Aðalráðstefna
Blessanir viðvarandi opinberana til spámanna og einstaklinga okkur til leiðsagnar
Aðalráðstefna apríl 2020


Blessanir viðvarandi opinberana til spámanna og einstaklinga okkur til leiðsagnar

Viðvarandi opinberanir hafa borist og eru að berast um þann farveg sem Drottinn hefur komið á.

Í dag ætla ég að ræða um viðvarandi opinberun til spámanna og viðvarandi persónulega opinberun, okkur til leiðsagnar í lífinu.

Stundum hljótum við opinberun, jafnvel þótt við skiljum ekki tilgang Drottins. Stuttu eftir að öldungur Jeffrey R. Holland var kallaður sem postuli í júní 1994, hlaut ég dásamlega opinberun um að hann yrði kallaður. Ég var svæðisfulltrúi og sá enga ástæðu fyrir því að mér væri veitt þessi vitneskja. Við vorum félagar sem ungir trúboðar í Englandi, snemma á sjötta áratug 20. aldar og hann var mér afar kær. Mér fannst sú reynsla vera mér ljúf blessun. Á liðnum árum hef ég velt fyrir mér hvort Drottinn hafi verið að búa mig undir að verða yngri félagi dásamlegs trúboðsfélaga í hinum Tólf, sem var yngri félagi minn þegar við vorum ungir trúboðar.1 Stunum vara ég unga trúboða við því að vera of góða við yngri félaga sína, því þeir vita aldrei hvenær þeir verða eldri félagar þeirra sjálfra.

Ég á staðfastan vitnisburð um að þessi endurreista kirkja er leidd af frelsara okkar, Jesú Kristi. Hann veit hverja hann kallar sem postula sína og í hvaða röð hann kallar þá. Hann veit líka hvernig búa á lengst starfandi postula sinn undir að verða spámaður og forseti kirkjunnar.

Við vorum blessuð í morgun að hlýða á okkar ástkæra spámann, Russell M. Nelson forseta, færa heiminum djúpstæða 200 ára afmælisyfirlýsingu, varðandi endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists.2 Nelson forseti hefur með þessari mikilvægu yfirlýsingu gert ljóst að kirkja Jesú Krists á uppruna og tilveru, og framtíðarleiðsögn, að rekja til reglunnar um viðvarandi opinberanir. Hin nýja yfirlýsing ber vott um kærleiksrík samskipti föður við börnin sín.

Á fyrri tíð tjáði Spencer W. Kimball forseti þær tilfinningar sem ég hef í dag. Hann sagði: „Af öllu sem … við ættum að vera þakklátust [fyrir], er það að himnarnir eru sannlega opnir og að hin endurreista kirkja Jesú Krists er byggð á bjargi opinberunarinnar. Stöðugt flæði opinberana er vissulega lífæð fagnaðarerindis hins lifandi Drottins og frelsara, Jesú Krists.”3

Spámaðurinn Enok sá fyrir þann tíma sem við lifum á. Drottinn staðfesti fyrir Enok hið mikla ranglæti sem þá myndi ríkja og spáði um „miklar þrengingar“ sem yrðu. Drottinn lofaði engu að síður: „En fólk mitt mun ég varðveita.“4 „Og réttlæti mun ég senda niður af himni, og sannleika mun ég senda frá jörðu, til að bera vitni um minn eingetna.“5

Ezra Taft Benson forseti kenndi með miklum krafti að Mormónsbók, burðarsteinn trúar okkar, hefði fram komið úr jörðu, til uppfyllingar yfirlýsingar Drottins til Enoks. Faðirinn og sonurinn og englar og spámenn, sem birtust spámanninum Joseph Smith „komu frá himni til að endurreisa nauðsynlegt vald fyrir ríkið.“6

Spámaðurinn Joseph Smith hlaut opinberun á opinberun ofan. Á sumar þeirra hefur verið minnst á þessari ráðstefnu. Margar opinberanir sem spámaðurinn Joseph Smith hlaut hafa verið varðveittar fyrir okkur í Kenningu og sáttmálum. Öll helgirit kirkjunnar geyma huga og vilja Drottins fyrir okkur í þessari síðustu ráðstöfun.7

