2010–2019
Sumar með Rósu frænku
Október 2015


Sumar með Rósu frænku

Ég bið þess að trú muni styrkja sérhvert fótspor ykkar, er þið gangið ykkar eigin bjarta stíg lærisveinsins.

Kæru systur og vinir, ég er mjög ánægður að fá að vera með ykkur hér. Ég er þakklátur fyrir að vera í návist okkar ástkæra spámanns, Thomas S. Monson forseta. Við elskum þig. Við erum sorgmædd vegna fráfalls þriggja dýrmætra vina og sannra postula Drottins. Við söknum Packers forseta, öldungs Perry og öldungs Scott. Okkur þykir vænt um þá. Við biðjum fyrir fjölskyldum þeirra og vinum.

Ég hlakka alltaf til þessa ráðstefnuhluta – hin dásamlega tónlist og ráðleggingar frá okkar innblásnu systrum okkar færir andann hingað í miklum mæli. Ég er betri manneskja eftir að hafa verið í félagsskap ykkar.

Er ég íhugaði hvað ég ætti að segja við ykkur í dag þá fór ég að hugsa um það hvernig frelsarinn kenndi. Það er áhugavert að hugsa til þess að honum tókst að kenna hinn háleitasta sannleik með því að segja einfaldar sögur. Í dæmisögum sínum bauð hann lærisveinum sínum að taka á móti sannleika, ekki bara í huganum heldur einnig í hjartanu og tengja eilífar reglur við hversdagsleikann.1 Okkar ástkæri Monson forseti er einnig meistari í að nota persónulega reynslu eða upplifun í kennslu sinni.2

Í dag mun ég líka færa ykkur boðskap minn, og tjá hugsanir mínar og tilfinningar, með því að segja sögu. Ég býð ykkur að hlusta með andanum. Heilagur andi mun hjálpa ykkur að finna þann boðskap sem hentar ykkur í þessari dæmisögu.

Rósa frænka

Saga þessi fjallar um stúlku sem heitir Eva. Það er tvennt mikilvægt sem þið ættuð að vita um Evu. Annað er að hún er 11 ára gömul í þessari sögu. Og hitt er að hún vildi algjörlega og fullkomlega ekki fara til og lifa hjá Rósu fræknu. Alls ekki. Kom ekki til mála.

Hins vegar þurfti móðir Evu að gangast undir aðgerð sem krafðist langs bataferils. Því sendu foreldrar Evu hana til að verja sumrinu hjá Rósu frænku.

Í huganum á Evu voru þúsundir ástæðna sem mæltu á móti þessari hugmynd. Ein af þeim var sú að þetta þýddi að hún gat ekki verið með móður sinni. Hún þyrfti einnig að yfirgefa fjölskyldu og vini. Þess fyrir utan þekkti hún ekki Rósu fræknu. Henni leið bara mjög vel þar sem hún var, takk fyrir kærlega.

Sama hversu mikið hún mótmælti eða ranghvolfdi augunum, ákvörðuninni yrði ekki breytt. Því pakkaði Eva í ferðatösku og fór í löngu ökuferðina með föður sínum heim til Rósu frænku.

Eva hataði húsið, alveg frá því andartaki sem hún kom inn í það.

Allt var svo gamalt! Sérhver sentímetri var notaður, gamlar bækur, flöskur í skrýtnum litum og yfirfull plastílát af perlum, slaufum og hnöppum.

Rósa frænka hafði aldrei gifst og bjó ein. Eina aðra lífveran í húsinu var grár köttur sem fannst best að finna hæsta staðinn í hverju herbergi og tylla sér þar, starandi eins og hungrað tígrisdýr á allt sem fyrir neðan var.

Jafnvel húsið sjálft virtist einmanna. Húsið var í dreifbýli. Enginn á aldri við Evu bjó innan við 800 metra frá húsinu. Þetta gerði Evu einnig einmanna.

Í fyrstu tók hún lítið eftir Rósu frænku. Hún hugsaði aðallega um móður sína. Stundum var hún andvaka á nóttunni og bað af allri sál að móðir sín myndi ná sér. Þótt það gerðist ekki strax þá tók Evu að finnast Guð vera að vaka yfir móður hennar.

Að lokum bárust þær fréttir að aðgerðin hefði tekist vel og það eina sem Eva þurfti nú að gera var að endast út sumarið. Ó, en hve hún hataði að bíða!

