2014
Sé auglit þitt einbeitt á dýrð mína
Apríl 2014


Sé auglit þitt einbeitt á dýrð mína

Katherine Nelson býr í Utah, Bandaríkjunum. Heidi McConkie býr í Delaware, Bandaríkjunum.

Hvernig gerir það okkur kleift að geisla ljósi og dýrð Guðs, ef við erum hógvær í málfari, hegðun og útliti?

Á stórþingi himins í fortilverunni, þegar Jesús Kristur bauð sig fram til að vera frelsari okkar, sagði hann við föðurinn: „Verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu.“ (HDP Móse 4:2).

Drottinn hefur ætíð verið fyrirmynd um að vegsama föðurinn. Frelsarinn beindi aldrei athygli að sjálfum sér í jarðneskri þjónustu sinni, heldur vísaði hann fylgjendum sínum á föðurinn, með því að kenna: „Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig“ (Jóh 12:44). Frelsarinn kenndi okkur mikilvægi hógværðar í hugsun, útliti, orði og verki.

Unga fólkið sem vitnað er í, í þessari grein, veltir fyrir sér innri og ytri tjáningu hógværðar í staðfestu sinni við að fylgja frelsaranum og miðlar því hvernig skuldbinding þess um að vegsama Guð hefur mótað persónuleika og stjórnað verkum þess.

Vegsama Guð og geisla ljósi hans

Þegar við skiljum hvað hógværð er í raun, áttum við okkur betur á því hvernig hógværð vegsamar Guð. Í Sannir í trúnni er útskýrt: „Í hæversku felst auðmýkt og velsæmi í klæðnaði, hirðusemi, málfari og hegðun. Ef þið eruð hæversk, þá beinið þið ekki ótilhlýðilegri athygli að ykkur sjálfum. Þess í stað ‚vegsamið [þið] Guð með líkama yðar [og í anda]‘ (1 Kor 6:20).“1

Þegar okkur lærist að vera hógvær, eins og frelsarinn var, bjóðum við andann velkominn í líf okkar og uppfyllum loforðið: „Sé auglit yðar einbeitt á dýrð [Guðs], mun allur líkami yðar fyllast ljósi“ (K&S 88:67). Þegar þið lesið hvernig annað ungt fólk skilur hógværð, getið þið íhugað hvernig þið getið aukið ykkar eigið andlega ljós, með því að gera breytingar til að efla innri skuldbindingu um ytri tjáningu hógværðar.

Vera hógvær í málfari og hegðun

„Orð ykkar og verk geta haft djúp áhrif á ykkur sjálf og aðra. Tjáið ykkur með fáguðu og jákvæðu málfari og hagið verkum ykkar þannig að þau stuðli að hamingju þeirra sem umhverfis eru. Sú viðleitni ykkar að vera siðsöm í orði og verki stuðlar að aukinni leiðsögn og huggun heilags anda.“2

Dar’ja Sergeevna Shvydko frá Volograd, Rússlandi, útskýrir að við komum fram við aðra af virðingu þegar við erum hógvær í máli og „tjáum okkur af rósemi og ljúfmennsku og notum ekki gróf eða óviðeigandi orð.“ Hógvært málfar er laust við slúður, spott, háðung og meinhæðni. Það vanvirðir ekki aðra eða belgir út eigið sjálfsálit. Það sýnir öllum börnum himnesks föður ljúfmennsku og viðurkennir guðleika þeirra.