Auk þessara miklu megin ritninga, höfum við verið blessuð með viðvarandi opinberun lifandi spámanna. Spámenn eru „erindrekar Drottins og mæla fyrir hans munn.“8

Sumar opinberanir skipta afar miklu máli og aðrar auka skilning okkar á nauðsynlegum guðlegum sannleika og veita leiðsögn fyrir okkar tíma.9

Við erum ótrúlega þakklát fyrir opinberun Spencers W. Kimball forseta, í júní 1978, um að veita öllum verðugum karlmeðlimum kirkjunnar blessanir prestdæmisins og musterisins.10

Ég hef þjónað með mörgum hinna Tólf sem voru viðstaddir þann atburð og tóku þátt þegar þessi dýrmæta opinberun barst. Hver þeirra staðfesti í persónulegum samtölum hina kröftugu og sameinandi andlegu leiðsögn Kimballs forseta, sem þeir höfðu upplifað. Margir sögðu þetta vera öflugustu opinberunina sem þeir höfðu hlotið fyrr og síðar.11

Þeir okkar sem nú þjóna í Tólfpostulasveitinni hafa verið blessaðir á okkar tíma, þar sem mikilvægar opinberanir hafa borist með nýjum spámönnum.12 Russell M. Nelson forseti hefur verið erindreki Drottins, einkum hvað opinberanir varðar, til að liðsinna fjölskyldum að byggja upp griðarstaði trúar á heimilum sínum, safna saman hinum dreifða Ísrael, beggja vegna hulunnar, og blessa meðlimi með musterisgjöf varðandi helgiathafnir musterisins.

Þegar mikilvægar breytingar voru boðaðar á aðalráðstefnunni í október 2018, til að blessa heimili okkar, þá vitnaði ég: „Í umræðum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar í musterinu, … eftir að okkar ástkæri spámaður ákallaði Drottin um opinberun, hlutum við allir áhrifamikla staðfestingu.“13

Á þeim tíma höfðu aðrar opinberanir, sem tengjast helgum musterisathöfnum, borist en hvorki verið tilkynntar, né innleiddar.14 Þessar leiðbeiningar hófust með spámannlegri opinberun til Russells M. Nelson forseta og ljúfri og kröftugri staðfestingu þeirra sem tóku þátt í ferlinu. Nelson forseti sóttist sérstaklega eftir þátttöku systranna sem eru í forsæti Líknarfélags, Stúlknafélags og Barnafélags. Síðustu leiðbeiningarnar í musterinu til Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar voru andlega djúpstæðar og kröftugar. Við vissum allir að okkur hefði borist hugur og vilji Drottins.15

Ég lýsi hátíðlega yfir að viðvarandi opinberanir hafa borist og eru að berast um þann farveg sem Drottinn hefur komið á. Ég ber vitni um að hin nýja yfirlýsing sem Nelson forseti færði okkur í morgun, er opinberun, öllu fólki til blessunar.

Við bjóðum öllum að endurnærast við borð Drottins

Við lýsum einnig yfir okkar hjartans þrá til að sameinast þeim sem hafa átt í basli með vitnisburð sinn, verið lítt virkir eða látið fjarlægja nöfn sín úr skýrslum kirkjunnar. Við þráum að endurnærast með ykkur „á orðum Krists,“ við borð Drottins, til að læra það sem okkur ber að læra.16 Við þörfnumst ykkar! Kirkjan þarfnast ykkar! Drottinn þarfnast ykkar! Hjartans bæn okkar er að þið munið sameinast okkur við að tilbiðja frelsara heimsins. Við vitum að sum ykkar gætu hafa móðgast, orðið fyrir óvægni eða annarri ókristilegri háttsemi. Við vitum líka að sumir hafa tekist á við trúarlegar áskoranir, sem ef til vill eru ekki fyllilega metnar, mæta skilnings- eða úrræðaleysi.