Eva fór að taka meira eftir Rósu frænku, nú þegar hún hafði ekki lengur áhyggjur af móður sinni. Hún var stór kona – að öllu leyti: Röddin, brosið og persónuleikinn. Hún átti erfitt með að komast á milli en samt var hún alltaf syngjandi og hlæjandi er hún vann og hlátur hennar fyllti húsið. Á hverju kvöldi settist hún á yfirfullan sófann, náði í ritningarnar og las upphátt. Hún sagði stundum upphátt athugasemdir, er hún las, eins og: „Ó, hann hefði ekki átt að gera þetta!“ eða „Hvað ég gæfi nú ekki fyrir að hafa verið þarna!“ eða „Er þetta ekki það fegursta sem þú hefur nokkru sinni heyrt!“ Á hverju kvöldi, þegar þær tvær krupu við rúm Evu til að biðja flutti Rósa frænka fallegar bænir, þakkandi sínum himneska föður fyrir bláskaða og grenitré, sólsetur og stjörnur og „dásemdina að fá að vera á lífi.“ Evu virtist Rósa þekkja Guð eins maður þekkir vin sinn.

Með tímanum komst Eva að nokkru óvæntu: Rósa frænka var mjög sennilega hamingjusamasta manneskjan sem hún hafði nokkru sinni þekkt!

En hvernig gat það verið?

Yfir hverju var hún svona hamingjusöm?

Hún hafði aldrei gifst, átti engin börn, hafði engan til að veita sér félagsskap nema hrollvekjandi köttinn og hún átti erfitt með að gera einföldustu hluti eins og að reima skóna og ganga upp stiga.

Hún hafði á höfðinu neyðarlega stóra og bjarta hatta þegar hún fór í bæjarferð. En fólk hló ekki að henni. Þess í stað hópaðist fólkið að henni og vildi ræða við hana. Rósa hafði verið skólakennari og það var ekki óalgengt að fyrrum nemendur – nú fullorðið fólk með sín eigin börn – myndi koma í heimsókn og spjalla. Þau þökkuðu henni fyrir að hafa jákvæð áhrif á líf þeirra. Þau hlógu oft. Stundum grétu þau jafnvel.

Eva varði meiri og meiri tíma með Rósu er líða tók á sumarið. Þær fóru í langar göngur og Eva lærði að greina spörfugla frá finkum. Hún týndi villt ylliber og bjó til appelsínu marmelaði. Hún lærði um langalangaömmu hennar sem hafði farið frá ástkæru heimalandi sínu, siglt yfir hafið og gengið yfir slétturnar til að vera með hinum heilögu.

Brátt uppgötvaði Eva nokkuð annað: Rósa frænka var ekki bara ein af hamingjusömustu manneskjum sem hún þekkti, heldur var Eva sjálf hamingjusamari þegar hún var í nærveru hennar.

Sumardagarnir tóku að líða hraðar. Áður en Eva vissi af sagði Rósa frænka að brátt þyrfti Eva að snúa aftur heim. Þótt Eva hafði hlakkað til þeirrar stundar frá deginum sem hún hafði komið, þá var hún ekki viss hvernig henni liði nú. Henni varð ljóst að hún ætti eftir að sakna þessa skrýtna gamla húss með kettinum eltihrelli og ástkæru Rósu frænku.

Eva spurði spurningar sem hún hafði velt fyrir sér í margar vikur, daginn áður en faðir hennar kom til að sækja hana: „Rósa frænka, af hverju ertu svona hamingjusöm?“

Rósa frænka horfði vandlega á hana og síðan leiddi hún Evu að málverki sem hékk í stofunni. Það var gjöf frá hæfileikaríkum kærum vini.

„Hvað sérð þú hér?“ spurði hún.

Ljósmynd
Hoppandi landnemastúlka

Eva hafði séð málverkið áður en hún hafði aldrei almennilega horft á það. Stúlka í landnemakjól hoppaði eftir ljósbláum stíg. Grasið og tréin voru líflega græn. Eva sagði: „Þetta er málverk af stúlku. Hún virðist vera að hoppa.“

„Já, þetta er landnema stúlka sem hoppar áfram glaðlega,“ sagði Rósa frænka. „Ég ímynda mér að það hafi verið margir þungir og dökkir dagar hjá landnemunum. Líf þeirra var svo erfitt – við getum ekki einu sinni ímyndað okkur það. En í þessu málverki er allt svo bjart og mikil von. Stúlkan er með vor í hjarta og hún færist hratt fram og upp á við.“

Eva var hljóð svo Rósa frænka hélt áfram: „Það er nægilega mikið í lífinu sem ekki gengur upp þannig að hver sem er getur dregið sig niður í poll neikvæðni og þunglyndis. En ég þekki fólk sem, þrátt fyrir að hlutirnir gangi ekki upp, einblínir á dásemdir og kraftaverk lífsins. Þetta fólk er hamingjusamasta fólkið sem ég þekki.“

„En þú getur ekki bara ýtt á rofa og farið frá sorg yfir í hamingju,“ sagði Eva.

