Aðalráðstefna
Tryggja réttlátan dóm
Aðalráðstefna apríl 2020


Tryggja réttlátan dóm

Til að tryggja réttlátan dóm, mun frelsarinn svipta burtu skýi vanþekkingar og fjarlægja særandi þyrna af völdum annarra.

Mormónsbók kennir kenningu Krists.

Síðasta októbermánuð skoraði Russell M. Nelson forseti á okkur að íhuga hvernig líf okkar væri öðruvísi, ef „sú þekking sem [við hefðum] öðlast frá Mormónsbók væri skyndilega numin brott?“ 1 Ég hef hugleitt þessa spurningu og ég er viss um að það hafa mörg ykkar líka gert. Einni hugsun hefur skotið upp aftur og aftur – hvar myndi ég leita að friði, ef ekki væri Mormónsbók og skírleiki hennar á kenningu Krists og friðþægingarfórn hans?

Kenning Krists – sem samanstendur af endurleysandi reglum og helgiathöfnum trúar á Krist, iðrunar, skírnar og gjafar heilags anda, sem og að standast allt til enda – er margsinnis kennd í öllum ritningum endurreisnarinnar, en með sérlegum krafti í Mormónsbók. 2 Kenningin hefst á trú á Kristi, en sérhver eiginleiki hennar er skilyrtur trausti á friðþægingarfórn hans.

Eins og Nelson forseti hefur kennt: Mormónsbók veitir fyllsta og áreiðanlegasta skilninginn á friðþægingu Jesú Krists sem hægt er að finna nokkurs staðar.“ 3 Því meiri skilning sem við höfum á hinni dýrðlegu gjöf frelsarans, því meira munum við vita, í huga okkar og hjarta, 4 um raunveruleika loforðs Nelsons forseta um að „sannleikur Mormónsbókar hefur kraft til að lækna, hugga, endurreisa, hjálpa, hughreysta og gleðja sálir okkar.“ 5

Friðþæging frelsarans fullnægir kröfum réttvísinnar

Mikilvægt og friðgefandi framlag Mormónsbókar á skilningi okkar á friðþægingu frelsarans, er kenning hennar um að hin miskunnsama fórn Krists uppfylli allar kröfur réttvísinnar. Eins og Alma útskýrði: „Guð sjálfur [friðþægði] fyrir syndir heimsins, til þess að miskunnaráætlunin næði fram að ganga og kröfum réttvísinnar yrði fullnægt og Guð væri fullkominn, réttvís Guð og einnig miskunnsamur Guð.“ 6 Miskunnaráætlun föðurins 7 – sem ritningarnar kalla einnig sæluáætlun 8 eða sáluhjálparáætlun 9 – gat ekki orðið að veruleika, án þess að öllum kröfum réttvísinnar yrði fullnægt.

En hverjar eru nákvæmlega „kröfur réttvísinnar“? Lítið á eigin reynslu Alma. Minnist þess, að sem ungur maður fór Alma um til „að tortíma kirkjunni.“ 10 Í raun þá sagði Alma syni sínum, Helaman, frá því að hann væri „altekinn kvölum vítis,“ sökum þess að hann hafði „myrt mörg börn [Guðs]“ með því að „[leiða] þau til tortímingar.“ 11

Alma útskýrði fyrir Helaman að hann fylltist friði er hann „minntist“ kennslu föður síns um „að Jesús nokkur Kristur … mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.“ 12 Hinn iðrandi Alma sárbað um miskunn Krists 13 og fylltist síðan gleði og líkn er hann skildi að Kristur hefði friðþægt fyrir syndir hans og greitt allt það sem réttvísin krafðist. Hvers hefði réttvísin krafist af Alma? Alma kenndi sjálfur síðar: „Ekkert óhreint getur erft Guðs ríki.“ 14 Þannig hlýtur hluti af létti Alma að hafa verið að miskunin greip þar inn í, því ella hefði réttvísin varnað honum frá því að snúa aftur í návist himnesks föður. 15

Frelsarinn græðir þau sár sem við fáum ekki grætt

En var gleði Alma eingöngu fyrir hann sjálfan – að sleppa við sína eigin refsingu og að hann gæti snúið aftur til föðurins? Við vitum að Alma var harmþrunginn vegna þeirra sem hann hafði leitt burt frá sannleikanum. 16 En sjálfur gat Alma ekki læknað og endurreist þá sem hann hafði leitt burt. Hann gat ekki tryggt að þeir fengju sanngjarnt tækifæri til að kynnast kenningu Krists og hljóta blessanir þess að lifa eftir gleðireglum hennar. Hann gat ekki leitt þá til baka sem dáið höfðu og væru enn blindaðir af fölskum kenningum.

Eins og Boyd K. Packer eitt sinn kenndi: „Sú hugsun sem bjargaði Alma … er þessi: Megin tilgangur friðþægingar Krists er að endurreisa það sem þið fáið ekki endurreist, lækna það sem þið fáið ekki læknað og færa í samt lag það sem þið rufuð og getið ekki bætt fyrir. 17 Sá gleðilegi sannleikur sem hugur Alma „náði tökum á,“ var að ekki aðeins sá að hann gat orðið hreinn, heldur gátu þeir, sem hann hafði skaðað, læknast og orðið heilir.