Sumir okkar dyggustu og trúföstustu meðlimir hafa af ástæðu átt í erfiðleikum með trú sína um skeið. Ég ann hinni sönnu frásögn W. W. Phelps, sem hafði yfirgefið kirkjuna og borið vitni gegn spámanninum Joseph Smith fyrir dómstólum í Missouri. Eftir að hafa iðrast, ritaði hann til Josephs: „Ég þekki aðstæður mínar, þú þekkir þær og Guð þekkir þær, og ég æski björgunar, ef vinir mínir vilja liðsinna mér.“17 Joseph fyrirgaf honum, fól honum verk að vinna og ritaði: „Vinir áður verða loks vinir aftur.“18

Bræður og systur, vitið að kirkjan og meðlimir hennar bjóða ykkur velkomin aftur, burtséð frá aðstæðum ykkar.

Persónuleg opinberun okkur til leiðsagnar

Persónuleg opinberun stendur öllum til boða sem leita leiðsagnar Drottins af auðmýkt. Hún er jafn mikilvæg og spámannleg opinberun. Persónuleg, andleg opinberun frá heilögum anda, hefur orðið til þess að milljónir hafa hlotið vitnisburð, sem nauðsynlegur er til að skírast og vera staðfestur sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Persónuleg opinberun er mikilvæg blessun sem við hljótum eftir skírn, þegar við erum „[helguð] fyrir móttöku heilags anda.“19 Ég man eftir sérstakri andlegri opinberun þegar ég var 15 ára. Kær bróðir minn leitaði leiðsagnar hjá Drottni um hvernig hann ætti að bregðast við kærum föður okkar, sem vildi ekki að bróðir minn færi í trúboð. Ég bað líka af einlægum ásetningi og hlaut persónulega opinberun um sannleiksgildi fagnaðarerindisins.

Hlutverk heilags anda

Persónuleg opinberun byggist á andlegum sannleika sem berst frá heilögum anda.20 Heilagur andi er opinberari og vitnari alls sannleika, einkum sem tengist frelsaranum. Án heilags anda, gætum við í raun ekki vitað að Jesús er Kristur. Þýðingarmesta hlutverk hans er að vitna um föðurinn og soninn og nöfn og dýrð þeirra.

Heilagur andi getur haft áhrif á alla á kröftugan hátt.21 Áhrifin verða ekki stöðug nema viðkomandi láti skírast og taki á móti gjöf heilags anda. Heilagur andi er líka hreinsandi máttur í ferli iðrunar og fyrirgefningar.

Andinn á samskipti á dásamlegan hátt. Drottinn notar þessa fallegu lýsingu:

„Ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda, sem koma mun yfir þig og dvelja í hjarta þínu.

Sjá, þetta er andi opinberunar.“22

Þótt áhrif hans geti verið afar kröftug, þá eru þau oftast lávær, sem hljóð og kyrrlát rödd.23 Í ritningunum eru mörg dæmi um hvernig andinn hefur áhrif á huga okkar, þar með talið að veita okkur hugarró,24 fylla huga okkar,25 upplýsa huga okkar26 og jafnvel mæla í huga okkar.27

Sumar reglur sem búa okkur undir að hljóta opinberun, eru:

  • Biðjið um andlega leiðsögn. Við þurfum að biðja og leita af lotningu og auðmýkt28 og vera þolinmóð og undirgefin.29

  • Búið ykkur undir innblástur. Það krefst þess að við séum í samhljóm við kenningar Drottins og höldum boðorð hans.

  • Meðtakið sakramentið verðug. Þegar við gerum það, vitnum við og gerum sáttmála við Guð, um að við tökum á okkur nafn hins heilaga sonar hans og minnumst þess að halda boðorð hans.

