2014
Sjálfsöryggi og verðugleiki
Apríl 2014


Sjálfsöryggi og verðugleiki

Frá kvöldvöku æskufólks 31. desember 2006.

Ljósmynd
Öldungur Jeffrey R. Holland

Ég ætla að benda á hvernig hægt er að tileinka sér afar dýrmætt sjálfsöryggi.

Orð mín til ykkar eru boðskapur vonar og hvatningar, nú og alla ykkar ævi. Í heiminum eru margskonar vandamál en vandamál hafa ætíð verið fyrir hendi á öllum tímum og tíðum. Látið þau ekki gagntaka ykkur og draga ykkur niður. Á komandi árum mun upp koma fjöldi dásamlegra tækifæra og blessana. Við munum halda áfram að njóta brautargengis í vísindum og tækni, lyflækningum og samskiptum — á öllum þeim sviðum sem við höfum svo mikinn hag af. Þið lifið á dásamlegasta tíma heimsins sem vitað er um, þar sem daglegar blessanir ná stöðugt til fleira fólks um allan heim, en áður hefur þekkst í sögunni. Hafið í huga — að ömmu ykkar dreymdi aldrei um spjaldtölvu þegar hún var á ykkar aldri og afi ykkar hefur enn enga hugmynd um hvernig senda á textaboð. Verið því hamingjusöm, heilbrigð og bjartsýn.

Þetta segi ég að hluta til vegna greinar sem ég las nýlega, þar sem staðhæft var að algengasta meinið meðal ungs fólks í dag tengdist ekki mataræði, hjartasjúkdómum eða krabbameini. (Fólk á mínum aldri, en ekki ykkar, glímir yfirleitt við slíkan vanda.) Nei, algengasta mein táninga og fólks á tvítugsaldri er sjálfsefi, framtíðarkvíði, lélegt sjálfsmat og almennt skortur á sjálfstrausti og trausti á heiminum umhverfis.

Þótt ég sé miklu eldri en þið, þá hef ég skilning á slíkum vanda, því á mínum yngri árum tókst ég líka á við aðstæður þar sem mig skorti sjálfsöryggi. Ég minnist þess að hafa lagt mikið á mig við að fá góðar einkunnir í von um að ávinna mér skólastyrk og að hafa íhugað ástæður þess að öðrum virtist ganga betur við það en mér. Ég minnist íþróttakeppna, ár eftir ár, þar sem ég reyndi að tileinka mér sjálfsöryggi til velgengni í íþróttum í efri grunnskóla og framhaldsskóla og að hafa þráð svo innilega að vinna stóran sigur eða koma heim með eftirsóttan meistaratitil. Ég minnist þess einkum að hafa skort sjálfsöryggi í stúlknamálum, sem svo oft vekur kvíða hjá ungum mönnum. Ég er svo þakklátur fyrir að systir Holland ákvað að taka áhættuna með mig. Já, ég get minnst alls þess sem þið munið — að efast um eigið útlit eða hvort ég væri meðtekinn eða hvað framtíðin myndi bera í skauti sér fyrir mig.

Tilgangur minn hér er ekki að ræða öll þau mál sem ungt fólk tekst á við og að ýta undir óöryggi og skort á sjálfstrausti, heldur að benda á hvernig hægt er að tileinka sér afar dýrmætt sjálfsöryggi — sjálfsöryggi, réttilega áunnið, sem áorkar miklu á öllum öðrum sviðum lífsins, einkum hvað varðar eigið sjálfsmat og viðhorf til framtíðar. Til að undirstrika mál mitt, þá þarf ég að segja sögu.

Gildi eigin verðugleika

Fyrir mörgum árum, löngu áður en ég var kallaður sem aðalvaldhafi, hélt ég ræðu á æskulýðsráðstefnu. Ráðstefnunni lauk með vitnisburðarsamkomu, þar sem ungur, myndalegur maður stóð upp, nýkominn heim af trúboði og gaf vitnisburð sinn. Hann var hreinn og snyrtilegur og fullur sjálfstrausts — rétt eins og einhver sem er nýkominn heim af trúboði ætti að vera.

Þegar hann tók til máls komu tár fram í augu hans. Hann sagðist vera þakklátur fyrir að vera á meðal slíkra ungra og frábærra Síðari daga heilagra og líða vel með það líferni sem hann reyndi að tileinka sér. Þá tilfinningu, sagði hann einungis mögulega, vegna reynslu sem hann hafði hlotið nokkrum árum áður, reynslu sem hefði haft ævarandi áhrif á líf hans.

Hann sagði síðan frá því að hafa komið heim eftir stefnumót, stuttu eftir að hann hafði verið vígður öldungur, 18 ára gamall. Eitthvað hafði gerst á stefnumótinu, sem hann var miður stoltur af. Hann fór ekki út í smáatriði og það hefði hann heldur ekki átt að gera á almennri samkomu. Fram til þessa dags veit ég ekki hvað átti sér stað en það hafði augljóslega verið nægilega alvarlegt til að hafa haft áhrif á anda hans og sjálfsmat.