„Nei kannski ekki,“ brosti Rósa frænka mjúklega, „en Guð skapaði okkur ekki til að vera sorgmædd. Hann skapaði okkur svo við myndum upplifa gleði!3 Hann mun hjálpa okkur að taka eftir því góða, bjarta og vongóða í lífinu ef við treystum honum. Þetta er dagsatt og heimurinn mun verða bjartari. Nei það gerist ekki samstundis, enda gerist það sjaldnast þegar kemur að góðum hlutum. Mér virðist sem svo að það besta, eins og heimabakað brauð eða appelsínumarmelaði, krefjist þolinmæði og vinnu.“

Eva hugleiddi þetta í smá stund og sagði svo: „Kannski þetta sé ekki svona einfalt fyrir fólk sem lifir ófullkomnu lífi.“

„Elsku Eva, heldur þú virkilega að lífið mitt sé fullkomið?“ Rósa frænka sat með Evu á yfirfulla sófanum. „Á tímabili upplifði ég svo mikið vonleysi að mig langaði ekki að halda áfram.“

„Þú?“ Spurði Eva.

Rósa frænka kinkaði kolli. „Það var svo margt sem ég óskaði í lífinu.“ Það brá fyrir sorgartóni í rödd hennar er hún talaði eins og Eva hafði aldrei áður heyrt hana tala. „Fæst af því varð að veruleika. Það var eitt hugarangrið á eftir öðru. Dag einn áttaði ég mig á því að líf mitt yrði aldrei eins og ég hafði vonast að það yrði. Þetta var niðurdrepandi dagur. Ég var tilbúin að gefast upp og vera vansæl.

„Og hvað gerðir þú?“

„Ekkert í nokkurn tíma. Ég var bara reið. Það var hræðilegt að umgangast mig.“ Síðan hló hún örlítið en það var ekki hennar venjulegi stóri hlátur. „‚Þetta er ekki sanngjarnt‘ var lagið sem ég söng aftur og aftur í huganum. Að lokum komst ég að nokkru sem snéri lífi mínu algjörlega við.“

„Hvað var það?“

„Trú,“ brosti Rósa frænka. Ég uppgötvaði trú. Og trú leiddi að von. Og trú og von veittu mér þá fullvissu að dag einn myndi allt þetta verða skiljanlegt, að vegna frelsarans myndi allt verða lagfært. Eftir það sá ég að stígurinn fyrir framan mig var ekki eins dökkur og rykugur eins og ég hafði haldið. Ég fór að taka eftir ljósbláa litnum, lífríka græna litnum og eldrauða litnum og ég ákvað að ég hefði val – ég gæti dregið lappirnar með hokið höfuð á rykugum vegi sjálfvorkunnar eða ég gæti haft örlitla trú, farið í bjartan kjól, smeygt mér í dansskóna og hoppað syngjandi niður stíg lífsins. Rödd hennar var nú hoppandi eins og stúlkan á málverkinu.

Rósa frænka teygði sig yfir til endaborðsins og dró vel notuðu ritningarnar sínar í kjöltuna. „Ég held ég hafi ekki verið þunglynd eins og læknavísindin skilgreina það – held maður geti ekki talað sig út úr þeim aðstæðum. En ég hafði sannlega talið sjálfri mér trú um að vera vansæl. Já, ég fór í gegnum nokkra dimma daga en allar hugrenningar mínar og áhyggjur myndu ekki breyta því – þær gerðu einungis málið verra. Trú á frelsarann hefur kennt mér að engu máli skiptir hvað átti sér stað í fortíðinni, sagan mín getur haft góðan endi.“

„Hvernig veist þú það?“ Spurði Eva.

Rósa frænka fletti í Biblíunni sinni og sagði: „Það stendur einmitt hérna:

„‚Guð … mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.

‚Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið‘“4

Rósa frækna horfði á Evu. Brosið hennar var breytt er hún hvíslaði, með örlitlum titringi í röddinni: „Er þetta ekki það fallegasta sem þú hefur heyrt?“

Evu fannst þetta hljóma mjög fallega.

Rósa frænka fletti nokkrum blaðsíðum og benti á vers sem hún bað Evu að lesa: „Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“5

„Með svona dásamlega framtíð,“ sagði Rósa frænka, „af hverju þá að láta fortíðina eða núverandi málefni sem ekki fara alveg eins og maður vill heltaka sig?“

Það komu hrukkur á augnbrún Evu. „Bíddu við,“ sagði hún. „Ertu að segja að það að vera hamingjusöm þýði að horfa einungis á hamingju í framtíðinni? Er öll okkar hamingja í eilífðinni? Getum við ekki upplifað hluta af henni núna?“

„Jú, auðvitað getum við það!“ Hrópaði Rósa frænka. „Kæra barn, nútíðin er hluti af eilífðinni. Hún byrjar ekki bara þegar við deyjum! Trú og von mun opna augu þín fyrir hamingjunni sem lögð er fyrir þig nú.

