2015
Guðlegir eiginleikar Jesú Krists: Fullur kærleika og elsku
október 2015


Boðskapur heimsóknarkennara, október 2015

Guðlegir eiginleikar Jesú Krists: Fullur kærleika og elsku

Kynnið ykkur efnið sem hér er, í bænaranda og leitið að því sem miðla á. Hvernig getur skilningur á guðlegum eiginleikum frelsarans aukið trú ykkar á hann og blessað þær konur sem þið vakið yfir með heimsóknarkennslu? Frekari upplýsingar má finna á reliefsociety.lds.org.

Trú, fjölskylda, líkn

Leiðarvísir að ritningunum skilgreinir kærleikann þannig: „Æðsta, göfugasta, sterkasta tegund ástar“ (“Kærleikur„). Hann er hin hreina ást Krists. Þegar við lærum um Jesú Krist og reynum að líkjast honum, tökum við að skynja hina hreinu ást hans og finnum löngun til að elska og þjóna öðrum líkt og hann gerði. Thomas S. Monson forseti sagði: „Kærleikur er að sýna þeim þolinmæði sem hefur brugðist okkur. Hann er að sporna gegn þeirri tilhneigingu að móðgast auðveldlega. Hann er að sætta sig við veikleika og ófullkomleika. Hann er að sætta sig við fólk eins og það er í raun. Hann er að horfa framhjá líkamlegri ásýnd og á eiginleika sem tímans tönn vinnur ekki á. Hann er að sporna gegn þeirri tilhneigingu að draga aðra í dilka.“1

Í Mormónsbók lærum við þennan undursamlega sannleika: „Biðjið þess vegna til föðurins, ástkæru bræður mínir, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn“ (Moró 7:48).

Viðbótarritningagreinar

Jóh 13:34–35; 1 Kor 13:1–13; 1 Ne 11:21–23; Eter 12:33–34

Úr sögu okkar

„Systir nokkur, sem nýlega hafði orðið ekkja, var þakklát heimsóknarkennurum sem syrgðu með henni og hughreystu hana. Hún skrifaði: ‚Ég hafði mikla þörf fyrir að tala við einhvern sem léði mér eyra. … Þær hlustuðu. Þær hughreystu mig. Þær tárfelldu með mér. … [Þær] hjálpuðu mér að takast á við þá djúpu örvæntingu og sorg sem ég upplifði af einmanaleika fyrstu mánuðina.‘

„Önnur kona greindi frá tilfinningum sínum er hún upplifði sannan kærleika frá heimsóknarkennara: ‚Ég fann að ég var ekki aðeins gátmerki á nafnalista. Ég vissi að hún lét sér annt um mig‘“2

Líkt og þessar systur, þá geta margir Síðari daga heilagir víða um heim staðfest sannleika þessara orða Boyds K. Packer (1924-2015), forseta Tólfpostulasveitarinnar: „Hve hughreystandi það er að vita að hvert sem [fjölskylda] fer, þá tekur kirkju-fjölskyldan á móti henni. Allt frá þeirra fyrsta degi, mun hann tilheyra prestdæmissveit og hún Líknarfélaginu.“3

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „Charity Never Faileth,“ Liahona, nóv. 2010, 124.

  2. Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 119-120.

  3. Daughters in My Kingdom, 87.

Til hugleiðingar

Hvernig er Kristur okkar fullkomna fordæmi um kærleika og elsku?