2014
Hvernig vissu þær af þessu?
Apríl 2014


Hvernig vissu þær af þessu?

Gale Ashcroft, Arisóna, Bandaríkjunum

Dieter F. Uchtdorf, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, færði Líknarfélagssystrum boðskap árið 2011, sem snerti hjarta mitt og veitti mér frið. Hann ræddi um hið smáa blóm Gleym mér ei og hvernig krónublöðin fimm táknuðu fimm atriði sem við ættum ætíð að hafa í huga.1

Eftir samkomuna sagði dóttir mín, Alyssa, mér sögu af Jessie, sem átti litla veisluþjónustu. Jessie var beðin af leiðtogum Líknarfélagsins í stikunni að búa til eftirrétt sem veita átti á aðalfundi Líknarfélagsins. Jessie sagði Alyssu að hún hefði þegar í stað vitað hvað hún hugðist búa til — 250 bollakökur. Alyssa bauðst til þess að flytja kökurnar í stikumiðstöðina.

Þegar samkomudagurinn rann upp og Alyssa fór til að hjálpa, kom hún að Jessie næstum í tárum. Bollakökurnar voru tilbúnar, en Jessie hafði sent mynd af þeim til ættmennis, sem sagði þær ekki nægilega flottar fyrir samkomuna.

Jessie hafði þá tekið að efast um kökurnar. Hún hafði komist að þeirri niðurstöðu að leiðtogar Líknarfélagsins í stikunni hefðu búist við einhverju margbrotnara en einföldu kökunum hennar. Hún hafði í fáti reynt að finna út hvernig hún gæti skreytt bollakökurnar aftur, en tíminn var of naumur. Hún og Alyssa fóru með bollakökurnar eins og þær voru og Jessie fannst hún hafa brugðist systrunum — þar til Uchtdorf forseti hélt ræðuna sína.

Þegar hann ræddi um hið smá blóm Gleym mér ei, birtist mynd af þessu litla bláa blómi á skjánum. Það var svo einfalt, en þó svo fallegt með sín fínlegu krónublöð. Boðskapur Uchtdorfs forseta snerti hjörtu allra, er hann bauð okkur að verða ekki svo upptekin af hinum stóru og heillandi blómum umhverfis að við gleymum fimm einföldum en mikilvægum sannleikskornum sem hann kenndi okkur.

Eftir lokabænina, héldu systurnar til menningarsalarins. Þegar Alyssa og Jessie komu í salinn, sáu þær að allar systurnar voru umhverfis borðið með bollakökunum og spurðu: „Hvernig vissu þær af þessu.“

Á hverri bollaköku var sykurkremskreyting sem myndaði hið fínlega og fallega fimmblaða blóm, Gleym mér ei.

Heimildir

  1. Sjá Dieter F. Uchtdorf, „Forget Me Not,” Líahóna, nóv. 2011, 120.