Aðalráðstefna
Komið og tilheyrið
Aðalráðstefna apríl 2020


Komið og tilheyrið

Við bjóðum öllum börnum Guðs, um allan heim, að taka þátt í þessu mikla verki.

Kæru bræður mínir og systur, kæru vinir, í hverri viku tilbiðja meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, um allan heim, okkar ástkæra himneska föður, Guð og konung alheimsins, og ástkæran son hans, Jesú Krist. Við hugleiðum lífið og kenningar Jesú Krists – hinnar einu syndlausu sálar sem nokkru sinni hefur lifað, hið flekklausa lamb Guðs. Við meðtökum sakramentið eins oft og okkur er unnt, í minningu um fórn hans og viðurkennum að hann er miðpunktur lífs okkar.

Við elskum hann og við heiðrum hann. Vegna djúpstæðrar og eilífrar elsku hans, þjáðist Jesús Kristur og dó fyrir ykkur og mig. Hann braut upp hlið dauðans, reif niður þær hindranir sem aðskildu vini og ástvini,1 og veitti vonlausum von, læknaði hina sjúku og leysti þá sem fangaðir voru.2

Við helgum honum hjörtu okkar, líf og daglega hollustu. Af þessari ástæðu: „Tölum [við] um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, … svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“3

Starfandi lærisveinar

Það að vera lærisveinn Jesú Krists snýst um talsvert meira en að tala og prédika um Krist. Frelsarinn sjálfur endurreisti kirkju sína til að hjálpa okkur inn á veginn til að verða líkari honum. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er skipulögð þannig að hún veitir tækifæri til að iðka grunnatriði þess að vera lærisveinn. Með þátttöku í kirkjunni lærum við að bera kennsl á og bregðast við hvatningu heilags anda. Við þróum með okkur það hjartalag að liðsinna öðrum af umhyggju og góðvild.

Þetta er lífsstarf og þarfnast þjálfunar.

Afreksíþróttamenn hafa varið óteljandi stundum við æfingar á grunnþáttum íþróttagreina sinna. Hjúkrunarfólk, nettengslahönnuðir, kjarneðlisfræðingar og jafnvel ég sjálfur, sem samkeppnishæfur áhugakokkur í eldhúsi Harriet, getum aðeins orðið afburðagóð þegar við iðkum faggrein okkar.

Sem atvinnuflugmaður þjálfaði ég mig oft í flughermi – háþróaðri vél sem hermir eftir því að fljúga. Þessi hermir hjálpar ekki bara flugmönnum að læra undirstöðuatriði flugs, heldur leyfir þeim einnig að upplifa og bregðast við óvæntum uppákomum sem þeir gætu þurft að takast á við þegar þeir taka við stjórn á raunverulegri flugvél.

Sama á við um lærisveina Jesú Krists.

Að vera virkur þátttakandi í hinu fjölbreytta starfi Kirkju Jesú Krists, mun hjálpa okkur að vera betur undirbúin fyrir breytilegar aðstæður í lífinu, hverjar og hve alvarlegar sem þær gætu verið. Sem meðlimir kirkjunnar, erum við hvött til að sökkva okkur niður í orð Guðs í gegnum spámenn hans, fyrr og nú. Við lærum að þekkja rödd heilags anda í gegnum einlæga og auðmjúka bæn til himnesks föður okkar. Við þiggjum kallanir til að þjóna, kennum, skipuleggjum, sinnum hirðisþjónustu og þjónum. Þessi tækifæri gefa okkur tækifæri til að vaxa andlega, hugarfarslega og persónulega.

Þau munu hjálpa okkur að búa okkur undir að gjöra og halda helga sáttmála, sem munu vera okkur blessun í þessu lífi og í því næsta.

Komið og gangið til liðs við okkur!

Við bjóðum öllum börnum Guðs, um allan heim, að taka þátt í þessu mikla verki. Komið og sjáið! Jafnvel á þessum erfiðu tímum COVID-19, hittumst þá á netinu. Hittið trúboðana okkar á netinu. Komist að því fyrir ykkur sjálf hvað þessi kirkja snýst um. Þegar þessir erfiðleikatímar líða hjá, hittið okkur á heimilum okkar og í tilbeiðsluhúsum okkar!

Við bjóðum ykkur að koma og hjálpa. Komið og takið þátt í þjónustu með okkur, í hirðisþjónustu barna Guðs, að fylgja í fótspor frelsarans og gera heiminn að betri stað.

Komið og tilheyrið. Þið munið styrkja okkur. Þið munið einnig verða betri, ljúfari og hamingjusamari. Trú ykkar mun dýpka og verða þolbetri – hæfari að standast hvirfilvinda og óvæntar raunir lífsins.

Hvernig byrjum við? Það eru margar leiðir.