Málfar okkar ætti líka að bera vott um virðingu fyrir Guðdóminum: „Notið ekki saurugt málfar og tileinkið ykkur ekki skeytingalausa og óviðurkvæmilega notkun á nafni Drottins, sem svo almennt er í heiminum. … Slíkt virðingarlaust málfar … kemur í veg fyrir að við getum hlotið friðsælan innblástur heilags anda.3

Ósæmilegt málfar, svo sem slúður og háðung, getur skaðað sambönd okkar, en hógvært mál eflir aftur á móti skuldbindingu okkar við Guð og, líkt og Kelly Prue frá Utah, Bandaríkjunum, útskýrir, „eykur getu okkar til að byggja upp betri sambönd við aðra. Hógvært málfar gerir okkur kleift að draga fram það besta í öðrum.“

Hógvært málfar og hegðun fara hönd í hönd. „Mikilvægt er að vera hógvær í máli og hegðun, því það sýnir hver við erum og hvað okkur er dýrmætt,“ sagði Mike Olsen frá Utah. Fólk tekur eftir þegar orð og verk fara ekki saman. Verk okkar ættu að vera í samræmi við þau orð sem við mælum til að uppörva aðra og vegsama Guð. Þjónusta okkar og ljúfmennska ættu að sýna að skuldbinding okkar til að lyfta öðrum og heiðra Guð, er ekki aðeins orðin tóm. Lærisveinsfordæmi okkar í orði og verki, getur haft varanleg áhrif til góðs.

„Ég met mikils hógværð í hegðun og máli,“ sagði Carrie Carlson frá Kolorado, Bandaríkjunum. „Það er eitthvað ánægjulegt við þann sem er auðmjúkur og lætur ekki stjórnast af löngun til að beina athygli að sjálfum sér. Þeir sem tala af hógværð verða máttug ker fyrir Drottin.“

Vera hógvær í klæðnaði og útliti

„Hógværð í klæðnaði getur dregið það besta fram í okkur, ef við leggjum áherslu á hið andlega, en ekki hinn náttúrlega mann,“ sagði Paul Cave frá Utah. Með því að sýna hógværð í klæðaburði, stuðlum við að því að aðrir þekki og meti okkur út frá persónuleika okkar, en ekki útliti.

Klæðaburður okkar gefur ekki aðeins öðrum til kynna hvernig þeim beri að koma fram við okkur, heldur hefur hann líka áhrif á viðhorf okkar til okkar sjálfra. „Af fagnaðarerindinu lærum við að líkami okkar er gjöf frá Guði,“ sagði Luis Da Cruz yngri frá Brasilíu. „Líkami okkar gerir okkur kleift að þróast og verða lík föður okkar. Af þeirri ástæðu er mikilvægt að sýna hógværð í klæðaburði. Með því að gera það sýnum við Guði og öðrum að við virðum þessa gjöf og annað fólk.“4

Carrie útskýrði: „Ósæmilegur klæðaburður ýtir undir þá ímynd að líkaminn sé efnislegur hlutur, aðskilinn frá andanum og persónuleika okkar. Þótt það hafi stundum krafist meiri útgjalda að vera hógvær í klæðaburði og vissulega meiri tíma, hjálpar það mér að skilja að líkami minn er bústaður dýrmæts anda, sem býr að guðlegum möguleikum og örlögum, og var getinn og fóstraður af himneskum foreldrum. Hann verðskuldar mun meiri umönnun og virðingu en heimurinn veitir honum.“

Í Sannir í trúnni er útskýrt: „Auk þess að forðast [ósæmilegan klæðnað], ættuð þið að forðast öfgar í klæðnaði, útliti og hárgreiðslu. Verið alltaf hrein og snyrtileg í klæðnaði, aldrei hirðulaus eða óviðeigandi skeytingalaus.“5 Klæðaburður okkar og framkoma sýna virðingu okkar fyrir Guði, sjálfum okkur og öðrum.

Vera staðfastur

Þegar við reynum að lifa eftir fagnaðarerindinu, ættum við að vera staðföst og halda ætíð boðorð Drottins, ekki bara þegar það reynist þægilegt.

Einlæg skuldbinding er ætíð bundin reglum fagnaðarerindisins. Anthony Roberts frá Utah útskýrði: „Hógværð er hugarástand, þrá til að lifa dag hvern í þekkingu á fagnaðarerindinu og áætlun sáluhjálpar.“ Þegar við helgum okkur fagnaðarerindinu, mun trú okkar aukast og þráin til að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins.

