinn er að þrengjast. Satan lætur mikið að sér kveða. Það er engin málamiðlun; það er annaðhvort rétt eða rangt.“

Hún sagði einnig: „Oft reynist erfitt að finna góða vini. Jafnvel þótt maður telji sig eiga bestu vinina, sem aldrei fara í burtu, þá getur það breyst af mörgum ástæðum. Þetta er ástæða þess að ég gleðst yfir að eiga fjölskyldu, himneskan föður, Jesú Krist og heilagan anda, sem ég get átt samfélag við, alltaf þegar eitthvað fer úrskeiðis með vinina.“

Amy sagði líka: „Kvöld eitt átti ég erfitt. Ég sagði systur minni að ég vissi ekki hvað til bragðs ætti að taka.“

Síðar um kvöldið sendi systir hennar textaskilaboð til hennar og vitnaði í öldung Jeffrey R. Holland, sem sagði: „Gefist ekki upp. … Ekki hætta. Haldið göngunni áfram. Haldið áfram að reyna. Það er hjálp og hamingja á leiðinni. … Allt mun fara vel að lokum. Treystið Guði og trúið að góðir hlutir munu gerast.“10

Amy útskýrði: „Ég minnist þess að hafa lesið þetta og síðan bara beðið þess að ég myndi finna elsku frá Guði, ef hann væri í raun þarna fyrir mig.“

Hún sagði: „Um leið og ég bað þannig og trúði að hann væri að hlusta, fann ég dásamlega kærleiks- og gleðitilfinningu. Orð fá þessu ekki lýst. Ég vissi að hann var raunverulegur og elskaði mig.“

Hann veit hvað þið getið orðið, þar sem þið eruð börnin hans. Hann þekkir vonir ykkar og drauma. Hann þekkir möguleika ykkar. Hann bíður þess að þið komið til hans í bæn. Þar sem þið eruð börnin hans, þarfnist þið ekki bara hans, heldur þarfnast hans líka ykkar. Þær sem sitja umhverfis ykkur núna á þessari samkomu þarfnast ykkar. Heimurinn þarfnast ykkar og ykkar guðlega eðli gerir ykkur kleift að vera öllum börnum hans verðskuldaðir lærisveinar. Þegar við tökum að skynja guðleikann í okkur sjálfum, munum við líka sjá hann í öðrum.

Við þjónum vegna okkar guðlega eðlis

Okkar guðlega eðli vekur okkur þrá til að þjóna öðrum.

Ljósmynd
Móðir og barn í hungursneyð í Eþíópíu

Nýlega sagði Sharon Eubank, framkvæmdastjóri Mannúðarþjónustu Síðari daga heilagra, frá reynslu sem öldungur Glenn L. Pace sagði frá. Á miðjum sjöunda áratugnum voru miklir þurrkar og hungursneyð í Eþíópíu. Settar voru upp líknarstöðvar með mat og vatni, fyrir þá sem þangað komust. Gamall maður sem var matarþurfi hafði komið langt að og hugðist fara til matarstöðvar. Hann fór framhjá þorpi þar sem hann heyrði barnsgrát. Hann leitað barnsins þar til hann fann það sitjandi á jörðinni við hlið dáinnar móður sinnar. Maðurinn tók barnið upp og hélt göngu sinni áfram í 40 km til matarstöðvar. Þegar hann kom þangað voru fyrstu orðin hans ekki: „Ég er svangur“ eða „Hjálpið mér.“ Þau voru: „Hvað er hægt að gera fyrir þetta barn?“11

Hið guðlega eðli innra með okkur tendrar þrá til að hjálpa öðrum í verki. Himneskur faðir og Jesús Kristur geta hjálpað okkur að finna styrk til að gera það. Gæti Drottinn verið að spyrja okkur: „Hvað er hægt að gera fyrir þessa dóttur, þennan bróður, þennan föður eða þennan vin?“

Það er fyrir hina kyrrlátu rödd andans og hið guðlega eðli að efasemdamaðurinn finnur frið og líknandi lausn.

Þegar spámaðurinn talar, þá eru orð hans í samhljóm við okkar guðlega eðli og veita okkur styrk til að halda áfram.

Að meðtaka sakramentið í hverri viku höfðar til okkar guðlega eðlis, vekur vonir hið innra og við minnumst frelsara okkar, Jesú Krists.

Ég heiti því að þegar þið reynið að uppgötva víddir hins guðlega eðlis innra með ykkur, munið þið byrja að efla ykkar dýrmætu gjöf. Látið hana leiða ykkur til að verða dóttir hans, á veginn til hans – þar sem við verðum „[færðar] aftur þeim Guði, sem gaf [okkur] lífsanda.“12 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Job 33:4.

  2. „Ode: Intimations of Immortality from Recollections of Early Childhood,“The Complete Poetical Works of William Wordsworth (1924), 359.

  3. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  4. Elaine Cannon, „‚Let Me Soar,‘ Women Counseled,“Church News, 17. okt. 1981, 3.

  5. 2 Pét 1:4.

  6. M. Russell Ballard, „Women of Righteousness,“ Ensign, apríl 2002, 72; Liahona, des. 2002, 42.

  7. Róm 8:16.

  8. „Guðs barnið eitt ég er,“Sálmar, nr. 112.

  9. Dieter F. Uchtdorf, „Living the Gospel Joyful,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2014, 121.

  10. Jeffrey R. Holland, „An High Priest of Good Things to Come,“ Ensign, nóv. 1999, 38; Liahona, jan. 2000, 45.

  11. Sjá Glen L. Pace, „Infinite Needs and Finite Resources,“ Ensign, júní 1993, 52; Tambuli, mars 1995, 18–19.

  12. 2 Ne 9:26.