Aðalráðstefna
Bestu heimilin
Aðalráðstefna apríl 2020


Bestu heimilin

Frelsarinn er hinn fullkomni byggingaverkfræðingur, verktaki og innanhúshönnuður. Verkefni hans er fullkomnun og eilíf gleði sálu okkar.

Nýlega sá ég auglýsingaskilti í Salt Lake City sem vakti áhuga minn. Það var auglýsing fyrir fyrirtæki með húsgögn og innanhúshönnun. Þar stóð einfaldlega: „Þjónar bestu heimilunum í Salt Lake City.“

Skilaboðin voru grípandi – hvað eru „bestu heimilin“? Ég fór að hugsa um þessa spurningu, sérstaklega með tilliti til þeirra barna sem við Kathy konan mín ólum upp og þeirra barna sem þau eru að ala upp í dag. Eins og foreldrar allstaðar, höfðum við áhyggjur og báðum fyrir fjölskyldu okkar. Það gerum við enn. Við erum einlæg í ósk okkar um allt það besta þeim til handa. Hvernig geta þau og börn þeirra búið á bestu heimilunum? Ég hef hugsað um heimili þeirra kirkjumeðlima sem við Kathy höfum haft ánægju af að heimsækja. Okkur hefur verið boðið inn á heimili í Kóreu, Kenýa, á Filippseyjum og í Perú, Laós og Lettlandi. Leyfið mér að deila með ykkur fjórum hugmyndum um góð heimili.

Í fyrsta lagi, þá byggjast bestu heimilin, að mati Drottins, algjörlega á persónulegum eiginleikum þeirra sem þar búa. Mikilvægi eða varanlegt verðgildi þessara heimila byggist ekki á húsgögnum, fjárhagsstöðu eða samfélagslegri stöðu þeirra sem þar búa. Bestu eiginleikar hvers heimilis er ímynd Krists, sem heimilisfólkið endurspeglar. Það sem skiptir mestu máli í innanhúshönnun sálna íbúanna, ekki húsnæðið sjálft.

Þessir kristilegu eiginleikar fást „er tímar [líða]“1 með meðvituðum vexti á sáttmálsveginum. Kristilegir eiginleikar prýða líf þeirra sem vinna að því að lifa í góðvild. Þeir fylla heimili ljósi fagnaðarerindisins, hvort sem gólfið er mold eða marmari. Jafnvel þó að þið séuð þau einu á heimilinu sem fylgja þeim fyrirmælum að „[sækjast] eftir því,“2 þá getið þið lagt ykkar af mörkum við að útbúa heimili ykkar andlega.

Við fylgjum ráði Drottins um að „koma reglu á [okkur sjálf], gjöra allt gagnlegt til reiðu og [stofna] hús,“ með því að skipuleggja, undirbúa og ákvarða andlegt lífi okkar, ekki fasteign okkar. Er við göngum þolimóð á sáttmálsvegi frelsarans, þá verður heimili okkar „hús dýðrar, hús reglu, [og] hús Guðs.“3

Í öðru lagi, þá gefa íbúar bestu heimilanna sér tíma til að læra dag hvern í ritningunum og í orðum spámannanna. Russell M. Nelson forseti hefur boðið okkur að „breyta“ og „endurhanna“ heimili okkar í gegnum trúarnám.4 Boð hans ber kennsl á að góð heimili hýsa hið ljúfa, mikilvæga starf persónulegs vaxtar og endurhönnun veikleika okkar. Dagleg iðrun er umbreytingarverkfæri sem gerir okkur kleift að verða örlítið góðhjartaðri, kærleiksríkari og skilningsríkari. Það færir okkur nær frelsaranum að lesa ritningarnar, honum sem hjálpar okkur að vaxa í gegnum örlæti elsku hans.

Biblían, Mormónsbók og Hin dýrmæta perla, segja sögur af fjölskyldum, svo það er ekki skrítið að þessar guðlegu bækur séu óviðjafnanlegar handbækur við byggingu bestu heimilanna. Þær skrá áhyggjur foreldra, hættur freistinga, sigur réttlætisins, mótlæti hungurs og gnægðar og hrylling stríðs og verðlaun friðar. Ritningarnar sýna okkur ítrekað hvernig fjölskyldur eru farsælar í réttlátu líferni og hvernig þeim förlast á öðrum vegum.

