2015
Að ljúka með logandi kyndil
október 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, október 2015

Að ljúka með logandi kyndil

Í Grikklandi til forna kepptu menn í boðhlaupi sem kallað var lampadedromia.1 Í hlaupinu héldu menn á kyndli í hendinni og réttu hann áfram til næsta hlaupara, þar til síðasti liðsmaðurinn hljóp með hann yfir marklínuna.

Það lið sem hljóp hraðast fékk ekki verðlaunin – það lið sem fyrst náði marklínu með kyndilinn logandi fékk verðlaunin.

Í þessu felst góð lexía, sem spámenn fortíðar og nútíðar hafa kennt: Þótt mikilvægt sé að hefja keppnina, þá er enn mikilvægara að ljúka með kyndilinn logandi.

Salómon var sterkur í byrjun

Hinn mikli Salómon konungur er dæmi um einhvern sem var sterkur í byrjun. Á unga aldri „elskaði [hann] Drottin, svo að hann hélt lög Davíðs föður síns (1 Kon 3:3). Guð hafði velþóknun á honum og sagði: „Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér“ (1 Kings 3:5).

Í stað þess að biðja um auðæfi eða langlífi, þá bað Salómon um „gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð [sinni] og til að greina gott frá illu“ (1 Kon 3:9).

Þetta gladdi Drottin svo mikið að hann blessaði Salómon ekki aðeins með visku, heldur líka með ómældum auðæfum og langlífi.

Þótt Salómon hafi vissulega verið afar vitur og gert margt undursamlegt, þá var hann ekki sterkur að ferðalokum. Því miður var það svo síðar í lífinu að „Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs og sýndi ekki Drottni fullkomna hlýðni“ (1 Kon 11:6).

Ljúka okkar eigin keppni

Hversu oft höfum við ekki byrjað á einhverju án þess að ljúka því? Megrunarkúrum? Líkamsþjálfun? Daglegum ritningarlestri? Að verða betri lærisveinar Jesú Krists?

Hversu oft einsetjum við okkur að gera eitthvað í janúar, tökumst á við það af áhuga og kappsemi í nokkra daga, eða jafnvel vikur eða mánuði, aðeins til að komast að því í október, að eldmóður okkar er lítið meiri en askan ein?

Dag einn sá ég skemmtilega mynd af hundi liggjandi við hlið pappírsblaðs sem hann hafði rifið í tætlur. Á því stóð: „Vottorð um hlýðniþjálfun fyrir hunda.“

Stundum á þetta við um okkur.

Ásetningur okkar er góður, við byrjum sterk og viljum laða fram það besta í okkur sjálfum. Þegar á líður, fellur ásetningur okkar í gleymsku, fjarar út og verður að engu.

Það er í eðli mannsins að hrasa, falla og að vilja stundum hætta keppni. Við, sem lærisveinar Jesú Krists, höfðum þó ekki aðeins einsett okkur að hefja keppnina, heldur líka að ljúka henni – og ljúka henni með kyndilinn okkar logandi og bjartan. Frelsarinn lofaði lærisveinum sínum: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða“ (Matt 24:13).

Ég umorða loforð frelsarans fyrir okkar tíma: Ef við höldum boðorð hans og ljúkum með kyndilinn okkar enn logandi, munum við hljóta eilíft líf, sem er æðst allra gjafa Guðs (sjá K&S 14:7; sjá einnig 2 Ne 31:20).

Ljósið sem aldrei slokknar

Ef við hrösum, föllum eða jafnvel gefumst upp, dregur stundum úr okkur kjarkinn og við teljum ljósið okkar úrbrunnið og baráttan töpuð. Ég ber þó vitni um að ekkert fær slökkt á ljósi Krists. Það skín í gegnum niðamyrkrið og mun tendra hjörtu okkar að nýju, ef við aðeins snúum þeim að honum (sjá 1 Kon 8:58).

Hversu oft eða alvarlega sem við hrösum, þá logar ljós Krists ætíð skært. Jafnvel er við nálgumst hann í svartasta myrkrinu, mun ljós hans fylla okkar lífsins skugga og tendra sál okkar.

Þessi lærisveinskeppni er ekki spretthlaup, heldur langhlaup. Það skiptir litlu hve hratt við förum. Við getum í raun aðeins borið ósigur í keppninni með því að gefast algjörlega upp.

Svo framarlega sem við höldum áfram að rísa á fætur og komast nær frelsaranum, munum við sigra keppnina með okkar logandi bjarta kyndli.

Ljós kyndilsins er ekki okkar eða stafar af okkar.

Það skín frá frelsara heimsins.

Það ljós mun aldrei dofna. Ljós hans lýsir upp myrkrið, græðir sár okkar og ljómar jafnvel í dýpstu sorg og algjöru myrkri.

Það ljós er utan okkar skilnings.

Megi hvert okkar feta veg okkar á enda. Með hjálp frelsara okkar og lausnara, Jesú Krists, munum við fagna að leiðarlokum með kyndilinn okkar enn logandi.

Heimildir

  1. Harpers Dictionary of Classical Antiquities (1898), „Lampadedromia,“ www.perseus.tufts.edu/hopper. Pausanias segir frá annarskonar kindilkeppni, þar sem keppendur, hugsanlega einn frá hverjum ættflokki, létu kyndilinn ekki af hendi. Líkt og í lampadedromia, þá sigraði sá sem var fyrstur til að komast í mark með kyndilinn logandi.

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að hvetja þau sem þið kennið til að hugleiða hvar þau eru stödd í sinni „lífsins keppni.“ Er loginn bjartur af kyndli þeirra? Þið getið lesið þessa setningu sem segir: „[Ljós Krists] lýsir upp myrkrið, græðir sár okkar og ljómar jafnvel í dýpstu sorg og algjöru myrkri.“ Íhugið síðan að ræða við þá sem þið kennið um hvernig ljós Krists hefur haft áhrif á líf þeirra áður og hvernig það hefur áhrif á þau núna.