2021
„Ég mun leiða yður“
Júlí 2021


Fylg þú mér

Kenning og sáttmálar 77–80

„Ég mun leiða yður“

Þótt við séum sem börn andlega, mun Drottinn leiðbeina okkur ef við treystum honum.

Ljósmynd
mission president meeting with missionary

Trúboðinn sagði andann hafa hvíslað að sér að ég myndi hjálpa honum að finna svar.

Myndskreyting eftir David Malan

Í Kenningu og sáttmálum 78:17–18 segir frelsarinn:

„Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér eruð lítil börn, og þér hafið enn ekki skilið hversu miklar þær blessanir eru, sem faðirinn heldur í höndum sér og hefur fyrirbúið yður.

Og þér fáið ei borið alla hluti nú, en verið samt vonglaðir, því að ég mun leiða yður. Ríkið er yðar og blessanir þess eru yðar og auðæfi eilífðarinnar eru yðar.“

Þegar hvert okkar hugsar um eigin lífsreynslu, munum við vissulega eftir tímum er Drottinn hefur leitt okkur.

Trú trúboða

Ég man eftir því er Drottinn veitti nokkrum mönnum leiðsögn. Ég starfaði sem trúboðsforseti í suður Porto Alegre trúboðinu í Brasilíu. Einn trúboða okkar var með líkamsástand sem kallast holgóma og hann hafði aldrei verið meðhöndlaður. Þegar hann talaði fór loft í gegnum munninn og út um nefið. Það var erfitt fyrir aðra að skilja hann.

Þessi ungi öldungur sagði mér að hann hefði beðist fyrir varðandi þetta vandamál sitt. Hann sagði andann hafa hvíslað að sér að ég myndi hjálpa honum að finna svar. Einföld og ákveðin trú hans veitti mér innblástur. Ég leitaði til Guðs eftir hjálp við að finna lausn.

Einföld skurðaðgerð gæti leiðrétt vandamálið, en að fá skurðaðgerð var ekki einfalt ferli. Ef við hefðum gert það á einkastofu, yrði það of dýrt fyrir fjölskyldu þessa trúboða. Á hinn bóginn, myndi það krefjast nokkurra viðtala við lækna ef við nýttum opinbera heilbrigðiskerfið og líklegast taka mestan hluta þeirra mánuða sem eftir voru af trúboði hans.

Trú eiginkonu minnar

Í hvert sinn sem ég stend frammi fyrir erfiðu verkefni, treysti ég á trú og hjálp eiginkonu minnar. Ég útskýrði fyrir henni vanda þessa trúboða og bað hana að ræða við þá sem voru á almenningssjúkrahúsinu á staðnum. Var einhver möguleiki á að framkvæma aðgerðina að kostnaðarlausu og innan mögulegs tímaramma?

Eftir að hafa beðist fyrir um hjálp fór eiginkona mín á sjúkrahúsið. Hún fór í langa röð fólks sem beið eftir að tala við aðstoðarmann. Þegar röðin tók að styttast, gat eiginkona mín heyrt hvernig málin fyrir framan hana voru afgreidd. Yfirleitt var fólki sagt að koma aftur í læknistíma eftir hálft ár, stundum meira.

Eiginkona mín vissi að þetta yrði of langur tími fyrir trúboðann okkar. Henni fannst hún vera hvött til að fara úr röðinni og inn um aðrar dyr. Þar fann hún annan starfsmann sjúkrahússins. Eiginkonan mín kynnti sig og útskýrði þörf trúboðans okkar.

Ljósmynd
a woman talking to a surgeon

Starfsmaðurinn sagði henni að tala beint við skurðlækninn, sem var á sjúkrahúsinu þennan dag við framkvæmd skurðaðgerðar á annarri hæð. Eiginkona mín útskýrði fyrir skurðlækninum hvað trúboðar gerðu og hvernig þessi trúboði yrði blessaður ef hann gæti farið í aðgerð til að gera við hinn klofna góm.

Skurðlæknirinn spurði nokkurra spurninga. Hann sagði síðan: „Getum við dagsett aðgerðina eftir tvær vikur?“ Hann útfyllti sjúkraskýrslu um að aðgerðin væri í þágu samfélagsins og að hann hefði sjálfur áhuga á henni persónulega. Hann afhenti aðstoðarmanni sínum skýrsluna og bað hann að tímasetja dagsetninguna.

