2014
Karlar og konur í verki Drottins
Apríl 2014


Karlar og konur í verki Drottins

Úr hátíðarræðu sem flutt var í Brigham Young háskóla, 20. ágúst 2013. Til að lesa alla ræðuna á ensku: speeches.byu.edu.

Ljósmynd
Öldungur M. Russell Ballard

Í hinni undursamlegu prestdæmis-gæddu áætlun, skipa karlar og konur mismunandi en jafngild hlutverk.

Ljósmynd
Woman talking to a group of Church members sitting around a table.

Ég trúi að bæði karlar og konur þurfi að skilja ákveðinn sannleika um hið mikilvæga hlutverk sem konur hafa í því að efla og byggja upp ríki Guðs á jörðu. Á svo marga vegu eru konur hjartað í kirkjunni. Ég hyggst því, með hjálp Drottins, vegsama trúfastar konur og stúlkur kirkjunnar. Vitið því, kæru systur, hvar sem þið eruð í heiminum, að Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin elskar ykkur og treystir einlæglega.

Ég ætla að byrja á því að endurglæða í huga ykkar tilgang okkar á jörðunni.

Við erum ástkær börn, synir og dætur, okkar himneska föður. Við dvöldum hjá honum í fortilverunni. Til þess að framfylgja því ætlunarverki sínu „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39), gerði himneskur faðir áætlun til að hjálpa börnum sínum að ná öllum sínum hugsanlegu möguleikum. Áætlun föður okkar krafðist þess að maðurinn félli og yrði aðskilinn honum um tíma, með því að fæðast í jarðlífið, hljóta líkama og ganga í gegnum tímabil reynslu og prófrauna. Áætlun hans sá okkur fyrir frelsara til að endurleysa mannkynið frá fallinu. Friðþæging Drottins okkar, Jesú Krists, sér okkur fyrir leið, með helgiathöfnum fagnaðarerindisins og helgum sáttmálum, til að komast aftur í návist hans. Himneskur faðir og sonur hans vissu að við þyrftum að hafa aðgang að krafti, æðri okkar eigin, því okkur var ætlað að lifa í dauðlegu umhverfi, þar sem hættur leyndust og reynt yrði að leiða okkur afvega. Þeir vissu að við þyrftum að eiga aðgang að krafti þeirra. Allir sem vilja taka á móti fagnaðarerindinu og kenningum Krists, geta hlotið kraft til að hljóta eilíft líf og finna gleði í sinni lífsins ferð.

Til eru þeir sem efast um stöðu kvenna í áætlun Guðs og í kirkjunni. Ég hef setið fyrir svörum hjá fjölmiðlum nógu oft bæði innan- og utanlands, til að geta sagt að flest fréttafólk sem ég hef átt samskipti við hefur haft fyrirfram mótaðar skoðanir á því efni. Í gegnum árin hafa margir spurt þannig að gefið er í skyn að konur séu annars flokks meðlimir kirkjunnar. Ekkert er fjarri sannleikanum.

Ég ætla að setja fram fimm atriði ykkur til ígrundunar um þetta mikilvæga efni.

1. Guð hefur áætlun til að hjálpa okkur að hljóta eilíft líf

Faðir okkar á himnum skapaði bæði karla og konur, sem eru anda synir hans og dætur. Það merkir að kyngreining er eilíf. Hann hefur áætlun til að hjálpa þeim, sem velja að fylgja honum og syni hans, Jesú Kristi, að ná örlögum sínum sem erfingjar eilífs lífs.

Ef endanleg upphafning okkar er markmið og tilgangur þeirra, og ef þeir eru alvitrir og fullkomnir, líkt og við vitum að þeir eru, þá vita þeir best hvernig á að undirbúa, kenna og leiða okkur, svo möguleikar okkar á að verða hæf fyrir upphafningu verði sem mestir.