Þessar reglur búa okkur undir að hljóta, skilja og tileinka okkur innblástur og leiðsögn heilags anda. Í þessu felst „hið friðsæla – það, sem færir gleði, það, sem færir eilíft líf.“30

Andlegur styrkur okkar eykst til muna, þegar við lærum reglubundið ritningarnar og sannleika fagnaðarerindisins og ígrundum leiðsögnina sem við sækjumst eftir. Munið þó að vera þolinmóð og treysta á tímasetningu Drottins. Leiðsögn er veitt af almáttugum Drottni, þegar hann „einsetur sér að skóla okkur.“31

Opinberun í köllunum okkar og verkefnum

Heilagur andi mun líka sjá okkur fyrir opinberunum í köllunum okkar og verkefnum. Mín reynsla er sú að mikilvæg andleg leiðsögn berst oft þegar við framfylgjum þeirri ábyrgð okkar að reyna að blessa aðra.

Ég man eftir símhringingu frá örvæntingarfullum hjónum, er ég var ungur biskup, rétt áður en ég þurfti að fara í flug í viðskiptaerindum. Ég bað til Drottins áður en þau komu, um að vita hvernig ég gæti best liðsinnt þeim. Mér var opinberað eðli vandamáls þeirra og hvernig ég átti að bregðast við. Þessi opinberaða leiðsögn gerði mér kleift að framfylgja minni helgu ábyrgð sem biskup, þrátt fyrir afar takmarkaðan tíma til þess. Biskupar hvarvetna um heim búa yfir álíkri reynslu og þessari. Sem stikuforseti, hlaut ég ekki aðeins mikilvæga leiðsögn, heldur líka persónulega leiðréttingu sem var nauðsynleg til að uppfylla tilgang Drottins.

Ég fullvissa ykkur um að hvert okkar getur hlotið leiðsögn með opinberun, er við störfum auðmjúk í víngarði Drottins. Við hljótum leiðsögn að mestu frá heilögum anda. Stundum og í einhverjum tilgangi, þá hljótum við hana beint frá Drottni. Ég ber vitni um að það er sannleikur. Leiðsögn fyrir kirkjuna í heild berst forseta og spámanni kirkjunnar.

Við, sem postular okkar tíma, höfum notið þeirrar ánægju að starfa og ferðast með núverandi spámanni okkar, Nelson forseta. Ég umorða það sem Wilford Woodruff sagði um spámanninn Joseph Smith; það á jafnt við um Nelson forseta. Ég hef séð „anda Guðs að verki í honum og opinberanir berast frá Jesú Kristi til hans og þær uppfyllast.“32

Mín auðmjúka bæn í dag, er að sérhvert okkar leiti stöðugt opinberunar sér til leiðsagnar og fylgi andanum er við tilbiðjum Guð föðurinn, í nafni frelsara okkar, Jesú Krists, sem ég ber vitni um, í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Árið 1960, þegar aldurstakmörk trúboðsþjónustu pilta var lækkaður úr 20 í 19 ára aldur, var ég einn af þeim síðustu 20 ára gömlu; öldungur Jeffrey R. Holland var einn af þeim fyrstu 19 ára gömlu.

  2. Sjá „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists: Tveggja alda yfirlýsing til heimsins,“ í Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020. Þessi yfirlýsing er tengd fimm öðrum sem hafa verið gefnar í þessari ráðstöfun af Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni.

  3. Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball (2006), 243; sjá einnig Matteus 16:13–19.

  4. HDP Móses 7:61.

  5. HDP Móses 7:62. Drottinn sagði ennfremur: „Og réttlæti og sannleika mun ég láta sópa jörðina sem vatnsflóð, til að safna mínum kjörnu saman frá öllum heimshornunum fjórum.“ (HDP Móse 7:62; sjá einnig Sálmar 85:11).

  6. Ezra Taft Benson, „The Gift of Modern Revelation,“ Ensign, nóv. 1986, 80.

  7. Sjá Ezra Taft Benson, „The Gift of Modern Revelation,“ 80.

  8. Hugh B. Brown, „Joseph Smith among the Prophets“ (sextánda árlega minningarræða um Joseph Smith, Trúarskólinn í Logan, 7. des. 1958), 7.

  9. Sjá Hugh B. Brown, „Joseph Smith among the Prophets,“ 7. Í öllum tilvikum eru opinberanirnar í samræmi við orð Guðs veitt var fyrri spámönnum.