Skilja ykkar guðlega eðli

Ef við sýnum stöðugt hógværð, mun það hjálpa okkur að skilja og meta fæðingarrétt okkar og vitneskjan um okkar guðlega eðli getur hvatt okkur til sýna aukna hógværð. Raffaella Ferrini frá Flórens, Ítalíu, útskýrði: „Hógværð blessar líf mitt, því með henni finnst mér ég vera sérstök dóttir himnesks föður og sú vitneskja fær mig svo aftur til að vilja vera áfram hógvær.“

Ef við leyfum að heimurinn skilgreini okkur, getur það skaðað sjálfsmat okkur. Julianna Auna frá Utah sagði frá reynslu sinni: „Áður en ég hlaut vitnisburð um að vera hógvær, var ég óhamingjusöm og í andlegu hættuástandi. Það var niðurrífandi og andlega heftandi að leyfa heiminum að skilgreina mig, því heimurinn er harður og vægðarlaus í sinni efnislegu og stundlegu þráhyggju. Þegar ég hafði einsett mér að hlusta ekki á heiminn og skilgreina mig út frá sambandi mínu við Guð, varð lífið auðveldara og ég varð frjáls og hamingjusamari.“ Þegar við leitum viðurkenningar himnesks föður í stað heimsins, munum við upplifa dýpri gleði og hvatningu til að vera hógvær.

Lifa hógværu lífi

„Hógværð má sýna í öllu sem við gerum: Í málfari okkar, útliti, framkomu og jafnvel í því hvaða staði við kjósum að fara á,“ sagði Galina Viktorovna Savchuk frá Novosibirsk, Rússlandi. Hógvært líferni er nátengt trúarskuldbindingu okkar og sambandi okkar við Guð.

Einlæg hógværð tengist bæði hegðun og viðhorfi. Ef við bætum hegðun mun það hafa áhrif á hugarfar okkar og öfugt. Ef við höfum ekki skuldbundið okkur til að vera hógvær í hegðun og útliti alla ævidaga okkar, munum við ekki fá notið allra blessana hógværðar. Ef við teljum okkur trú um að við séum hógvær án þess að verkin tali, erum við að blekkja okkur sjálf.6

Að segja að auglit okkar sé einbeitt á dýrð Guðs í samhengi hógværðar, felur í sér að við höfum einsett okkur að lifa hógværu lífi, bæði hið ytra og hið innra. Okkar ytra útlit og framkoma verður að samræmast reglum hógværðar, rétt eins og auglit okkar verður að beinast að Guði. Að beina lítillega augliti sínu að Guði, merkir ekki að auglitið sé einbeitt á dýrð hans; það verður að beinast stöðugt að honum. Hógvær klæðaburður og hirðusemi verða líka að taka mið af eilífum reglum.

Þegar við beinum augliti okkar að Guði, mun okkur reynast auðveldar að hafa hann að leiðarljósi. Þegar við höfum Guð sem okkar leiðarljós, mun auglit okkar sjálfkrafa beinast að honum.

Þegar við vinnum að því að tileinka okkur hógværð, munum við finna aukin áhrif andans í lífi okkar. Öldungur Robert D. Hales, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Hógværð er nauðsynleg til að vera verðugur andans. Að vera hógvær er að vera auðmjúkur og auðmýkt laðar andann að okkur.“7 Ef andinn leiðir hugsanir okkar og verk, mun auglit okkar verða einbeitt á dýrð Guðs og við fyllumst ljósi.

Heimildir

  1. Sannir í trúnni: Leiðarvísir að fagnaðarerindinu (2004), 106.

  2. Sannir í trúnni, 108.

  3. Sannir í trúnni, 108.

  4. Sjá Sannir í trúnni, 107.

  5. Sannir í trúnni, 107.

  6. Sjá Lynn G. Robbins, „What Manner of Men and Women Ought Ye to Be?” Líahóna, maí 2011, 103.

  7. Robert D. Hales, „Modesty: Reverence for the Lord,” Líahóna, ágúst 2008, 18.