2014
Loforð Porters
Apríl 2014


Loforð Porters

Úr „We Have Great Reason to Rejoice,” Líahóna, nóv. 2013, 115–16.

Ljósmynd

Þegar tengdafaðir minn lést, kom fjölskyldan saman til að taka á móti fólki sem kom til að votta okkur samúð. Allt kvöldið, á meðan ég spjallaði við fjölskyldu og vini, sá ég að 10 ára gamalt barnabarn mitt, Porter, stóð oft nálægt tengdamóður minni — ömmu sinni. Stundum stóð hann fyrir aftan hana og vakti yfir henni. Einu sinni tók ég eftir því að hann tók undir arm hennar. Ég horfði á hann strjúka hönd hennar, knúsa hana og standa við hlið hennar.

Þessi sýn hvarf ekki út huga mér í nokkra daga á eftir. Mér fannst ég eiga að senda Porter tölvupóst. Ég lýsti því sem ég hafði séð og hvernig mér leið. Ég minnti hann líka á sáttmálann sem hann hafði gert þegar hann skírðist og vitnaði í orð Alma í 18. kapítula Mósía:

„Og þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús til að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar–

„Já, og eruð fús að syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera, já, allt til dauða, … svo að þið megið öðlast eilíft líf —

„… Sé þetta hjartans þrá ykkar, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins til að vitna fyrir honum, að þið hafið gjört sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir ykkur?“ (vers 8–10).

Ég útskýrði fyrir Porter að Alma hefði kennt, að þeir sem vilji skírast þurfi að vera tilbúnir að þjóna Drottni með því að þjóna hvert öðru — allt til æviloka! Ég sagði: „Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir því, en kærleikurinn og umhyggjan sem þú sýndir ömmu þinni var hluti af því að halda sáttmálann þinn. Við höldum sáttmála okkar á hverjum degi þegar við erum góð, sýnum kærleika og hugsum hvert um annað. Ég vildi bara að þú vissir að ég er mjög stolt af þér fyrir að halda sáttmálann þinn! Er þú heldur sáttmálann sem þú gerðir þegar þú skírðist, verður þú reiðubúinn að meðtaka prestdæmið. Sá viðbótar sáttmáli mun veita þér fleiri tækifæri til að blessa aðra og þjóna þeim og mun búa þig undir sáttmálana sem þú munt gera í musterinu. Þakka þér fyrir að vera svona gott fordæmi fyrir mig! Þakka þér fyrir að sýna mér hvernig þeir eru sem halda sáttmála sína!“

Porter svaraði til baka: „Amma, takk fyrir skilaboðin. Ég vissi ekki að ég væri að halda sáttmála þegar ég var að knúsa ömmu, en mér hlýnaði í hjarta mínu og leið rosalega vel. Ég veit að það var heilagur andi sem var í hjarta mínu.“

Mér hlýnaði líka um hjartarætur þegar mér varð ljóst að Porter vissi að þegar hann heldur sáttmálann sinn, mun hann „ávallt hafa anda [himnesks föður] með [sér]“ [K&S 20:77]. Þetta er loforð sem verður mögulegt þegar tekið er á móti gjöf heilags anda.