Tíu dögum síðar gerði skurðlæknirinn aðgerðina á trúboðanum okkar. Fljótlega var þessi öldungur aftur kominn á akurinn, glaður og skýrmæltur. Af endurnýjuðum eldmóð skildi hann að Drottinn hafði leitt hann áfram veginn.

Reynsla þessa trúboða er vitnisburður um að faðir okkar heyrir bænir okkar og leiðir okkur sér við hönd.

Án Guðs erum við ekkert

Andlega séð erum við eins og lítil börn. Við skiljum ekki þær miklu blessanir sem himneskur faðir hefur búið okkur. Þegar við þroskumst líkamlega, förum við að skilja meira um hin jarðnesku lögmál sem stjórna lífi okkar. Við ættum þó aldrei að láta jarðneska þekkingu verða mikilvægari en að fá skilið hinar miklu blessanir sem faðirinn á himnum geymir okkur.

Móse, hinn mikli spámaður Gamla testamentisins, upplifði nokkuð sem sannlega sýndi honum hversu lítið hann í raun vissi. Eftir að Móse „leit heiminn og endimörk hans og öll mannanna börn, sem eru og voru sköpuð [þá varð] undrun hans og furða yfir því … mikil.“ Þá dró Guð sig í hlé. Móse var skilinn einn eftir og hann féll til jarðar.

„Og svo bar við, að margar stundir liðu, þar til Móse fékk aftur náttúrlegan og mannlegan styrk sinn, og hann sagði við sjálfan sig: Af þessu veit ég, að maðurinn er ekkert, en það hafði ég aldrei talið“ (HDP Móse 1:8–10).

Ef Drottinn myndi sýna okkur allt það sem við gætum gert með krafti hans, myndi það líklega yfirbuga okkur. Eins og Móse myndum við sjá að án Guðs erum við ekkert.

Skref fyrir skref

Í stað þess að yfirbuga okkur leiðir Drottinn okkur skref fyrir skref. Þetta gerir okkur kleift að áorka miklu meiru en við gætum á eigin spýtur.

„Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir segir Drottinn.

Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum“ (Jesaja 55:8–9).

Eins og Drottinn segir í Kenningu og sáttmálum 78:18, þá fáum við „ei borið alla hluti nú.“ Við fáum enn ekki skilið allt það sem hann skilur. Hvað eigum við þá að gera? Drottinn svarar: „Verið vonglöð!“

Að ganga vonglöð sáttmálsveginn, felur í sér að vera auðmjúkur eins og lítið barn. Við verðum að vera fús til að taka á móti kennslu og handleiðslu föðurins (sjá Kenning og sáttmálar 112:10). Lífið er svo flókið að við getum ómögulega stjórnað öllum smáatriðum ferðar okkar. Við fáum heldur ekki skilið hvern einasta hlut sem við, eða ástvinir okkar, förum í gegnum hér á jörðu.

Þegar við hins vegar treystum Drottni og leyfum honum að leiða okkur með sinni hendi, fáum við afrekað meiru í ríki hans en við getum ímyndað okkur. Við verðum hæfari til þess að blessa líf barna himnesks föður okkar. Við verðum betur í stakk búin til að þekkja hönd frelsarans í lífi okkar. Við munum finna meira þakklæti fyrir óendanlega miskunn hans og kærleika.

Blessanir eru ykkar

Að lokum, þá leiðir Drottinn okkur áfram og minnir okkur á: „Ríkið er yðar og blessanir þess eru yðar og auðæfi eilífðarinnar eru yðar“ (Kenning og sáttmálar 78:18).

Ég kem aftur að dæminu um trúboðann minn. Hann fékk leiðsögn um að biðja um hjálp og var blessaður með skurðaðgerð sem nú gerir honum kleift að eiga skýr samskipti. Hann var síðan leiddur til þeirra sem voru undir það búnir að taka á móti fagnaðarerindinu og blessunum þess, þar á meðal skírn. Ég íhuga líka fordæmi eiginkonu minnar. Vitnisburður hennar styrktist er Drottinn leiddi hana. Hann lauk síðan upp gáttum himins og úthellti blessun.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með þessum unga trúboða, sem var fylltur einfaldri, máttugri trú. Ég er líka þakklátur fyrir að geta lifað að eilífu með eiginkonu minni, sem er fordæmi þess að láta Drottin leiða sig áfram veginn.

Sannlega eru ríkið og blessanirnar okkar.