2014
Filippseyjar: Andlegur styrkur á eyjum úthafs
Apríl 2014


Brautryðjendur í öllum löndum

Filippseyjar Andlegur styrkur á eyjum úthafs

Á hinu stutta 53 ára tímaskeiði hefur kirkjan upplifað mikinn styrk og vöxt á Filippseyjum, sem kunnar eru sem „Hin austræna perla.“

Augusto A. Lim, fannst boðskapurinn sem tveir ungir menn frá Bandaríkjunum færðu honum, vera staðfesting á reglum sem hann vissi þegarað væru sannar. Augusto, sem var kristinn ungur lögfræðingur, sagði að kenningar, líkt og áframhaldandi opinberun, væru nokkuð sem hann tryði á, „jafnvel þegar hann var í grunnskóla og framhaldsskóla.“1

Eftir nokkra mánuði samþykkti Augusto að sækja sunnudagaþjónustur og taka áskoruninni um að lesa Mormónsbók og biðja vegna hennar. „Ég tók að lesa Mormónsbók af alvöru, í sama anda og Moróní hvatti okkur að gera. Þegar ég gerði það, í þrá eftir að vita hvort hún væri sönn, þá hlaut ég vitnisburð — eftir að hafa lesið fáeinar málsgreinar,“ — sagði hann.2

Í október 1964 skírðist Augusto Lim og varð frumkvöðull Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Filippseyjum, og eiginkona hans og börn voru skírð skömmu síðar. Í dag, eftir áratuga trúfasta þjónustu í kirkjunni — sem fól í sér köllun árið 1992 um að þjóna sem aðalvaldhafi, en hann var fyrsti Filippseyingurinn sem þjónaði í þeirri stöðu — er bróðir Lim einn af hundruðum þúsunda trúfastra Síðari daga heilagra sem búa á „Hinni austrænu perlu.“

Frjósamt land

Um 550 árum fyrir fæðingu Jesú Krists, lofaði Drottinn Nefí, spámanni í Mormónsbók: „Ég … man eftir þeim sem eru á eyjum sjávar,“ og læt orð mín berast til mannanna barna, já, til allra þjóða á jörðunni“ (2 Ne 29:7). Filippseyjar koma í hug margra sem lesið hafa hin dýrmætu orð „eyjur sjávar.“

Íbúafjöldi filippseyska lýðveldisins, sem er eyjaklasi um 7100 eyja í suðausturhluta Asíu, nálgast nú 100 milljónamarkið Þetta eru hitabeltiseyjar, sem byggðar eru vinalegu, hressu og auðmjúku fólki. Algengt er þó að eyjarnar verði fyrir jarðskjálftum, fellibyljum, eldgosum, flóðbylgjum og fleiri náttúruhamförum og þjóðin á í margvíslegum félagshagfræðilegum vanda. Mikil örbirgð er viðvarandi áskorun og Filippseyingar hafa upplifað pólitískan óstöðugleika og efnahagskreppur.

Fyrir þeim sem eru kunnugir háttum Drottins, þá eru Filippseyjar frjósamar til sáningar sáðkorna fagnaðarerindisins. Margir Filippseyingar tala ensku, sem líka er þjóðartungumál, ásamt tagalogísku og fleiri eyjamálískum, Yfir 90 prósent íbúanna eru kristnir og má rekja það til þess að Spánverjar ríktu þar um langa tíð. Í miklum minnihluta eru svo múslimar.

Fyrsta tilraunin til að kynna kirkjuna á Filippseyjum var gerð 1898, í spánsk-ameríska stríðinu, af Willard Call og George Seaman, Síðari daga heilagra hermönnum frá Utah, sem höfðu verið kallaðir sem trúboðar áður en þeir hófu ferð sína til eyjanna. Þeir boðuðu fagnaðarerindið þegar tækifæri gáfust, en engar skírnir fylgdu í kjölfarið.

Í Síðari heimsstyrjöldinni komu nokkrir Síðari daga heilagir við á ýmsum stöðum á eyjunum með framrás herafla bandamanna. Árin 1944 og 1945 héldu hermannahópar kirkjusamkomur á fjölmörgum stöðum og nokkuð margir SDH hermenn og verkamenn í hernum urðu eftir á Filippseyjum þegar stríðinu lauk. Meðal þeirra voru Maxine Tate og nýskírður trúskiptingur að nafni Jerome Horowitz. Báðir sögðu þeir Anicetu Fajardo frá fagnaðarerindinu. Meðan bróðir Horowitz aðstoðaði við að endurbyggja hús Anicetu á útsprengdu svæði í Manila, sagði hann Anicetu og dóttur hennar, Ruth, frá trúnni sem hann hafði nýverið uppgötvað.