Fórn frelsarans tryggir réttlátan dóm

Mörgum árum áður en Alma var bjargað af þessari hughreystandi kenningu, hafði Benjamín konungur kennt umfang lækningarinnar sem friðþægingarfórn frelsarans býður upp á. Benjamín konungur lýsti yfir að „engill Guðs“ hefði kunngjört honum „mikil gleði- og fagnaðartíðindi.“ 18 Meðal þeirra gleðitíðinda var sá sannleikur að Kristur myndi þjást og deyja fyrir syndir okkar og mistök til að tryggja „að réttlátur dómur falli yfir mannanna börn.“ 19

Hvers krefst „réttlátur dómur“ nákvæmlega? Í næsta versi útskýrir Benjamín konungur að til að tryggja réttlátan dóm, friðþægir blóð frelsarans „fyrir syndir þeirra, sem fallið hafa vegna lögmálsbrots Adams“ og fyrir þá sem „dáið hafa án þess að þekkja vilja Guðs varðandi þá, eða sem syndgað hafa óafvitandi.“ 20 Hann kenndi að réttlátur dómur krefðist þess einnig að „blóð Krists [friðþægði] fyrir“ syndir lítilla barna. 21

Þessi ritningarvers kenna dýrðlega kenningu – að friðþægingarfórn frelsarans læknar þá sem syndga í fáfræði og er þeim endurgjaldslaus gjöf, sem „ekkert lögmál [er] gefið,“ líkt og Jakob orðaði það. 22 Að vera ábyrgur fyrir syndir, er háð því ljósi sem okkur hefur verið gefið og á þeirri getu okkar að iðka sjálfræði. 23 Við þekkjum þennan læknandi og hughreystandi sannleika eingöngu vegna Mormónsbókar og annarra ritninga endurreisnarinnar. 24

Þar sem lögmál er gefið, þar sem við erum ekki fáfróð um vilja Guðs, þar erum við vitanlega ábyrg. Eins og Benjamín konungur lagði áherslu á: „Vei sé þeim, sem veit, að hann rís gegn Guði! Því að hjálpræðið nær ekki til neins þeirra, nema fyrir iðrun og trú á Drottin Jesú Krist.“ 25

Þetta eru sömuleiðis fagnaðartíðindi kenningar Krists. Frelsarinn er ekki einungis að lækna og endurreisa þá sem syndga í fáfræði, heldur býður frelsarinn einnig lækningu fyrir þá sem syndga gegn ljósinu, gegn því að þeir iðrist og trúi á hann. 26

Alma hlýtur að hafa „náð tökum“ á hvorum þessa sannleika. Myndi Alma hafa skynjað það sem hann lýsti sem „[óviðjafnanlegri] … gleði,“ 27 ef hann teldi Krist frelsa sig sjálfan, en skilja þá ævarandi eftir í sárum sínum sem hann hafði afvegaleitt frá sannleikanum? Vissulega ekki. Ef Alma ætti að skynja algjöran frið, þyrftu þeir, sem hann skaðaði, að geta orðið heilir.

En hvernig nákvæmlega átti að gera þá – eða þá sem við sköðum – heila? Þó að við skiljum ekki til fulls hinar helgu aðferðir lækningar og endurreisnar friðþægingarfórnar frelsarans, þá vitum við þó að til að tryggja réttlátan dóm, mun frelsarinn svipta burtu skýi vanþekkingar og fjarlægja særandi þyrna af völdum annarra. 28 Þannig tryggir hann að öll börn Guðs geti, án takmarkaðrar sýnar, valið að fylgja sér og meðtaka hina miklu sæluáætlun. 29

Frelsarinn mun laga allt sem við höfum brotið

Þetta er sannleikurinn sem veitti Alma frið. Og þetta er sannleikurinn sem líka mun veita okkur mikinn frið. Við, sem venjulegir karlar og konur, munum öll rekast á eða stundum stuða hvert annað og valda sorg. Eins og allir foreldrar geta vitnað, er sársaukinn sem tengist mistökum okkar ekki einfaldlega eigin ótti við refsingu, heldur sá ótti að við gætum hafa takmarkað gleði barna okkar eða á einhvern hátt hindrað þau í að sjá og skilja sannleikann. Hið dýrðlega fyrirheit friðþægingarfórnar frelsarans er, hvað varðar mistök okkar sem foreldra, að hann lítur á börnin án sektar og lofar þeim lækningu. 30 Jafnvel þó að þau hafi syndgað gegn ljósinu – eins og við öll gerum – er miskunnararmur hans útréttur 31 og hann mun frelsa þau, ef þau vildu bara líta til hans og lifa. 32

Þó að frelsarinn hafi kraft til að laga það sem við getum ekki lagað, býður hann okkur að gera það sem við getum til að bæta það upp, sem hluta af iðrun okkar. 33 Syndir okkar og mistök veikja ekki einungis samband okkar við Guð, heldur líka samband okkar við aðra. Stundum getur yfirbót okkar til að lækna og endurreisa einfaldlega verið afsökunarbeiðni, en á öðrum tímum krefst yfirbótin margra ára auðmjúkrar vinnu. 34 Samt sem áður, hvað varðar margar syndir okkar og mistök, er okkur ekki unnt að lækna til fulls þá sem við höfum sært. Hið mikla friðgefandi loforð Mormónsbókar og hins endurreista fagnaðarerindis er að frelsarinn muni laga allt sem við höfum brotið. 35 Hann mun einnig laga okkur, ef við snúum okkur til hans í trú og iðrumst þess skaða sem við höfum valdið öðrum. 36 Hann býður okkur báðar þessar gjafir, því hann elskar okkur fullkominni elsku 37 og hefur einsett sér að tryggja réttlátan dóm sem heiðrar bæði réttvísi og miskunn. Ég vitna um að þetta er sannleikur, i Jesú Krists, amen.