2021
Treysta Drottni
Júlí 2021


Konur á fyrri tíma endurreisnarinnar

Treysta Drottni

Þar sem Mary Ann Young þekkti Drottin fyrir tilstilli ritninganna var hún „nokkuð róleg í gegnum allan storminn,“1 sökum mikillar trúar sinnar.

Ljósmynd
Mary Ann Angell Young in her garden

Myndskreyting eftir Toni Oka

Mary Ann Angell var lánsöm að hafa alist upp á heimili þar sem ritningarlestur var hafður í fyrirrúmi. Henni var einkar annt um kenningar frelsarans.2 Henni lærðist snemma í lífi sínu að hún gat heyrt rödd Drottins fyrir tilstilli ritninganna og fundið huggun í kenningum hans.

Mary Ann heyrði hið endurreisa fagnaðarerindi Jesú Krists boðað í Rhode Island í Bandaríkjunum, árið 1831 og eftir að hafa lesið Mormónsbók snerist hún til trúar á fagnaðarerindið.

Hún flutti til Kirtland í Ohio um 1833, þar sem hún kynntist Brigham Young, sem hún giftist snemma árs 1834. Næstu 48 árin naut Mary Ann Angell Young leiðsagnar Drottins fyrir tilstilli ritninganna, í gegnum fjölda flutninga og rauna og bar óhagganlegt traust til hans.

Eiginmaður hennar fór t.d. í trúboð til Stóra-Bretlands árið 1839, aðeins 10 dögum eftir að hún hafði fætt dóttur þeirra, Alice. Í þá 20 mánuði sem fylgdu í kjölfarið glímdu Mary Ann og börnin þeirra sex við mikla erfiðleika. Þau þjáðust af veikindum og lifðu aðallega á kornbrauði, mjólk og nokkru garðgrænmeti.3 Mary Ann tókst að afla sér einhverrar atvinnu til að framfleyta fjölskyldunni og sjá um sig sjálfa og veik börnin sín. Drottinn hjálpaði þeim þó í gegnum þessa erfiðleika. Hún skrifaði eiginmanni sínum: „Það er dásamlegt að geta sett traust sitt á Drottin.“4

Mary Ann reiddi sig á þekkingu sína úr ritningunum og virtist skilja af mikilli sannfæringu að Drottinn væri alltaf með henni, elskaði hana og skildi hana, einkum í hinum mörgu raunum hennar. „Megi Drottinn leiða okkur í öllu og veita huggun á myrkustu og erfiðustu stundunum,“ var bæn hennar.5

Heimildir

  1. Bréf frá Mary Ann Angell Young til Brighams Young, 30. júní 1844, embættisskjöl Brighams Young, 1832–1878, Kirkjusögusafnið, Salt Lake City (CHL).

  2. Sjá „Biography of Mrs. Mary Ann Young,“ Woman’s Exponent, 1. sept. 1887, 53–54; Emmeline B. Wells, „In Memoriam,“ Woman’s Exponent, 15. júlí 1882, 28–29.

  3. Sjá Matthew C. Godfrey, „,You Had Better Let Mrs Young Have Any Thing She Wants‘: What a Joseph Smith Pay Order Teaches about the Plight of Missionary Wives in the Early Church,“ BYU Studies, bindi 58, nr. 2 (2019), 63–64.

  4. Bréf frá Mary Ann Angell Young til Brighams Young, 15. apríl 1841, embættisskjöl Brighams Young, 1832–1878, CHL.

  5. Bréf frá Mary Ann Angell Young til Brighams Young, 21. mars 1840, skjalasafn Georges W. Thatcher Blair, 1837–1988, CHL.