  10. Sjá Opinber yfirlýsing 2; sjá einnig 2. Nefí 26:33. Mormónsbók kennir, að „allir séu jafnir fyrir Guði,“ þar meðtaldir „[svartir og hvítir, ánauðugir og frjálsir, karlar og konur]“ (2. Nefí 26:33). Þessi merkilega opinberun var meðtekin og staðfest í hinum helga efri sal í Salt Lake musterinu, af Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni.

  11. Margir postulanna gáfu til kynna að opinberunin væri svo kraftmikil og svo heilög að öll orð, sem notuð voru til að lýsa henni, væru ófullnægjandi og myndu að sumu leyti draga úr djúpu og öflugu eðli opinberunarinnar.

  12. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ churchofjesuschrist.org/bc/content/shared/content/icelandic/pdf/language-materials/35602_isl.pdf?lang=isl. Yfirlýsingu þessa gaf Gordon B. Hinckley forseti, sem hluta af boðskap sínum á aðalfundi Líknarfélagsins, sem haldin var 23. september 1995 í Salt Lake City, Utah. Sjá einnig Thomas S. Monson, „Velkomin á ráðstefnu,“ aðalráðstefna, október 2012. Monson forseti tilkynni um lækkað aldurstakmark fyrir trúboðsþjónustu.

  13. Quentin L. Cook, „Aukinn og varanlegur viðsnúningur til himnesks föður og Drottins Jesú Krists,“ aðalráðstefna, október 2018.

  14. Opinberanir tengdar helgiathöfnum musterisins voru innleiddar í öllum musterum, sem hófst 1. janúar 2019. Mikilvægt er að skilja að aðeins er rætt um einstök atriði helgiathafna musterisins í musterinu sjálfu. Hins vegar eru meginreglur kenndar. Öldungur David A. Bednar kenndi dásamlega um mikilvægi musterissáttmála og helgiathafna og hvernig „kraftur guðleikans getur streymt í líf okkar“ fyrir tilstilli þeirra“ („Lát reisa þetta hús nafni mínu,“ aðalráðstefna, apríl 2020).

  15. Þetta ferli og fundirnir sem haldnir voru fóru fram í Salt Lake musterinu í janúar, febrúar, mars og apríl 2018. Síðasta opinberunin til Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar var 26. apríl 2018.

  16. Sjá 2. Nefí 32:3.

  17. Saints: The Story of the Church of Jesus Christ in the Latter Days, bindi 1, The Standard of Truth, 1815–1846 (2018), 418.

  18. Saints, 1:418.

  19. 3. Nefí 27:20.

  20. Heilagur andi er meðlimur Guðdómsins (sjá 1. Jóhannesarbréfið 5:7; Kenning og sáttmálar 20:28). Hann hefur andalíkama að mynd og lögun manns (sjá Kenning og sáttmálar 130:22). Áhrifa hans getur gætt allsstaðar. Hann er eitt í tilgangi með himneskum föður og Jesú Kristi, frelsara okkar.

  21. Yfirgripsmeiri skilning á ljósi Krists og muninum á ljósi Krists og heilögum anda má finna í 2. Nefí 32; Kenningu og sáttmálum 88:7, 11–13; „Ljós, ljós Krists,“ Leiðarvísi að ritningunum. Sjá einnig, Boyd K. Packer, „Ljós Krists,“ aðalráðstefna, apríl 2005.

  22. Kenning og sáttmálar 8:2–3.

  23. Sjá Helaman 5:30; Kenning og sáttmálar 85:6.

  24. Sjá Kenning og sáttmálar 6:23.

  25. Sjá Kenning og sáttmálar 128:1.

  26. Sjá Kenning og sáttmálar 11:13.

  27. Sjá Enos 1:10.

  28. Sjá Matteus 7:7–8.

  29. Sjá Mósía 3:19.

  30. Kenning og sáttmálar 42:61.

  31. Neal A. Maxwell, All These Things Shall Give Thee Experience (2007), 31.

  32. Wilford Woodruff, í Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 283.