Aniceta hlaut vitnisburð og þráði að láta skírast, en kirkjan heimilaði ekki að Filippseyingar skírðust á þessum tíma, því engar varanlegar kirkjueiningar voru á eyjunum. Öldungur Harold B. Lee (1899–1973), í Tólfpostulasveitinni, frétti af þrá Anicetu og þar sem hann var formaður Hinnar almennu herþjónustunefndar, veitti öldungur Lee Anicetu leyfi til að láta skírast. Á páskadagsmorgni árið 1946 var Aniceta Fajardo skírð af hermanninum Loren Ferre og er nú viðurkennd sem fyrsti Filippseyingurinn sem varð meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Upphaf trúboðsstarfs

Að stríðinu loknu voru kirkjuhópar skipulagðir í tveimur Bandarískum herstöðvum — Clark Air herstöðinni og Subic Bay Naval herstöðinni — er Síðari daga heilagra herþjónustufólk horfði fram til þess að viðvera kirkjunnar yrði formlegri á Filippseyjum. Hinn 21. ágúst 1955, vígði Joseph Fielding Smith forseti (1876–1972) Filippseyjar til boðunar fagnaðarerindisins. Lagalegar hömlur töfðu þó komu trúboða til eyjanna fram til ársins 1961,

Árið 1960 heimsótti öldungur Gordon B. Hinckley (1910–2008), þá í Tólfpostulasveitinni, Filippseyjar í nokkra daga og sagði: „Ég hef þá skoðun að trúboðsstarfið verði … jafn árangursríkt hér og á mörgum öðrum stöðum í heiminum.“3 Næsta ár, að loknum miklum undirbúningi og skriffinnsku, af hendi Maxine Tate Grimm og Robert S. Taylor forseta Southern Far East trúboðsins, sem og vina utan kirkjunnar, kom öldungur Hinckley aftur til Filippseyja til að endurvígja eyjarnar til að trúboðsstarfið gæti hafist.

Hinn 28. apríl 1961 kom öldungur Hinckley saman með fámennum hópi kirkjuþegna í hernum í útjaðri Manila, bandarískum íbúum og einum filippseyskum meðlimi — David Lagman — og bað þess sérstaklega „að þúsundir mættu taka á móti þessum boðskap og hljóta blessun af því.“4 Orð þessi, sem sannur þjónn Drottins flutti, urðu brátt að spádómi.

Fyrstu fjórir trúboðarnir — Raymond L. Goodson, Harry J. Murray, Kent C. Lowe og Nester O. Ledesma — komu til Manila nokkrum vikum síðar. „Filippseyingar tóku afar fúslega á móti fagnaðarerindinu,“ sagði öldungur Lowe. „Þegar höfuð fjölskyldu ákvað að ganga í kirkjuna þá, í mörgum tilfellum, gekk öll fjölskylda hans, líka í kirkjuna.“5

Framrás kirkjunnar

Starfinu miðaði vel áfram og Filippseyjatrúboðið var stofnað árið 1967. Í lok þess árs voru 3.193 meðlimir í trúboðinu og 631 af þeim höfðu snúist til trúar á því ári. Árið 1973 hafði kirkjan á Filippseyjum næstum náð 13.000 meðlimum. Hinn 20. maí 1973 var Manila-stikan á Filippseyjum stofnuð með Augusto A. Lim sem forseta. Árið 1974 var trúboðinu skipt og til varð Manila trúboðið og Cebu City trúboðið.

Í ágúst 1975 kom Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) til Manila til að vera í forsæti fyrstu svæðisráðstefnunnar á Filipseyjum. Ágúst var stormasamur mánuður og gerði þeim erfitt fyrir sem komu til Manila. Heil rúta af heilögum kom frá Laoag City og náði vart á ákvörðunarstað, en hinir heilögu ýttu rútunni upp úr aurnum og báðu bílstjórann innilega um að snúa ekki til baka. Annar hópur heilagra sigldi æðrulaus um úfið hafið í þrjá daga, því það eina sem skipti í raun máli, líkt og systir ein sagði, var að sjá og hlusta á lifandi spámann Guðs.