Í þriðja lagi, þá fylgja bestu heimilin þeim byggingaráætlunum sem hannaðar eru af Drottni fyrir bestu heimili hans, musterin. Bygging mustera hefst á grunnskrefum – hreinsun lóðar og jöfnun jarðvegs. Hægt væri að líkja þessum skrefum við undirbúning lóðar við að halda grunnboðorðin. Boðorðin eru grunnurinn sem lærisveinsdómur byggist á. Stöðugur lærisveinsdómur gerir okkur staðföst og óhagganleg, 5 eins og stálgrind musteris. Þessi stöðuga grind leyfir Drottni að senda anda sinn til að breyta hjörtum okkar.6 Mikil breyting á hjörtum okkar er sambærileg við að bæta fallegum skreytingum við innviði musterisins.

Þegar við höldum áfram í trú, breytir Drottinn okkur stig af stigi. Ímynd hans greypist í svip okkar og við förum að endurspegla elsku og fegurð eiginleika hans.7 Þegar við verðum líkari honum, kunnum við vel við okkur í húsi hans og hann í okkar húsi.

Við getum haldið nánum tengslum heimilis okkar við heimili hans með því að vera verðug og nota musterismeðmæli okkar eins oft og aðstæður leyfa. Þegar við gerum svo, mun heilagleiki húss Drottins líka hvíla á okkar heimili.

Hið stórkostlega Salt Lake musteri stendur nálægt. Það var byggt af landnemum með ófullkomnum verkfærum, staðbundnu efni og endalausri vinnu, frá 1853 til 1893. Það besta sem kirkjumeðlimir á fyrri árum gátu boðið upp á í verkfræði, arkitektúr og innanhúshönnun, skapaði meistaraverk sem milljónir manna kannast við.

Það eru næstum 130 ár síðan musterið var vígt. Eins og öldungur Gary E. Stevenson sagði í gær, þá hefur þeim byggingarstöðlum sem notaðir voru til hönnunar á musterinu verið skipt út fyrir nýrri, öruggari staðla. Ef viðhald og viðgerðum á byggingarefnum og veikleikum í burðarverki musterisins væri ekki sinnt, væri verið að bregðast trausti landnemanna sem gerðu allt sem þeir gátu og afhentu svo eftirlifandi kynslóðum að annast musterið.

Kirkjan hefur hafið fjögurra ára viðgerðarferli til að laga burðarvirki og jarðskjálftaþol musterisins.8 Grunnurinn, gólfin og veggirnir verða styrktir, Besta verkfræðiþekking sem til er í dag mun uppfæra musterið í nútímastaðla. Við munum ekki sjá breytingarnar á burðarvirkinu, en áhrif þeirra munu verða raunveruleg og mikilvæg. Í öllu þessu verki mun hið fagra innviði varðveitt.

Við ættum að fylgja því fordæmi sem okkur er gefið með viðgerðunum á Salt Lake musterinu og gefa okkur tíma til að meta okkar eigið þol fyrir andlegri jarðskjálftavirkni til að vera viss um að hún fylgi nútímastöðlum. Reglubundin sjálfsskoðun, ásamt því að spyrja Drottin: „Hvers er mér enn vant?“9 getur hjálpað hverju og einu okkar að leggja sitt til við byggingu besta heimilisins.

Í fjórða lagi, þá eru bestu heimilin skýli frá stormum lífsins. Drottinn hefur lofað að þeim sem halda boðorð Guðs muni „vegna vel í landinu.“10 Farsæld Guðs fæst með því að sækja fram, þrátt fyrir vandamál lífsins.