Ég þekki skáld sem segir: ‚Eilífðin er samansafn nútíðar‘6 Ég vildi ekki að eilífðin mín væri uppfull af dimmum og hræðilegum ‚nútíðum.‘ Og ég vildi ekki lifa í myrku skotbirgi, gnístandi tönnum og með lokuð augu, nöp við að standast allt til enda. Trú veitti mér vonina sem ég þurfti til að lifa glaðlegu lífi núna!“

„Og hvað gerðir þú þá?“ Spurði Eva.

„Ég iðkaði trú á loforð Guðs með því að fylla líf mitt af því sem skiptir máli. Ég fór í skóla. Náði mér í menntun. Það leiddi að starfsframa sem ég elskaði.

Eva hugleiddi þetta um stund og sagði: „En hamingjan getur ekki falist í því að vera upptekin. Það er fullt af fólki upptekið sem ekki er hamingjusamt.“

„Hvernig getur þú verið svona ung en samt svona vitur?“ Spurði Rósa frænka. „Þú hefur á réttu að standa. Flest af þessu upptekna, óhamingjusama fólki hefur gleymt því eina sem skiptir máli í öllum heiminum – því sem Jesús sagði að væri kjarninn í fagnaðarerindi hans.“

„Og hvað er það?“ Spurði Eva.

„Það er ást – hin hreina ást Krists,“ sagði Rósa. „Sjáðu til, allt annað í fagnaðarerindinu – allt sem ætti að gera og á að gera og þú skalt – leiðir til kærleikans. Þegar við elskum Guð þá langar okkur að þjóna honum. Við viljum verða eins og hann. Þegar við elskum náunga okkar þá hættum við að hugsa eins mikið um okkar eigin vandamál og í staðinn hjálpum öðrum að leysa sín vandamál.“7

„Og gerir það okkur hamingjusöm?“ Spurði Eva.

Rósa frænka jánkaði og brosti með augun full af tárum. „Já mín kæra. Það gerir okkur hamingjusöm.“

Aldrei söm aftur

Næsta dag knúsaði Eva Rósu frænku og þakkaði henni fyrir allt sem hún hafði gert. Hún snéri aftur til fjölskyldu sinnar og vina, húss síns og nágrennis.

En hún varð aldrei aftur söm.

Eva hugleiddi oft orð Rósu frænku er hún eltist. Eva giftist að lokum, ól börn og lifði löngu og dásamlegu lífi.

Dag einn er hún stóð á heimili sínu og dáðist að málverki af stúlku í landnemafötum sem hoppaði eftir ljósbláum stíg, þá varð henni ljóst að einhvern veginn hafði hún náð sama aldri og Rósa frænka var á þetta markverða sumar.

Ljósmynd
Hoppandi landnemastúlka

Þegar henni varð þetta ljóst þá fann hún fyrir sérstakri bæn í hjarta sér. Eva var þakklát fyrir líf sitt, fjölskyldu sína, fyrir hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og fyrir þetta sumar, fyrir endurlöngu, þegar Rósa frænka8 hafði kennt henni um trú, von og kærleika.9

Blessun

Kæru systur og vinir í Kristi, ég vona og bið þess að eitthvað í þessari sögu hafi snortið hjörtu ykkar og innblásið sálu ykkar. Ég veit að Guð lifir og elskar sérhverja okkar.

Ég bið þess að trú muni styrkja sérhvert fótspor ykkar er þið gangið ykkar eigin bjarta stíg lærisveinsins, að vonin muni opna augu ykkar fyrir þeirri dýrð sem himneskur faðir ætlar ykkur og að ást til Guðs og barna hans muni fylla hjörtu ykkar. Ég, sem postuli Drottins, skil eftir vitnisburð minn og blessun í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá, til dæmis, Matt 13:24–30; 18:23–35; 20:1–16; 22:1–14; 25; Lúk 10:25–37; 15:11–32.

  2. Sjá, til dæmis, Thomas S. Monson, “Guided Safely Home,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2014, 67–69; “Love—the Essence of the Gospel,” Ensign eða Líahóna, maí 2014, 91–94; “We Never Walk Alone,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2013, 121–24; “Obedience Brings Blessings,” Ensign eða Líahóna, maí 2013, 89–92.

  3. Sjá 2 Ne 2:25.

  4. Op 21:3–4.

  5. 1 Kor 2:9.

  6. “Forever – is composed of Nows,” í Final Harvest: Emily Dickinson’s Poems, valin af Thomas H. Johnson (1961), 158; sjá einnig poetryfoundation.org/poem/182912.

  7. Sjá Lúk 09:24.

  8. “Hin beitti þyrnir gefur oft af sér mjúkar rósir” (Ovid, Epistulae ex Ponto, bók 2, 2. hluti, lína 34; “Saepe creat molles aspera spina rosas”).

  9. Sjá Moró 07:42.