Næstum allir eiga fjölskyldu eða vini sem hafa látið hin ýmsu samfélagsmál verða sér til armæðu. Rökræður um vandann leiða yfirleitt ekki til einhverra málamiðlana, og í raun geta þær skapað deilur. Erfitt er að útskýra sum viðkvæm málefni sem kirkjan tekur afstöðu til, svo öllum líki. Þegar við hins vegar leitum til Drottins í bæn til að vita hvað okkur eigi að finnast um hlutina og vita hvað gera á í slíkum aðstæðum, hljótum við andagift: „Trúir þú á Jesú Krist og fylgir þú honum og föðurnum?“ Ég trúi að næstum allir í kirkjunni hafi á einn eða annan hátt velt fyrir sér hvort þeir geti gert allt sem farið er fram á að þeir geri. Ef við, hins vegar, trúum í raun á Drottin, mun hughreystingin koma: „Ég trúi Jesú Kristi og er fús til að gera hvaðeina sem hann vill að ég geri.“ Við höldum því áfram. Hve máttug þessi orð eru: „Ég trúi Jesú Kristi!“

Vitnisburður okkar og hugarró og velferð, hefjast með fúsleika okkar til að trúa að faðir okkar á himnum viti vissulega best.

2. Kirkjunni er stjórnað með lyklum prestdæmisins

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er kirkja Drottins, og kirkju hans er stjórnað með valdsumboði og lyklum prestdæmisins. „Prestdæmislyklar er valdið sem Guð hefur veitt prestdæmisleiðtogum til að leiðbeina, stjórna og stýra notkun prestdæmis hans á jörðu.“1

Þeir sem hafa prestdæmislykla — hvort sem það er djákni sem hefur lykla fyrir sveit sína eða biskup sem hefur lykla fyrir deild sína eða forseti kirkjunnar sem hefur alla lykla prestdæmisins — gera öllum þeim sem trúfastlega þjóna undir leiðsögn þeirra mögulegt að nota valdsumboð prestdæmisins og hafa aðgang að krafti prestdæmisins.

Allir karlar og konur þjóna undir leiðsögn þeirra sem hafa lykla. Þannig stjórnar Drottinn kirkju sinni.

Ég ætla að endurtaka nokkuð sem ég sagði á aðalráðstefnu í apríl 2003. „Í hinni stórkostlegu prestdæmis-gæddu áætlun himnesks föður, hafa karlmenn þá einstöku ábyrgð að þjóna í prestdæminu, en þeir eru ekki prestdæmið. Karlar og konur hafa mismunandi en jafn dýrmæt hlutverk. Á sama hátt og konan getur ekki getið barn án karlsins, getur karlinn ekki beitt prestdæmisvaldinu fyllilega til að stofna eilífa fjölskyldu, án konunnar. … bæði sköpunarkrafturinn og prestdæmiskrafturinn eru sameiginlegir eiginmanni og eiginkonu út frá eilífu sjónarhorni.“2

Hvers vegna eru karlar vígðir til prestdæmisembætta en ekki konur? Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) útskýrði, að það væri Drottinn, ekki maðurinn, „sem ákvarðaði að karlar í kirkju hans ættu að vera prestdæmishafar,“ og að það væri einnig Drottinn sem gæfi konum „getuna til að auka við og efla þessa miklu og stórkostlegu stofnun, sem er kirkjan og ríki Guðs.“3 Þegar grannt er skoðað, hefur Drottinn ekki opinberað hvers vegna hann hefur skipulagt kirkjuna eins og hann hefur gert.

Við skulum ekki gleyma því að systur sjá um svo til helming allrar kennslu í kirkjunni. Systur sjá um stóran hluta leiðtogastarfsins. Konur sjá um að skipuleggja mörg þjónustuverkefni og stjórna þeim. Ráðgjöf og almenn þátttaka kvenna í deildar- og stikuráðum, og í aðalráðum höfuðstöðva kirkjunnar, stuðla að aukinni innsýn, visku og jafnvægi.

Það þarf bæði karla sem virða konur, og hinar sérstæðu gjafir þeirra, og konur sem virða prestdæmislyklana sem karlmenn hafa, til að allar blessanir himins verði mögulegar í hverju starfi kirkjunnar.

3. Karlar og konur eru jafn mikilvæg.

Karlar og konur eru jöfn í augum Guðs og í augum kirkjunar, en jafngildið merkir ekki að þau séu eins. Ábyrgð og guðlegar gjafir karla og kvenna eru í eðli sínu mismunandi, en ekki hvað varðar mikilvægi eða áhrifamátt. Kenningar kirkju okkar staðhæfa að konan sé jafngild karlinum, þótt hún sé öðruvísi. Guð álítur ekki annað kynið betra hinu eða mikilvægara. Hinckley forseti sagði að „himneskur faðir ætlaði ykkur aldrei neitt minna en að verða dýrðarkóróna sköpunar sinnar.“4

Karlar og konur hafa misjafnar gjafir, eru misjöfn að styrk og hafa misjafnt sjónarhorn og hneigðir. Það er ein megin ástæða þess að þau hafa þörf fyrir hvert annað. Það þarf karl og konu til að fjölskylda verði til, og það þarf karla og konur til að útfæra verk Drottins. Eiginmaður og eiginkona, sem starfa saman í réttlæti, fullkomna hvort annað. Við skulum gæta þess að reyna ekki að breyta áætlun og tilgangi himnesks föður með líf okkar.