Við bjóðum ykkur að lesa Mormónsbók. Ef þið eigið ekki eintak, getið þið lesið hana á ChurchOfJesusChrist.org4 eða halað niður smáforriti Mormónsbókar. Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist og helst í hendur við Gamla og Nýja testamentið. Við elskum allar þessar heilögu ritningar og lærum frá þeim.

Við bjóðum ykkur að verja tíma á ComeuntoChrist.org til að komast að því hvað meðlimir kirkjunnar kenna og trúa.

Bjóðið trúboðunum að hitta ykkur á netinu eða heima hjá ykkur þar sem það er hægt – þeir eru með boðskap vonar og lækningar. Þessir trúboðar eru ástfólgnir synir og dætur okkar, sem þjóna á mörgum stöðum víða um heim, á eigin tíma og á eigin kostnað.

Í kirkju Jesú Krists munið þið finna fjölskyldur sem eru ekki mjög ólíkar ykkur. Þið munið finna fólk sem þarfnast aðstoðar ykkar og sem mun vilja hjálpa ykkur að verða besta mögulega útgáfa ykkar sjálfra – sá eða sú sem Guð skapaði ykkur til að verða.

Faðmlag frelsarans umvefur alla

Þið gætuð verið að hugsa: „Ég hef gert mistök í lífi mínu. Ég er ekki viss um að mér gæti nokkru sinni fundist ég geta tilheyrt kirkju Jesú Krists. Guð gæti ekki haft áhuga á einverjum eins og mér.

Þó að Jesús Kristur sé „konungur konunganna,“5 Messías, „sonur hins lifandi Guðs,“6 þá ann hann börnum Guðs, hverju og einu, innilega. Honum er annt um alla, sama hver staða hans er – hversu fátækur eða ríkur, ófullkominn eða óreyndur einhver er. Í jarðlífi sínu þjónaði frelsarinn öllum, þeim sem voru hamingjusamir og farsælir, þeim sem voru niðurbrotnir og týndir og þeim sem áttu enga von. Þeir sem hann þjónaði voru oft ekki þekktir, fallegir eða ríkir. Oft átti það fólk sem hann lyfti upp, ekkert til að gefa til baka nema þakklæti, auðmjúkt hjarta og þrá til að trúa.

Ef Jesús varði jarðnesku lífi sínu í að þjóna „einum [hinna] minnstu,“7 myndi hann þá ekki elska þá í dag? Er ekki pláss fyrir öll börn Guðs í kirkju hans? Jafnvel fyrir þá sem finnst þeir vera óverðugir, gleymdir eða einir?

Það er enginn þröskuldur fullkomnunar sem maður verður að ná til að komast í náð Guðs. Bænir ykkar verða ekki að vera háværar eða vel orðaðar eða málfræðilega réttar til að ná til himins.

Sannleikurinn er sá að Guð fer ekki í manngreinarálit8 – það sem heimurinn metur hátt, skiptir hann engu máli. Hann þekkir hjarta ykkar og hann elskar ykkur, burt séð frá titli, verðmæti eða fjölda fylgjenda á Instagram.

Þegar við höllum hjörtum okkar í átt að himneskum föður okkar og nálgumst hann, finnum við að hann nálgast okkur.9

Við erum ástkær börn hans.

Jafnvel þau sem afneita honum.

Jafnvel þau sem eru eins og þrjóskufullt og óþekkt barn, verða reið við Guð og kirkju hans, pakka í töskur sínar, rjúka á dyr og lýsa yfir að þau séu farin að heiman og komi aldrei aftur.

Þegar barn strýkur að heima, taka þau kannski ekki eftir áhyggjufullum foreldrum sem horfa á eftir þeim út um gluggann. Með meyrum hjörtum, horfa þau á eftir syni sínum eða dóttur – í þeirri von að ástkært barn þeirra muni læra eitthvað af þessari átakanlegu reynslu og kannski sjá lífið í nýju ljósi – og koma svo loks heim aftur.

Sama er með kærleiksríkan föður okkar á himnum. Hann bíður heimkomu okkar.

Frelsari ykkar, með tár kærleika og samúðar í augum sínum, bíður heimkomu ykkar. Jafnvel þegar ykkur finnst þið langt frá Guði, sér hann ykkur. Hann mun hafa samúð með ykkur og hlaupa til að faðma ykkur að sér.10

Komið og tilheyrið.

Guð leyfir okkur að læra af mistökum okkar

Við erum pílagrímar sem göngum veg dauðlegs lífs í mikilli leit að merkingu og endanlegum sannleika. Oft sjáum við bara veginn sem framundan er – við sjáum ekki hvert beygjurnar í veginum munu leiða okkur. Ástkær himneskur faðir hefur ekki veitt okkur öll svörin ennþá. Hann ætlast til þess að við finnum mikið af þessu út sjálf. Hann ætlast til þess að við trúum – jafnvel þegar það er erfitt að gera svo.