Þar sem hann sat í innkeyrslunni heima hjá sér, hugsaði ráð sitt og upplifði einlæga sorg yfir því sem gerst hafði, kom móðir hans, sem ekki var í kirkjunni, hlaupandi í óðagoti út úr húsinu að bílnum hans. Í fljótheitum sagði hún frá því að yngri bróðir þessa pilts hefði dottið á heimilinu, skollið harkalega á höfuðið og væri í einhvers konar krampakasti. Faðir hans, sem var heldur ekki í kirkjunni, hafði þegar í stað hringt á sjúkrabíl, en það tæki nokkurn tíma fyrir þá hjálp að berast .

„Komdu og gerðu eitthvað,“ hrópaði hún. „Er ekki eitthvað sem þú gerir í kirkjunni þegar slíkt hendir? Hefur þú ekki prestdæmi hennar. Komdu og gerðu eitthvað.“

Móðir hans vissi ekki margt um kirkjuna á þessari stundu en hún hafði haft einhverja vitneskju um prestdæmisblessanir. Nú var það svo að einmitt á þessu kvöldi, þegar einhver sem hann elskaði innilega, þurfti á trú hans og styrk að halda, að þessi ungi maður gat ekki brugðist við. Sökum tilfinninganna sem hann hafði glímt við rétt áður og hvernig honum fannst hann hafa sett verðugleika sinn í hættu — hvernig sem það hafði gerst — fékk hann ekki af sér að koma fram fyrir Drottin og biðja um blessunina sem þörf var á.

Hann rauk út úr bílnum og hljóp niður götuna að húsi verðugs eldri manns í deildinni, sem hafði sýnt honum vináttu allt frá trúskiptum piltsins tveimur eða þremur árum áður. Hann greindi frá aðstæðum og þeir tveir fóru til baka að heimili hans og voru þar nokkru áður en bráðaliðarnir komu á staðinn. Hinn góði endir þessarar sögu var, eins og frá var greint á þessari vitnisburðarsamkomu, að þessi eldri maður veitti þegar í stað ljúfa og máttuga prestdæmisblessun, svo að líðan hins slasaða barns varð stöðug og það hvíldist áður en læknishjálpin barst. Eftir skyndiferð á sjúkrahúsið og vandlega skoðun, kom í ljós að engar varanlegar skemmdir höfðu átt sér stað. Afar kvíðvænleg stund hjá fjölskyldunni var nú liðin hjá.

Síðan sagði þessi ungi maður, sem sagan fjallar um, þetta: „Enginn sem ekki hefur upplifað það sem ég upplifði þetta kvöld, fær þekkt smán mína og sorg yfir því að vera ekki verðugur þess að nota prestdæmið sem ég hafði. Það er mér jafnvel enn sárari minning, því það var litli bróðir minn sem þarfnaðist mín og líka foreldrar mínir, sem voru svo óttaslegnir og hefðu átt að geta reitt sig betur á mig. Hinsvegar er ég nú stend hér frammi fyrir ykkur, lofa ég ykkur því,“ sagði hann, „að þótt ég sé ekki fullkominn, þá hef ég, frá þessu kvöldi, aldrei gert neitt sem hefur hindrað mig í því að koma fram fyrir Drottin í þeirri sannfæringu að hann muni hjálpa mér þegar á þurfi að halda. Persónulegur verðugleiki er barátta í þeim heimi sem við lifum í,“ sagði hann, „en þó barátta sem ég er að sigra. Einu sinni í lífinu hef ég fundið fingur fordæmingar hvíla á mér og slíkt ætla ég ekki að upplifa aftur, ef ég get með nokkru móti komið í veg fyrir það. Og, auðvitað,“ sagði hann að lokum, „fæ ég öllu um það ráðið.“

Hann lauk vitnisburði sínum og settist niður. Ég sé hann enn fyrir mér. Ég fæ enn séð umhverfið þarna. Ég fæ enn munað eftir áhrifaríkri þögninni sem fylgdi í kjölfar orða hans, er allir í salnum höfðu ástæðu til að skoða eigin sál örlítið betur og einsetja sér að lifa betur eftir þessum máttugu orðum sem til okkar bárust frá Drottni.

„Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.

Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur, og veldissproti þinn óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika“ (K&S 121:45–46; skáletrað hér).

Njóta anda Guðs

Mínir kæru ungu vinir, eigið dásamlegt líf. Hugsið jákvætt og vonið það besta og hafið tiltrú á framtíðinni. Ykkar bíða stórkostleg örlög. Himneskur faðir elskar ykkur. Ef einhver mistök hafa verið gerð, er hægt að iðrast þeirra og hljóta fyrirgefningu, á sama hátt og í tilviki unga mannsins. Þið hafið allt til að lifa fyrir, áforma og trúa á. Ef samviska ykkar er góð, er þið eruð ein með minningum ykkar, munuð þið geta upplifað anda Guðs á afar persónulegan hátt. Ég óska að þið fáið notið þess anda, að finna ætíð þá tiltrú á návist Drottins. Megi dyggðugar hugsanir stuðla að góðum verkum ykkar, í dag, á morgun og alla tíð.