Kimball forseti heimsótti Filippseyjar aftur árið 1980, til að vera í forsæti annarrar svæðisráðstefnu og átti þá líka stuttan fund með forseta Filippseyja, Ferdinand Marcos. Sá fundur gerði kirkjunni að lokum mögulegt að opna trúboðsskóla á Filippseyjum árið 1983 og vígja Manila musterið árið eftir. Árið 1987 var Filippseyja-/Míkrónesíuvæðið stofnað með höfuðstöðvar í Manila.

Mormónsbók var að hluta þýdd á tagalogísku árið 1987. Þýðingar á Mormónsbók eru nú fyrir hendi á nokkrum málískum á Filippseyjum, þar á meðal cebúísku.

Blessanir musterisins

Í desember árið 1980 sendi Spencer W. Kimball forseti framkvæmdastjóra húsnæðisdeildar kirkjunnar til Manila til að finna viðeigandi lóð fyrir musteri. Eftir að hafa ígrundað nokkrar lóðir, sendi framkvæmdastjórinn beiðni um að kaupa 1.4 hektara lóð í Quezon City. Lóðin hefur útsýni yfir Marikina-dalinn og er tiltölulega vel staðsett og aðgengileg fyrir marga meðlimi kirkjunnar. Beiðnin var samþykkt og lóðin var keypt í janúar 1981. Götunafninu var breytt í Temple Drive að beiðni kirkjunnar.

Hinn 25 ágúst 1982 voru um 2000 meðlimir viðstaddir skóflustunguna, þrátt fyrir yfirvofandi fellibyl, og komu hvaðanæva að úr eyjunum, með bátum, lestum og rútum. Bygging musterisins hófst brátt og það var tilbúið til vígslu í ágúst 1984.

Nærri 27.000 meðlimir og fólk utan kirkju skoðuðu musterið áður en það var vígt. Þeir komu þrátt fyrir tvo fellibylji — með aðeins 48 stunda millibili — sem höfðu hvolfst yfir Filippseyjar nokkrum dögum áður. Heilagir frá fjarlægum stöðum höfðu komið þreyttir, en glaðværir. Í mörgum tilvikum höfðu þeir orðið að taka á sig króka til að komast til Manila, því vatnselgur hafði skemmt vegi og brýr.

Fegurð musterisins hreif gestina, þar á meðal marga þekkta Filippseyinga. Rithöfundurinn Celso Carunungan sagðist „finna fyrir helgum tilfinningum þegar hann kom innfyrir, og fannst sem hann myndi mæta skapara sínum.“ Colonel Bienvenido Castillo, aðalprestur lögregluliðs Filippseyja, sagði musterið vera „stað þar sem hægt væri að ígrunda himneska hluti, því umhverfið væri þess háttar.“ Tvær nunnur sögðu musterið „sannlega vera hús Drottins.“ Eva Estrada-Kalaw, þingmaður Filippseyinga, sagði við leiðsögumann: „Ég vildi að þið mynduð byggja fleiri musteri hér.”6

Hinckley forseti, sem var annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu á þessum tíma, stjórnaði hornsteinsathöfninni á þriðjudegi, 25. september 1984. Níu vígsluathafnir fylgdu í kjölfarið og voru haldnar í himneska herberginu. Um 6.500 heilagir frá 16 stikum og 22 umdæmum á Kyrrahafssvæðinu, sóttu hinar ýmsu athafnir.

Um leið og síðustu vígsluathöfninni lauk urðu Paulo V. Malit yngri og Edna A. Yasona þau fyrstu til að gifta sig í Manila-musterinu á Filippseyjum, hinn 27. september 1984. Fyrsti forseti musterisins, W. Garth Andrus, sá um giftingarathöfnina.

Margir kirkjumeðlimir röðuðu sér upp til að taka á móti musterigjöf sinni, og byrjað var á musterisþjónunum. Musterisstarfið hélt áfram yfir nóttina og fram á næsta dag.

Meðlimir fundu sterka þrá til að fara í musterið. Þeir sem bjuggu fjarri Manila urðu að fórna miklu til að geta ferðast langar leiðir með bátum og rútum. Þeir gerðu það samt og höfðu með sér sögur af trú og einbeitni.