4. Allir hljóta blessun af krafti prestdæmisins

Þegar karlar og konur fara í musterið, njóta þau bæði sama kraftarins, sem er kraftur prestdæmisins. Þótt valdsumboð prestdæmisins komi beint frá lyklum prestdæmisins, og aðeins verðugir karlmenn hafi lykla prestdæmisins, hafa öll börn Guðs aðgang að krafti og blessunum prestdæmisins.

Faðir okkar á himnum er örlátur á kraft sinn. Allir karlar og konur hafa aðgang að þessum krafti, sér til hjálpar í lífi sínu. Allir sem hafa gert helga sáttmála við Drottin og heiðra þá sáttmála, geta hlotið persónulega opinberun, blessun englaþjónustu, átt samskipti við Guð, tekið á móti fyllingu fagnaðaerindisins og orðið erfingjar með Jesú Kristi að öllu sem faðirinn á.

5. Við þurfum að þekkja og bera vitni um kenninguna.

Ljósmynd
A Sunday school class of teenagers. One of the youth is in front talking to the class while the teacher is standing to the side.

Við þörfnumst þess að konur í kirkjunni þekki kenningu Krists og beri vitni um endurreisnina á allan mögulegan hátt. Aldrei áður í sögu mannkyns hafa tímarnir verið jafn flóknir og þeir eru nú. Satan og handbendi hans hafa þróað og fullkomnað vopn sín í þúsundir ára og eru reynd í því að rífa niður trú og traust á Guð og Drottin Jesú Krist á meðal mannanna barna.

Við öll — karlar, konur, unga fólkið og drengir og telpur — þurfum að verja Drottin og kirkju hans og auka þekkingu á þeim um allan heim. Við þörfnumst þess að heyra meira frá hinum aðgreinandi, áhrifamiklu röddum kvenna og trú þeirra. Við þörfnumst þess að þið lærið kenninguna og hafið skilning á trúarkenningum okkar, svo þið getið borið vitni um sannleiksgildi allra hluta — hvort sem slíkur vitnisburður er gefin við varðeld í Stúlknabúðum, á vitnisburðarsamkomu, í bloggi eða á Fésbók. Aðeins þið getið sýnt heiminum hvernig konur Guðs, sem gert hafa sáttmála, eru í útliti og hverju þær trúa.

Systur, áhrifasvið ykkar er einstætt — og það verður ekki afritað af körlum. Enginn fær varið frelsara okkar af meiri fortölum eða áhrifamætti, en þið, dætur Guðs, fáið gert — þið sem búið yfir slíkum innri styrk og sannfæringarmætti. Áhrifamáttur orða trúaðrar konu er ómælanlegur og kirkjan þarfnast radda ykkar nú meira en nokkurn tíma áður.

Ég vitna og gef ykkur minn vitnisburð um að á þessum tímum verðum við að sýna samstöðu. Við verðum að standa saman — karlar og konur, piltar og stúlkur, drengir og telpur. Við verðum að styðja áætlun himnesks föður. Við verðum að verja hann. Honum er ýtt til hliðar. Við getum ekki staðið hlutlaus hjá sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og leyft að það gerist, án þess að sýna hugdirfsku og láta í okkur heyra.

Megi Guð blessa ykkur með nægilegu hugrekki til að læra og þekkja hinn einfalda sannleika fagnaðarerindisins og síðan að miðla honum hvenær sem tækifæri gefst.

Heimildir

  1. Handbook 2: Administering the Church (2010), 2.1.1.

  2. M. Russell Ballard, „This Is My Work and Glory,” Líahóna, maí 2013, 19.

  3. Gordon B. Hinckley, „Women of the Church,” Ensign, nóv. 1996, 70.

  4. Gordon B. Hinckley, „Stand Strong Against the Wiles of the World,” Ensign, nóv. 1995, 98.