Árið 2002 lærði ég mikilvæga lexíu varðandi vandamál. Þegar ég var í Asunción í Paragvæ, hitti ég stikuforseta borgarinnar. Á þeim tíma stóð Paragvæ frammi fyrir ógurlegum fjárhagsörðuleikum og margir kirkjumeðlimir þjáðust og áttu erfitt með að ná endum saman. Ég hafði ekki komið til Suður-Ameríku frá því að ég var í trúboði og hafði aldrei farið til Paragvæ. Ég hafði einungis þjónað í svæðisforsætisráðinu þar í nokkrar vikur. Óöruggur með getu mína til að leiðbeina þessum stikuforsetum, bað ég þá að segja mér einungis hvað gengi vel í stikum þeirra. Fyrsti stikuforsetinn sagði mér frá því sem gengi vel. Næsti sagði mér frá því sem var að ganga vel og minntist á nokkur vandamál. Þegar við vorum komin að síðasta stikuforsetanum, þá talaði hann einungis um einhver vandamál Á meðan að stikuforsetarnir útskýrðu stöðu mála, jukust áhyggjur mínar og ég var orðinn nær örvæntingarfullur yfir því hvað ég ætti að segja.

Um leið og síðasti stikuforsetinn hafði lokið athugasemdum sínum, vaknaði hjá mér hugsun: „Öldungur Clayton, spurðu þá að þessu: ‚Forsetar, af þeim meðlimum í stikum ykkar sem borga fulla tíund, greiða örláta föstufórn, gera sitt besta í köllunum sínum í kirkjunni, heimsækja raunverulega þær fjölskyldur sem þeir eiga að heimsækja sem heimilis- og heimsóknarkennarar11 í hverjum mánuði, halda fjölskyldukvöld, lesa ritningarnar og segja fjölskyldubænir á hverjum degi, hve margir þeirra eiga við vandamál að stríða sem þeir geta ekki séð um sjálfir án þess að kirkjan stígi inn og leysi vandamálin fyrir þá?‘“

Ég ákvað að fylgja þessum innblæstri sem ég hafði fengið og spurði stikuforsetana þessarar spurningar.

Þeir horfðu á mig, forviða í þögn og sögðu svo: „Pues, ninguno,“ sem þýddi: „Nú, enginn.“ Þeir sögðu mér að engir þeirra sem gerðu allt þetta ættu við nein vandamál að stríða sem þeir gætu ekki leyst sjálfir. Hvers vegna? Því að þeir bjuggu á bestu heimilunum. Lífsmáti þeirra sem byggðist á trúfesti, hafði veitt þeim þann styrk, sýn og himneska aðstoð sem þeir þurftu í þeirri fjárhagslegu ólgu sem umkringdi þá.

Þetta þýðir ekki að hinir réttlátu verði ekki veikir, lendi ekki í slysum, viðskiptalegum viðsnúningi eða standi frammi fyrir öðrum erfiðleikum lífsins. Jarðneskt lif færir okkur alltaf mótlæti, en ég hef endurtekið séð að þeir sem gera sitt besta við að fylgja boðorðunum eru blessaðir með því að finna leiðina framávið í friði og von. Þær blessanir standa öllum til boða.12

Davíð sagði: „Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis.“13 Hvar sem þið búið, hvernig sem heimili ykkar líta út og hvernig sem fjölskylda ykkar er samsett, þá getið þið byggt bestu heimilin fyrir fjölskyldu ykkar. Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists veitir ykkur teikningarnar fyrir það heimili. Frelsarinn er hinn fullkomni byggingaverkfræðingur, verktaki og innanhúshönnuður. Verkefni hans er fullkomnun og eilíf gleði sálu okkar. Með kærleiksríkri hjálp hans geta sálir ykkar verið allt sem hann vill að þær séu og þið getið verið besta mögulega útgáfa ykkar sjálfra, reiðubúin að stofna og lifa á besta heimilinu.

Í þakklæti ber ég vitni um að Guð og faðir okkar allra lifir. Sonur hans, Drottinn Jesús Kristur, er frelsari og lausnari alls mannkyns. Þeir elska okkur fullkomlega. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Guðs á jörðu. Lifandi spámenn og postular leiða okkur í dag. Mormónsbók er sönn. Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists er besti uppdrátturinn til að byggja bestu heimilin eftir. Í nafni Jesú Krists, amen.