Ómögulegt virtist vera fyrir Bernardo og Leonides Obedoza frá General Santos að fara í musterið til hinnar fjarlægu Manila. Líkt og kaupmaðurinn sem fór og seldi allar sínar eigur til að geta keypt eina dýrmæta perlu (sjá Matt 13:45–46), ákváðu þessi hjón að selja húsið sitt til að greiða fyrir ferðina, svo að þau og börn þeirra gætu innsiglast sem eilíf fjölskylda. Eftir að þau seldu húsið sitt og flestar eigur sínar, tókst þeim að safna saman nákvæmlega þeirri upphæð sem þau þurftu til að greiða fyrir bátsferðina til Manila, fyrir hina níu manna fjölskyldu. Leonides var áhyggjufull, því þau höfðu engan stað til að fara á þegar þau færu til baka. Bernardo fullvissaði hana hinsvegar um að Drottinn myndi sjá fyrir þeim. Árið 1985 voru þau innsigluð sem fjölskylda í musterinu, um tíma og eilífð. Það var allra þeirra fórna virði, því í musterinu fundu þau ómælda gleði — sína dýrmætu perlu. Líkt og Bernardo sagði, þá sá Drottinn fyrir þeim. Við komu þeirra til Manila sáu vinsamlegir kunningjar þeim fyrir stöðum til að búa á. Börn þeirra luku skólagöngu og fjölskyldan eignaðist að lokum eigið heimili á nýjum stað.

Hinn 28. apríl 2006 tilkynnti Æðsta forsætisráðið um byggingu Cebu City musterisins á Filippseyjum. Þegar tíðindin bárust út grétu margir kirkjumeðlimir gleðitárum. „Við erum blessuð, því Drottinn hefur ákveðið að næsta musteri skuli byggt í Cebu City,“ sagði Cesar Perez yngri, yfirmaður Trúarskólans í Cebu City.

Nokkrum mánuðum eftir vígslu Cebu City musterisins á Filippseyjum, höfðu hinir heilögu þar í landi enn eina ástæðu til að fagna. Hinn 2. október 2010 tilkynnti Thomas S. Monson forseti í opnunarræðu sinni á aðalráðstefnu, um byggingu Urdaneta-musterisins í Pangasinan á Filippseyjum.

Hið besta er enn í vændum

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er tiltölulega ung á Filippseyjum miðað við aldur hennar í öðrum löndum, en vegsemd hennar á eyjunum er undursamleg. Vöxtur kirkjunnar hefur verið einstakur og hið besta er enn í vændum. Öldungur Michael John U. Teh, af hinum Sjötíu, og annar Filippseyingurinn sem kallaður var sem aðalvaldhafi, sagði: „Við [Síðari daga heilagir á Filippseyjum] þurfum að undirbúa okkur andlega, aldrei sem fyrr, því verkið mun halda áfram, með eða án okkar hjálpar.“7

Eftir því sem 21. öldinni vindur áfram, mun hin endurreista kirkja halda áfram að vaxa, að fjölda og áhrifum, þegar stöðugt fleiri Filippseyingar taka á móti þessum boðskap og verða þessu kjörna fólki á eyjum úthafs til blessunar. Hvað öldung Teh og hina filippseysku heilögu varðar, þá eru „[hin miklu] fyrirheit Drottins til þeirra, sem á eylöndum sjávar eru,“ (2 Ne 10:21) nú þegar að uppfyllast.

Heimildir

  1. Augusto A. Lim, in R. Lanier Britsch, „‚Faithful, Good, Virtuous, True’: Pioneers in the Philippines,” Líahóna, feb. 1998, 44.

  2. Augusto Lim, í Gelene Tobias, „Augusto Lim: The Man of Many Firsts,” countrywebsites.lds.org/ph/index.php/dateline-philippines/jubilee-2011.

  3. Sjá Sheri L. Dew, Go Forward with Faith: The Biography of Gordon B. Hinckley (1996), 213–15.

  4. Gordon B. Hinckley, „Commencement of Missionary Work in the Philippines,” Tambuli, apríl 1991, 18.

  5. Viðtal við Kent Clyde Lowe, tekið af James Neil Clark, 3. sept. 2007.

  6. Francis M. Orquiola, „Temple Dedication Rewards Faith of Filipino Saints,” Ensign, nóv. 1984, 107.

  7. Michael John U. Teh, „Scriptures and Spiritual Preparation” [boðskapur svæðisforsætisráðsins, maí 2011].

Vöxtur kirkjumeðlima á Filippseyjum

1967: 3.193

1970: 13.000

1980: 17.424

1990: 237.000

2000: 373.000

2012: 661.598