Hann ætlast til þess að við réttum úr bakinu og þroskum með okkur smá ákveðni – smá bein í nefinu – og tökum næsta skref áfram

Þannig lærum við og vöxum.

Mynduð þið í alvörunni vilja fá allt stafað ofan í ykkur? Mynduð þið í alvörunni vilja svör við öllum spurningum? Alla áfangastaðina útlagða?

Ég trúi því að flest okkar yrðu fljótt þreytt á slíkri himneskri ofstjórnun. Við lærum hinar mikilvægu lexíur lífsins í gegnum reynslu. Í gegnum mistök okkar. Í gegnum iðrun og því að gera okkur grein fyrir því sjálf að „aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“11

Jesús Kristur, sonur Guðs dó, svo að mistök okkar myndu ekki dæma okkur og hindra framþróun okkar að eilífu. Vegna hans getum við iðrast og mistök okkar geta verið stiklusteinar að meiri dýrð.

Þið þurfið ekki að gera þetta einsömul. Himneskur faðir okkar hefur ekki skilið okkur eftir til að ráfa um í myrkri.

Þess vegna birtist hann, vorið 1820, ásamt syni sínum, Jesú Kristi, ungum manni að nafni Joseph Smith.

Hugleiðið það um stund! Guð alheims birtist manni!

Það var fyrsta af mörgum heimsóknum sem Joseph fékk frá Guði og öðrum himneskum verum. Mörg þeirra orða sem þessar guðlegu verur sögðu við hann eru skráð í ritningum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þau eru aðgengileg. Hver sem er getur lesið þau og kynnt sér sjálfur þann boðskap sem Guð hefur fyrir okkur í dag.

Við bjóðum ykkur að læra þau sjálf.

Joseph Smith var nokkuð ungur þegar hann meðtók þessar opinberanir. Flestar komu áður en hann var orðin 30 ára gamall.12 Hann skorti reynslu og sumum fannst hann eflaust óhæfur til að vera spámaður Drottins.

Þrátt fyrir það kallaði Drottinn hann – og fylgdi þar forskrift sem hvarvetna má finna í hinum helgu ritningum.

Guð beið ekki eftir að finna hina fullkomnu persónu til að endurreisa fagnaðarerindi sitt.

Ef hann hefði gert það, væri hann enn að bíða.

Joseph var ekkert ólíkur ykkur og mér. Þótt Joseph gerði mistök, notað Guð hann til að framkvæma hinn mikla tilgang sinn.

Thomas S. Monson forseti endurtók oft þetta ráð: „Þann sem Drottinn kallar gerir hann hæfan.“13

Postulinn Páll rökræddi við hina heilögu í Korintuborg: „Bræður og [systur], hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir.“14

Guð notar hina veiku og venjulegu til að uppfylla tilgang sinn. Þessi sannleikur stendur sem vitnisburður um að það er kraftur Guðs, ekki mannsins, sem framkvæmir verk hans á jörðu. 15

Hlýðið á hann, fylgið honum

Þegar Guð birtist Joseph Smith, kynnti hann son sinn Jesú Krist og sagði: „Hlýð þú á hann!“16

Joseph varði því sem eftir var af lífi sínu í að hlýða á hann og fylgja.

Eins og var með Joseph, þá hefst starf okkar sem lærisveinar, með ákvörðun okkar að hlýða á og fylgja frelsaranum Jesú Kristi.

Ef þið þráið að fylgja honum, eflið þá trú ykkar og takið á ykkur kross hans.

Þið munið komast að því að þið eigið heima í kirkju hans – stað hlýju, þar sem þið verðið boðin velkomin og getið tekið þátt í hinni miklu ferð lærisveinsins og hamingjunnar.

Það er mín von að á þessu 200 ára afmælisári Fyrstu sýnarinnar, er við hugleiðum og lærum um endurreisn kirkju Jesú Krists, að við munum gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki bara sögulegur viðburður. Þið og ég skipum mikilvægtu hlutverk í þessari merku, áframhaldandi sögu.

Hvert er þá hlutverk ykkar og mitt?

Það er að læra um Jesú Krist. Nema orð hans. Hlýða á hann og fylgja honum með því að taka virkan þátt í þessu merka starfi. Ég býð ykkur að koma og tilheyra.

Þið þurfið ekki að vera fullkomin. Þið þurfið einungis að hafa þrá til að þroska trú ykkar og koma til hans hvern dag.

Hlutverk okkar er að elska og þjóna Guði og elska og þjóna börnum Guðs.

Þegar þið gerið það, mun Guð umfaðma ykkur með elsku sinni, gleði og öruggri leiðsögn í gegnum þetta líf, jafnvel í alvarlegustu aðstæðum og jafnvel fram yfir það.

Um það ber ég vitni, og veiti ykkur blessun mína í einlægu þakklæti og elsku til ykkar allra, í hinu helga nafni frelsara okkar og meistara – í nafni Jesú Krists, amen.